16.10.2009 | 20:40
Hvílíkur hópur! Hvílíkur þokki!
Mættir þessir: Denni skransali, próf. dr. Ágúst, próf. dr. S. Ingvarsson, dr. Friðrik, Kári, Biggi, Bjössi, dr. Jóhanna, Flosi, Ólafur ritari, Eiríkur, Þorvaldur og líklega ekki fleiri. Glæsilegur hópur sem gaf lítið fyrir veðrið, enda var ekkert að því, dálítill mótvindur á Ægisíðunni og út í Nauthólsvík, eftir það var þetta bara dans. Hiti 12 stig, en rigningarlegt og dimmt, nú þurfa menn að fara að vera í endurskinsvestum. Farið út á rólegu nótunum. Biggi kvartaði yfir lélegri þátttöku í ókeypis jóga sem hann auglýsti um daginn, ekki einu sinni blómasalinn hefði mætt! Líklega myndi hann rukka jógann um þúsundkall fyrir tvo glataða jógatíma meðan hann er í New York.
Fljótlega kom þó metnaður manna í ljós. Flosi fór fyrir djarfhuga flokki og var hraður þegar í byrjun. Kári var ansi frískur og er allur að koma til. Biggi var hávaðasamur og hvarflaði að sumum að útvega þyrfti ódýr eyrnaskjól mönnum til verndar, alla vega var haft orð á að það þyrfti að gera eitthvað í málunum, jafnvel láta útvega einhver lyf hjá góðu fólki. Sú hugmynd kom upp að stefna að maraþoni í Færeyjum árið 2011, sem mun falla saman við Ólafsvöku. Þá er hægt að hlaupa og svo er dansur attaní og má dansa nóttina í gegn, Biggi nefndi einhver 86 erindi sem þeir Eiríkur hefðu sungið á gamalli Ólafsvöku og allir löngu farnir heim að sofa áður en yfir lauk.
Biggi átti erindi við kór Neskirkju og vildi ekki hlaupa alla leið. Seinna kom í ljós að hann stytti, Þorvaldur, Denni og Kári fóru eitthvað styttra en aðrir, Hliðarfót og Klambratún eða eitthvað álíka, og líklega Laugaveg eftir það. Við hinir fórum á fullu blússi út í Nauthólsvík, hefðbundið upp Hi-Lux, Veðurstofu, Hliðar og niður á Sæbraut. Það var góður hraði á okkur og enn var Flosi fremstur, virtist bara eflast við rólegheitin í okkur hinum. Ég gaf eftir í Hlíðum, óttaðist að lenda í meiðslum ef ég væri að djöflast of mikið núna.
Það var allt í lagi. Góður fílíngur á Sæbraut og bara afslappað. Teygt við Laug. Hittum Bigga sem kvaðst hafa snúið tilbaka með Svínaflensu. Verði honum að því! Í potti var rætt mikið um fornsögur og sögur Halldórs Laxness, vitnað, tilvitnanir. Gísla saga Súrssonar, Grettla. Kári fór fram á að menn hættu hetjudýrkun fornaldar til þess að drepa niður dýrkun útrásarvíkinga nútímans. Það var eðlilega rætt um matreiðslu af ýmsu tagi, taílenskan mat, indverskan mat, humarsúpu, en áberandi lítið um áfengi.
Næst er hlaupið í fyrramálið, kl. 9:30.
14.10.2009 | 21:10
Í dag hlupu engir sólskinshlauparar
Nú er þetta eiginlega búið og ekkert eftir, nema hjá þeim fjórum sem fara til New York, og svo hjá Jörundi, sem fer til Amsterdam á föstudag, og hleypur á sunnudag. Það mátti raunverulega velja sér heppilega vegalengd og heppilegt tempó. Hiti um 10 stig, en vindur stífur á suð-suðaustan. Ekki beint uppáhaldsveðrið til hlaupa.
Farið hægt af stað og stefndu flestir á Þriggjabrúahlaup. Við Jörundur vorum hins vegar skynsamir og vildum fara stutt, Hlíðarfót. Okkur tókst að tala Þorbjargirnar tvær inn á að fylgja okkur og áttum langt spjall við þær um inntak hjónabandsins. Þá voru talin upp ekki færri en átta pör sem hlaupa með Hlaupasamtökunum. Einnig gátum við skemmt þeim með brandörum sem Maggi sagði okkur og hafði lært á sóknarnefndarfundum, m.a. um IKEA-sérfræðinginn sem var inni í skáp að bíða eftir strætó.
Hlaup var gott, við vorum góð, það var erfitt og leiðinlegt að hlaupa í mótvindinum, en þetta lagaðist við Öskjuhlíðina, þá fengum við bakvind, þá gáfum við í og vorum komin á tempóið 5:11 á Hringbraut. Enduðum með 8,4 km við Laug.
Umræður í potti snerist um samgöngur, Berlín, New York, bjórdrykkju (nema hvað?) og afmælisárið 2010, en þá fylla Hlaupasamtökin 25. árið. Upp á það verður að halda. Tillaga um hlaup og bjórdrykkju í Suður-Þýzkalandi, Frikki lagði til bara bjórdrykkju, en var kveðinn í (bjór)kútinn, því að vitanlega þyrfti að vinna upp góðan þorsta áður en menn fara að njóta hins gullna mjaðar. Hvað sem öðru líður þurfum við bara að gæta þess að vera 2 mán. á undan Neskvikk. (Það sást til tveggja óhlaupinna í Laug og er oss rétt og skylt að halda nöfnum þeirra til skila: Magnús og Biggi.)
Er gengið var út stóð þar próf. dr. Ágúst og hafði lagt að baki 24 km. rúma, farið upp að Sundlaug og tilbaka 69. Sagði hann teningunum kastað, hér eftir yrði ekki farið styttra á miðvikudögum. Maðurinn er brjálaður, vill einhver hjálpa honum? Næst hlaup á föstudag.
8.10.2009 | 10:33
Það var hlaupið
Þar sem ritari er í New York skrái ég í hans stað.
Í gær, miðvikudag, hljóp stór hópur frá laug. Sennilega voru mættir 30 manns, of margir til að nefna.
Ég var í hópi öftustu manna eins og venjulega, hljóp með Friðriki aftasta (ekki Friðriki fyrsta frá Melabúð) og Gunnhildi sem er að hugsa um að setjast hér að, nýkomin heim frá Malasíu. Einnig hljóp með okkur Guðmundur heimilislæknir og kórfélagi minn úr Hamrahlíð.
Með okkur var önnur kona, gift starfsmanni í Framsóknarflokknum. Hún hélt hópinn mjög tímabundið en leiddist svo biðin og skeiðaði fram úr okkur í Nauthólsvík. Við tókum Hlíðarfót aftur til laugar en mig grunar að margir hafi farið þriggja brúa hlaup.
Veðrið var ágætt, hæg austanátt en kalt, 1 stigs hiti.
Með bestu kveðju, Kári
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2009 | 20:50
Fyrsti snjórinn
Þjálfari var leyndardómsfullur þegar hann sagði að það ætti að taka brekkuspretti í Öskjuhlíðinni, en greinilegt var að eitthvað annarlegt bjó undir. Lagt í hann. Það átti að fara rólega. Enginn tók mark á því, það var farið á 5 mín. tempói inn í Nauthólsvík, blómasalinn í forystu og hefur ekki hlaupið af þvílíkum krafti lengi, hann minnti einna helzt á fjögurra vetra vakran fola. Frikki Meló mátti hafa sig allan við að hanga í honum. Við hinir, helztu drengirnir á eftir, ritari, Flosi, próf. Fróði, próf. dr. Keldensis og Bjössi. Bjössi og Fróði voru á stuttbuxum og virtist heldur kalt.
Á daginn kom að Rúnar var greinilega búinn að lesa einhvern undarlegan hlaupalitteratúr, miðað við æfingarnar sem við vorum látin gera austan við HR-bygginguna, sem betur fer var þetta í vari og ekki margir sem hafa séð herlegheitin. Ekki verður hér gerð nánari grein fyrir þeim af virðingu fyrir viðstöddum og orðspori þeirra. Nú var farið upp í brekku og teknir 5-8 sprettir allt eftir því hver taldi. Þarna hlunkaðist maður upp og niður eins og meðalbúttuð húsmóðir og blés vart úr nös. Prófessor Fróði neitaði að fara fleiri en fimm spretti og varð það niðurstaðan að halda áfram hefðbundinn föstudag, með í för Bjössi, Einar og Guðmundur sterki.
Fátt markvert á heimleiðinni annað en að það byrjaði að snjóa. Við Einar töldum laus búðarpláss á Laugaveginum og kom í ljós að þau eru aðeins 15, hefur fækkað um helming síðan síðast var talið. Gríðarlegur sprettur niður Bankastrætið. "Sástu þetta?" spurði Einar. "Sástu kraftinn?" Ég sagðist telja að þetta hafi verið þyngdarkrafturinn að verki, enginn annar kraftur. Farið á hægu tölti til Laugar.
Geysilega vel mannaður pottur og margt rætt af djúpri speki. Nú fór að snjóa fyrir alvöru og um leið fór vatnið í pottinum að hitna verulega svo að sauð upp úr. Rætt um eins árs "afmæli" kreppunnar. Langt á miðvikudag, ekki styttra en 26 km.
4.10.2009 | 14:08
Hátíðlegt á sunnudegi
Á sunnudögum mæta prúðbúnir menn til hlaupa í Brottfararsal. hátíðlegir í fasi og prúðir. Sunnudagar eru óneitanlega sérstakir og var þessi engin undantekning á því. Ritari mætti snemma til þess að skella sér í pott og mýkja upp stirða vöðva eftir 22 km hlaup gærdagsins. En það skyldi sprett úr spori aftur í dag. Er ég kom til búningsklefa var þar mættur frændi minn, Ó. Þorsteinsson, einnig mættur snemma og gat vart hamið hlaupagleðina. Einnig mættur Þorvaldur Gunnlaugsson. Við tökum til við að undirbúa brottför og vildum gefa eftirlegukindum tækifæri til það sameinast okkur og bjuggumst við mönnum eins og Magga eða Jörundi. En hver kemur á síðustu stundu, þegar klukkuna vantar 2 mínútur í hlaup, nema Einar blómasali? Það er merkilegt hvað menn eru reiðubúnir að afsaka þann mann og óstundvísi hans lengi, ég hef margoft sagt að hann muni ekki læra á klukku fyrr en hann sér á eftir okkur leggja af stað í hlaup án hans. Nei, nei, það má ekki, þetta er nú einu sinni blómasalinn!
Lagt af stað og var minn maður stirður. Á sunnudögum ræður frásagnargleðin ríkjum, bannað er að ræða um peninga og hrun, en minnt var á að við erum nú búin að hlusta á barlóminn í eitt ár og er mál að linni. Þess í stað var rætt um persónur, ættfræði, viðburði og ýmislegt sögulegt. Sunnudagar eru sérstakir í starfsemi Samtaka vorra, það er nánast eins og að fara í kirkju og mönnum líður eins og hreinsuðum hundum á eftir. Eðlilega var um margt að ræða, ekki sízt áskriftahrun Dödens avis sem sumum finnst vera meira feimnismál en kynhneigð eða innkaup í Bónus.
Fyrsta stopp í Nauthólsvík eins og hefðin býður. Ég var feginn stoppinu því það gaf kærkomið hlé fyrir stirðan skrokk. Svo áfram í kirkjugarð. Ég upplýsti félaga mína um það að Brynleifur Tobíasson menntaskólakennari sem þar hvílir hafi verið í hópi þeirra sem tóku á móti Stephani G. Stephanssyni þegar hann kom til Akureyrar 1917.
Á Klambratúni rauk kona upp um hálsinn á blómasalanum og sáum við hann ekki aftur fyrr en á Hofsvallagötu. Áfram niður á Sæbraut og tilbaka, en stoppað nokkuð oft á leiðinni, um margt var að ræða. Á Mýrargötu rákumst við á Gunnar Gunnarsson útvarpsmann, það kallaði á stutt spjall.
Í pott mættu þeir Baldur Símonarson, Jörundur og Einar Gunnar Pétursson, auk Helgu Jónsdóttur Zoega Gröndal og St. Sigurðssonar verkfræðings. Umræðuefni morgunsins fóru í endurvinnslu og gerð enn betri skil en um morguninn. Einar Gunnar upplýsti að hann ráðgerði að fara að lesa ævisögu Jóns Sigurðssonar eftir Pál Eggert - var honum ráðið frá því og þótti vinarbragð.
Næsta hlaup mánudag kl. 17:30 - sprettir.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2009 | 17:36
Hlaupið í hauststillum
En í dag tók við alvara lífsins. Hópur hlaupara fór frá Vesturbæjarlaug kl. 9:30, en áður voru Rúna og Jóhanna farnar í langhlaup, toppað fyrir New York, 30 km. En hér voru mætt: Rúnar, Margrét, Þorbjörg K., tveir Finnar og Ólafur ritari. Svo bættust tvær sprækar dömur í hópinn, mér skilst þær heiti Jóhanna og Gerða. Veður gerist ekki betra á haustum, 4 stiga hiti, sól og stillt. Lagt upp á hægu tölti.
Ritari fór fyrir hópnum með reistan makka. Það var góð tilfinning að vera á stígum úti á þessum fagra, svala morgni og eiga náttúruupplifun í vændum. Nú gerist það að um það bil sem hópurinn er að ná mér í Nauthólsvík verður á vegi okkar stórfrændi minn og vinur, Ól. Þorsteinsson Víkingur. Var hann á sinni hefðbundnu laugardagsrúndu og tók marga tali á leiðinni. Hann stöðvaði mig og ég leyfði þeim hinum að fara fram úr. Við þurftum að ræða marga hluti, þennan helztan: 96 ára samfelldri áskriftarsögu þriggja kynslóða í beinan karllegg að Dödens avis lauk fyrir skemmstu. Viðbrögð tíðindablaðsins voru þau að senda örvæntingarfullt hótunarbréf til áskrifanda, sem verður svarað af festu á næstu dögum.
Á móti okkur kom Jörundur stórhlaupari sem þreytir Amsterdam-maraþon eftir 2 vikur og fara á fullri ferð, eftir ekki færri en 20 km að því er virtist. Hann tók stóran sveig framhjá okkur og yggldi sig ægilega framan í okkur, gvuð má vita hvers vegna.
Ég fór áfram í Fossvoginn með Þorbjörgu, þau hin voru löngu horfin. Við héldum kompaní inn að Breiðholtsbraut, þá sneri hún við en ég hélt áfram upp að Stíbblu. Það var einstök tilfinning að fara þennan hluta leiðarinnar, áin, hólminn, gróðurinn, fossinn - engu líkt! Hvílík forréttindi að eiga þess kost að hlaupa á laugardagsmorgni á þessari leið! Mér varð hugsað til allra vina minna sem lágu heima undir fiðri og misstu af herlegheitunum.
Nóg af orkudrykk með í för og ég staldraði við á stíflunni og horfði yfir sköpunarverkið. Áfram niður úr. Að þessu sinni var ritari í góðu formi og vel upplagður fyrir langhlaup. Það var farið niður hjá Rafveituheimili, yfir árnar, og stefnan sett á Laugardalinn. Svo hefðbundið niður á Sæbraut, þar sem ég mætti Krumma, bekkjarfélaga úr Reykjavíkur Lærða Skóla, á reiðhjóli. Hann er orðinn hjólreiðafantur á gamals aldri, en við vorum báðir í samtökum á menntaskólaárunum sem helguðu sig baráttunni GEGN íþróttabölinu!
Hlaupið gekk vel fyrir sig og var líðan góð að því loknu. Setið í potti og svo kom dr. Jóhanna hafandi hlaupið 30 km með Rúnu. Enn og aftur fylltist maður vorkunn í garð félaga sinna, sem misstu af þessu góða hlaupi á frábærum degi í hauststillu.
Nýtt hlaup að morgni, 10:10. Vel mætt!
30.9.2009 | 21:19
Hlaupasamtökin - þar sem mannúðin ríkir ofar hverri kröfu
Mætt til hlaups á Brottfararplani: dr. Friðrik, Þorvaldur, Magnús, Flosi, Kári, Margrét, dr. Jóhanna, Helmut, Ólafur ritari, Sirrý, Birgir, Hjálmar og Ósk, S. Ingvarsson og Friðrik kaupmaður bættust við síðar. Svo voru fleiri hlauparar, tvær ungar konur og einn karlmaður, sem mig vantar nöfnin á. Mér finnst að hlauparar þurfi að sanna sig áður en þeir eru nafngreindir í pistlum nema þeir geri sig seka um áreitni við ritara, eins og t.d. Sirrý, þá rata nöfn þeirra í frásagnir, illu heilli. Rúnar var á svæðinu, en stefndi ekki á hlaup sökum ómegðar.
Eftir því var tekið að ákveðinn hlaupara vantaði, sem þó hafði gefið út stórbrotnar yfirlýsingar um langhlaup um Goldfinger og Laug, ekki styttra en 26 km. Þá vantaði líka ónefndan blómasala. Munu þeir hafa haft keimlíkar "afsakanir" fyrir fjarvist sinni.
Miðvikudagar þýðir bara eitt: langt. Sumir telja að Þriggjabrúahlaup sé langt. Við vorum nokkrir sem stefndum á aðeins lengra, Flosi, Kári, Ólafur ritari og Friðrik. Úr því Ágúst var ekki á svæðinu var óþarfi að vera að djöfla sér út í alltof löngu, svo að við ákváðum að fara Stokk. Veður var gott, þótt kalt væri, nánast logn og þurrt. Við langhlauparar fórum á tempói sem hentaði Kára, í kringum 6 mín. Aðrir hurfu þegar á Ægisíðunni og við sáum þá ekki meira, fyrr en í Laug.
Hér kemur mannúðin inn. Mér varð hugsað til þess hvað við Flosi værum nú góðir menn að snúast svona kringum Kára og lá við að ég tárfelldi yfir eigin manngæzku. Þorvaldur og einhverjir fóru Hlíðarfót, Magnús og dr. Friðrik voru langt að baki og er ekki vitað um afdrif þeirra, en sumir telja að þeir hafi farið Aumingja. En við Flosi héldum áfram með Kára og Friðrik Meló var á sveimi eins og býfluga í kringum okkur, fór fram og tilbaka. Við mættum Þorvaldi bróður eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut, hann var í hópi Laugaskokkara.
Haldið áfram í Fossvoginn og enn á sama hæga tempói. Sigurður löngu horfinn. Við yfir á Hólmann í Elliðaánum og tilbaka undir Breiðholtsbraut. Hér skildu leiðir, við Kári fórum Stokkinn, Flosi og Frikki stefndu á Laugardalinn. Stokkurinn tekur skemmtilega á móti manni og reynir á að fara upp á Réttarholtið, sem einu sinni voru yztu mörk tilverunnar hjá þessum hlaupara. Það voru drykkir með í för og gott að svala sér á ísköldum orkudrykk.
Við bættum í á bakaleiðinni og tókum jafnvel spretti á köflum. Þetta var meiriháttar hlaup, uppfullt af náungakærleika og mannúð. Þetta varð mér ekki ljóst fyrr en ég sat í potti og Sirrý hafði orð á því hvað ég væri góður maður að fylgja Kára heila 16 km. Ég bað hana þess lengstra bæna að segja engum frá þessu og eyðileggja ekki mitt vonda rykti í Hlaupasamtökunum. Í pott mætt sjálfur dr. Einar Gunnar og spurði hvað væri títt. Ég kvaðst vera einkar illa informeraður þar sem ég hefði ekki mætt í sunnudagshlaup í margar vikur og því ekki notið góðs af Reuter og persónufræðum. Sagði hann sömu sögu af sjálfum sér. Er ég fór upp úr var Flosi að koma tilbaka eftir 24 km hlaup - Frikki úti á Plani eftir 29 km. Þetta eru naglar.
Upplýst að næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur. Dauða Ljónið.
29.9.2009 | 05:55
Hauströkkrið yfir mér
En svo var það ekki mikið meira. Þeir Kári og Einar blómasali sprungu báðir stuttu síðar og gáfust upp, fóru Hlíðarfót eða eitthvað álíka. Ritari hélt hins vegar áfram óbugaður og gekk allvel að halda í við frambærilega hlaupara. Þó er rannsóknarefni af hverju maður endar alltaf með sömu hlaupafélögunum.
Endað austan við brúna yfir Kringlumýrarbraut, snúið við og teknir sprettir tilbaka. Tekið vel á því. Það er gaman að spretta hressilega úr spori og finna að maður ræður vel við þetta. Betra að eyða orkunni í sprettina og lulla svo á hægu tempói tilbaka. Við flugvöll ákvað Margrét að lengja síðasta sprettinn út að Skítastöð þótt síðasta mínútan væri komin. Þetta kom skrokknum á óvart.
Næsta miðvikudag verður farið langt, rætt um 24 km, um Goldfinger og upp að Laug. Aðspurður sagðist Ágúst ekki vita hvers vegna þetta væri planið.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 21:22
Djarfhuga flokkur, Ljóma slær
Mánudagar eru erfiðir. Þá er ekki mikil löngun til að fara út að hlaupa. Engu að síður er það staðreynd að aldrei koma fleiri til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins en einmitt á mánudögum. Þetta er líklega einhver katólska sem blundar í hnakkanum á fólki, verið að endurheimta heilagleikann eftir sukk helgarinnar. Af þessari ástæðu verða engir nefndir á nafn sem mættu, nema eftir því sem lögmál frásagnarinnar kalla á slíkt.
Magga þjálfari var mætt. Þarna stóðu menn eins og barðir þrælar á Plani og þorðu sig hvergi að hræra, búið að temja þá svo vel að allt frumkvæði og frjálsræði vantaði. Það var beðið eftir að þjálfarinn tæki af skarið. Þjálfari tók til máls og mæltist sköruglega, það skyldi farið út á Nes og í brekkuhlaup, Bakkavarir. Það er langt síðan við höfum verið í Bakkavörinni.
Upp á Hringbraut og svo vesturúr, nema hvað Helmut og Jóhanna fóru 69. Það var farið á góðu stími og ritari varð áheyrzla að harla fáfengilegu hjali kvenna að baki sér, þar sem þær hældust um á hæl og hnakka yfir eigin þroska og ágæti. Afar fátítt er að heyra konur tala svona og hafði ég orð á þessu við Þorvald. Hann eyddi talinu og gaf í.
Í Bakkavör var tekið á því, farnir 8 sprettir. Þar skaut upp kollinum fjallaleiðsögumaðurinn Jón Gauti, en hann fór aðeins fáeina spretti, svo var hann horfinn jafnfljótt og hann birtist. Þarna mátti sjá Jörund fara upp og niður brekkuna eins og ekkert væri, og þannig mætti áfram telja. Ung og spræk fljóð voru inn á milli. En þegar upp var staðið voru aðeins þrír karlar eftir uppistandandi: S. Ingvarsson, Flosi og ritari. En við vorum umvafðir heilu stóði af kvenfólki. Upp úr þessu varð til frasi sem ekki verður hafður eftir.
Hér hófst ævintýrið. Fólk var óvenjusprækt eftir brekkusprettina og einhver gaf tóninn fyrir hlaupið tilbaka. Áður en nokkur vissi af var hersingin komin á fulla ferð eftir Norðurströnd og heyrðist talan 4:40 nefnd. Fremstir fóru þeir Flosi og prófessorinn, ég hljóp með stelpunum.
Hreint óviðjafnanleg tilfinning að koma tilbaka á Plan að loknu hlaupi og var teygt og spjallað samkvæmt hefð. Magnús var mættur og hafði farið ótilgreinda vegalengd. Persónufræði í potti.
20.9.2009 | 14:23
Tímar í Berlín
Birgir Jóakimsson, 3:42:47
Dr. Björn Guðmundsson, 3:55:58
Hjálmar Sveinsson, 3:50:47
Ósk Vilhjálmsdóttir 3:33:37.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)