16.8.2013 | 21:42
Óráðshjal
Það er segin saga að þegar prófessor Fróði mætir í Föstudagspott snýst talið um áfengisdrykkju og hann verður drafandi. Þannig var það á þessum degi þegar skrifari mætti meiddur í Pott til þess að hitta hlaupandi félaga sína. Hann greindi Magnús tannlækni, Þorvald, Flosa, prófessorinn, Ólaf heilbrigða og Kalla - óhlaupin voru Kári, Anna Birna, sjálfur skrifari - og svo birtust seint og um síðir óhlaupnir Einar blómasali, Biggi jógi og er skrifari yfirgaf Laug kom Benzinn stormandi á rútunni.
Þeir kváðust hafa mætt til hlaupa á réttum tíma, hvað veit ég um það. Altént var það svo að skrifari mætti til Laugar um fimm- hálfsexleytið og tók fljótlega nótís af Þorvaldi Gunnlaugssyni, sem var kominn tilbaka frá hlaupum, en bar ekki við að heilsa frekar en alla jafna. Lét sem hann sæi ekki skrifara, sem þó hefur embættisgengi í Samtökum Vorum og því virðingar verður. Ekki sást til dr. Einars Gunnars, en sonur hans, dr. Ólafur Jóhannes sást í Laug í gær.
Nú það var ekki um annað að ræða en að þrífa sig og halda til eimingar. Þar voru settar á tölur um fiskneyslu við Stefán Sigurðsson verkfræðing. Að lokinni hreinsun hins innri manns var steðjað á ný í Pott. Nú voru Kári og Anna Birna mætt og Magnús tannlæknir var í heita pottinum. Svo var stefnan sett á Barnapott og þangað komu hlauparar hver á fætur öðrum. Einkennilegt með Föstudagspott hvað talið berst fljótt að áfengisdrykkju og blöndum. Cuba Libre, tvöfaldur brennivín í tvöföldum Bianco og smáborð fyrir bland. Og svo rifjuðu menn upp uppáhaldsþynnku- og æluminningar sínar. Kári benti á mikilvægi þess að menn þrifu vel klósettin fyrir drykkjuna þannig að þeir gætu faðmað Gustavsberg af þeim mun meiri ástríðu þegar kæmi að því að skila því frá sér sem drykkjan útheimti.
Jæja, svona tal var fjarri hug skrifara, sem einbeitti sér að göngu morgundagsins. Hann lagðist gegn því að prófessorinn fengi sér rauðvínsglas til undirbúnings göngu. Kemur í ljós hvort því ráði hafi verið fylgt. Í gvuðs friði.
25.7.2013 | 15:06
Ýmislegir viðburðir
Félagar Hlaupasamtaka Lýðveldisins hafast ýmislegt að í fásinni sumarleyfisdaganna. Nú höfum við lokið við fjóra leggi af átta á Reykjaveginum, frá Nesjavöllum að Bláfjallavegi. Sá seinasti var frá Bláfjöllum að Bláfjallavegi Hafnarfjarðarmegin. Fórum m.a. hjá Þríhnúkagíg, sáum gæfan yrðling og jarðhýsi Einars Ólafssonar Bláfjallageims. Nú verður hlé að sinni á þessari göngu meðan Helmut og Jóhanna dvelja ytra. Svo höldum við áfram alla leið á Reykjanesið.
Svo er hlaupið endrum og sinnum, en ekki alltaf góð mæting. Þó voru um 10 hlauparar sl. mánudag og var ýmist hlaupinn Hlíðarfótur eða Suðurhlíð, og notaði skrifari tækifærið og skellti sér í sjóinn í Nauthólsvík. Í gær, miðvikudag, sást til hlaupara á Nesi og munu allmargir hafa skolað af sér í svalri Atlanzhafsöldunni.
Svo er bara að halda áfram á föstudag, ekki veitir af eftir niðurstöður þyngdarmælingar morgunsins.
15.7.2013 | 21:11
Hvað hélt stúlkan að hún væri að horfa á?
Mættir í hefðbundið hlaup hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins á mánudegi: Jörundur, Flosi, Helmut, Einar blómasali, skrifari, dr. Jóhanna, Ingi og Ragnar. Ákveðið að fara gamla Neshringinn, upp á Víðirmel, út á Suðurgötu og þá leið út að Skítastöð. Farið afar rólega yfir, enda nokkrir félagar að rifja upp gamla hlaupatakta. Flosi, Jóhanna og Ragnar komin vel framúr okkur á Suðurgötunni. Einar sagði okkur af ævintýrum helgarinnar.
Hann ók brúðhjónum á gömlu VW bjöllunni sinni á laugardaginn. Eftir hjónavígsluna var ekið um bæinn. Leiðin lá framhjá Bæjarins beztu. Þá sagði brúðurin: "Ég er svöng." Einari var hleypt inn í röðina og útskýrði fyrir afgreiðslustúlkum að hann væri með brúðhjón í bílnum hjá sér sem vildu ekkert heitara en fá SS-pylsu. "Þetta verðum við að bjóða upp á," sagði afgreiðslustúlkan og snaraði fram tveimur pylsum og kóki með það sama. "En þú sjálfur, vilt þú ekkert?" spurði stúlkan. "Jú, skelltu á mig tveimur með öllu og kókglasi," svaraði Einar, og hefur ekki í annan tíma sært jafnmiklar veitingar út úr ferðaþjónustubransanum til handa sér og sínum. En á móti kemur rótarfylling sem hann lenti í og kostaði hann skyrtukaup mánaðarins, fyrir utan sársaukann og allar verkjatöflurnar sem neyta varð.
Jæja, við vorum þarna á ferðinni, blómasali, skrifari, Helmut og Jörundur. Fórum í Skerjafjörðinn og út hjá Skítastöð, og svo var lagt í hann tilbaka. Skrifari rólegur þar sem hann er að koma tilbaka eftir tveggja og hálfs mánaðar hlé frá hlaupum. Gekk þess vegna inn á milli. Það myndaðist góður sviti á svo stuttu hlaupi eftir svo langt hlé. Við Einar lukum hlaupi við Hossvallagötu, en þeir Helmut og Jörundur héldu áfram á Nes og afrekuðu óskilgreinda hluti þar.
Nú var Pottur eftir og hann var líflegur. Setið í drjúga klukkustund og ræddar mataruppskriftir, hlaup, göngur, m.a. næsta framhald Reykjavegar. Um það mál berast fljótlega upplýsingar frá Helmut.
7.7.2013 | 16:27
Fyrsti Föstudagur að skrifara
Föstudaginn 5. júlí sl. var Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar haldinn hátíðlegur að skrifara. Hann hafði staðið í ströngu allan daginn við þrif og matargerð. Klukkan 19:30 mætti fyrsti gestur, Þorvaldur Gunnlaugsson, og þétt á eftir kom þingmaður Samtaka Vorra, Vilhjálmur Bjarnason. Þeir voru báðir háttvísin uppmáluð og boðaði það gott fyrir kvöldið. Síðan komu aðrir gestir. Þessir voru: Kári, Maggie, Þorbjörg, Unnur og Biggi, Helmut og Jóhanna, Einar og Vilborg, Frikki og Rúna, Jörundur, Bjarni Benz og Bjössi kokkur, Denni og Hrönn. Margir komu færandi hendi í tilefni af afmæli skrifara nýverið.
Skrifari stóð í eldahúsi og bar fram veitingar af miklum móð, flatbökur komu á færibandi og runnu jafnharðan ofan í gestina. Einar kvartaði yfir að hafa ekki fengið neitt. Benzinn lagaði Irish Coffee ofan í flesta viðstadda og mæltist sá drykkur vel fyrir.
Ljúf kvöldstund í góðra vina hópi.
28.6.2013 | 22:51
Gömul kona dettur, eða var henni hrint?
Þar sem skrifari Hlaupasamtakanna er seztur í bifreið sína fyrir utan Melabúð Friðriks hafandi innhöndlað kostinn mæta þar hlauparar askvaðandi, óðamála og nánast slefandi af skelfingu, Magnús tannlæknir og Jörundur prentari. Þeir plöntuðu sér fyrir framan bíl skrifara og heimtuðu að ná tali af honum. Skrifari er maður fólksins og alþýðlegur í viðmóti og ævinlega reiðubúinn að hlýða á vanda annarra manna. Þeir segja sem svo að fjórir menn hafi haldið frá Laug fyrr um daginn: Benzinn, próf. Fróði, og þeir tveir, Jöri og Maggi.
Segir nú ekki af ferð þeirra, utan hvað þeir tveir fyrstnefndu voru öllu sprækari og keikari, héldu hraðara tempói og voru þarafleiðandi á undan. Magnús og Jörundur horfðu á þá fyrrnefndu þar sem þeir mættu gamalli konu, sem féll við og lamdi andliti sínu í malbikaðan hlaupastíginn, braut tvær tönnur og blóðgaðist öll. Ekki báru þeir við Benz og Fróði að hjálpa konunni, létu sem þeim væri málið óviðkomandi og hlupu áfram. En slíkir öðlingar sem þeir eru, Magnús og Jörundur, þá reistu þeir konuna við, liðsinntu henni á alla lund, buðust til að lána hárband Jörundar til að þurrka blóð (sem var afþakkað), buðust til að skipta á skóm við hana (hún var á töflum, en vildi ekki þiggja hlaupaskó Jörundar). Og þannig frameftir götunum. Buðust til að aka henni heim, en hún treysti sér til að klára ferð sína.
Hér er vel lýst eiginleikum og geðslagi manna. Prúðmenni á borð við Jörund og Magnús halda á lofti heiðri Hlaupasamtakanna, dólgar eins og Benzinn og Fróði koma óorði á Samtökin.
Jæja, nú gerist það að skrifari heldur til Laugar. Sest þar í Pott og bíður þess sem verða vill. Það sást til dr. Einars Gunnars, Maggi henti sér í Laug, en hvörgi bólaði á Jörundi. Er skrifari hafði setið um stund í Potti dúkkaði upp kunnuglegt, búlduleitt andlit og tilheyrði þekktum blómasala í Vestbyen. Við hæfi þótti að hreyta í hann ónotum og kommentera á vaxtarlag. Hann virtist meðvitaður um aukningu í líkamsumfangi. Við tók samtal um lífið í Gvuðseinalandi, morgunverði á 25 dollara með beikoni, eggjum, pönnukökum og sýrópi.
Svo kom dr. Einar Gunnar í Pott, þar á eftir frú Helga Zoega, Stefán Sigurðsson verkfræðingur. Svo Benz og lét illa, en þegar prófessor Fróði sýndi sig á Laugarbakka stóðu skrifari og blómasali algerlega samtímalega upp úr Potti og létu sig hverfa.
Næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar. Þá mun skrifari bjóða upp á næringu fyrir illa haldna hlaupara að heimili sínu, en hver taki þó með sér drukk. Þá verður skrifari grasekkill og því svigrúm fyrir vín og villtar meyjar!
Gleðjumst!
12.6.2013 | 21:46
Vinátta
Þar sem skrifari gekk í hægðum sínum eftir Öldugötu til hádegisverðar að setri sínu við Bræðraborgarstíg rennir svört glæsibifreið upp að honum og nýkjörinn þingmaður Lýðveldisins ávarpar hann: "Á hvaða ferð eruð þér?" Skrifari gerði grein fyrir erindi sínu, en var jafnskjótt inntur eftir uppruna yfirhafnarinnar sem hann var í. "Er þetta Barbour?" spurði þingmaðurinn. "Það veit ég andskotann ekki," sagði skrifari, "mér er eiginlega alveg sama". Síðan tóku við stimpingar um fatnað sem hæfi herramönnum og merkjaóðum Vesturbæingum. Þingmaðurinn heimtaði að skrifari færi úr frakkanum og sýndi honum merkin. Skrifari hlýddi góðfúslega, enda er brýnt að löggjafarvald og framkvæmdavald vinni vel saman. Eftir að hafa skoðað frakka skrifara í krók og kring grýtti þingmaðurinn frakkanum í eigandann með þessum orðum: "Þetta er drasl!"
Loks varð stutt samtal um vináttu og samskipti og bað hann fyrir kveðju til "fyrrverandi vina" sinna.
Nú er frá því að segja að skrifari leggur leið sína sem oftar í Vesturbæjarlaug síðdegis hafandi þrælað allan daginn í Stjórnarráðinu. Þar verður á vegi hans prófessor Fróði sem á í fullu fangi með að hafa stjórn á ökutæki sínu og virðist honum vera um megn að stjórna svo stórri vél. Þar sem skrifari stendur á Plani heyrir hann klirra í ótölulegum fjölda vínflaskna í skotti bílsins og furðar sig á því að svo heilsusamur maður skuli láta slíkt vitnast að hann mæti til hlaupa um miðja viku með bílskottið fullt af áfengi. Prófessorinn var forhertur og kvaðst ætla að skila þessum birgðum, til þess eins að kaupa miklu dýrari og betri veigar.
Jæja, þar sem gengið er til Brottfararsalar innir prófessorinn skrifara eftir heilsu. Jú, það er setið við sama keipinn og beðið eftir bata. "Já," sagði prófessorinn, "þetta á eftir að taka sjö mánuði, og eftir það kemur ábyggilega eitthvert nýtt mein upp."
With friends like these... Það bætti heilsu skrifara að hitta Benzinn og son við Hamborgarabúlluna að loknum kvöldverði og eiga við þá stutt spjall. Sem betur fer eru enn til heilbrigðir menn í hópi vorum.
24.5.2013 | 21:30
Vinaríki
Skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins er ríkur að vinum. Fyrir það ber að þakka. Flestir þeirra hlaupa með Samtökum Vorum og hafa sýnt skrifara mikinn hlýhug og skilning í meiðslum á hné. Þrír þeirra, Magnús tannlæknir, Bjarni Benz og Einar blómasali, hlupu með skrifara sl. miðvikudag í stuðnings- og tryggðaskyni, og blómasalinn fórnaði 18 km hring sem hann hafði hugsað sér að taka til þess að geta sýnt veikburða hlaupara sem var að koma tilbaka stuðning. Að vísu eru til skelmislegir félagar eins og Jörundur sem hreytir gjarnan ónotum í skrifara og býsnast yfir utanlandsferðum sem greiddar séu beint úr veski þessa fátæka prentara. En allar slíkar umvandanir eru fram fluttar af mikilli elsku og umhyggju fyrir velferð skrifara.
Nú brá svo við að skrifari varð að hætta við hlaup dagsins vegna þess að fyrri meiðsli tóku sig upp, bólga og eymsli í hné sem kalla á meiri hvíld og meira Íbúfen. Hann saknaði þess að geta ekki hlaupið með félögum sínum á svo ágætum hlaupadegi. En það er paranormal aktívitet í Hlaupasamtökunum. Í hlaupi dagsins upplifði blómasalinn það að skrifari hefði plantað sér í mínímí útgáfu í höfðinu á honum og hvíslaði stöðugt: "Farðu hægt! Farðu stutt! Hvíldu þig, hvíld er góð." Líkt og litli kallinn í höfðinu á Magga sem er óþreytandi að reyna að sannfæra hann um að hann sé of þreyttur og slappur til að hlaupa.
Jæja, skrifari var ekki heillum horfinn, hann sá tækifæri til þess að rækta góðan þorsta í anda Hjálmars líkamsræktarkennara Hagaskóla Íslands. Mætti því til Laugar og viðhafði hefðbundna rútínu: heitasta pott, gufu, kalda sturtu, meiri gufu og loks Örlygshöfn. Þar var aðkomufólk fyrir á fleti - og Denni skransali, en óviðkomandi hurfu fljótt á braut þegar þeir heyrðu hvert umræður stefndu. Sá síðasti fór þegar Bjarni Benz mætti í Pott. Jæja, Denni var óánægður með að hafa ekki verið getið í pistli sl. föstudag. Þá hafði hann hlaupið með blómasala og Jörundi og inntekið allar veigar sem Gvuðmundur vinalausi hafði boðið upp á í veizlunni sem haldin var til að fagna komu Skálafells. Taldi hann að hér væri einelti á ferðinni, en Samtök Vor eru þekkt að slíku framferði. En málið er að Einar og Jörundur minntust ekki einu orði á skransalann er þeir loks komu í Pott eftir hlaup, vel maríneraðir úr rauðu og hvítu í boði útgerðarauðvaldsins.
Í Potti dagsins gafst skrifara tækifæri til þess að leiðrétta þennan leiða misskilning og árétta að hér væri sennilega á ferðinni sálræn meinloka hjá þeim félögum: þeir einfaldlega skilgreina ekki hlaupara af Nesi sem fólk og því þótti þeim ekki taka því að hafa orð á því að Denni hefði hlaupið, þrátt fyrir að hann sé fæddur Vesturbæingur og uppalinn við Hólatorg, sem ætti eiginlega að vera gæðastimpill á manninum. Hvað um það, Denni var fullvissaður um að hann væri fullgild persóna og meira en fullgildur í vorum hópi. Við þetta glaðnaði yfir Denna og hann upplýsti að stefnt skyldi að Palli 7. júní nk. Er hann heyrði að blómasali yrði á palli í Tiomaria USA og skrifari á palli í Brussel hjaðnaði gleðin og depurð helltist yfir. En svo lagði hann upp nýtt plott: hvað ef við flytjum Pall til 14. júní og segjumst eiga hann inni? Engar mótbárur bárust gegn þessari hugmynd og verður hún til ígrundunar næstu daga, fer þó allt eftir veðri.
Blómasali með heimboð í sveitina 1. júní nk. eftir Grafningshlaup. Matseðill tilbúinn. Vel mætt! Eintóm gleði. Í gvuðs friði.
22.5.2013 | 20:25
Endurheimtur skrifari - blómasali styttir
Mættir til hlaups á fögrum degi: próf. Fróði, Jörundur, Flosi, Kalli, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Baldur Tumi, Gomez, Maggi, Einar blómasali og skrifari. Sumir ætluðu stutt, aðrir lengra, og lengst allra ætlaði blómasalinn, ekki styttra en 18 km. Skrifari og Maggi ætluðu bara að fara Hlíðarfót þar sem Maggi var slappur og skrifari að snúa til hlaupa eftir þriggja vikna meiðsli. Nú skyldi látið á það reyna hvort hnéð dygði til að halda uppi þessum þunga skrokki á hlaupi.
Skrifari fór að láta smúla í sér eyrun innan í gær og hitti við það tækifæri Frikka Guðbrands og Sjúl, hvorugur tók þó verkið að sér. Engu að síður var slegið á létta strengi í spjalli þeirra og kom þar að Frikki upplýsti að menn væru sendir af konum sínum til háls-, nef- og eyrnalæknis af þremur ástæðum: 1. þeir hrjóta (að sögn sömu kvenna), 2. þeir heyra illa (enn að sögn sömu kvenna), 3. þeir eru andfúlir (enn óstaðfestar fullyrðingar téðra kvenna). Skrifari var sem sagt álitinn heyra illa að mati ónefndrar konu í Vesturbænum. Nú er sá vandi úr sögunni og fannst honum háreysti mikil í hlaupi dagsins, og þurfti hvorki Bjarna né Jörund til.
Almennt var fólk rólegt í hlaupi dagsins, einhver asi á gamla barnakennaranum, og Ágúst að sperrast við að reyna að ná honum - og tók góða stund. Aðrir rólegir á eftir, Magnús, Benz, blómasali og skrifari og aftastir fóru Jörundur og Helmut. Af mörgu var að taka í umræðu dagsins, m.a. varpaði blómasali fram fyrraparti sem skrifari leiðrétti strax þar sem báðir stuðlar voru í lágkveðu. Hér brást blómasali ókvæða við og kvartaði undan smásmygli skrifara. Svona hefði nú frændi hans, Ó. Þorsteinsson, ekki brugðist við, enda þekktur fyrir viðkvæðið: "Það er nú ekki svo nöje með það."
Er komið var í Nauthólsvík stóðu Maggi og skrifari við sitt, beygðu af og fóru inn á Hlíðarfótinn. Benzinn og blómasalinn fylgdu orðalaust á eftir, þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um að ætla ekki styttra en 18 km í dag. Hins vegar hélt Jörundur áfram á Flanir. Það var gengið um stund svo að ekki yrði reynt um of á fót skrifara. Svo haldið áfram og farið hjá Gvuðsmönnum. Þar vildi Einar halda áfram um göng og yfir á Klambratún. Það var ekki tekið í mál, heldur kúrsinn settur á Vesturbæinn stystu leið. Hér upphófst slíkur fúkyrðaflaumur og formælingar í blómasalanum út í félaga sína að annað eins hefur ekki heyrst frá því Vilhjálmur Bjarnason hljóp með okkur. Menn héldu ró sinni og dóluðu sér áfram. Þó fengu þeir Einar og Benzinn að fara um brýr á Miklubraut meðan við Maggi fórum hjá flugbraut.
Er komið var í Vesturbæinn hlupum við fram á framkvæmdir ýmislegar þar sem fyrirtækin hétu ýmist Línuborun eða Múrlína og varð hugsað til hans Magga okkar. Komið til Laugar og hafði hnéð skrifara verið til friðs. Veit vonandi á gott. Góður langur Pottur með umræðu um mat. Þeir Ágúst og Jörundur voru á stétt úti og þegar þeir heyrðu hversu litlar fortölur hefði þurft til að fá blómasala til að stytta áform sín úr 18 km í 8 ærðust þeir og helltu sér yfir hann.
Næst: föstudagur. Nema Fjölnishlaup hjá e-m á morgun. Og Grafningshlaup 1. júní með málsverði að blómasala á eftir. Meira um það síðar.
17.5.2013 | 22:06
Erum við á réttri leið?
Þar sem skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins situr í Potti dagsins að loknum erfiðisdegi í Stjórnarráðinu og eigandi spaklegar viðræður við hr. próf. dr. Einar Gunnar Pétursson fornaldarfræðing, koma þeir askvaðandi Jörundur og Einar blómasali. Ekki var frítt við að þeir önguðu eins og viskítunnur og voru þeir að auki drafandi í talanda eins og próf. dr. Fróði á góðum föstudegi. Þeir reyndu að hafa uppi tölur um hlaupna kílómetra og hraða, en enduðu þó á því að játa að kallað hefði verið í þá á Geirsgötu. Þar hélt útgerðin upp á nýjasta ávinning sinn, skip Gvuðmundar vinalausa Mjaltafell RE-7. Í skemmu var boðið upp á rautt, hvítt, bjór og snittur. Ekki þurfti langar samningaviðræður til þess að fá þá félaga inn í skemmuna til þess að taka þátt í skemmtuninni - og er oss illa brugðið, gömlum kommónistum félögum Jörundar sem laminn var í hausinn af löðreglu til staðfestingar því að hann væri einn reyfari, að svo ágætur félagi skuli láta glepjast af glerperlum og eldvatni óvinanna.
Nema hvað: þeir hafa sig á endanum út fyrir dyr, en vita ekki fyrr til en ótilgreindur kvenkostur kallar í þá öðru sinni, að sögn Kolbrún morgunsundskona, og dreif hún þá inn í annan viðburð, þar sem dreypt var á veigum, hvítum, rauðum og kampavínsgulum. Þegar svo var komið var kapp allt úr þeim runnið og þeir náðu með herkjum að klára hlaup dagsins, sem þó var bara hefðbundið, rúmir 11 km. Á sama tíma runnu skeiðið eftir öðrum leiður og fjarri sollinum próf. dr. Ágúst Kvaran, Maggie, Benzinn og Flosi, fóru hratt yfir og lögðu rúma 18 km að baki sér án þess að blása úr nös. Þetta fólk er til fyrirmyndar, meðan blómasala og Jörundi er bent á að leita sér aðstoðar í næstu stúku, líkt og gert var þegar Emil í Lönneberga drakk mjöðinn hér um árið og kom svíninu á fyllerí.
Nú líður senn að því að skrifari mæti til hlaupa á ný, e.t.v. verður látið reyna á knéð á sunnudagsmorgun, þegar vænta má samfylgdar svo ágætra manna sem Ó. Þorsteinssonar og Magnúsar Júlíusar kirkjuráðsmanns. Í gvuðs friði.
15.5.2013 | 22:50
Hvað er tíðast?
Svo ávarpar gjarnan Formaður Vor til Lífstíðar, frændi og vinur skrifara, Ó. Þorsteinsson, mannfagnaði þar sem þeir verða: "Hvað er tíðast?" M.ö.o. hvað er í fréttum. Nú hefur skrifari ekki lagt inn pistla á vef Samtaka Vorra um nokkurt skeið og kemur ekki til af góðu: hann hefur verið í meiðslum. Engu að síður er vert að minnast þess að Hlaupasamtökin héldu árlega árshátíð sína í Viðey 11. maí sl. Á þriðja tug þátttakenda og Þorvaldur með ómegðina, en Bjössi kokkur kokkaði og Húnninn uppvartaði og þjónaði til borðs.
Örlygur Hálfdánarson hélt hefðbundna kynningu í Viðeyjarkirkju, við minnismerki um Skúla, við Keleríislaut og í barnaskóla. Það blés og rigndi og var kalt. Því var kynningargangan venju fremur stutt. Komið til Tanks um 18:00. Þar hafði einvalalið með Björn í broddi fylkingar undirbúið veizlu. En áður en setzt var að borðum hélt skrifari stutt ávarp. Þá tók við Formaður til Lífstíðar og loks fékk próf. dr. Baldur Símonarson orðið og bauð upp á spurningakeppni. Ekki þarf að koma neinum á óvart að skrifari vann keppnina ásamt með frú Helgu Jónsdóttur frá Melum, þrjú rétt svör af fimm mögulegum.
Hófst þá loks borðhald. Stóð það yfir með ávörpum, söng og mikilli kurteisi fram undir kl. 22:00 þegar tímabært þótti að halda tilbaka. Einstök skemmtun og fór fram með mikilli hófsemd og stillingu. Gengið til báts og siglt heim.
Þá er komið að meiðslum skrifara. Hann sumsé bólgnaði upp á kné og var ekki mönnum sinnandi og fékk sig ekki hrært í nærfellt heila viku. Þegar bólgan hafði hjaðnað var í öryggisskyni haldið til læknis og leitað álits. Áður hafði dr. Vigfús Magnússon tjáð sig um bólguna og sagt að hnéð væri fullt af vatni og skrifari ætti ekki að vera að þessum hlaupum. Mannslíkaminn væri ekki gerður fyrir hlaup. Nú var leitað álits starfandi læknis. Skrifari heilsaði doktornum innilega og lýsti vanda sínum svo: "Ég er hlaupari og lenti í meiðslum á hné..." Ekki komst skrifari lengra þegar doktorinn greip frammí fyrir honum og sagði: "Hættu þá að hlaupa! Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir hlaup. Auk þess ertu alltof feitur til þess að vera að leggja þetta á skrokkinn."
Svona kaldar kveðjur frá hinni medíkölsku stétt eru náttúrlega ekki uppbyggjandi. En skrifari mun hvíla enn um sinn, en heitir því að hefja hlaup jafnskjótt og allur verkur er horfinn úr hné - og fáein kíló eru frá líkam hans.