18.9.2009 | 20:17
Hlaupasamtök Lýðveldisins - þar sem einelti er listgrein
Loks þegar við vorum búin að bíða lengi og langt var liðið á dag þóknaðist Ágústi að hafa sig upp úr kjallaranum og sameinast okkur. Jóhanna tók af skarið og lagði í hann, við á eftir. Strikið tekið upp á Víðimel og þaðan út á Nes. Við vorum bara róleg, enda ekki að neinu að stefna lengur, nema einna helzt hjá Jóhönnu. Flosi og Ágúst á undan öðrum. Þeir drifu sig niður á strönd við Seltjörn. Þar var farið af fötum, við Kári og Jóhanna á eftir. Það var brim, þari og mikill öldugangur.
Þarna gerðust ævintýrin. Þarinn þvældist um okkur öll og gerði okkur erfitt um vik í sjónum, svo skullu öldurnar á okkur og felldu okkur svo erfitt var að synda. Raunar voru öldur svo háar að þær hentu okkur niður og Jóhanna skoppaði eins og korktappi í fjöruborðinu og snerist hring í fjöruborðinu, var leiksoppur í höndum náttúruaflanna. Hvarflaði að okkur að við þyrftum að fara að synda á eftir henni. Allt fór þetta þó vel á endanum og allir skiluðu sér heilu og höldnu í land.
Einar blómasali stóð á landi uppi og var stoltur á svip er hann ígrundaði að helztu vinir hans væru hetjur og karlmenni. Denni var gáttaður. Þótt hann búi á Nesi hefur hann aldrei áður séð viðlíka framgöngu í miðju hlaupi. Það dreif að múg og margmenni að fylgjast með hetjuskapnum. Við vorum hins vegar hógværðin uppmáluð og klæddumst að nýju. Sumir héldu áfram um golfvöll, en við Kári og blómasalinn fórum stytztu leið tilbaka.
Jörundur mætti í pott, fór 18 km í morgun og var í veizlu. Einnig mætti Anna Birna. Einelti var mönnum ofarlega í huga og var leitast við að skilgreina fyrirbærið. Einelti mun vera útbreitt í hlaupahópum og Hlaupasamtökin engin undantekning þar á. Munurinn er hins vegar sá að í Hlaupasamtökunum, eins og Jörundur benti á, er eineltið listgrein. Þetta sagði hann af djúpri speki og andakt. Hér viðhafði Denni, þessi aðkomumaður í hópi vorum, óviðurkvæmileg ummæli um ritara, eitthvað um skósíða ístru. Þá hló Ágúst og bað um meira af hinu sama. Hann spurðí hvort það væri einelti að tala ekki við ákveðna hlaupara út af leiðindum. Jú, það er einelti að hunza.
Framundan eru tímar hóglífis, hæversku og hægferðar. Viðbúið að sumir hlaupi í spik og verði hægir á sér. Það er allt í lagi, enda vetur framundan.
16.9.2009 | 21:31
Við þekkjum vatn þegar það skellur á okkur
Enn á ný var runninn upp hlaupadagur. Limir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu sprækir til hlaups. Langt á undan öllum var Flosi mættur, eins og skólastrákur ólmur að hefja fyrsta skóladag. Svo mættum við Ágúst. Ég hjálpaði honum í gegnum hliðið niður í klefa. Þetta vill vefjast fyrir fólki. Hann spurði hvernig vélin vissi hvenær kortið væri útrunnið. Hún bara veit það sagði ég, sem er oft einfaldasta svarið.
Blómasalinn mættur óvenjusnemma, var að raða verðmætum í geymsluhólf í Brottfararsal. Svo var farið í útiklefa. Þar voru auk okkar blómasala, Flosi, Helmut og Þorvaldur. Minniháttar erjur vegna væntanlegrar ferðar blómasala til New York.
Í Brottfararsal var fjöldi einstaklinga og mátti þar bera kennsl á dr. Friðrik, Ágúst, Jörund, Sirrý, þjálfara Rúnar, Birgi, dr. Jóhönnu, svo bættust Magga, Magnús tannlæknir og Friðrik kaupmaður við, einhverjum kann ritari að hafa gleymt.
Enn eru áformin margvísleg, þeir Berlínarfarar stefna á hlaup n.k. sunnudag, New York-farar í prógrammi. Aðrir búnir og hafa ekkert að keppa að, annað en halda sér í formi. Rólega út að Skítastöð. Þegar á Ægisíðu var komið var Biggi svo ólmur að hann æddi á undan öðrum. Senda varð mann á eftir honum til þess að hemja hann. En hjörðin ærðist og fór á 5 mín. tempói á eftir Bigga út að Skítastöð. Ekki gaman. Við blómasali þungir á okkur og stirðir vegna ofnæringar og hreyfingarleysis um nokkurra daga skeið. Rætt um landabruggun og áfengisdrykkju í Skerjafirði.
En við áttum bandamenn. Meðan aðrir ærsluðust áfram einbeittir að slá einhver met hópuðust þær að okkur Sirrý, Þorbjörg og stúlka sem heitir Jóhanna og hlýtur kenninefnið hin síðhærða til aðgreiningar frá dr. Jóhönnu með drengjakollinn. Einnig var með okkur Þorvaldur og fljótlega heyrðist einkennishljóð Jörundar, sem mig vantar gott nafn á en dettur í hug Seiglan. Ritari hafði orð á að fara stutt, kannski Hlíðarfót, í mesta lagi Suðurhlíð. Hvaða, hvaða! sagði fólk, þú kemur náttúrlega með okkur, munar ekkert um það! Það fór svo að farið var yfir brúna á Kringlumýrarbraut og stefnt á Þriggjabrúahlaup.
Sem betur fer voru þreyttir og þungir hlauparar á ferð svo maður fann sér félagsskap við hæfi. Þegar komið er á Útvarpshæð er þetta nánast búið, svo er þetta bara niður á við. Hér vorum við blómasalinn orðnir einir og ræddum um matseðil helgarinnar, hann lítur vel út. Hlupum yfir brúna vestur yfir Kringlumýrarbraut svo að þetta var alvöru þriggjabrúa. Sæbraut. Komum í Mýrargötu, þar gerðust hlutirnir. Við vorum nýbúnir að úthúða Kolaportinu, fólkinu þar, verðinu þar og óþefnum þar. Mætum strætisvagni sem sér ástæðu til þess að leggja sveig á leið sína, leita uppi poll sem var á götunni og gefa okkur væna dembu. Við rennblotnuðum og urðum illir, töldum að hér hafi verið á ferðinni bílstjóri sem öfundaði okkur af því að vera hlaupandi þegar hann þurfti að vinna.
Komum á Plan og sögðum farir okkar ekki sléttar. En vorum ánægðir að hafa farið Þriggjabrúa, þungir eins og við vorum. Í potti var töluð kínverska, þýzka, enska og íslenzka.
Góðar óskir fylgja félögum sem þreyta Berlínarmaraþon um helgina. Fylgist einkum með Bigga, hann á eftir að gera okkur stolt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 21:09
Einelti snúið við
Ritari tók Sigurð Ingvarsson tali og mærði hann fyrir góða frammistöðu í Brúarhlaupi, en Sigurður vann sinn aldursflokk. Prófessorinn gerði sem minnst úr afreki sínu og sagði tímann ekki neitt til að hreykja sér af. Hér kom ég auga á Ágúst og fór að ræða um vatnsbrúsa við hann, af hverju hann væri með stóran vatnsbrúsa, er verið að fara í eyðimerkurhlaup? Nei, það á að venja brúsann við hlaup.
Einhverra hluta vegna hafði Rúnar falið Birgi að reyna að hafa vit fyrir hópnum og það lagðist nú svona alla vega í mannskapinn. Þegar jóginn flutti tölu sína af tröppum Laugar Vorrar stóð dr. Jóhanna fyrir aftan hann og gretti sig herfilega. Engu að síður náði Biggi að leggja einhvers konar leiðbeiningar fyrir hópinn og var að því búnu lagt í hann, í mildu veðri, einhver vindur og rigningarlegt.
Ég hljóp með fremstu mönnum framan af, m.a. með Ágústi. Áttum við vinsamlegt spjall lengi framan af, en þegar komið var í Skerjafjörðinn hafði fólið í hnakkanum á mér vaknað af sætum blundi og var byrjað að hæða prófessorinn. Hann fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, fyrtist við og sagði með þjósti: Hva, var það ekki ég sem átti að vera með þig í einelti?
Allt var þetta í góðlátlegu gríni og ljóst að meint úlfúð risti grunnt og var eiginlega gleymd. Tempó allhratt hér, eða um 5:20 að sögn dr. Jóhönnu. Þannig út að Kringlumýrarbraut, þar sneru Biggi, Ósk og Hjálmar við, aðrir fóru yfir brúna. Ágúst og Flosi stefndu á 69, aðrir fóru Þriggjabrúahlaup. Það gerði vart við sig líffæraverkfall hjá okkar manni og fór hann því rólega í brekkuna og varð samferða Sirrý það er eftir lifði hlaups allt út að Ægisgötu. Við héldum góðu tempói, fórum niður í 5 mín. tempó á löngum kafla.
Það var þetta hefðbundna og stoppað við vatnshana á Sæbraut og drukkið. Þegar ritari kom að Ægisgötu var eins og gömul þreyta úr maraþoni gerði vart við sig og sama tilfinning og eftir 32 km í maraþoninu, eins og líkaminn myndi ekki bera mig lengra. Fór því rólega það sem eftir var. Svona getur þreytan setið lengi í manni eftir mikil átök.
Pottur þéttur og góður og sagðir margir tungumálabrandarar. Athyglisvert þegar við stóðum nokkrir andaktugir í útiklefa eftir hlaup, þögnin ríkti ein, en Kári segir upp úr eins manns hljóði: Það vantar svoldið mikið þegar Einar blómasala vantar! Hann var angurvær, tilfinningasamur og saknaðarfullur.
7.9.2009 | 21:16
Fyrsta hlaup eftir Brú
Hlauparar óskuðu dr. Jóhönnu til hamingju með frábæran árangur í Brúarhlaupi, 1:34 í hálfu maraþoni. Venju samkvæmt var fjöldi hlaupara mættur á mánudegi og virtust vera jafnmargir karlar og konur. Eldri hlauparar stóðu á Brottfararplani og undruðust þessa þróun: hvað er að gerast, spurðu menn. Enn var rifjaður upp sá tími þegar Sif Jónsdóttir langhlaupari var ein kvenna í hópi vorum og tregðaðist við að láta karlrembusvín flæma sig í burtu. En nú eru breyttir tímar og karlrembusvín fjarri hópi vorum, nú hlaupa aðeins jafnréttissinnaðir nútímamenn og fagna þeim fjölda hlaupasystra sem sópast að okkur. Sem fyrr var fjöldinn slíkur að nöfn verða eigi nefnd, nema sérstakt tilefni gefist til.
Tilefni gafst til að rifja upp velheppnaðan Fyrsta Föstudag að Jörundar. Einhver mundi eftir að Bjarni hefði hirt ritara upp á Ingólfstorgi, hent honum og reiðskjóta hans aftur í Benzinn og ekið sem leið lá vestur í bæ og heim til Jörundar. Þar var mikil veizla, matur á borðum, fram reiddur af borgfirzkum myndarskap. Slík voru herlegheitin að ónefndur blómasali fékkst ekki til að líta upp úr matardisknum sínum, heldur grúfði sig yfir hann og gúffaði sleitulítíð upp í sig gómsætan matinn. Ritari stóð við hlið Helmuts, sem fyrir vikið lenti í áfengisþoku svo mikilli að hann gleymdi hjólatösku sinni í veizlunni.
Nema hvað, nú stóðu hlauparar á Plani og hugðust taka á því. Að vísu ætluðu sumir stutt og hægt, eins og ritari, dr. Friðrik og dr. Jóhanna, en aðrir vildu spretta úr spori, heimtuðu fartleik. Má þar nefna blómasalann, Flosa og fleiri hættulega menn. Þjálfarar lofuðu sprettum í Öskjuhlíð.
Hlaup var ungt þegar eineltið hófst. Blómasalinn byrjaði að hæða ritara fyrir það að vera meiddur, nánast einfættur. Hvernig er að hlaupa á einum fæti? Síðan sneri hann sér að næsta hlaupara og fór að lofsyngja nýju fæturna frá Össuri. Hér upplýsti ritari að Önundur tréfótur hefði í Grettis sögu verið sagður fræknastur og fimastur einfættra manna á Íslandi. Blómasali gerðist fjarrænn í augntilliti, benti út á sjóinn, og sagði: Sjáið! Þarna koma skipin, færandi varninginn heim! Búið að skipta um umræðuefni þegar það hentaði ekki lengur að halda áfram. Ritari vakti athygli manna á þessari ábendingu Grettlu og velti fyrir sér hvernig menn hefðu getað dregið þessa ályktun: Var þetta kannað sérstaklega?
Hlaupahópurinn lagskiptur venju samkvæmt, en nú virtist hann skiptast í konur og karla. Við Jörundur fórum rólega enda er ritari að ná sér eftir meiðsli. Einhverra hluta vegna vorum við þó komnir á 5 mínútna tempó í Skerjafirði. Drógum uppi blómasalann, sem ku vera í fantaformi þessi missirin, og fórum jafnvel fram úr honum. Í Nauthólsvík var yfirleitt farin neðri leið í Öskjuhlíð, sumir fóru Hlíðarfót, aðrir stefndu á hæðirnar í hraðaspretti. Ritari hélt í humátt á eftir Þorvaldi, Magnúsi og Jóhönnu sem fóru Hlíðarfót. Lauk hlaupi þokkalega ánægður.
Björn á leið í Ermarsund og svo Berlínarmaraþon. Ljúf stund í potti, en stutt.
31.8.2009 | 20:39
Tímamót
Í ykkar hópi oft má sjá
yndislega skrokka,
því hann sem konur fældi frá
fæst ei til að skokka.
Samskipti milli ritara og próf. Fróða eru að nálgast frost. Þeir töluðu saman í gegnum þriðja aðila í potti dagsins. Upplýst var að búið væri að stofna félag til höfuðs ritara, og hann væri sjálfur boðinn velkominn í félagið! Lagt á ráðin um umfangsmikið einelti næstu mánuði og ár. Spurt hvort það gæti talist eðlilegt að félagi sem hefði verið árum saman í Samtökunum væri skyndilega tekinn fyrir. Virtist það ekki vefjast fyrir hlutaðeigandi, alltaf mætti búa til nýjar hefðir.
28.8.2009 | 21:45
Hlaupið á Nes, baðast, móðganir
Ritari kom í Brottfararsal fullbúinn og sá þar próf. dr. Fróða tilsýndar. Sá virtist ekki í góðu skapi. Hann var illúðlegur. Ritari, sem er þekkt góðmenni, gekk út í krók Hlaupasamtakanna í Brottfararsal og gaf sig á tal við prófessorinn. Erfitt reyndist að draga orð upp úr honum ellegar að fá einhvern botn í hvað það var sem plagaði hann. En á endanum kom í ljós að hann var kominn á þá skoðun að ritari Hlaupasamtakanna væri illmenni, gagnstætt því sem almannarómur hefur andað um til þessa. Var í þessu sambandi vísað til frásagnar af seinasta hlaupi og pottsetu og virtist hlauparinnn hafa tekið hana fullmikið inn á sig. Þar sem talað var um langhlaup, endorfín, þunglyndi og annað sem við á.
Aðrir hlauparar voru þeim mun upprifnari, þessir mættir: Helmut, Flosi, Jóhanna, Rúna, Friðrik, Sirrý, Brynja, Jörundur, Þorvaldur, Ágúst, Birgir, ritari, Þorbjörg M., Kári, Anna Birna - en enginn blómasali. Á Brottfararplani var ráðleysið allsráðandi, enginn vissi hvað ætti að gera. Álitamál hvort fara ætti Ægisíðu eða upp á Víðimel og út á Nes. Á endanum réð Jóhanna för og farið var á Nes.
Farið allhratt af stað og áður en ritari vissi af var hann kominn á tempó með Ágústi og fleirum undir fimm mínútum, án þess að skilja þörfina á þessum hraða og hafandi í huga tilmæli þjálfara um að fara rólega næstu 26 daga. Það var norðangarri og við vorum með vindinn í hliðina á þessum stað. Flosi hélt mjög vel uppi hraða og greinilegt að hann er allur að koma til sem einn af helztu hlaupurum Samtaka Vorra. Aðrir, þ. á m. þekktir eyðimerkurhlauparar, máttu hafa sig alla við að halda í við þennan aldna barnaskólakennara úr Vesturbænum.
Það var skeiðað suður úr og einhver orð höfð um sjóbað. Ekki hafði ég mikla trú á sjóbaði í þessum kulda. Nema hvað, þeir Flosi og Ágúst klífa yfir kambinn niður á sandströndina suður af Gróttu. Svo kom hver hlauparinn á fætur öðrum, háttuðu og fóru í sjó. Ekki verður farið inn á smáatriði hér en furðu eru hlauparar orðnir frjálsir af sér í sjóböðum. Vatnið var svalandi í hitum sumars og endurnærandi. Bandarískar túristakellingar hrópuðu á Birgi: Jú möst bí kreisií!
Áfram. Sumir styttu og fóru stytztu leið til Laugar vegna þess að þeir eru í prógrammi og eru að undirbúa hlaup í Berlín eða New York. Við Helmut héldum fyrir golfvöll, Flosi og Ágúst á undan okkur. Einhvers staðar á þessum grjóti lagða malarstíg verður mér fótaskortur og misstíg mig, stefnir í slæma tognun. Allt uppfullt af heimskulegum golfurum, sem verða enn heimskulegri þegar haft er í huga golfmót MP-banka, þar sem áfengi virðist hafa leikið aðalhlutverkið, með þekktum afleiðingum. Ég sé fyrir mér 3ja vikna fjarveru frá hlaupum, en hugsa svo til ráðs sem dóttir mín, ballett-dansmærin, benti mér á: lyfta fæti upp í loft og láta blóðið streyma frá skaðasvæðinu, þannig að það lokaðist ekki inni í bólgunni. Þannig lá ég á Nesi. Helmut beið á meðan. Okkur varð kalt.
Hann sagði: Þú getur ekki hlaupið svona. Ég sagði: Við getum ekki hlaupið ekki svona, okkur verður of kalt. Svo lögðum við í hann hlaupandi og við hlupum tilbaka, mér fannst ég vera einfættur, en lét mig hafa það.
Pottur ótrúlega vel mannaður, Hlaupasamtökin mynduðu hring í barnapotti. Það losnaði um málbeinið hjá prófessornum og hann fékkst til að tjá sig um andúð sína á ritara. Kom fram að hann hafði í undirbúningi stofnun félags þeirra sem berjast gegn ritara, ekki ósvipað því sem Jörundur stofnaði til baráttu gegn lúpínu og malbikuðum stígum. Þarna mætti Einar blómasali og kvaðst hafa verið upptekinn við að "fiffa til bókhaldið" svo sem áreiðanlegir menn höfðu eftir honum. Rakel dúkkaði upp, óhlaupin að því er beztu menn vissu. Menning og skemmtun flóði út um allt og fóru menn harla ánægðir til síns heima að þessu loknu.
Sumir eru enn í prógrammi, fara langt í fyrramálið, 20-35 km. En við sem erum búnir með okkar markmið í ár - við getum slakað á og horft á fóbbolta úr sófanum, drukkið öl með ef því er að skipta. Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2009 | 20:05
Þessi hópur er ótrúlegur - hvernig er þetta hægt?
Á miðvikudegi eftir maraþon er ritari enn svolítið stirður og hefur afsökun til þess að fara stutt og hægt. Aðrir eru í prógrammi, einhverjir vilja fara 20, aðrir Þriggjabrúahlaup. Þjálfarar töldu sig telja nálægt þrjátíu hlaupara á Brottfararplani, ekki þori ég að ábyrgjast talnafærni þeirra, og sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Meðal merkra hlaupara voru Jörundur, Ágúst, Magnús, dr. Friðrik, Flosi - og svo þetta venjulega lið, en þó enginn blómasali. Dr. Jóhanna komin með drengjakoll og minnti á hann Tuma sinn. Þarna var Kaupmaðurinn á Horninu, sem útleggst The Horny Grocer á útlenzkri tungu. Og fleiri og fleiri. M.a. nokkrar hortugar meyjar. Meira um það seinna.
Menn óskuðu okkur Jörundi til hamingju með maraþonið á laugardaginn, en bættu gjarnan við í vinsamlegum tóni: Þetta gengur bara betur næst hjá ykkur. Ágúst sagði að ég hefði átt að fara á undir fjórum tímum, hefði átt að fylgja gamla prógramminu hans.
Þjálfarar gáfu út mismunandi leiðbeiningar til hlaupara eftir því hvar í prógrammi þeir væru. Sumir fara í maraþon eftir mánuð, aðrir um miðjan október og svo þau fjögur sem fara í New York í byrjun nóvember. Feginn að vera búinn með þetta að sinni!
Þorvaldur fann golfkúlu á Ægisíðu og ég sagði söguna Marine Biologist úr Seinfeld. Hópurinn skiptist fljótlega upp í þrjár ef ekki fjórar deildir eftir hraða. Ég lenti með þeim Sirrý og Þorbjörgu, Rúnari og Rakel, í Hlíðarfæti. Rifjaðar upp myndir úr maraþonhlaupinu og svipurinn á ýmsum af hlaupurum okkar, Bigga, Eiríki o. fl. Ég spurði þær hvort þeim hefði ekki þótt menn svipljótir. "Svipljótir?", sagði Þorbjörg, "menn voru ekki svipljótir. Bara ljótir!" Svo mörg voru þau orð.
Jörundur hélt áfram í Þriggjabrúahlaup, enda er hann farinn að undirbúa Amsterdam-maraþon í október. Þetta er eitthvað annað en próf. Fróði, sem eyddi laugardeginum uppi í sófa og horfði á maraþon meðan félagar hans hlupu maraþon.
Hittum Benna við Laug. Hann var búinn að hlaupa tvívegis í dag. Hljóp því ekki með okkur. Var með ungum syni sínum að lauga sig. Aðspurður hvort kona hans hlypi aldrei á þessum tíma, sagði hann að kona sín væri ávallt bakvið eldavélina að baksa við kvöldmatinn um kvöldmatarleytið.
Í potti var fjölmennt. Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Sameiginlega tókumst við á hendur að greina ástand próf. Fróða, harla vel hafandi í huga grein þá er B. Símonarson, hlaupari án hlaupaskyldu, sendi okkur um daginn og fjallaði um hlaupafíkn. Hún fjallaði um menn sem liggja uppi í sófa, fullir sjálfsvorkunnar og þunglyndis, þeir eiga við vanda að stríða. Þeir hafa ofgert sér í hlaupum, eru yfirhlaupnir, og einna helzt líkir þeim sem hafa drukkið of mikið og eru komnir á botninn. Eins og menn muna er Marathon des Sables slíkra manna Hafnarstræti hlauparanna. Neðar verður vart komizt. Menn hafa sér engin markmið lengur, hættir að hlaupa, sjá ekki tilgang með því að dröslast á fætur. Áður en langt um líður eru þeir komnir með skósíða vömb og sígarettu í munnvikið. Nei, þegar svo er komið er ástæða til þess að fara að leita sér hjálpar.
Þessi greining virtist smellpassa og andmælum var ekki við komið. Bjössi sagði okkur sögu af ketti. Kári kvaðst eiga stefnumót við lambalæri. Biggi að leita að tenór í kirkjukór Neskirkju. Framundan er Brúarhlaup, daginn eftir Fyrsta Föstudag að Jörundar. Hvílíkir tímar sem við lifum á!
Pistill Ritara | Breytt 26.8.2009 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2009 | 16:12
Reykjavíkurmaraþon 2009
Í Lækjargötu hittum við Vilhjálm Bjarnason sem á yfir 20 hlaup í hálfu og ætlaði ekki að breyta til nú. Steingrimur J. ræsti og óskaði hlaupurum velfarnaðar.
Veður að mörgu leyti heppilegt til hlaupa, 12 stiga hiti, skýjað, einhver vindur á suðaustan og rigning hékk í loftinu.
Farið rólega af stað, 5:30-5:40 og því tempói haldið framan af.
Í Fossvoginum var farið að draga af mínum, verkjaði í mjaðmir. Of langt milli drykkjarstöðva, fyrst við Víkingsheimili og næsta í Skerjafirði við Skítastöð. Satt að segja hvarflaði að mér að gefast upp og hætta við Hofsvallagötu, en það kom upp í mér einhver blómasali, hugleiddi sexþúsundkallinn sem fór í hlaupið og ákvað að ég skyldi fá eitthvað fyrir minn snúð. Hitti svo Bigga, sem var búinn með sitt hálfa maraþon og var mættur til þess að hvetja og styrkja. Hann bar í mig vatn, íbúfen, orku, saltpillur og loks þegar krampar fóru að gera vart við sig í Ánanaustum fékk ég nudd á staðnum. Þetta bjargaði því að ég gat lokið hlaupi með reistan makka og kom stoltur í mark á 4:27.
Sveit Hlaupasamtakanna stóð sig vel í hlaupinu, þeir Sigurður og Snorri héldu merki Samtakanna á lofti - og blómasalinn var þriðji maður inn á 4:07. Jörundur einnig flottur á 4:22. Frekari greining á árangri hlaupara bíður betri tíma.
Frábær dagur sem lauk með veizlu að ritara, hefðbundið chili con carne, og var vel mætt, en ritari var sofnaður í sófanum þegar síðustu gestir bjuggu sig undir að fara.
19.8.2009 | 21:08
Rifjaðir upp gamlir taktar
Nú rifjaði ritari það upp að hann á enn nokkrar skinnpjötlur eftir frá þessum tímum í kössum niðri í geymslu, þar sem fyrstu pistlarnir eru geymdir. Hafði hann orð á að ástæða væri til þess að grafa upp þessar gömlu þrettándualdar frásagnir af hlaupum, þegar menn höfðu raunverulega ástæðu til þess að spretta úr spori (Sturlungaöld). Þessar frásagnir hafa legið í þagnargildi enda voru möguleikar á útbreiðslu mun takmarkaðri en nú um stundir.
Við Jörundur vorum rólegir í hlaupi dagsins og Gísli með okkur, náðum Kára við Skítastöð. Stefnt á sjósund. Í þetta skiptið var stokkið beint út af klettum og á bólakaf í svalt hafið. Við syntum síðan sem leið lá inn í víkina. Héldum svo áfram hlaupandi og stefndum á Hlíðarfót. Mættum hinum hlaupurunum sem höfðu víst tekið spretti, einhverjir vildu fara í sjóinn af rampi. En við þessir rólegu fórum afar hægt tilbaka hjá Gvuðsmönnum.
Magnaður pottur og þéttsetinn. Mikið rætt um fyrri hlaup og afrek okkar beztu hlaupara. Mæting fyrir maraþon kl. 8 við VBL.
17.8.2009 | 21:14
Hvar er þessi Fimmvörðuháls?
Gangan upp stigann meðfram Skógafossi var erfiðasti hluti gönguleiðarinnar. Veður fagurt til að byrja með, en svo byrjaði að rigna þegar klukkutími var liðinn. Fossarnir í Skógá voru augnayndi, hver öðrum glæsilegri. Nesti snætt í fallegri laut með útsýni til fossa. Ritari var með frekar hallærislega tösku á baki, sem var vel troðin og þung, og tók upp á því að opnast þegar ganga var ung: ritari fann að byrðin léttist til muna, en sá svo allt innvolsið, nærbuxur og nesti, á víð og dreif um völlu. Vakti þetta almennan hlátur, einkum Sjóvár-fólks, sem greinilega er illa innrætt og gleðst yfir óförum annarra. Ritara var nokk sama, tíndi dótið saman og tróð því niður, en Jóhanna var svo elskuleg að taka eina flíspeysu sem svarar nafninu Þorgerður (jólagjöf frá fyrrv. menntamálaráðherra til starfsmanns).
Kári var á sléttum gönguskóm og var óþarflega fallvaltur á göngunni, stóð oss ekki á sama. Þrammað ákveðið upp að Baldvinsskála. Þar hittum við fyrir blómasalann, ásamt frú Vilborgu og dætrunum Lilju og Önnu. Höfðu þau komið akandi á fjallajeppa blómasalans. Þarna var gerður stanz, en svo sneri blómasalinn við niður af fjallinu, ók sem leið lá í Þórsmörk. Við héldum áfram göngunni. Við tóku auðnir og snjóskaflar. Jörundur taldi upp fossa og fjöll. Á Morinsheiði hellirigndi. Það var Heljarkambur og það voru Kattahryggir. Ritari spurði Jörund: "Hvar er svo þessi Fimmvörðuháls?" Jörundur svaraði: "Fimmvörðuháls? Við erum löngu komnir framhjá honum."
Er komið var að Þórsmörk blasti við ægifegurð, ógnvekjandi og stórkostleg í senn. Þetta þyrftu allir Íslendingar að sjá og upplifa. Fjöll, dalir, gilskorningar, skógivaxnar hlíðar. Orð fá ekki líst þessu landslagi. Hér rigndi sleitulaust og tæplega í boði að taka nesti. Haldið áfram. Einhvers staðar er við vorum að nálgast Þórsmörk mættum við blómasalanum sem kom gangandi á móti okkur.
Þrammað í Bása. Við vorum köld og blaut, en slógum upp tjöldum og hófum að grilla kvöldmatinn. Síðan var etið við frumstæðar aðstæður og drukkinn bjór með. Fólk var þreytt svo ekki var um að ræða að vaka lengi fram eftir, menn fóru til kojs snemma og duttu sem rotaðir niður og sváfu væran til morguns.
Við Jörundur, Jóhanna og Helmut fengum okkur þriggja tíma göngutúr um Þórsmörk að morgni sunnudags eftir að hafa snætt morgunverð að hætti hússins. Þvælst um skógivaxnar hlíðar til þess komast á leið sem átti að vera til - en urðum frá að hverfa vegna breytinga sem áin hefur valdið á umhverfinu. Tókum svo rútuna úr Þórsmörkinni um tvöleytið. Velheppnaðri ferð lokið - vonandi verður framhald á ævintýrum af þessu tagi fljótlega.