Enn meiri spæling

Hlauparar eru útivistarfólk. Þeir hata loftlausa líkamsræktarsali. Yndi þeirra er að hlaupa úti í náttúrunni, í hreina loftinu, njóta útsýnis, frelsis, njóta fagurrar náttúru, finna fjörið færast í kroppinn, finna kraftinn aukast með hverri hreyfingu, svitann spretta út á skrokknum. Hlauparar elska að hreyfa sig. Til samanburðar má segja að aðrir hópar "íþróttamanna" leggi minni áherslu á sjálfa hreyfinguna. Golfarar, svo að dæmi sé tekið, vilja hreyfa sig, en nenna því ekki. Hestamenn nenna ekki að hreyfa sig , svo að þeir láta aðra um að flytja sig milli staða. Veiðimenn - þeir eru verstir - þeir skjóta allt sem hreyfir sig. Þetta var helsti vísdómur sem var að hafa í hlaupi dagsins. Þátt tóku: Haukur, Vilhjálmur, Ólafur, Flosi, Gísli, Ágúst, Sjúl, Benedikt, Birgir, Jörundur, dr. Jóhanna og Guðmundur. Það er erfitt að átta sig á því hvort stígandi sé í hópnum, hvort okkur fari fram eða aftur. Þeir einu sem virtust sæmilega sprækir í dag voru Benni og Sjúl - aðrir voru einfaldlega slappir, hvernig sem á það er litið. Nú er brýnt að fara að fá æfingaáætlun fyrir maraþonið svo að maður fari að sjá framför milli hlaupa og hafi að einhverju að stefna.

Í brottfararsal voru menn mættir snemma, en voru hljóðir framan af. Allt þar til Gísli mætti, þá byrjaði skvaldrið og færðist í aukana eftir því sem fleiri bættust í hópinn. Alla vega þrír hlauparar voru útrústaðir Garmin-tæki og hófu að stilla og ná tungli. Jörundur hélt áfram að nudda salti í sár ritara fyrir slakan árangur í Miðnæturhlaupi, maðurinn væri brottrækur fyrir aumingjaskap, fiskisúpa væri yfirvarp, enginn sómakær hlaupari vildi kannast við svona "hlaupara" og annað eftir því. Gísli reyndi að vera jákvæðari og sagði að það væri alltaf afrek að ljúka hlaupi sama dag og það hæfist og svo hefði verið í þetta skipti, og NB, skammt lifði dags er hlaup hófst. Svo var byrjað að hæla þeim stöllum af Nesi sem báðar luku hlaupi á innan við 50 mín. Þá var þessum hlaupara alveg lokið, stóð upp og sagði: Á bara að sitja hér og kjafta - erum við ekki hér til að hlaupa?

Enn gerðist það að Ágúst var seinn fyrir og var ekki búinn að ná tungli þegar hlauparar voru lagðir af stað. Við Jörundur stöldruðum aðeins við, en fórum svo af stað vitandi að hann myndi ná okkur og segja: Fögur er fjallasýn! Bjart og hlýtt í veðri, en einhver vindur norðanstæður. Farið hefðbundið frá laugu, Hofsvallagötu, Hagamel, Espimel, yfir Birkimel norðan við Þjóðarbókhlöðu út á Suðurgötu og út í Skerjafjörð, út að olíustöð og snúið við í vestur út á Ægisíðu. Í minni porsjón af hlaupurum kom upp eftirfarandi umræða: Við þurfum að verða svolítið sýnilegri, er það ekki, krakkar? Jú, þetta er alveg rétt! Við þurfum að ráða fram úr þessum formannsvandræðum sem eru einhvern veginn enn að hrjá okkur, þetta virðist ekki komið almennilega á hreint hvað gildir. Hér setti einhver fram bráðsnjalla lausn á vandanum, hafa formannsembætti af ólíkum gráðum. Það mætti hafa formann til lífstíðar, formann til sýnis, formann athafna, formann ritunar og sagnlistar, formann fjölmiðlasamskipta og upplýsingatækni, formann mataraðfanga, eldunar og drykkju, og loks, formann bakvið tjöldin. Já, sagði einhver, heldurðu að þetta mælist vel fyrir? Nei, það er önnur saga, sagði umræddur aðili, sem ekki verður nafngreindur vegna þess hversu sprengifimt málefnið er.

Þeir Sjúl og Benedikt voru löngu horfnir og koma ekkert meira við þessa sögu. Maður þarf eiginlega að fara að taka af þeim mynd svo maður muni hvernig þeir líta út, þeir hlaupa ekkert með okkur hinum lengur, missa af öllum gáfulegum samræðum, allri persónufræði og skemmtilegheitum. Til hvers er svona fólk að hlaupa, spyr maður sig? Til að reyna á sig? Maður bara skilur ekki svona... Það var góður, þéttur hópur sem skeiðaði vestur Ægisíðu, og mætti afar tvístruðum Neshópi á austurleið, það vantaði alveg fótgönguliðana sem fylgja hinum fremstu eftir - líklega komnir í sumarfrí. Þar fóru þó þær stöllur af Nesi, skælbrosandi svo manni varð ekki um sel.

Nú var stefnan sett á næsta sveitarfélag. Ágúst rakst á Ingólf Margeirsson í Skjólunum og varð að taka við hann tal þar - það tafði hann talsvert. Við hinir fengum þá eitthvert forskot sem Gústi varð að vinna upp. Við Birgir og Jörundur héldum hópinn ásamt dr. Jóhönnu - en hún lét nægja að fara að Bakkatjörn, við fórum fyrir golfvöllinn. Krían heillum horfin, maður hleypur í friði allan hringinn. Óttast bara að fá golfkúlu í hausinn. Jörundur var í essinu sínu, hér var ekki lúpínan. Hann taldi upp allar jurtir sem urðu á leið okkar, melgresi, njóli, fífill, baldursbrá, og sagði: þetta eru allt orginalar íslenzkar jurtir! Hér er gott að vera. Maður fékk svona GunnarsáHlíðarendafíling út úr þessu, beið bara eftir því að hann hrasaði og segði: ég fer hvörgi.

Er við komum framhjá Gróttu var ljóst að ekki yrði farið í sjóinn þar - það var útfiri og óttaleg fýla af hafi. Haldið áfram - kvartað yfir slæmum vatnsgæðum úr drykkjarfonti, lítil buna og vatnið volgt. Er hér var komið hafði Ágúst náð okkur og var brattur. Hann var ánægður með að þurfa ekki að fara í sjóinn og taldi að þar með væri málið afgreitt. Fylgdi okkur eitthvað áfram, en gaf svo í og skildi okkur eftir, þurfti að taka þétting. Þá gerðust hlutirnir. Einhvers staðar milli Seilugranda og Rekagranda varð okkur litið niður í fjöruna og sáum baðströnd: hvítan sand, svala öldu - hún kallaði okkur til sín (fólið kom upp í ritara). Við (Biggi og ritari) niðureftir, yfir urð og grjót, niður á sandinn, úr fötunum og hentum okkur í ölduna. Jörundur hélt áfram og vildi ekki meira af okkur vita. Það var unaðslegt að synda í úrsvölum sjónum og fljóta með öldunum eins og í útlöndum. Uppi á hlaupastígnum sáum við Neshlaupara á heimleið, þeir horfðu mjög til sjávar, á selina sem þar flutu.

Við vorum svoldið stirðir eftir sundið, klæddumst að nýju og hlupum rétta leið til laugar, út á Grandaveg, yfir á Víðimel og svo Hofsvallagötuna til baka. Í potti hafði greinilega spurst að við hefðum farið í sjóinn, því við fengum komment eins og: svakalega eruð þið brúnir, strákar! Voruð þið að baða ykkur í skólpinu af Nesinu? Annað álíka smekklegt. En það var einkar ánægjulegt að nudda Ágústi upp úr þessu sjóbaði og skylmast við hann um skráningar, hann þvertók fyrir að þetta gæti verið löglegt sjóbað, það þyrfti að búa til sértöflu fyrir það, tilkynna bað með minnst viku fyrirvara, hafa áreiðanlega tilsjónarmenn sem votta og annað eftir því. Rætt áfram um stigann hans Birgis, reipið hans Jörundar, fuglahússkaup Birgis, baráttuna við starann, deiluna um hvort starinn hefði trítlað niður stigann (Magnús) eða kötturinn klifrað upp stigann til þess að gera út af við starann (Birgir). Jörundur sagði að kötturinn hans Birgis væri sá allatasti köttur sem hann hefði vitað til að existéraði. Þá sagði Ágúst söguna af hundi móður sinnar sem var svo latur að ef hann klifraði upp á stól, varð að hjálpa honum ofan af stólnum aftur. Annað eftir þessu.

Nú gerast hlaup treg. Hlaupari fjarvistum. Öfundar sína bræður og systur af hlaupi og sjóbaði á miðvikudag. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband