Við þekkjum vatn þegar það skellur á okkur

Enn á ný var runninn upp hlaupadagur. Limir í Hlaupasamtökum Lýðveldisins mættu sprækir til hlaups. Langt á undan öllum var Flosi mættur, eins og skólastrákur ólmur að hefja fyrsta skóladag. Svo mættum við Ágúst. Ég hjálpaði honum í gegnum hliðið niður í klefa. Þetta vill vefjast fyrir fólki. Hann spurði hvernig „vélin“ vissi hvenær kortið væri útrunnið. „Hún bara veit það“ sagði ég, sem er oft einfaldasta svarið.

Blómasalinn mættur óvenjusnemma, var að raða verðmætum í geymsluhólf í Brottfararsal. Svo var farið í útiklefa. Þar voru auk okkar blómasala, Flosi, Helmut og Þorvaldur. Minniháttar erjur vegna væntanlegrar ferðar blómasala til New York.

Í Brottfararsal var fjöldi einstaklinga og mátti þar bera kennsl á dr. Friðrik, Ágúst, Jörund, Sirrý, þjálfara Rúnar, Birgi, dr. Jóhönnu, svo bættust Magga, Magnús tannlæknir og Friðrik kaupmaður við, einhverjum kann ritari að hafa gleymt.

Enn eru áformin margvísleg, þeir Berlínarfarar stefna á hlaup n.k. sunnudag, New York-farar í prógrammi. Aðrir búnir og hafa ekkert að keppa að, annað en halda sér í formi. Rólega út að Skítastöð. Þegar á Ægisíðu var komið var Biggi svo ólmur að hann æddi á undan öðrum. Senda varð mann á eftir honum til þess að hemja hann. En hjörðin ærðist og fór á 5 mín. tempói á eftir Bigga út að Skítastöð. Ekki gaman. Við blómasali þungir á okkur og stirðir vegna ofnæringar og hreyfingarleysis um nokkurra daga skeið. Rætt um landabruggun og áfengisdrykkju í Skerjafirði.

En við áttum bandamenn. Meðan aðrir ærsluðust áfram einbeittir að slá einhver met hópuðust þær að okkur Sirrý, Þorbjörg og stúlka sem heitir Jóhanna og hlýtur kenninefnið „hin síðhærða“ til aðgreiningar frá dr. Jóhönnu með drengjakollinn. Einnig var með okkur Þorvaldur og fljótlega heyrðist einkennishljóð Jörundar, sem mig vantar gott nafn á en dettur í hug „Seiglan“. Ritari hafði orð á að fara stutt, kannski Hlíðarfót, í mesta lagi Suðurhlíð. „Hvaða, hvaða!“ sagði fólk, „þú kemur náttúrlega með okkur, munar ekkert um það!“ Það fór svo að farið var yfir brúna á Kringlumýrarbraut og stefnt á Þriggjabrúahlaup.

Sem betur fer voru þreyttir og þungir hlauparar á ferð svo maður fann sér félagsskap við hæfi. Þegar komið er á Útvarpshæð er þetta nánast búið, svo er þetta bara niður á við. Hér vorum við blómasalinn orðnir einir og ræddum um matseðil helgarinnar,  hann lítur vel út. Hlupum yfir brúna vestur yfir Kringlumýrarbraut svo að þetta var alvöru þriggjabrúa. Sæbraut. Komum í Mýrargötu, þar gerðust hlutirnir. Við vorum nýbúnir að úthúða Kolaportinu, fólkinu þar, verðinu þar og óþefnum þar. Mætum strætisvagni sem sér ástæðu til þess að leggja sveig á leið sína, leita uppi poll sem var á götunni og gefa okkur væna dembu. Við rennblotnuðum og urðum illir, töldum að hér hafi verið á ferðinni bílstjóri sem öfundaði okkur af því að vera hlaupandi þegar hann þurfti að vinna.

Komum á Plan og sögðum farir okkar ekki sléttar. En vorum ánægðir að hafa farið Þriggjabrúa, þungir eins og við vorum. Í potti var töluð kínverska, þýzka, enska og íslenzka.

Góðar óskir fylgja félögum sem þreyta Berlínarmaraþon um helgina. Fylgist einkum með Bigga, hann á eftir að gera okkur stolt!



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Í samtökum Vorum takast menn á við Vambarsíkkun og Vinaleysi; en þetta er spurning um fjandmenn Reynisvatns.

Flosi Kristjánsson, 16.9.2009 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband