Hlaup, innvígsla, klám, hortugheit, sjór, efasemdir

Nýr hlaupari mættur á vegum Ágústs, og virtist prófessorinn vera þess sinnis að afla þessum hlaupara (sem er útlendingur) skjótrar aðlögunar í Hlaupasamtökin, líkt og einhverjir hafa viljað sjá um inngöngu Íslands í ESB. No such luck! Hér gilda reglur, hér ríkja hefðir! Maðurinn skal fara aftast í röðina og fara í gegnum sama ritúal og allir aðrir: eitt ár af þögn, fimm ár af einelti. Að því búnu er hugsanlegt að á hann verði yrt í nokkurn veginn vinsamlegum tóni.

Fámennt hlaup, en geysilega vel mannað. Kári mættur, próf. Fróði, S. Ingvarsson, Jörundur, Kalli kokkur, Ólafur ritari, Hjálmar, Helmut og Jóhanna búin að hlaupa 14 km, Unnur, Rúna, Brynja, Melabúðar-Frikki og síðast en ekki sízt: sjálfur Gísli. Eitthvað var blómasalinn að snövla í kringum okkur, en ætlaði ekki að hlaupa og virtist ekki eiga erindi að reka í hlaupi kvöldsins. Þó er það svo að nokkrir hlauparar undirbúa göngu á Fimmvörðuháls sér til dægrastyttingar og uppbyggingar og kann að vera að blómasalinn hafi haft hlutverk í þeim undirbúningi.

Hvað um það. ákveðið að fara öfugan hring, eða hvað má kalla það, að hlaupa upp á Víðimel og þaðan út á Nes. Prófessorinn lenti í kvíðakasti og kannaðist ekki við þessa rútínu, búinn að upplýsa skjólstæðing sinn, útlendinginn, um að allt önnur leið yrði farin. Við vorum verulega lengi að vinda ofan af andlegu ástandi þessa aldna hlaupara, en á endanum var hann farinn að sætta sig við þessa leið. Farið rólega, og ef hraði gerði vart við sig, var óðara hægt, enda eru menn að fara í maraþon. Við klæmdumst hæfilega til þess að gera hinum nýja hlaupara ljóst hvað væri í vændum. Ollum prófessornum ekki vonbrigðum þar, enda var hann greinilega búinn að undirbúa nýliðann undir það versta. Lítið ef nokkuð rætt um mat, enda blómasalinn víðs fjarri.

Helmut leiddi okkur vestur á Nes og á vel völdum stað var farið ofan í fjöru og í sjó. Hreint ótrúlega margir skelltu sér í svala brimölduna, Gísli, Ágúst, Sigurður, Ólafur, Hjálmar, Helmut, Jóhanna - svömluðu um í öldurótinu og nutu Atlanzhafsöldunnar. Fór Frikki líka? Ég man það ekki.

Svo var bara að halda tilbaka, sumir fóru alla leið fyrir golfvöll, en við þessir skynsömu fórum stytztu leið tilbaka, ég í kompaníi við Gísla og Jörund. Við fórum ókannaða stigu á Nesi og rifjuðum upp eldri bústaði ónefndra hlaupara.

Í potti var rætt um skeytasendingar undanfarinna daga sem mörgum þóttu óskiljanlegar. Líklega eigum við inni óútekinn þroska og er bara tilhlökkunarefni að vænta þess að bæta skilning sinn á bókmenntatextum heimsins. Haldið áfram undirbúningi göngu um hálendi landsins og gengið frá föstum atriðum.

Menn kvöddu og steðjuðu til Melabúðar að afla sér vista fyrir morgundaginn. Í gvuðs friði, ritari.

Trappað niður fyrir maraþon

Sigurður Ingvarsson, Einar Þór Jónsson og Ólafur Grétar Kristjánsson mynda vaska hlaupasveit Hlaupasamtaka Lýðveldisins í Reykjavíkurmaraþoni hinn 22. ágúst nk. Þó nokkrir félagar ætla að hlaupa hálft maraþon. Nú er byrjað að trappa niður fyrir átökin og þjálfari nánast grátbiður menn um að fara stutt og hægt. Góð mæting á miðvikudagsæfingu. Hjörtu hlaupara tóku kippi þegar gamalkunnug andlit birtust neðan úr kjallara og tilheyrðu próf. Fróða og Gísla Ragnarssyni, einnig voru Jörundur, Helmut og Sigurður Ingvarsson mættir. Þá er ekki úr vegi að nefna nafn Kára, sem reyndist býsna sprækur þrátt fyrir að hafa legið í kajak lungann úr sumri.

Það mátti fara Þriggjabrúahlaup, maraþonhlauparar skyldu fara hægt. Ég bað Gísla að skrúfa aðeins upp hitann, en honum fannst þetta fínn hiti að hlaupa við. Það er gaman að hlaupa með þeim Gísla og Gústa á ný, það má bulla og blaðra í það endalausa og segja tóma vitleysu og ekkert veitir þessum hálærðu mönnum meiri ánægju en hlusta á malanda sem hefur lítinn annan tilgang en gefa útslitnum embættismönnum tækifæri til þess að rasa út.

Þannig var það líka að ritari endaði með blómasala, Gísla, Jörundi, Sirrý og Þorbjörgu og héldum við hópinn frá Nauthólsvík og til loka hlaups. Farið upp hjá Borgarspítala (blómasali búinn hér og gekk upp brekkuna) og hér var sagður Wassily-brandarinn til þess að auðvelda þeim stúlkum hlaupið upp brekkuna. Þær kunnu innilega að meta þessa skemmtilegu sögu og voru léttar og kátar á eftir. Hér fór fólk að rifja upp ýmislegt sem drifið hefur á daga þess í hlaupum, svo sem eins og þegar Þorbjörg mætti karli sínum með reiddan hnefa og keyrði hann út af hlaupabrautinni og út í lúpínubeð (þetta gladdi Jörund innilega). Eða einelti það sem viðgengist hefur og hefur sýnt sig í viðurnefnum, blómasali, hortuga, og áfram í þeim dúr. Rifjað upp að eineltissérfræðingur Lýðveldisins taldi "hortuga"-viðurnefnið annað hvort flámæli eða misheyrn, í reynd væri þetta "den hurtige".

Farið afar hægt yfir, meðaltempó 5:50. Góð tilfinning að fara þetta á hægu tölti. Jörundur að velta fyrir sér að fara heilt maraþon í Reykjavík til þess að leiða blómasalann áfram. Við niður á Sæbraut og fengum okkur að drekka á réttum stað. Svo var farið um Kalkofnshornið og út Lækjargötu og um Hljómskálagarð tilbaka. Hér var mikið rætt um Vilhjálm Bjarnason og máttu menn vart á heilum sér taka af söknuði. Gísli taldi sig hafa vissu fyrir því að Vilhjálmur myndi snúa tilbaka til hlaupa í haust. Voru menn sammála um að Vilhjálmur væri einstakt góðmenni og góður félagi.

Núna er bara fyrir okkur maraþonmennina að hvíla að mestu, ætlum eitthvað að gutla fram að stóra deginum.

Menn haldi augum og eyrum opnum fyrir tilkynningu frá Jörundi um hvort gengið verður á Fimmvörðuháls n.k. laugardag.



Hlaupið frjálslega í Öskjuhlíðinni

Fullyrt var að 25 hlauparar hefðu mætt til hlaups í dag.  Þegar svo er leggur ritari það ekki á nokkurn mann að lesa upptalningu á nöfnum, þó skulu nefndir Helmut, Jörundur, Flosi, S. Ingvarsson og þjálfarar. Fjöldi kvenna, og enn rifjaði Jörundur upp þá tíma þegar aðeins einn kvenmaður hljóp með Hlaupasamtökunum. Nú verður ekki þverfótað fyrir konum á Brottfararplani.

Þjálfarar lögðu til að teknir yrðu sprettir í Öskjuhlíðinni. Veður gott, hægur vindur, sól og hlýtt í veðri. Raunar of heitt fyrir hlaup því að ritari svitnaði eins og grís í gufubaði þegar á Sólrúnarbraut. S. Ingvarsson kom til móts við okkur á Hofsvallagötu, greinilega búinn að fara allnokkra vegalengd er hann mætti okkur. Nokkur umræða spannst um prófessor Fróða, en alllangt er um liðið síðan hann lét svo lítið að hlaupa með okkur. Var það hald manna að nú þegar hann hefði ekki að neinu að stefna væri ekkert sem ræki hann til hlaupa. "En félagsskapurinn?" spurði einhver. Enginn varð til þess að svara. Rifjað upp að nokkrir hlauparar hefðu komið við í Lækjarhjalla á laugardaginn eð var, en enginn opnað í Dalnum.

Farið rólega út í Nauthólsvík þar sem sjósyndarar voru að gera sig klára fyrir Kópavogssund, virtust ekki færri en 200. Við áfram og upp í Öskjuhlíð. Helmut ætlaði ekki í sprettina svo að hann hélt áfram í átt að kirkjugarði. Það voru teknir sex 200 m sprettir og tóku menn vel á því. Vekur alltaf furðu þegar bílar aka um Öskjuhlíðina án þess að eiga þangað augljóst erindi. En þegar Helmut birtist allt í einu á hlaupum út úr skóginum með Melabúðar-Frikka í eftirdragi, ja þá var okkur öllum lokið. Hvað er í gangi? spurðu menn. Þeir fóru yfir veginn og aftur inn í skóginn og sýndu þess engin merki að vilja taka spretti með okkur.

Hópurinn er vel samstilltur og fylgdist að í sprettunum - menn að komast í gott form. Einkum mæðir þó á okkur blómasala, sem stefnum einir í Hlaupasamtökunum á heilt maraþon í RM. Við munum halda merkjum Samtakanna á lofti 22. ágúst nk. Svo var dólað niður í Nauthólsvík og nokkrir hlauparar fóru í sjóinn, sem var yndislegt. Haldið tilbaka og farið á 4:50 tempói síðasta spölinn.

Anna Birna og Kári í potti, komin til byggða eftir volk á kanó um aðskiljanlegustu firði landsins. Pottur afar þéttur og vel mannaður. Næst hlaupið á miðvikudag.

Blautt

Við vorum nokkur sem mættum til hlaups í morgun, nánar tiltekið ritari, blómasali, Helmut, Jóhanna, Friðrik og Rúna. Lögðum af stað upp úr kl. 8. í morgun, stefndum á millilangt. Það var þungt yfir og rigning, en lítill vindur. Stemmning þó góð. Farið út á hægu tempói. Friðrik meiddur, ritari með tognun í lærisvöðva. Ekkert óvænt framan af, Helmut fór  69, Rúna stytti sömuleiðis, við hin á Kársnes. Nú er hiti og sólfar slíkt að ekki þurfti mikinn vökva. Við komum í Lækjarhjalla og höfðum hátt, en þau hjónakorn létu sem þau heyrðu ekki í okkur, ekki var opnað, enginn vökvi. Við áfram.

Stoppað við Olís í Mjódd og bætt á vatni. Í Kópavogsdal rigndi mikið, við vorum gegndrepa. Eftir Lækjarhjalla fórum við upp Dalveg, þar féllu lækir niður götur, bílar óku beint í lækina svo að vatnið gusaðist yfir okkur.

Eftir Mjódd var farið beint niður í Elliðaárdal og svo aftur stytztu leið um Fossvog tilbaka. Á þeim slóðum áttuðum við okkur á því að við vorum líklega að fara heldur lengra en við gerðum ráð fyrir. Eftir Kringlumýrarbraut mættum við Rúnari þjálfara og fullt af fólki með honum, m.a. Möggu sem var ansi þung á sér, þetta var fólkið sem fór af stað 9:30 frá VBL.

Svo var farið beinustu leið í Nauthólsvík og í sjóinn þar, svamlað lengi vel, synt út að pramma. Að vísu fórum við Jóhanna ein í sjó, blómasalinn hélt áfram, Frikki kveinkaði sér undan fætinum.

Í Skerjafirði var gerður langur stanz, þar hittum við Formann til Lífstíðar, sjálfan Ó. Þorsteinsson Víking. Hafði hann frá mörgu að segja og var nauðsynlegt að tefja allnokkra stund, sem við gerðum blómasali, ritari og Frikki. Bundizt heitum um að hlaupa í fyrramálið kl. 10:10 - og verður þá fram haldið umræðu um þau málefni sem þarfleg kunna að teljast.

Þegar upp var staðið kom í ljós að við höfðum farið 23,6 km í stað 20 km eins og að var stefnt. Nú þurfa menn að fara sækja sér nudd og bæta ástand líkama sinna.

Allt sem oftast...

Þessi missirin dvelst ritari mest í potti. Þangað komu hlauparar sem fóru öfugan hring (að sögn Jörundar) um Nes, fóru í sjó og hlupu ýmist um golfvöll eða skemur. Í pott komu Flosi, Bjössi, Helmut, Jóhanna, Rakel, Biggi, blómasalinn, Bjössi, Jörundur, og Stefán Ingi. Samþykkt að halda Fyrsta Föstudag á Rauða Ljóninu.

Þannig er dagskráin: blómasali og ritari hlaupa langt á morgun, 8. ágúst kl. 8:10. Aðrir fara 9:30.

Að loknu Reykjavíkurmaraþoni 22. ágúst n.k. býður ritari til veizlu að heimili sínu, Bræðraborgarstíg 18, þar sem venjulegu fólki sem tekið hefur þátt í hlaupi dagsins býðst að snæða chili con carne, en viðkvæmum einstaklingum af Óðagotsætt býðst sérstök baka með svörtum ólífum, nautakjötsstrimlum, fetaosti o.fl. mjúklegu meðlæti sem fer vel með innýflin í fólki. Einnig spurning hvort boðið verði upp á flatböku að hætti hússins, svona til ánægjuauka. Salat.

Upplýst að næsti Fyrsti Föstudagur verði að heimili Jörundar. Fyrsti Föstudagur í október verður hjá Jöhönnu og Helmut, sem stefna að því búnu út í heim.

Í gvuðs friði, ritari.

Tveir á ferð í rigningu

Við Jörundur hittumst á Ægisíðu og hlupum  69. Rigning var á og mótvindur nánast alla leið inn að Elliðaám, það gerði hlaupið erfiðara og leiðinlegra, en við létum það ekki stöðva okkur. Í dag skyldi hlaupin 69 og ekkert múður!

Blómasalinn hafði gefið í skyn að hann hygðist hlaupa, en lét ekki sjá sig. Ég var búinn að undirbúa flím til heiðurs honum í ljósi þess að það var happy hour hjá  Vinum Bigga, en ég á þennan brandara bara inni.

Þegar kólnar svona og rignir hefur maður ekki jafnmikla þörf fyrir vökvun, ég var með Powerade með mér en hefði getað sleppt því. Við tókum því rólega framan af en vorum komnir á góðan skrið í Fossvogi og héldum góðu tempói til loka.

Mættum þeim Eiríki og Rúnari á Hofsvallagötu þar sem þeir voru aleinir að fara í eitthvert hare krishna-hlaup í Kvosinni. Ósköp sem þeir voru einmana! Við kenndum í brjósti um þá og tókum þá tali. Jörundur gaukaði einhverjum upplognum tölum um gömul hlaup til að æsa Eirík upp, sjáum til hvort það skilar einhverju.

Ég var aleinn í potti, Jörundur þorði ekki inn þegar hann heyrði að það væri happy hour, ég sá blómasalann tilsýndar þar sem hann kom í heitasta pottinn, en nennti ekki að kalla í hann. Mér virtist hann hafa fitnað mikið síðustu daga.

Fyrsti Föstudagur á morgun, allt í volli heima hjá Jörundi og konan í vinnu svo ekki verður ráðrúm til að undirbúa neitt fyrir félagana. Ætli það verði ekki bara Dauða Ljónið?

Í gvuðs friði, ritari.

Hlauparar mættu í pott

Ritari átti þess ekki kost að hlaupa í dag sökum anna. Hins vegar náði hann potti. Í pott mættu Gísli, Magnús, Flosi, Bjössi og Biggi. Þar urðu til að byrja með miklar umræður um ástand mála í samfélaginu, en smásaman þróuðust þær yfir í anekdótur og skemmtisögur af ýmsu tagi sem menn bognuðu yfir af skemmtun. Ekkert þó hafandi eftir.

Þar eð ritari er í maraþonprógrammi hleypur hann á morgun, millilangt, þó ekki skemur en 17,5 km, e.t.v.  69, frá VBL kl. 17:30. Áhugasömum er boðin þátttaka. Á föstudag er síðan Fyrsti Föstudagur, tilkynnt verður um móttöku í potti að hlaupi loknu þann dag.

Í gvuðs friði, ritari.

E. Jónsson viðgerðaþjónusta

Ritari hvílir fyrir langt hlaup á morgun, laugardag, sem fyrirhugað er að fari af stað upp úr kl. 8:00. Af þeirri ástæðu var ekki hlaupinn hefðbundinn föstudagur, en mætt í pott til þess að heyra sögur. Fyrir á staðnum var Einar blómasali. Hann fór mörgum orðum um samskipti sín við ónefndan jóga í hópi vorum, sem hefði gengið eftir sér í margar vikur um það að gera við heimilistæki og bíla sem komnir voru í ólag. Það þurfti að skipta um bremsuklossa og reimar og hvaðveitég. En svo þegar blómasalinn var búinn að boða komu sína til þess að gera við var jóginn á bak og burt, en ómegðin látin taka á móti viðgerðamanninum  og vísa honum á það sem gera átti við. Blómasalinn lét þetta ekki stöðva sig, en gerði samvizkusamlega við þá hluti sem bilað höfðu.

Lögð á ráðin um göngu á Fimmvörðuháls, skipulag í höndum Jörundar. Nánar um það seinna.

Meðan við Einar biðum eftir hlaupurum skipulögðum við hlaup á morgun, laugardag, og vildum flýta því. Rætt um kl. 8:30 ef ekki fyrr. Fara sem leið liggur um Kársnes, Lækjarhjalla, yfir Kópavogsdalinn, upp brekkuna löngu, stíginn milli sveitarfélaga, yfir að Elliðavatni, svo niður úr dalnum og þannig tilbaka um Fossvoginn - klykkja út með sjóbaði í Nauthólsvík.

Svo kom mannskapurinn, þessir komu: Kalli kokkur, Kári, Biggi, Jörundur, Friðrik Meló, Rúna, Friðrik Wendel af Nesi, Denni og ekki fleiri. Hlauparar kváðust vera ánægðir með að hafa loks getað talað frjálslega um sín hugðarefni án þess að hafa áhyggjur af því að allt væri komið á Netið að kveldi. Rætt var um garðyrkjustörf, m.a. hvernig fara mætti að því að drepa aspir sem öllum væru til óþurftar. Einnig haldið áfram umfjöllun um Fimmvörðuháls. Í ljósi þess að það var föstudagur var eðlilega rætt um mat og áfengi. Farið var nákvæmlega í gegnum viðgerðastörf blómasalans á heimili Birgis. Svo bættust fleiri í röðina sem vildu ræða viðgerðir við þennan hagleiksmann.

Þegar farið var upp úr seint um síðir til þess að elda ofan í fjölskylduna heyrðist blómasalinn tauta fyrir munni sér: "Þetta er orðin einhver viðgerðaþjónusta!"

Niðurstaða: safnast saman við Vesturbæjarlaug upp úr kl. 8:00 laugardaginn 1. ágúst fyrir langt hlaup.

Þrjárbrýr

Þau stórtíðendi gerðust á þessum degi að blómasalinn gleymdi að borða hádegisverð. Meira um það seinna. Mættur stór hópur hlaupara til miðvikudagshlaups, þar á meðal Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Kalli kokkur og fjöldi annarra frambærilegra hlaupara. Dagsskipunin hljóðaði upp á Þriggjabrúahlaup með upptempói eftir Skítastöð. Rólegt fram að því. Svo var bara að leggja í hann.

Ritari viðurkennir að hann var þungur á sér í dag, e.t.v. eftir mánudag þar sem tekið var á því í Öskjuhlíðinni. Svipað var ástatt um fleiri í dag, þ. á m. blómasalann. Þegar gengið var á hann og hann spurður hvort hann hefði fengið sér stóran hádegsiverð, kvaðst hann hafa gleymt að borða hádegisverð, það hefði verið svo mikið að gera, tveir kúnnar í heimsókn. Eru þetta slík tíðendi að með ólkendum er. Jörundur var sprækur í dag og fór fram úr okkur á Flönum en hirti ekki um lúpínuna. Já, maður var ansi dapur.

Það skemmtilega við Þriggjabrúahlaup er að maður er mjög fljótlega kominn þar í hlaupinu að skiptir um, eftir að búið er að klífa brekkuna löngu hjá Borgarspítala, er maður nánast hálfnaður í hlaupinu og eftir þetta er öll leiðin niður á við eða á jafnsléttu. Það átti að taka tempó eftir Skítastöð, en ég játa á mig slux hér - hafði ekki kraft í mér til að bæta í.  Þannig að við dóluðum þetta á svipuðu róli, ritari, Jörundur, Rúna, blómasalinn og Unnur.

Rætt um fjallaferðir og hlaup mestalla leiðina, enda nokkrir góðir félagar nýbúnir að ljúka Jökulsárhlaupi: Ágúst Kvaran, Sigurður Ingvarsson, Rúna og Melabúðar-Friðrik. Sæbrautin tekin í sömu rólegheitunum og drukkið vatn á hefðbundnum stað. Nokkuð um túrista á ferð.

Fólk í köfunarbúningum var í potti - einhvers konar námskeið í gangi. Blómasalinn með mjög langa sögu sem virtist engan endi ætla að taka og menn spurðu ítrekað hvort sagan stefndi eitthvert ákveðið. Ég var löngu dottinn út úr sögunni og farinn að hugsa um allt aðra hluti.

Næsta opinbera hlaup í Hlaupasamtökunum er á föstudag kl. 16:30 - en þó gæti eitthvað verið um morgunhlaup og sjósund án þess að það fari hátt.



Sprettir, sjór og jóga

Allnokkur fjöldi vakra hlaupara mættur til hlaups mánudaginn 27. júlí 2009. Eiríkur hafði verið gerður að þjálfara, hann tók embætti sitt alvarlega og hugðist rækja það af trúmennsku. Þessi mætt: Flosi, Benedikt. Bjössi, Biggi, blómasalinn, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Anna Jóna, Þorbjörg K., ritari, Jón Gauti og Kalli. Fremur kalt í veðri miðað við undanfarna daga, líklega er maður orðinn of góðu . Stefnan var að taka spretti í Öskjuhlíðinni. Af því tilefni var leiðrétt staðarheiti á þessum slóðum. Hi-Lux-brekkan er illa malbikaði stubburinn strax þegar beygt er upp í hlíðina í hefðbundnu föstudagshlaupi, ekki langa brekkan þar upp af. Ekki var farið nánar út í Hi-Lux-þjóðsögnina.

Eiríkur brýndi raustina og kallaði skýr fyrirmæli til hlaupara og það var lagt í hann, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þá leið út í Skerjafjörð og Nauthólsvík. Biggi hefur ekki hlaupið um nokkurt skeið og var maður farinn að sakna hávaðans í honum. Hann kvartaði yfir því að ritari hefði ekki rapporterað frá framkvæmdum við hús hans. Birgir stendur í stórræðum, hann fór í Byko að kaupa sandpappír, en sölumaðurinn sannfærði hann um að hann sárvantaði hitablásara sem hreinsar málningu af gluggapóstum, 15 þúsund kall takk! Biggi fer með hitarann heim og fer að láta tækið vinna fyrir sig, en lætur jafnframt hugann reika um hvað hægt væri að gera við svona appírat. Heyrir hann þá brothljóð og sér að hann hefur beint hitanum að rúðunni og brotið hana.

Ekkert slegið af fyrr en í löngu brekkunni í Öskjuhlíð. Teknir 10 sprettir 200 m upp brekkuna, lullað rólega niður aftur. Mikið af bílum á ferð þarna, allir ökumenn stimplaðir perrar og gerður aðsúgur að sumum þeirra. Þeim sagt að þetta væri útivistarsvæði og ekki fyrir bílaumferð (að vísu ekki alveg rétt, en okkur fannst það). Hlauparar tóku vel á því í sprettunum og eru í fínu formi. Síðan var haldið tilbaka og fóru fjórir í sjóinn. Eftir hlaup tók Biggi okkur í jógatíma sem var hreint frábær!

Nú líður að því að þeir fari að toppa sem fara heilt maraþon í RM - laugardagur - 30-35 km. Auglýst eftir þátttakendum. Gaman væri að fara Kársnesið, upp úr Kópavoginum að sunnanverðu, leiðina milli Kópavogs og Breiðholts og yfir að Elliðavatni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband