Einelti snúið við

Ágúst er væn sál inn við beinið. Það sást í hlaupi kvöldsins. Svo var mál með vexti að nokkrir hlauparar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins komu saman til þess að hlaupa saman eina þingmannaleið eða svo. Einhverjir í hvíldarprógrammi fyrir Berlínarmaraþon. Aðrir að trappa upp fyrir New York. Svo þessir sem eru búnir með prógramm ársins og vita eiginlega ekki af hverju þeir eru að mæta til hlaups, hafa ekki að neinu að stefna.

Ritari tók Sigurð Ingvarsson tali og mærði hann fyrir góða frammistöðu í Brúarhlaupi, en Sigurður vann sinn aldursflokk. Prófessorinn gerði sem  minnst úr afreki sínu og sagði tímann ekki neitt til að hreykja sér af. Hér kom ég auga á Ágúst og fór að ræða um vatnsbrúsa við hann, af hverju hann væri með stóran vatnsbrúsa, er verið að fara í eyðimerkurhlaup? Nei, það á að venja brúsann við hlaup.

Einhverra hluta vegna hafði Rúnar falið Birgi að reyna að hafa vit fyrir hópnum og það lagðist nú svona alla vega í mannskapinn. Þegar jóginn flutti tölu sína af tröppum Laugar Vorrar stóð dr. Jóhanna fyrir aftan hann og gretti sig herfilega. Engu að síður náði Biggi að leggja einhvers konar leiðbeiningar fyrir hópinn og var að því búnu lagt í hann, í mildu veðri, einhver vindur og rigningarlegt.

Ég hljóp með fremstu mönnum framan af, m.a. með Ágústi. Áttum við vinsamlegt spjall lengi framan af, en þegar komið var í Skerjafjörðinn hafði fólið í hnakkanum á mér vaknað af sætum blundi og var byrjað að hæða prófessorinn. Hann fann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, fyrtist við og sagði með þjósti: Hva, var það ekki ég sem átti að vera með þig í einelti?

Allt var þetta í góðlátlegu gríni og ljóst að meint úlfúð risti grunnt og var eiginlega gleymd. Tempó allhratt hér, eða um 5:20 að sögn dr. Jóhönnu. Þannig út að Kringlumýrarbraut, þar sneru Biggi, Ósk og Hjálmar við, aðrir fóru yfir brúna. Ágúst og Flosi stefndu á 69, aðrir fóru Þriggjabrúahlaup. Það gerði vart við sig líffæraverkfall hjá okkar manni og fór hann því rólega í brekkuna og varð samferða Sirrý það er eftir lifði hlaups allt út að Ægisgötu. Við héldum góðu tempói, fórum niður í 5 mín. tempó á löngum kafla.

Það var þetta hefðbundna og stoppað við vatnshana á Sæbraut og drukkið. Þegar ritari kom að Ægisgötu var eins og gömul þreyta úr maraþoni gerði vart við sig og sama tilfinning og eftir 32 km í maraþoninu, eins og líkaminn myndi ekki bera mig lengra. Fór því rólega það sem eftir var. Svona getur þreytan setið lengi í manni eftir mikil átök.

Pottur þéttur og góður og sagðir margir tungumálabrandarar. Athyglisvert þegar við stóðum nokkrir andaktugir í útiklefa eftir hlaup, þögnin ríkti ein, en Kári segir upp úr eins manns hljóði: Það vantar svoldið mikið þegar Einar blómasala vantar! Hann var angurvær, tilfinningasamur og saknaðarfullur.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband