Fyrsti Föstudagur hvers mánaðar

Enn var bólginn ökklinn skrifara svo að ekki var hlaupið á þessum fyrsta hlaupadegi á nýju hlaupaári. Engu að síður taldi hann nauðsynlegt að mæta til Laugar að hlaupi loknu og vera félögum sínum fyrirmynd og hvatning til góðra verka. Fyrstan hitti hann fyrir blómasala á hröðum flótta, nýhlaupinn að vísu og nýskrúbbaðan, en flóttalegan engu að síður. Við félagar féllumst í faðma óskandi hvor öðrum góðs nýs árs og heitandi ævarandi vináttu. Blómasali upplýsti að Bjarni væri á svæðinu og væri á góðum nótum. 

Að aflokinni skrúbbun var haldið til Potts, fyrst þess heita, þar sem eitthvert þýzkt leiðindatúristalið var til almennra leiðinda, svo var gufa og loks Örlygshöfn. Þar var ekki annað mannval fyrir en Stefán Sigurðsson verkfræðingur.  Þar næst bættist við Anna Birna - og svo birtist Bjarninn, öskrandi eins og bjarndýr, hrópandi á skrifara, lýsandi því miður skemmtilegum orðum hvað ætti að gera við skrópagemlinga eins og hann. Flosi og Ólafur Gunn voru í Barnapotti. 

Mættir í hlaup dagsins voru Bjarni, blómasali, Þorvaldur, Magnús og Ólafur Gunnarsson. Uppi var ráðabrugg um að hlaupa í Kópavoginn og alla leið í Lækjarhjalla með rúmrusk til að hvekkja þann fróða góða prófessor sem þar býr, og jafnvel ráðast í Pott. En meður því að í för voru ráðagóðir og geðstilltir menn var þeirri fyrirætlan forðað. 

Bjarni flutti langan og snjallan fyrirlestur um nafna sinn og kollega, Bjarna Pálmarsson, leigubílstjóra, flugvirkja og píanóstillingarmann, sem var góðvinur Nixons, Kissingers og Bob Hope. Er hér var komið og enginn Denni mættur var orðið ljóst að ekki yrði af Fyrsta á Ljóninu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband