Feitur hlaupari hleypur langt

Vorkomunni er frestað um sinn. Í dag blésu norðanvindar og það var kalt. En hörðustu hlauparar mættu engu að síður til hlaupa eins og þeirra var von og vísa. Þetta voru: próf. dr. Fróði, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Flosi, Maggi, Helmut, Maggie, Einar blómasali, Snorri, Haraldur, Heiðar, Hjálmar, skrifari og Benz. Teknar myndir af hópnum í Brottfararsal og höfðu menn á orði að tímabært væri að skipta um mynd á bloggsíðu Samtaka Vorra þar eð á myndinni sem nú prýðir síðuna er að finna fólk sem hefur ekki sést lengi að hlaupum. 

Áhugi á löngu, ekki styttra en Stokki. Framvarðarsveit með eigið prógramm, en við dauðlegir lögðum upp á hógværu tempói. Það var gorgeir í feitlögnum hlaupara sem stillti sér upp með fremsta fólki og taldi sig greinilega eiga eitthvert erindi í þann hóp. Það entist ekki lengi. Helmut hélt áfram að elta prófessorinn eins og honum væri borgað fyrir það.

Í Nauthólsvík stoppaði Frikki kaupmaður hópinn og tekin var kyrrðarstund. Maggi, Þorvaldur og Benzinn beygðu af og fóru Hlíðarfót. Við hinir áfram. Eftir brú beygði Helmut upp Boggabrekku og skrifari hafði hugsað sér sama leik. En hér voru gerð slík hróp að honum af hálfu ónefndra hlaupara annarra að hann sá sér ekki annað fært en halda áfram í Fossvoginn. Með í för voru prófessorinn, blómasalinn, barnakennarinn og Maggie. Framvarðarsveitin löngu komin í dalinn og mættum við þeim raunar þegar þau voru á heimleið en við á leið austur úr.

Við blönduðumst öðrum hlaupahópi eftir brú og þau virtust kannast við Gústa. Þetta var hið viðkunnanlegasta fólk, en fóru eilíitið hraðar en við. Er komið var að Víkingsheimili var skrifari orðinn einn og þreyttur í fótum. Hann leyfði því þeim Maggie, Gústa og Einari að fara út í Hólmann, en fór þvert yfir á Stokk og upp brekku. Skokkaði léttilega upp Stokkinn. Er upp var komið leit hann niður eftir og sá þau hin gónandi aftur fyrir sig eins og álkur. Hann veifaði til þeirra. Þegar Gústi sá skrifara kominn upp mátti sjá vonbrigðin í svipnum langar leiðir. Hann hafði nefnilega hugsað sér að reykspóla á fjarlægasta punkti frá Vesturbæjarlaug og skilja skrifara eftir í reykskýi. En í þetta skiptið skaut skrifari honum ref fyrir rass.

Þetta breytti nú sosum ekki miklu því eftir Réttarholtsskóla fóru þau öll fram úr skrifara og skildu hann eftir. Hér eftir var skrifari einn með sjálfum sér. Það var farið að kólna og vindurinn beit. Hlaupið hefðbundið hjá Útvarpshúsi, Bústaðaveg og niður hjá Benzínstöð, utan hvað þau hin styttu sér leið hér, meðan skrifari fór hjá Slökkviðstöðinni og í undirgöng hjá Gvuðsmönnum. Sú leið vestur úr. Þau hin alltaf framundan.

Komið til Laugar á viðunandi tíma og teygt inni. Í Potti var aðallega rætt um árshátíðina 11. maí nk. og dagskrána sem þar verður boðið upp á, en það verður karaoke, upplestur minningargreina, lesið úr 13. ljóðabók Tryggva Líndal, ratleikur, drykkjukeppni o.s.frv. Í gvuðs friði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband