Takk, Jörundur!

Fjölmargir hafa komið að máli við skrifara Hlaupasamtaka Lýðveldisins og spurt: "Ólafur minn, eru allar þessar Brussel-ferðir virkilega nauðsynlegar?" Við þessu hefur skrifari svar á reiðum höndum: "Já!" Það var nefnilega þannig þegar mætt var til hefðbundins sunnudagshlaups að Vesturbæjarlaug á þessum sunnudagsmorgni að skrifari þurfti að tilkynna félögum sínum að hann myndi missa af næstu tveimur hlaupum vegna ferðar til Brussel í boði Jörundar. Mættir voru Ó. Þorsteinsson, Formaður til Lífstíðar, Magnús Júlíus tannlæknir, Þorvaldur Gunnlaugsson, geðprúður vísindamaður ættaður af Dunhaga, barnaskólakennarinn geðþekki Flosi Kristjánsson, og loks rak lestina skrifari Samtaka Vorra. 

Athugulir lesendur munu taka eftir því að hefðbundnar skellibjöllur og hávaðaseggir eins og Bjarni Benz, Einar blómasali og Jörundur prentari voru fjarri góðu gamni. Segja má að hlaupið hafi verið í anda íslensks aðals, hófstillt, geðprútt og virðulegt. Magnús Júlíus var með böggum hildar, kvað bíl sinn hafa farið að hegða sér einkennilega og hann lagði honum því niður á Esso-stöðinni við Ægisíðu. Við inntum hann eftir einkennum, hann lýsti því að bíllinn hefði dúað mikið. "Dempararnir!" hrópaði skrifari, hafandi þó ekki hundsvit á bílum. Magnús heimtaði að við legðum lykkju á leið okkar og færum niður á benzínstöð og kíktum á bílinn.

Að sjálfsögðu var orðið við beiðni Magnúsar og við settum stefnuna á Esso-stöðina. Þar röðuðu menn sér allan hringinn á bílinn og hossuðu honum og fór ekkert milli mála hver vandinn var: dempararnir. "Er óhætt að keyra bílinn svona?" spurði Magnús. "Ekki ef þú vilt ekki fá lögguna á hælana á þér," svaraði skrifari. Við ráðlögðum honum að tala við blómasalann áður en hann gerði nokkuð.

Jæja, það var haldið áfram og farin Ægisíðan í austur í hávaðasunnanroki og rigningu, mótvindi. Okkur varð ljós skýringin á því hvers vegna fleiri væru ekki mættir til hlaupa, þetta hlaupaveður var bara fyrir karlmenni. Við vorum þó ekkert að flýta okkur, fórum bara fetið. Lítið rætt um skuldaleiðréttinguna, en meira um fráfall próf. emeritusar, frænda Ó. Þorsteinssonar, Þórhalls Vilmundarsonar. Þeir voru daglegir símafélagar um þrjátíu ára skeið og sjónarsviptir að merkum vísindamanni. 

Hlaupið í mótvindi og virtist ekki ætla að draga úr mótlætinu. Þó var staldrað við í Nauthólsvík og þeir sem þess þurftu léttu á sér. Gengið um stund. Skrifari kunni að segja frá þeirri merkilegu ritgerð sem hann sendi Þjóðminjasafni um sundvenjur í Vesturbæ. Tilskrifi þessu var óvenju vel tekið og uppskar skrifari mikið þakklæti fyrir. Fagstjóri þjóðháttadeildar hafði samband og bað um leyfi að mega senda nýja könnun. Skrifari verandi vinur Þjóðminjasafns og vill vita veg þess sem mestan brást vel við og bauðst til að fylla út nýja könnun. Hann fékk senda um hæl könnun sem heitir "Samkynhneigð á Íslandi".

 Jæja, það var haldið í Kirkjugarð og gengið um stund. Fljótlega eftir Garð urðum við Ólafur frændi minn viðskila við þá hina, þeim lá einhver ósköp á að ljúka hlaupi, en við vorum rólegir og leyfðum þeim að æða þetta áfram. Er komið var á Sæbraut brast á hellirigning sem gerði málið nú ekki bærilegra, en menn héldu haus og luku hlaupi af miklu harðfylgi. 

Pottur mannaður þeim dr. Mími, dr. Einari Gunnari, Margréti barnaskólakennara, dr. Baldri - auk hlaupara, og loks kom Stefán verkfræðingur til Potts. Ekki man ég fyrir mitt litla líf um hvað var rætt, en man þó að ég lofaði að segja samvizkusamlega frá öllu sem sagt yrði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband