Jörundur kominn í leitirnar

Jæja, það var ekki seinna vænna að Jörundur sýndi sig að hlaupum, búinn að vera á landinu frá því á fimmtudagsmorgun, en fram að því hlaupið í 19 stiga hita á Tenerife og vondri mollu. Hann var feginn því að geta loks andað að sér úrsvölu Atlanzhafsloftinu. Meira um það seinna. Mæting góð í mánudagshlaup. Fyrstan skal telja próf. dr. Fróða, svo voru Flosi, Maggi, Benz, téður Jörundur, Einar blómasali, Heiðar, dr. Jóhanna, Helmut, Hjálmar, Ósk, skrifari, Haraldur - og svo dúkkaði Frikki upp hafandi farið Hlíðarfót. 

Prófessor Fróði var óvenju vingjarnlegur og snapaði áskrifendur að hlaupi um Stokk - það skyldi farið hægt. Sumir létu glepjast, einfaldar sálir eins og Helmut og Flosi. Skrifari hefur brennt sig nógu oft á svona gylliboðum. Hann veit það að þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi hlaups, sem boða bræðralag og félagshlaup, þar sem menn hlaupa saman og enginn er skilinn eftir, þá er niðurstaðan oftast sú að Gústi teymir menn eins langt í eina átt og komizt verður - og svo setur hann í fluggírinn og skilur félaga sína eftir. Helmut greyið sagði að líklega færi hann ekki langt í dag, hann hefði farið 16 km í gær. En þegar á hlaup var liðið sást hvar hann reyndi að halda í við prófessorinn grimma og elti hann eins og dyggur lærisveinn.

Framvarðarsveit samanstóð af dr. Jóhönnu, Ósk, Haraldi og Heiðari - og svo hélt Hjálmar í humátt á eftir þeim, skildi ekki hvað hann væri að gera með slugsurum eins og okkur. Blómasalinn taldi sig eiga eitthvað inni og tók af stað með rykk, sem entist honum í sosum eins og tvo kílómetra - þá var hann sprunginn og fór að ganga. Þar um slóðir var Maggi og Benz, og þar fyrir framan Flosi, Ágúst og Helmut. Skrifari með öftustu mönnum.

Jörundur hélt mikinn reiðilestur um framsóknarmenn og þessa vitleysinga sem ætla að kjósa þá. Menn reyndu að rifja upp alla framsóknarmenn sem þeir þekktu - en datt aðeins einn í hug, hann Benni okkar. Að vísu kannast Einar blómasali við formann Framsóknar, en það er í gegnum ættartengsl.

Fyrstu fjórir kílómetrarnir eru alltaf erfiðir, þá er upphitun í gangi, en eftir það er hlaup bara ljúft! Er komið var í Nauthólsvík kváðust þeir Jörundur og Maggi ætla Hlíðarfót, Maggi þurfti á kóræfingu og Jörundur að ná sér eftir Kanaríeyjaferð. Við Benzinn hvöttum Einar til þess að koma með okkur Suðurhlíð, en hann barmaði sér með miklu jarmi og kvaðst ekki "geta" þetta. Hér var okkur öllum lokið. Menn sem vantar fæturna á "geta" ekki hlaupið; þeir sem vantar höfuðið á "geta" ekki hlaupið. Aðrir hafa engar afsakanir. Við létum Einar heyra það og lofuðum sjálfum okkur að myndum taka hann rækilega í gegn er komið yrði til Laugar á ný.

Benz og skrifari áfram austur Flanir. Nú var þetta bara ljúft, og þeir hinir á e-u óskilgreindu hringsóli fyrir framan okkur. Gústi teymdi Helmut langleiðina út í Kópavog, en sneri svo við og kom með hann í eftirdragi upp Kringlumýrarbrautina. Flosi á leið yfir Brú. Við Benz upp Suðurhlíð. Tókum brekkuna í einum rykk og gengum upp hjá Perlu. Svo niður úr og vestur úr. Yfir brýr á Hringbraut til að lengja. Hefðbundið eftir það hjá Akademíu, yfir uppgröft á Suðurgötu og til Laugar. Teygt í Móttökusal.

Í Útiklefa voru tveir menn: Einar blómasali og dr. Svanur Kristjánsson. Við Bjarni hófum strax að jarma og herma eftir blómasala þegar hann kvaðst ekki geta hlaupið lengra. Nú blöskraði Svan svo mikið að hann lýsti furðu sinni á svona framferði. Þessir hlauparar væru yfirleitt svo skrýtnir fyrirfram eða þá að þeir yrðu skrýtnir á því að hlaupa að þeir kæmu fram af miklum ódrengskap við félaga sína. Einar væri heiðarlegur og góður drengur. Hér tók við allnokkur díalóg um drengskap og heiðarleika sem ekki verður cíteraður hér.

Í Potti var upplýst að nefndin hefði ákveðið að boða til árshátíðar í Viðey laugardaginn 11. maí nk. Annars mikið rætt um hlaup og tíma og lítið af viti um önnur brýn málefni þótt kostningar séu framundan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband