Hlaup, innvígsla, klám, hortugheit, sjór, efasemdir

Nýr hlaupari mættur á vegum Ágústs, og virtist prófessorinn vera þess sinnis að afla þessum hlaupara (sem er útlendingur) skjótrar aðlögunar í Hlaupasamtökin, líkt og einhverjir hafa viljað sjá um inngöngu Íslands í ESB. No such luck! Hér gilda reglur, hér ríkja hefðir! Maðurinn skal fara aftast í röðina og fara í gegnum sama ritúal og allir aðrir: eitt ár af þögn, fimm ár af einelti. Að því búnu er hugsanlegt að á hann verði yrt í nokkurn veginn vinsamlegum tóni.

Fámennt hlaup, en geysilega vel mannað. Kári mættur, próf. Fróði, S. Ingvarsson, Jörundur, Kalli kokkur, Ólafur ritari, Hjálmar, Helmut og Jóhanna búin að hlaupa 14 km, Unnur, Rúna, Brynja, Melabúðar-Frikki og síðast en ekki sízt: sjálfur Gísli. Eitthvað var blómasalinn að snövla í kringum okkur, en ætlaði ekki að hlaupa og virtist ekki eiga erindi að reka í hlaupi kvöldsins. Þó er það svo að nokkrir hlauparar undirbúa göngu á Fimmvörðuháls sér til dægrastyttingar og uppbyggingar og kann að vera að blómasalinn hafi haft hlutverk í þeim undirbúningi.

Hvað um það. ákveðið að fara öfugan hring, eða hvað má kalla það, að hlaupa upp á Víðimel og þaðan út á Nes. Prófessorinn lenti í kvíðakasti og kannaðist ekki við þessa rútínu, búinn að upplýsa skjólstæðing sinn, útlendinginn, um að allt önnur leið yrði farin. Við vorum verulega lengi að vinda ofan af andlegu ástandi þessa aldna hlaupara, en á endanum var hann farinn að sætta sig við þessa leið. Farið rólega, og ef hraði gerði vart við sig, var óðara hægt, enda eru menn að fara í maraþon. Við klæmdumst hæfilega til þess að gera hinum nýja hlaupara ljóst hvað væri í vændum. Ollum prófessornum ekki vonbrigðum þar, enda var hann greinilega búinn að undirbúa nýliðann undir það versta. Lítið ef nokkuð rætt um mat, enda blómasalinn víðs fjarri.

Helmut leiddi okkur vestur á Nes og á vel völdum stað var farið ofan í fjöru og í sjó. Hreint ótrúlega margir skelltu sér í svala brimölduna, Gísli, Ágúst, Sigurður, Ólafur, Hjálmar, Helmut, Jóhanna - svömluðu um í öldurótinu og nutu Atlanzhafsöldunnar. Fór Frikki líka? Ég man það ekki.

Svo var bara að halda tilbaka, sumir fóru alla leið fyrir golfvöll, en við þessir skynsömu fórum stytztu leið tilbaka, ég í kompaníi við Gísla og Jörund. Við fórum ókannaða stigu á Nesi og rifjuðum upp eldri bústaði ónefndra hlaupara.

Í potti var rætt um skeytasendingar undanfarinna daga sem mörgum þóttu óskiljanlegar. Líklega eigum við inni óútekinn þroska og er bara tilhlökkunarefni að vænta þess að bæta skilning sinn á bókmenntatextum heimsins. Haldið áfram undirbúningi göngu um hálendi landsins og gengið frá föstum atriðum.

Menn kvöddu og steðjuðu til Melabúðar að afla sér vista fyrir morgundaginn. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband