Hlaupasamtök Lýðveldisins - þar sem einelti er listgrein

Það var fámennt í dag í roki. Dr. Jóhanna með meiningar um hlaupaleið og fleira aktívitet. Er komið var í Brottfararsal blasti við dapurleg sjón: Gústi gamli búinn að stífla móttökuna með endalausu veseni og fólk farið að tvístíga að baki honum. Það liðu einar tuttugu mínútur áður en hann vék frá og hleypti öðrum að. Þá hringdi síminn hjá honum og við tóku aðrar tuttugu mínútur af kjaftagangi. Á meðan stóðum við félagar hans og biðum. Þetta voru Flosi, ritari, Denni skransali, dr. Jóhanna, Brynja, Kári og Einar blómasali. Spurt var hvar Helmut væri, en ekki vitað um afdrif hans.

Loks þegar við vorum búin að bíða lengi og langt var liðið á dag þóknaðist Ágústi að hafa sig upp úr kjallaranum og sameinast okkur. Jóhanna tók af skarið og lagði í hann, við á eftir. Strikið tekið upp á Víðimel og þaðan út á Nes. Við vorum bara róleg, enda ekki að neinu að stefna lengur, nema einna helzt hjá Jóhönnu. Flosi og Ágúst á undan öðrum. Þeir drifu sig niður á strönd við Seltjörn. Þar var farið af fötum, við Kári og Jóhanna á eftir. Það var brim, þari og mikill öldugangur.

Þarna gerðust ævintýrin. Þarinn þvældist um okkur öll og gerði okkur erfitt um vik í sjónum, svo skullu öldurnar á okkur og felldu okkur svo erfitt var að synda. Raunar voru öldur svo háar að þær hentu okkur niður og Jóhanna skoppaði eins og korktappi í fjöruborðinu og snerist hring í fjöruborðinu, var leiksoppur í höndum náttúruaflanna. Hvarflaði að okkur að við þyrftum að fara að synda á eftir henni. Allt fór þetta þó vel á endanum og allir skiluðu sér heilu og höldnu í land.

Einar blómasali stóð á landi uppi og var stoltur á svip er hann ígrundaði að helztu vinir hans væru hetjur og karlmenni. Denni var gáttaður. Þótt hann búi á Nesi hefur hann aldrei áður séð viðlíka framgöngu í miðju hlaupi. Það dreif að múg og margmenni að fylgjast með hetjuskapnum. Við vorum hins vegar hógværðin uppmáluð og klæddumst að nýju. Sumir héldu áfram um golfvöll, en við Kári og blómasalinn fórum stytztu leið tilbaka.

Jörundur mætti í pott, fór 18 km í morgun og var í veizlu. Einnig mætti Anna Birna. Einelti var mönnum ofarlega í huga og var leitast við að skilgreina fyrirbærið. Einelti mun vera útbreitt í hlaupahópum og Hlaupasamtökin engin undantekning þar á. Munurinn er hins vegar sá að í Hlaupasamtökunum, eins og Jörundur benti á, er eineltið listgrein. Þetta sagði hann af djúpri  speki og andakt. Hér viðhafði Denni, þessi aðkomumaður í hópi vorum, óviðurkvæmileg ummæli um ritara, eitthvað um skósíða ístru. Þá hló Ágúst og bað um meira af hinu sama. Hann spurðí hvort það væri einelti að tala ekki við ákveðna hlaupara út af leiðindum. Jú, það er einelti að hunza.

Framundan eru tímar hóglífis, hæversku og hægferðar. Viðbúið að sumir hlaupi í spik og verði hægir á sér. Það er allt í lagi, enda vetur framundan.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband