Engir hálfvitar á ferð

Sunnudagahlaup eru kategóría út af fyrir sig. Þá mæta aðeins vel informéraðir menn til hlaupa, rjómi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Í dag voru þeir fjórir: Vilhjálmur, Þorvaldur, ritari og Birgir. Steinunn sagði að Öl-hópurinn ("Jörundur og skólastjórinn...") hefði lagt í hann kl. 9:30 um morguninn. Vilhjálmur hefur verið á Ítalíu s.l. þrjár vikur og mun hafa hlaupið þar. Ítalía hefur lítið gert til þess að milda skap hans - það var byrjað með allsherjarárás á ritara og ásökunum að hann væri að reyna að koma Hlaupasamtökunum út úr húsi með kjaftavaðli og dónaskap, kvaðst hafa heyrt alla leið út til Gardavatns af framgöngu minni. Ég útskýrði fyrir honum hvernig málin væru í pottinn búin og að þetta yrði líklega allt í lagi. Við það virtist hann róast eilítið.

Veður var afar hagstætt til hlaupa á þessum morgni, fremur hlýtt, bjartviðri og nánast logn. Ægisíðan var auð af mannfólki, mættum aðeins örfáum hræðum (hvað ætli hræða merki í raun og veru? er það neikvætt að vera hræða? sbr. fuglahræða?) Í persónufræðikafla dagsins var rætt um rangfeðranir, tölfræðilega útbreiðslu, nefnd dæmi og getum leitt að félagslegum afleiðingum þessa sérkennis íslensks samfélags um aldir. Menn voru almennt inni á því að ættfræði væri einhver hagnýtasta fræðigrein sem unnt væri að stunda á Íslandi - með henni mætti útskýra miklu fleira heldur en önnur vísindi réðu við. Önnur fræði bliknuðu við hlið ættfræðinnar. Þegar menn stæðu á gati frammi fyrir erfiðum spurningum mætti oft finna svörin með því að rýna í persónu- og ættfræðina að baki spurningunni.

Í Nauthólsvík var varpað fram vísbendingaspurningu: spurt er um mann sem er framarlega í flokki iðnsveinahreyfingarinnar á Íslandi og með afar sérstætt millinafn. Vilhjálmur hugsaði sig um í fimm sekúndur og svaraði svo: Finnbjörn Aðalvíkingur Hermannsson. Hvílík snilld! Hvílík þekking á persónuflóru íslensks samfélags! Ég held það þurfi vart að endurtaka það sem áður hefur komið fram, að þeir sem hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins hlaupa ekki með hálfvitum. Austur á Flönum varð ljóst að Jörundur hafði farið þar um, lúpínan lá á víð og dreif um hlaupastíginn. Vöngum var velt um ástæður þessa lúpínuhaturs Jörundar og komust menn að þeirri niðurstöðu að hann væri þjóðernissinni inn við beinið og vildi fá sitt gamla, gróðursnauða Ísland aftur, án þessa innflutta gróðurs sem ætti ekki heima hér.

Áfram um kirkjugarð, drykkjarstopp, ritari fann óvænt leiði löngu látins móðurbróður síns - undruðust menn það að hann skyldi ekki hafa vitað af því þarna. Skoðuð leiði þýskra hermanna sem féllu í Síðari heimsstyrjöldinni, og svo áfram. Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún, á Rauðarárstíg var óvenju mikið af drykkjumönnum sem sátu á bekkjum, en voru spakir og fengum við engar glósur frá þeim um hlaupahraða eða atgervi. Hér dæsti Birgir og sagði eitthvað á þá leið að stundum væri gott að hlaupa án próf. Fróða - fara þetta bara í makindum. Farið út á Sæbraut og þá leið tilbaka.

Öl-hópurinn kominn úr 21 km hlaupi er við mættum á brottfararplan, Jörundur og Svanur. Jörundur spurði um gengi mitt í Miðnæturhlaupinu, já minnstu ekki á það ógrátandi sagði ég, sagði honum frá fiskisúpunni og því dæmi öllu. Og tímanum. Það var á honum að heyra að honum þætti þetta allt hið versta mál og mikil hneisa fyrir Hlaupasamtökin að hlaupari úr röðum þeirra næði ekki settu marki í hlaupi.

Í pott vantaði tilfinnanlega dr. Baldur til þess að lyfta umræðunni í menningarlegar hæðir. Sem fyrr rætt um sýslumannaævir og presta. Á morgun er nýr dagur, mánudagur. Þá er hlaupið á Nes. Spá góð. Gaman væri að fara fyrir golfvöllinn og staldra við norðurhornið hjá Gróttu, fara í sjóinn þar, synda, berjast við hákarla sem þar ku vera, jafnvel höfrunga, fótabað á eftir og svo ljúka hlaupi. Vel mætt!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband