Keyptur Færeyingur

"Ég var að kaupa bát" sagði ónefndur blómasali er hann mætti til hlaups í gær. "En gaman!" sögðum við hinir, "þá geturðu boðið okkur, vinum þínum, út á sjó á sjóstangaveiðar." "Ekki spurning!" sagði okkar maður.

Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til atriðis í myndinni "Gaukshreiðrið" þar sem Jack Nicholson býður vistmönnum geðsjúkrahússins í bátssiglingu og á veiðar á illa fengnum báti. Hvers vegna þessi hugrenningatengsl komu upp hjá mér get ég ekki útskýrt, svona koma nú upp undarlegar tengingar í kollinum á manni.

Hvað um það, ég sá fyrir mér myndarlega snekkju, altént hraðbát sem gæti tekið marga farþega, er glaðir munu sigla um sundin blá með vindinn þyrlandi upp hárinu. "Áttu bátinn einn?" spurði Magnús. "Nei, við eigum hann nokkrir saman," sagð blómasalinn. Þá fór glansinn ögn að fara af ævintýrinu. Og það var endanlega úti þegar hann bætti við: "Það er Færeyingur." Færeyingur er árabátur með færeysku lagi eftir því sem segir í orðabók Menningarsjóðs. Þá fer maður að skilja hvað vakir fyrir okkar manni: það á að virkja félaga Hlaupasamtakanna í að róa honum um sundin, þar sem hann situr í stafni og stjórnar og rennir fyrir ýsu á Faxaflóabugt. Nei, takk! Það skal aldrei verða!  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband