Tímamót

Þar sem ritari situr í potti og vorkennir sjálfum sér sakir ökklameiðsla flykkjast glaðir og reifir hlauparar í pott. Fyrstu fréttir eru að tímamót hafi orðið í samanlagðri sögu Samtaka Vorra í hlaupi dagsins: fleiri konur en karlar hlupu. Var rifjað upp þegar Sif Jónsdóttir var ein kvenna í Hlaupasamtökunum og þráaðist við að gefast upp. Vildu elztu menn meina að hér áður fyrr hafi kvennaflóra Samtakanna staðið í miklum blóma, en ónefndur ofbeldis- og kennslufræðingur hefði haft sig svo í frammi af karlmennskulund að konur hefðu hrunið af hópnum. Var það öllum félögum undrunarefni, einkum téðum uppeldisfræðingi, að konur hefðu gerzt svo fráhverfar jafnágætum söfnuði afbragðseinstaklinga. Þeirri kenningu var ýtt á flot að farið hafi að fjölga í hópi kvenna á ný eftir að framangreindur félagi hóf nýjan starfsferil í fjarlægu sveitarfélagi. Varpaði Skerjafjarðarskáld fram vísu af þessu tilefni:

Í ykkar hópi oft má sjá
yndislega skrokka,
því hann sem konur fældi frá
fæst ei til að skokka.

Samskipti milli ritara og próf. Fróða eru að nálgast frost. Þeir töluðu saman í gegnum þriðja aðila í potti dagsins. Upplýst var að búið væri að stofna félag til höfuðs ritara, og hann væri sjálfur boðinn velkominn í félagið! Lagt á ráðin um umfangsmikið einelti næstu mánuði og ár. Spurt hvort það gæti talist eðlilegt að félagi sem hefði verið árum saman í Samtökunum væri skyndilega tekinn fyrir. Virtist það ekki vefjast fyrir hlutaðeigandi, alltaf mætti búa til nýjar hefðir.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Það er synd hvernig samskiptin eru orðin.   Ágúst sem var svo hægur og hlýr.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/09/02/agust_var_haegur_og_hlyr/

Kári Harðarson, 2.9.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband