Ótrúleg snerpa

Þar sem skrifari Hlaupasamtaka Lýðveldisins gengur úr Brottfararsal Laugar Vorrar um hádegisbil sl. sunnudag til Útiklefa furðar hann sig á skepnunni sem liggur ofan á höfðinu á honum Haraldi Jónssyni arkitekts Haraldssonar leikara Björnssonar og því lá beinast við að spurja hvað þetta væri. Haraldur gaf þá skýringu að þetta væri óþekkt dýr sem hefði veiðst í Bjarmalandi og móðir hans hefði innhöndlað honum til handa. Ekki það þetta væri ekki aðdáunarverður gripur, en hálf ólögulegur engu að síður. 

Er út var komið í klefa blasti við ótrúleg, en þó, kunnugleg sýn: búið var að hengja til þerris hlaupafatnað svo að hann blokkeraði eina 9 (segi og skrifa: NÍU) snaga. Ekki þurfti lengi að rýna í garmentið til þess að sjá að hér voru leifarnar af Þorvaldi af Óðagoti komnar á snagann að loknu hlaupi. Ég útskýrði þetta fyrir Haraldi, sem stóð enn opinmynntur og trúði eiginlega ekki sínum eigin augum.  Það reyndist erfitt að útskýra hinar félagslegu og sálfræðilegu implíkasjónir er fæddu af sér innsetningar af þessu tagi, sem Haraldi þótti allt annað en listrænar. Svo var sturtað sig.

Bjarni að vanda með hávaða og leiðindi og réðst að skrifara með óbótaskömmum. Pottur venju fremur vel mannaður og maður sá einhvern prakkaraskap í fari dr. Baldurs. Það voru Flosi, Bjarni, Jörundur, dr.  Mímir, Ó. Þorsteinsson, Tobba, próf. dr. Einar Gunnar - og svo Sverrir. Er skrifari var mættur var upplýst að Baldur væri með vísbendingaspurningu úr bílnúmeraflokki - óvænt uppákoma svo ekki sé meira sagt! Rifjuð var upp spurning Potts sl. sunnudag: RE-884. Nú kom dr. Baldur með spurninguna: "... en hver átti bifreiðina RE-883?"

Hér setti menn hljóða - og þó engan hljóðari en frænda minn og vin, Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Er hann sagði: "Þetta veit ég ekki," þurfti ekki lengi að bíða andsvars dr. Baldurs: "Ja, þá veiztu ekki mikið!" Nú var dr.  Baldur minntur á að þetta ætti að vera vísbendingaspurning - og hverjar væru vísbendingarnar. Jú, eigandi téðrar bifreiðar var kominn til álita og tveggja mikilsvirtra embætta á unga aldri. Vísbending tvö: seinni kona hans var nánast tekin í gvuða tölu meðal Íslendinga á fjórða áratug aldarinnar er leið. Hér kviknaði týra í andliti Formanns og hann sagði: "Sigrún Ögmundsdóttir." Og í framhaldinu varð ljóst að spurt var um Árna Tryggvason, er bæði var orðinn héraðsdóms- og hæstaréttardómari innan við fertugt. Síðasta vísbending var svo "fæddur 1911".

Mikill smeðjuskapur uppstóð er Agnes Bragadóttir blaðamaður birtist í Potti og spurði hvort þetta væri karlaklúbbur. Þeir Bjarni og Flosi hömuðust við að rifja upp gamla tíma og gamla bekkjarfélaga úr Réttarholtsskóla sem hefðu verið samtíða Agnesi þar eystra. Skrifara var ekki meir en svo skemmt og lét sig hverfa fljótlega úr Potti.  


Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar

Enn var bólginn ökklinn skrifara svo að ekki var hlaupið á þessum fyrsta hlaupadegi á nýju hlaupaári. Engu að síður taldi hann nauðsynlegt að mæta til Laugar að hlaupi loknu og vera félögum sínum fyrirmynd og hvatning til góðra verka. Fyrstan hitti hann fyrir blómasala á hröðum flótta, nýhlaupinn að vísu og nýskrúbbaðan, en flóttalegan engu að síður. Við félagar féllumst í faðma óskandi hvor öðrum góðs nýs árs og heitandi ævarandi vináttu. Blómasali upplýsti að Bjarni væri á svæðinu og væri á góðum nótum. 

Að aflokinni skrúbbun var haldið til Potts, fyrst þess heita, þar sem eitthvert þýzkt leiðindatúristalið var til almennra leiðinda, svo var gufa og loks Örlygshöfn. Þar var ekki annað mannval fyrir en Stefán Sigurðsson verkfræðingur.  Þar næst bættist við Anna Birna - og svo birtist Bjarninn, öskrandi eins og bjarndýr, hrópandi á skrifara, lýsandi því miður skemmtilegum orðum hvað ætti að gera við skrópagemlinga eins og hann. Flosi og Ólafur Gunn voru í Barnapotti. 

Mættir í hlaup dagsins voru Bjarni, blómasali, Þorvaldur, Magnús og Ólafur Gunnarsson. Uppi var ráðabrugg um að hlaupa í Kópavoginn og alla leið í Lækjarhjalla með rúmrusk til að hvekkja þann fróða góða prófessor sem þar býr, og jafnvel ráðast í Pott. En meður því að í för voru ráðagóðir og geðstilltir menn var þeirri fyrirætlan forðað. 

Bjarni flutti langan og snjallan fyrirlestur um nafna sinn og kollega, Bjarna Pálmarsson, leigubílstjóra, flugvirkja og píanóstillingarmann, sem var góðvinur Nixons, Kissingers og Bob Hope. Er hér var komið og enginn Denni mættur var orðið ljóst að ekki yrði af Fyrsta á Ljóninu.  


Prófessorinn hleypur einn

Þar sem skrifari haltrar með bólginn ökkla niður í búningsklefa Vesturbæjarlaugar verður fyrir honum prófessor Fróði að klæða sig í hlaupagírið. Klukkan var langt gengin sex - en þó ekki runninn upp lögbundinn hlaupatími á mánudegi. "Það lítur illa út með þátttöku í hlaupi dagsins," sagði prófessorinn. "Þú hleypur áreiðanlega einn," sagði skrifari. Hér beygði prófessorinn af og varð dapur í bragði. Hann kvaðst hafa lítið hlaupið upp á síðkastið vegna tognunar í kálfa. Skrifari lýsti sömuleiðis meiðslum sínum og sýndi bólginn  ökkla. Prófessorinn tók hann trúanlega við yfirborðslega skoðun. 

Rætt var um ókosti þess að hlaupa á Íslandi þar sem er kalt og dimmt og einkum vært fyrir ísbirni, en ekki mannfólk. Heppilegra væri að halda sig við suðlægari gráður þar sem er heitt og þurrt. Nú var spurt um ÍR-hlaupið á Gamlársdag og hvort prófessorinn myndi ekki setja sér það markmið að bæta tímann frá því í fyrra: 66 mínútur. Nei, hann hélt nú ekki, helst var hann á því að fara á lakari tíma, ekki undir 69 mínútum. Sixtínæn.

Skrifari óskar félögum sínum velfarnaðar í hlaupi morgundagsins og þakkar ánægjulegar samvistir á árinu sem er að líða.

Í gvuðs friði. 


Skrifari hljóp einn

Einmanaleikinn og einstæðingsskapurinn er fylgikona hlaupanna. Hlaupasamtök Lýðveldisins eru íþrótta- og menningarsamtök í Vesturbænum. Þar hlaupa alla jafna afrekshlauparar, jafnt konur og karlar, og svo fá menn eins og Einar blómasali og skrifari einnig að dingla með. Boð gekk út um hlaup á Þolláksmessu kl. 16:30 frá Laug Vorri. Mættir, nei, ég meina mættur: skrifari. Aðrir voru ekki mættir. Það má sosum ímynda sér að menn hafi verið að tapa sér í jólastressinu og ekki verið mönnum sinnandi. Skrifari er skilningsríkur maður. Vitanlega hefur maður skilning á því að menn vilji vera vel búnir undir hátíð Frelsarans. Síst hvarflar það að skrifara að fara að núa mönnum því um nasir að þeir forgangsraði vitlaust og láti Hátíð Kaupmanna (Federico included) ganga fyrir hlaupum, en þó fær hann ekki staðist þá freistingu að senda félögum sínum þessa jólakveðju: ÞIÐ ERUÐ SÓLSKINSHLAUPARAR!

Sjáumst í Kirkjuhlaupinu á Annandaginn, hlaupið frá kirkju þeirra á Nesinu stundvíslega kl. 10:00 á annan dag jóla. Kakó og kökur að hlaupi loknu.  


Jólasveinar einn og átta

Við vorum sem sagt níu sem hlupum í morgun, ef hundurinn hans Bjarna er talinn með. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Einar blómasali, Denni, Bjarni og Ólafur skrifari. Það var safnast saman venju samkvæmt í Brottfararsal og tekið spjall um helstu dægurefni. Þar bar hæst símhringing sem barst úr Garðabænum á Kvisthagann og óðamála maður á hinum endanum lýsti yfir vanþóknun sinni yfir því að Reykjavíkur Lærði Skóli, sú mikla menntastofnun, fengi 100 m.kr. til viðbótar samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi. 

Það var hált úti og við hvöttum hverir aðra að fara bara rólega og varlega. Denni einn á járnum. Lagt upp á rólegu nótunum eins og ávallt á sunnudögum. Veður einstaklega fallegt, bjart yfir, logn og 2ja stiga hiti. Maður hlakkaði bara til góðs hlaups í góðra vina hópi. Nú vantaði bara Jörund. Þorvaldur og Flosi fóru fyrir hópnum og komust nokkuð langt á undan okkur. Bjarni hafði hundinn lausan og boðaði það ekki gott, hann þurfti ævinlega að vera hlaupandi á eftir honum að rífa hann ofan af lóðatíkum sem nóg var af í dag og dróst aftur úr okkur af þeim sökum.

Á Ægisíðunni kvað við mikill dynkur sem ku hafa orðið til þess að G. Löve rumskaði af værum blundi í bæli sínu. Við sem fremstir fórum töldum þetta bara vera landskjálfta einhverrar tegundar, en í reynd hafði það gerst að Bjarni Benz flaug á hausinn í eltingarleiknum við hundinn og fékk stórt gat á hnakkann. Ekki varð honum þó teljandi meint af og ekki er fráleitt að giska á að hann hafi jafnvel skánað nokkuð til heilsunnar við fallið. Verst var þó að hafa misst af fallinu, það hefði verið vel þegin upplyfting í skammdeginu. 

Ekki var tíðinda á leiðinni inn í Nauthólsvík annað en að Flosi var kominn langt á undan okkur hinum sem fórum fetið og gættum þess eins að standa í lappirnar. Fyrstu fjórir kílómetrarnir inn í Nauthólsvík eru alltaf erfiðastir á sunnudögum, eftir það er maður orðinn heitur og eftirleikurinn því auðveldur. En það var gerður stans í Víkinni og Ó. Þorsteinsson boðaði spurningu sem hann hugðist leggja fyrir Baldur í Potti. "20. ágúst 1938 varð sá hörmulegi atburður að bíl var ekið út í Tungufljót og með honum fórust þrjár mæðgur, eiginkona og dætur Sigurbjörns í Ási. Ökumaðurinn var Pedersen garðyrkjumaður. Spurt er: hvaða bílnúmer bar bíllinn?" Það hlakkaði í Ólafi. 

Haldið áfram í Kirkjugarð og þaðan hefðbundið yfir Veðurstofuhálendi og niður í Hlíðar. Á leiðinni úr Grænuhlíðinni og út á Miklubraut voru miklir svellbunkar og máttum við ganga á þeim kafla. En svo var hlaupið af nýju yfir hjá Klömbrum og Óttarsplatz. Í dag var farinn Laugavegurinn í tilefni jóla og talin auð verslunarrými, þau reyndust vera 9, en voru mest 30 í Hruninu.

Farið um Austurvöll og nú var Túngatan hlaupin alla leið upp að Kristskirkju, þar tóku menn ofan og signdu sig fyrir kirkjudurum. Loks var þreytt hlaup niður Hofsvallagötu og frábæru hlaupi lokið á Plani.

Hefðbundin uppstilling í Potti með dr. Baldri, dr. Einari Gunnari og þeim hjónakornum Stefáni og Helgu Jónsdóttur Gröndal Zoega Flygenring. Ólafur Þorsteinsson lagði spurningu sína fyrir Baldur og auðvitað stóð hann á gati. Ólafur malaði eins og köttur af ánægju. Rétt svar: RE-884.

Flutt vísan um Þorstein Dalasýslumann.

Hefurðu séð þrjótinn þann
Þorstein Dalasýslumann,
kom ég víða en hvergi fann
karlhelvítisandskotann.

Og svarið:

Blótaðu ekki, Bjarni minn,
bíddu hægur, vinurinn,
kannski bráðum komi inn
karlhelvítisandskotinn. 

Jólahlaup verða auglýst fljótlega. 


Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna

Svo sem boðað var í skeyti á Snjáldru var Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna haldið að Hótel Borg hjá snillingnum Völla Snæ laugardaginn 7. desember sl. kl. 12:00. Skrifari hafði samkvæmt boðum um þátttöku látið taka frá pláss fyrir 20 manns og heilir 14 einstaklingar mættu! Þeirra sem boðuðu komu sína en létu ekki sjá sig skal látið ógetið, en þeir sem mættu voru: Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Helmut, Frikki og Rúna, skrifari og Íris, blómasalinn og Vilborg, dr. Baldur, Kári, og síðust en ekki síst, Ólafur Þorsteinsson og frú Helga Jónsdóttir frá Melum.

Nokkuð þurfti að bíða eftir boðsgestunum, en um hálfeitt tóku Þorvaldur og skrifari á sig rögg og fóru í röðina við hlaðborðið. Það var eins gott því fljótlega fylltist allt af fólki þar og aðeins með röggsemi að við fengum raðað fáeinum fiskréttum á diskana okkar. Svo komu félagar okkar á eftir okkur og röðuðu sér við réttina. Þá var hins vegar komin upp sú staða að í röðina var kominn gjörvallur kvenleggur útskriftarárgangs 1967 úr Reykjavíkur Lærða Skóla að því er okkar fremsti persónufræðingur, Ó. Þorsteinsson, fullyrti. Þessu til sönnunar taldi hann upp nokkrar nafnkunnar kvenpersónur úr hópnum, og ævinlega með orðunum "...allt frá NN og upp eða niður í XX...".

Nú fór í verra þegar kom að því að fara í annað skiptið í hlaðborðið. Þá var biðröðin orðin alllöng og tók ekki undir 15 mín. að komast að kjötkötlunum. Skrifari raðaði þeim mun meira á diskinn hjá sér í þetta skiptið að hann átti ekkert frekar von á því að komast aftur að borðinu, og ruddist í leiðinni framhjá nokkrum kellingum í árgangi 1967. Þegar matur er annars vegar verða allar kurteisisreglur að víkja, þetta hefur Einar blómasali kennt mér.

Jæja, þar sem skrifari slafrar í sig matnum verður hann var við fyrirgang í salnum. Kunnugir töldu sig sjá þann mæta sómamann Þorvald frá Óðagoti fljúga láréttan um loftið á Borginni haldandi disknum fyrir framan sig í sveiflu sem próf. Fróði hefði verið vel sæmdur af. Hann var þá að koma tilbaka í salinn eftir að hafa raðað á diskinn líkt og skrifari, en rekið tána í pall sem var í gangveginum, með þessum afleiðingum, að hann flaug í gólfið - og það sem var verst, missti matinn líka í gólfið, og búinn að eyða ekkert smátíma í að ná í hann!

Kvenfólkið í salnum jesúsaði sig og óttaðist það versta. En Þorvaldur stóð upp og dustaði af sér rykið og kvað sér ekki hafa orðið meint af byltunni. Hér hefði getað farið verr. Þakkaði hlauparinn ástsæli gott líkamlegt atgervi að ekki urðu líkamsmeiðsl af. Nú kom starfsfólk staðarins aðvífandi og spurðist fyrir um ástand hins fallna manns. Hann bar sig vel og endurtók mikilvægi þess að vera í góðu líkamlegu formi þegar kæmi að því að falla um palla í jólahlaðborðum. Honum var tjáð að hann fengi málsverðinn sér að kostnaðarlausu.

Hér kviknaði einhver kunnuglegur glampi í augum blómasalans og hann horfði á Vilborgu eins og hann hefði gert kaup lífs síns. Næst þegar hann fór að bæta á diskinn, það var í þriðja eða fjórða skipti, sást til hans þar sem hann var að taka tilhlaup að pallinum í salnum, og æfði í leiðinni trúverðugt diskakast. En hjá sumum vantar upp á mótoríska samhæfingu þegar menn eru of meðvitaðir um gjörninginn sem framundan er - eða hvort það var bara að hann vildi ekki henda því sem var á disknum í gólfið. Hann greiddi málsverðinn fullu verði.

Þarna áttum við sumsé ánægjulega hádegisstund sem lauk ekki fyrr en liðið var langt á dag, og jafnvel þá átti fólk erfitt með að slíta sig hvað frá öðru. Að lokum féllust menn í faðma og lýstu yfir ævarandi vináttu og skjótum endurfundum við hlaup og skemmtan.  


Takk, Jörundur!

Fjölmargir hafa komið að máli við skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og spurt: "Ólafur minn, eru allar þessar Brussel-ferðir virkilega nauðsynlegar?" Við þessu hefur skrifari svar á reiðum höndum: "Já!" Það var nefnilega þannig þegar mætt var til hefðbundins sunnudagshlaups að Vesturbæjarlaug á þessum sunnudagsmorgni að skrifari þurfti að tilkynna félögum sínum að hann myndi missa af næstu tveimur hlaupum vegna ferðar til Brussel í boði Jörundar. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús Júlíus tannlæknir, Þorvaldur Gunnlaugsson, geðprúður vísindamaður ættaður af Dunhaga, barnaskólakennarinn geðþekki Flosi Kristjánsson, og loks rak lestina skrifari Samtaka Vorra. 

Athugulir lesendur munu taka eftir því að hefðbundnar skellibjöllur og hávaðaseggir eins og Bjarni Benz, Einar blómasali og Jörundur prentari voru fjarri góðu gamni. Segja má að hlaupið hafi verið í anda íslensks aðals, hófstillt, geðprútt og virðulegt. Magnús Júlíus var með böggum hildar, kvað bíl sinn hafa farið að hegða sér einkennilega og hann lagði honum því niður á Esso-stöðinni við Ægisíðu. Við inntum hann eftir einkennum, hann lýsti því að bíllinn hefði dúað mikið. "Dempararnir!" hrópaði skrifari, hafandi þó ekki hundsvit á bílum. Magnús heimtaði að við legðum lykkju á leið okkar og færum niður á benzínstöð og kíktum á bílinn.

Að sjálfsögðu var orðið við beiðni Magnúsar og við settum stefnuna á Esso-stöðina. Þar röðuðu menn sér allan hringinn á bílinn og hossuðu honum og fór ekkert milli mála hver vandinn var: dempararnir. "Er óhætt að keyra bílinn svona?" spurði Magnús. "Ekki ef þú vilt ekki fá lögguna á hælana á þér," svaraði skrifari. Við ráðlögðum honum að tala við blómasalann áður en hann gerði nokkuð.

Jæja, það var haldið áfram og farin Ægisíðan í austur í hávaðasunnanroki og rigningu, mótvindi. Okkur varð ljós skýringin á því hvers vegna fleiri væru ekki mættir til hlaupa, þetta hlaupaveður var bara fyrir karlmenni. Við vorum þó ekkert að flýta okkur, fórum bara fetið. Lítið rætt um skuldaleiðréttinguna, en meira um fráfall próf. emeritusar, frænda Ó. Þorsteinssonar, Þórhalls Vilmundarsonar. Þeir voru daglegir símafélagar um þrjátíu ára skeið og sjónarsviptir að merkum vísindamanni. 

Hlaupið í mótvindi og virtist ekki ætla að draga úr mótlætinu. Þó var staldrað við í Nauthólsvík og þeir sem þess þurftu léttu á sér. Gengið um stund. Skrifari kunni að segja frá þeirri merkilegu ritgerð sem hann sendi Þjóðminjasafni um sundvenjur í Vesturbæ. Tilskrifi þessu var óvenju vel tekið og uppskar skrifari mikið þakklæti fyrir. Fagstjóri þjóðháttadeildar hafði samband og bað um leyfi að mega senda nýja könnun. Skrifari verandi vinur Þjóðminjasafns og vill vita veg þess sem mestan brást vel við og bauðst til að fylla út nýja könnun. Hann fékk senda um hæl könnun sem heitir "Samkynhneigð á Íslandi".

 Jæja, það var haldið í Kirkjugarð og gengið um stund. Fljótlega eftir Garð urðum við Ólafur frændi minn viðskila við þá hina, þeim lá einhver ósköp á að ljúka hlaupi, en við vorum rólegir og leyfðum þeim að æða þetta áfram. Er komið var á Sæbraut brast á hellirigning sem gerði málið nú ekki bærilegra, en menn héldu haus og luku hlaupi af miklu harðfylgi. 

Pottur mannaður þeim dr. Mími, dr. Einari Gunnari, Margréti barnaskólakennara, dr. Baldri - auk hlaupara, og loks kom Stefán verkfræðingur til Potts. Ekki man ég fyrir mitt litla líf um hvað var rætt, en man þó að ég lofaði að segja samvizkusamlega frá öllu sem sagt yrði. 


Kári snýr aftur

Á hlýju en myrku nóvembereftirmiðdegi mættu eftirfarandi til hefðbundins hlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins: Magnús tannlæknir, Flosi, dr. Jóhanna, Heiðar, Snorri, Hjálmar, Tobba og skrifari. Ég spurði Steinunni hvort hún hefði séð Einar "sprett". "Já, hann er kominn og farinn." "Ha?" hváði skrifari. "Já, kominn og farinn, hann sagðist vera með einhverja pest, kom og fór fyrir allnokkru síðan." Ja, sér er nú hver afsökunin fyrir því að mæta ekki í hlaup! 

Allt kyrrt í Útiklefa og skrifari mættur tímanlega í Brottfararsal. Svo kom Magnús og við spjölluðum góða stund um ráðstefnur í útlöndum og um morðið á Kennedy. Á brottfarartíma var stigið út á stétt og tekið veður. Hiti 8 gráður, stytt upp eftir hellidembu fyrr um daginn, logn, en fjári dimmt. Nú gildir að vera í endurskinsvestum og vera vel sýnilegur. Lagt upp og stefnan sett á Ægisíðuna, nokkuð hefðbundið fyrir mánudag. Ég held að flestir hafi verið stemmdir fyrir stutt. 

Magnús sagði: "Óli minn, við förum bara hægt." Og það byrjaði nógu efnilega, þau hin voru fljótlega byrjuð að derra sig, en við Flosi, Tobba og Maggi vorum róleg og fórum skynsamlega af stað, þó fullhratt fyrir feitlagna hlaupara sem eru í endurkomu.

Enda fór það svo að skrifari missti fljótlega af þeim hinum og vissi því ekki hvert umræðuefnið var og hefur í sjálfu sér ekki frá neinu að segja. Það voru vissulega vonbrigði að Magnús skyldi svo fljótt gleyma loforði um rólegt hlaup og skilja vin sinn eftir. Hér gleymdist hið forna kjörorð Samtaka Vorra: Hér er enginn skilinn eftir!

Nú er orðið dimmt mjög af degi er hlaup stendur yfir og jafnvel svo dimmt á óupplýstri Ægisíðunni og er ástæða til að hafa áhyggjur af því að rekast á annað fólk í myrkrinu. Það var kjagað áfram í einsemd alla leið inn í Nauthólsvík, gengið upp brekkuna inn á Hlíðarfótinn og hlaup tekið upp af nýju. Hér var skrifari orðinn heitur og átti ekki í vandræðum með að ljúka glæsilegu hlaupi með sóma. Félagar mínir voru þegar komnir á Plan er komið var tilbaka og það var teygt og rætt um íslenskar nafnahefðir. Kári var mættur á Plan og stefndi á hlaup. Hlaupið það stóð þó ekki lengi, því að er Kári var kominn að Neskirkju varð hann fyrir opinberun og ákvað að snúa til Laugar á ný og eiga gæðastund með félögum sínum. 

Við tók klukkutímaseta í potti og mætti Helmut óhlaupinn í pott auk hlaupara og kunni ekki að skammast sín. Fljótlega barst talið að mat, drykk og skemmtunum. Fram var flutt formleg bón um að skrifari gengist fyrir um að finna veitingastað er væri fús til að taka við félögum Hlaupasamtakanna og bjóða upp á mat af einhverju tagi, ekki endilega julefrukost. Nú verður sem sagt farið að finna heppilegan stað sem tæki við okkur í byrjun desember þegar hann Ágúst okkar og frú Ólöf eru komin heim frá Kýpur.  


Einvalalið á sunnudegi

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Menn voru náttúrlega ekki að skilja þetta hrikalega niðurlag sem Garðabær leið fyrir e-u utanbæjarfólki sl. föstudag. "Og það fyrir Keflavík, af öllum stöðum!" sagði frændi minn Ólafur Þorsteinsson, Formaður Hlaupasamtaka Lýðveldisins. "Þetta er under sygekassegrænsen, það er bara ekki hægt að segja annað." Svofelld orð féllu í Brottfararsal Laugar Vorrar á sunnudagsmorgni, þegar saman söfnuðust fyrrn. Ólafur, frændi hans og nafni, skrifari sömu samtaka, Þorvaldur Gunnlaugsson, orðvar maður og hæverskur, Bjarni Benz, stóryrtur og hávaðasamur, Rúna Hvannberg, Irma Erlingsdóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir og Jörundur prentari. Einvalalið. 

Veður var gott, stillt, hiti yfir frostmarki og bjart. Lagt upp frá Plani á rólegum nótum, skrifari óhlaupinn í þrjár vikur - og Jörundur með svipaðar syndir. Sem fyrr segir var hugur manna hjá vinum okkar í Garðabæ, en að sama skapi gátu menn ekki annað en dáðst að frammistöðu og kímni þeirra Keflvíkinga, sem virðist vera rísandi byggðarlag eftir að hafa losnað undan andlegri áþján erlends herflugvallar.

Dólum þetta í rólegheitunum og nú fer að blása móti okkur af austri og það andar köldu. Bjarni var með hund með sér sem hann hefur í pössun. Hann sótti hundinn um miðja laugardagsnóttina og þurfti að byrja á að setja hann í bað og var ekki kominn í bælið fyrr en undir morgun. Mætti þó alhress til hlaups kl. 10. Það var ákveðinn kostur að Bjarni skyldi vera upptekinn af hundinum, þá hafði hann minni tíma til að djöflast í okkur. En verst var að hundkvikyndið var að þvælast fyrir okkur þegar hann var í bandi og hefði hæglega getað drepið okkur.

Í Nauthólsvík sagði Rúna skilið við okkur og fór Hlíðarfót. Stuttu síðar yfirgaf Ósk hópinn og fór í Fossvoginn. En við hin héldum áfram í Kirkjugarðinn. Í ljósi þess að nýr hlaupari var í hópnum, Irma, var gerður stanz við leiði Brynleifs Tobíassonar og Guðrúnar konu hans og fluttur stuttur pistill. Pistilinn flutti Ólafur frændi minn og var í öllum meginatriðum farið rangt með staðreyndir eins og löng hefð er komin á. Irma var hins vegar mjög impóneruð af þekkingu frænda míns á sögu og lögfræði.

Svo var dólað áfram yfir Hálendið og framhjá æskuheimili Vilhjálms Bjarnasonar í Grænuhlíðinni, yfir Miklubraut, yfir Klambratún og þá leið áfram. Við stoppuðum næsta lítið á þessari leið, og altént stutt í hvert skipti, enda kólnaði maður hratt niður ef stoppað var of lengi. Á Hlemmi beitti Þorvaldur brögðum, sneri inn á Laugaveginn og gabbaði Irmu til þess að fylgja sér eins og þetta væri eðlilegasti hlutur. Hún hefur sjálfsagt haldið að það ætti að beygja þarna. En við frændur og Bjarni og hundurinn héldum áfram niður á Sæbraut og hlupum þá leið tilbaka. Við vorum ósáttir við þetta óþverrabragð hans Þorvaldar og hugsuðum honum þegjandi þörfina.

Farið um Miðbæ og heilsað upp á fólk í Austurstræti og á Austurvelli, en mjög margir Reykvíkingar virðast eiga erindi við frænda og vilja leita ráða hjá honum í ýmsum brýnum málum. Gengum upp Túngötuna, skrifari tók ofan húfu við Kristskirkju, hneigði höfuð og signdi sig. Bjarni heimtaði að Ó. Þorsteinsson gerði slíkt hið sama. "Nei, aldrei. Ég er einnarmessumaður." Svo var haldið áfram niður Hofsvallagötu og hlaupi lokið. Teygt í móttökusal og stuttu síðar kom Jörundur og hafði farið sömu leið og við.

Þar sem skrifari býst til að skola af sér í Útiklefa dúkkar ekki Einar blómasali upp og þykist vera veikur. Hann hlaut fyrir eyrnafíkjur frá Bjarna og skrifara og var sagt að skammast sín fyrir að vera með svona málatilbúnað. Baldur var mættur í pott er skrifari kom þangað, auk Mímis og Ólafs Þorsteinssonar. Áður en yfir lauk höfðu þeir feðgar dr. Einar Gunnar og Ólafur Jóhannes heiðrað okkur með nærveru sinni, og svo hjónin Stefán og Helga. Rætt var um morðið á Kennedy og samsæri almennt út frá því. Bjarni æsti sig einhver ósköp yfir því hversu alríkisstjórnin hefði reynt að hylma yfir morðið og komið í veg fyrir að það yrði rannsakað almennilega. Hann hefði lesið grein um málið í Tíme sem segði frá e-m 361. ramma í Zapruder myndinni sem hefði verið haldið leyndum árum saman, en sýndi Kennedy á því augnabliki er seinni kúlan hæfði hann. Mönnum var ekki skemmt.


Hausthlaup

Eftir tvo velheppnaða hlaupadaga, fyrst með Denna af Nesi sl. föstudag, og svo með frænda mínum og vini, Ó. Þorsteinssyni, sl. sunnudag, var tímabært að fara að spreyta sig með alvörufólki. Það var kominn mánudagur og engar smákanónur mættar til hlaupa í Brottfararsal. Fyrsta skal nefna dr. Jóhönnu sem er á leið í haustmaraþon á laugardag, Heiðar sömuleiðis maraþonefni, Ósk, Baldur, og þar á eftir síðri hlauparar, Þorvaldur, Jörundur, Tobba, Kári og skrifari. Eftir hlaup kom í ljós draugasaga um tannlækninn, meira um það síðar. 

Það var svalt í veðri, enda vetur í aðsigi og hlauparar farnir að klæða sig betur en áður. Nú er það ekki lengur svo að einhver "leiðtogi" standi á Plani og gargi fyrirmæli, hersingin silast einfaldlega af stað og e-r forystukind, oftar enn ekki Jóhanna, leiðir okkur áfram skynsamlegustu leiðina miðað við veðurfar og nennu hlaupara. Þannig var það í dag, enginn áhugi á Nesi, en stefnan sett beinustu leið niður á Ægisíðu og svo austur úr.

Sem fyrr segir eru tilteknir hlauparar á leið í maraþon á laugardag og því ekki langt í boði í dag, mesta lagi 12 km á rólegu tempói. Hópurinn skiptist fljótlega í tvennt, ef ekki þrennt og þarf ekki að fara nánar út í þá sálma. Aftari hópurinn var gróflega skipaður Þorvaldi, Tobbu, skrifara, Kára og Jörundi. Við fórum þetta af skynseminni, en Jörundur er enn að glíma við afleiðingarnar af byltunni með lambhrútinn í Norðurárdal.

Sumir fullyrða að hlaupin seinki innlögn og slái Allanum á frest. Skrifari er farinn að fyllast efasemdum um þetta resept fyrir heilbrigði og nefndi fjölmörg dæmi þess á hlaupum að minni félaga væri ekki eins óbrigðult og þeir héldu sjálfir. En þó verður því ekki móti mælt að endurtekin hlaup efla þrek og auka úthald og kom það í ljós í hlaupi dagsins, þar sem skrifari sýndi tilþrif eins og fjögurra vetra foli. Sama verður því miður ekki sagt um ónefnd athafnaskáld í hópi vorum, skáld sem yrkja um blóm og blessun kapítalismans og selja ónýtt skran. Menn sem dvelja langdvölum í útlöndum og graðka í sig erlendar steikur og svolgra í sig útþynntan mjöð á uppsprengdu verði. Þeirra dómur bíður nk. fimmtudags.

Jæja, hlaupið gengur bara vel fyrir sig, gott tempó í gangi og hlauparar sprækir. Spurt var hvert skyldi haldið. Skrifari gaf einföld fyrirmæli: "Suðurhlíð." Þeim var hlýtt, þ.e. af Tobbu og Þorvaldi, þau fylgdu skrifara áfram í stað þess að beygja af við Hlíðarfót, af Jörundi og Kára var allt tíðindalaust. Þetta var einstaklega áreynslulítið hjá okkur, fyrst upp Flanir, og svo niður hjá Kirkjugarði og út að Kringlumýrarbraut. Hér hefði einhver búist við stoppi, en það var ekki í boði, við héldum áfram upp Suðurhlíðina án þess að stoppa. Að vísu skal viðurkennt að hér þurfti skrifari að  beita hörðu til þess að píska þau hin áfram, en þeim til hróss má segja að þau gáfust ekki upp, heldur héldu áfram alla leið upp að Perlu, blásandi eins og fýsibelgir. 

Þá versnaði í því vegna þess að þau stoppuðu ekki þar, heldur steyptu sér niður Stokk á fullri ferð, bæði létt á sér, en skrifari hikaði við að láta vaða niðureftir, enda var ekki víst hvaða afleiðingar það gæti haft ef þessi þungi massi lenti á fyrirstöðu meðan áhættan var minni með létta líkami eins og þeirra hinna. Hér skildi með okkur og varð ég nokkru á eftir þeim á bakaleiðinni. En það dró ekki úr kraftinum í hlaupinu og var leggurinn til Laugar tekinn með áhlaupi. Komið tilbaka í rökkri og farið inn til að teygja. Um sama leyti komu þau hin tilbaka úr sínu 12 km hlaupi og heyrðist tölunni "4:50" fleygt um tempó dagsins.

Jæja, sem skrifari er að koma tilbaka rekst hann í fangið á Magnúsi Júlíusi flóttalegum. Taldi hann sig hafa gripið strákinn Tuma við að skjóta sér undan skyldum sínum. Magnús brást hins vegar vel við og kvaðst hafa hlaupið einn og sjálfur og farið af stað 10 mín. á undan okkur hinum. Hann hefði verið slæmur í mjöðm (og benti á lærið á sér) og búist við að við myndum ná honum. Hins vegar hefði mjöðmin (benti aftur á lærið á sér) bara virkað vel og hann hefði hlaupið Hlíðarfót með miklum ágætum.

Nú eru Hlaupasamtökin farin að líkjast einhverju. Hlauparar safnast aftur saman í Móttökusal að loknu hlaupi og bera saman bækur sínar meðan þeir teygja. Svo er setið í Potti og sagðar sögur, en blátt bann er lagt við pólutískum þrætum, en þó er heimilt að ræða mataruppskriftir. Menn ræddu af innsæi um aðgerðir lögreglu í Gálgahrauni í dag og hvort þeir hefðu flutt Ómar burtu í handjárnum. Jörundur rifjaði upp samskipti sín við réttvísina í verkalýðs- og þjóðfrelsisbaráttu sjöunda áratugarins og endaði ekki alltaf vel.

Næsta hlaup: miðvikudag, Þriggjabrúa, ekki styttra.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband