Rifjaðir upp gamlir taktar

Geysilegur fjöldi hlaupara mættur á Brottfararplan, þar af tveir sem stefna á heilt maraþon á laugardaginn: ritari og Jörundur. Þó nokkrir ætla í hálft. Nú skyldi farin létt upphitun, í mesta lagi Hlíðarfótur. Það hentaði ágætlega. Þarna mátti þekkja gamalkunna hlaupara eins og Gísla Ragnarsson, próf. dr. Ágúst Kvaran, Friðrik Guðbrands o.fl. Bæði Gísli og Ágúst hafa verið í fjölmiðlum að breiða út guðspjall Samtaka Vorra. Þar á meðal kom Gísli inn á upphafið, þegar Ingólfur fór að spretta úr spori úr Kvosinni og inn að Rauðará. Þetta varð tilefni snjallra kafla á Sólrúnarbraut um hlaupara fyrri tíma, svo sem Gunnar nokkurn Hámundarson úr Rangárþingi, sem var snjall piltur og hraustur, en óheppinn með kvenfólkið sitt.

Nú rifjaði ritari það upp að hann á enn nokkrar skinnpjötlur eftir frá þessum tímum í kössum niðri í geymslu, þar sem fyrstu pistlarnir eru geymdir. Hafði hann orð á að ástæða væri til þess að grafa upp þessar gömlu þrettándualdar frásagnir af hlaupum, þegar menn höfðu raunverulega ástæðu til þess að spretta úr spori (Sturlungaöld). Þessar frásagnir hafa legið í þagnargildi enda voru möguleikar á útbreiðslu mun takmarkaðri en nú um stundir.

Við Jörundur vorum rólegir í hlaupi dagsins og Gísli með okkur, náðum Kára við Skítastöð. Stefnt á sjósund. Í þetta skiptið var stokkið beint út af klettum og á bólakaf í svalt hafið. Við syntum síðan sem leið lá inn í víkina. Héldum svo áfram hlaupandi og stefndum á Hlíðarfót. Mættum hinum hlaupurunum sem höfðu víst tekið spretti, einhverjir vildu fara í sjóinn af rampi. En við þessir rólegu fórum afar hægt tilbaka hjá Gvuðsmönnum.

Magnaður pottur og þéttsetinn.  Mikið rætt um fyrri hlaup og afrek okkar beztu hlaupara. Mæting fyrir maraþon kl. 8 við VBL.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

VBL ?

Kári Harðarson, 20.8.2009 kl. 09:26

2 identicon

VesturBæjarLaug eða VorBæjarLaug.

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 19:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband