Hvar er Jörundur?

Eðlilega spyrja menn sig þess hvar Jörundur haldi sig þessi missirin, ætti að vera löngu kominn frá Tenerife. Altént var hann ekki mættur í hefðbundið sunnudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins, en það voru hins vegar: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Benzinn, Blómasalinn og skrifari. Allt velþekktir sómamenn og prúðmenni í Vesturbæ Reykjavíkur. 

Hefðbundið stímabrak og stimpingar á tröppum Laugar, með orðhengilshætti og útúrsnúningum um aukaatriði og tittllingaskít. Samt var einhver gleði í því að helztu drengirnir ætluðu að taka hlaupatúr á fallegum sunnudagsmorgni. Það vantaði sumsé aðeins fyrrnefndan Jörund, þá hefðum við verið fullmannaðir.

Farið fullhratt út, menn verða að átta sig á því að það eru tvær vikur síðan Formaður hljóp síðast og það var löng dagskrá framundan, með bílnúmerum og jarðarförum. Rætt um bílakaup blómasala og áhugaverðar jarðarfarir. Nú er hægt að láta jarða sig í rauðri kistu frá Siðmennt og sleppa presti. Deilt um það hvort Ó. Þorsteinsson myndi láta bjóða sér að halda undir horn á rauðri kistu. Menn höfðu áhyggjur af honum Vilhjálmi okkar, hvort honum tækist að smokra sér inn á þing nú þegar Flokksdruslan er í frjálsu falli. Spurning hvort fastheldni flokksins á verðtryggingu eigi sök á fylgishruninu.

Jæja, það var komið í Nauthólsvík og gengið. Hér voru Maggi og félagar komnir langt á undan okkur Einari og Ólafi formanni, menn sem lágu nánast fyrir dauðanum af slappheitum í upphafi hlaups. Reykspóluðu svo og skildu okkur eftir. Þetta var allt í lagi, það var af nægu að taka í umræðum dagsins og varla að einn og hálfur tími dygðu til. Mættum Halldóri bróður og frú, þau fluttu okkur kveðjur frá Flosa.

Farið um miðbæ, Austurvöll og Túngötu. Rólegt og ljúft hlaup með fróðlegri umræðu. Nokkuð hefðbundið í Potti. M.a. rætt um árshátíð og skal athugað með tankinn í Viðey 11. maí nk. - hvað menn athugi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Spurt er hvar Jörundur haldi sig. Hann heldur sig í Vogum á Vatnsleysuströnd, hvar þau hjón reka sitt veitingahús, Gamla Pósthúsið.

Þau hjón búa á einni Gomera, ekki Tenerife,  þegar þau dvelja á Kanaríeyjum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.4.2013 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband