Sjór og sól á Nesi

Þrálátur orðrómur er uppi um að Magnús hafi í hyggju að planta lúpínufræjum í garð Jörundar. Jörundur er vakinn og sofinn yfir garði sínum og fær sér enga hvíld veitt af áhyggjum yfir þessum fyrirætlunum tannlæknisins. Hann er á vaktinni 24:7 - á útkíkkinu allan sólarhringinn, með kíkinn við augað. Magnús má sig hvergi hræra úr húsi - þá sprettur prentarinn hálfsjötugi úr fleti sínu og sperrir upp augu og eyru og fylgist með hverri hreyfingu tannlæknisins. Hvar endar þetta? Birgir er beðinn að fylgjast með framvindunni.

Í hlaupi dagsins bar það nýtt við að Einar blómasali var endurheimtur úr löngu fríi og var vel fagnað af félögum sínum sem höfðu saknað hans mikið undanfarnar vikur; sömuleiðis var gerður góður rómur að nærveru prof. dr. Gunnlaugs Péturs Nielsens úr Harvard í Boston, legendarískum hlaupara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og einhvers fræknasta hlaupara sem samtökin geta státað af. Aðrir þessir: Kári, Haukur, Gísli, Ólafur ritari, Sigurður Júlíusson, dr. Jóhanna, Guðmundur sterki, Vilhjálmur Bjarnason. Ekki skulu taldir þeir sem voru fjarverandi - en fjarvera þeirra var sláandi og mikið rætt um ástæður þess að einstakir meðlimir voru ekki mættir til hlaupa. Ekki verður meira fjallað um þetta að sinni, en þess er vænst að téðír aðilar sjái sóma sinn í að mæta í næsta hlaup. Meira um það seinna.

Menn glaðir og keikir - enda einstök mæting afburðafólks og veðurblíða með eindæmum. Í brottfararsal er nú boðið upp á þjónustukönnun um Vesturbæjarlaug og tóku allir viðstaddir þátt í könnuninni - allt miðaldra, jákvætt, háskólafólk. Niðurstaðan verður trúlega góð fyrir laugina. Það var hnýtt í blómasalann fyrir að hafa misst sig í mat og drykk í útlandinu og ekki hlaupið. "Það var ekki hægt að hlaupa í þessum hita!" reyndi blómasalinn að verja sig, en menn tóku ekki mikið mark á þessu.

Við vorum nokkuð mörg í anddyrinu og dálítið hávaðasöm - því var brugðið á það ráð að fara út á stétt og undirbúa hlaup. Tvær mínútur voru í brottför og hlauparar ólmir að leggja í hann. Eins og ólmir fákar. Við vorum höfuðlaus her án foringja vors Ágústs stórhlaupara, sem mun hafa verið á ráðstefnu á Nesjavöllum að ræða um einn milljarðasta úr einum milljarðasta úr einni sekúndu - eitthvað sem vekur áhuga sérstakrar manntegundar. Loks tók Gísli af skarið og leiddi hópinn út á Hofsvallagötu - en um stund hafði maður áhyggjur af því hvernig þetta gæti byrjað. Sjúl spurði mig: hvað gerist næst? Hver á að vera í forystu? Formaðurinn....?

En allt tókst þetta mæta vel. Hlaup fór vel af stað. Nú voru engir yfirlýstir hraðafantar að eyðileggja hlaup þegar í upphafi, svo að þessir tóku að sér að vera í forystu: Sjúl, Ólafur ritari og Gulli Pétur. Á Suðurgötunni sagði sá síðastnefndi skilið við okkur hina og hvarf. Við héldum hratt tempó og týndum fljótlega þeim sem á eftir komu. Það er gagnlegt að hlaupa með lækni. Við höfðum t.d. þungar áhyggjur af honum Kára okkar sem virðist ekki njóta sama ávinnings af því að hlaupa og aðrir meðlimir Hlaupasamtakanna. Sjúl kom með mjög merkilega greiningu e-s staðar í Skerjafirði: maðurinn dregur í sig svo mikla andlega næringu á hlaupum að hann hleypur í andlegt spik í stað þess að léttast! Brilljant greining! Það eru ábyggilega til einhverjar többlur við þessu.

Það var skeiðað greitt á Ægisíðu, Neshópur kom seint og illa, maður kannaðist við fáa, Guðrúnu Geirs og minn gamla skólafélaga, Sæmund Þorsteins. Þegar komið var út að Hofsvallagötu ákváðum vð Sjúl að niðurlægja hina hlauparana með því að hlaupa til móts við þá. En þannig tryggðum við að með á Nes fylgdu Magnús, Gísli, dr. Jóhanna, og sjálfsagt einhverjir fleiri. Stefnt á sjóbað. Farið rólega. Sagðar sögur sem ekki þola birtingu á bloggi. Við Gísli, dr. Jóhanna og ritari héldum hópinn, fórum um Bakkatjörn, en Sjúl og Gulli Pétur fóru fyrir golfvöllinn. Við Gísli skelltum okkur í sjóinn í Nestjörn og svo út á Flóann - þá gerðust hlutirnir, brjáluð hákarlavaða réðst að okkur í mynni Hvalfjarðar, en ritari snerist til varnar og beit tilbaka. Er enn með óbragð í munni - en það rjátlar sjálfsagt af með tímanum.

Mikið hefði verið indælt að hafa almennilega vatnsfonta á leiðinni - maður var orðinn þyrstur af löngu hlaupi, sjósundi og heitu veðri. Þeir Gunnlaugur og Sjúl hittu okkur er við vorum komnir á Norðurströnd og svo var skeiðað af stað í mark. Gunnlaugur og Gísli gáfu í og skildu okkur Sjúl eftir - kraftur í þeim gamla. En við héldum nokkuð góðu tempói það sem eftir lifði hlaups og komum nokkuð jafnsnemma til Laugar. Teygt í skamma stund - samvera í potti, þar sem Helmut hélt ádíens.

Helzta niðurstaða hlaups var að það vantaði áætlun til uppbyggingar hlaupurum hinnar miklu Hlaupasveitar Kommúnistanna fyrir Reykjavíkurmaraþon í ágúst n.k. Þeir sem koma til greina þar eru: Ágúst, SIngv, Benedikt, Sjúl, Birgir, Gísli, Jörundur, dr. Jóhanna, Eiríkur, ritari, blómasali, Haukur, og ef fjarstöddum félögum þóknast að láta sjá sig: Guðjón E. Ólafsson. Þeir sem ég hljóp með töldu að nú þyrfti yfirþjálfari (prof. dr. Fróði) að koma með áætlun, því að fólk er að fara í frí og þarf að þjálfa sig fjarri stöðugri yfirsýn og yfirlegu þjálfarans.

Á miðvikudag heldur prógrammið áfram: Goldfinger, Árbæjarlaug (25 km) - nú er tækifærið til þess að hrista slenið af ónefndum blómasölum sem þurfa að losna við nokkra Smarties pakka framan af belgnum af sér.

Í gvuðs friði - ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband