Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna

Svo sem boðað var í skeyti á Snjáldru var Jólahlaðborð Hlaupasamtakanna haldið að Hótel Borg hjá snillingnum Völla Snæ laugardaginn 7. desember sl. kl. 12:00. Skrifari hafði samkvæmt boðum um þátttöku látið taka frá pláss fyrir 20 manns og heilir 14 einstaklingar mættu! Þeirra sem boðuðu komu sína en létu ekki sjá sig skal látið ógetið, en þeir sem mættu voru: Þorvaldur, próf. Fróði og Ólöf, Helmut, Frikki og Rúna, skrifari og Íris, blómasalinn og Vilborg, dr. Baldur, Kári, og síðust en ekki síst, Ólafur Þorsteinsson og frú Helga Jónsdóttir frá Melum.

Nokkuð þurfti að bíða eftir boðsgestunum, en um hálfeitt tóku Þorvaldur og skrifari á sig rögg og fóru í röðina við hlaðborðið. Það var eins gott því fljótlega fylltist allt af fólki þar og aðeins með röggsemi að við fengum raðað fáeinum fiskréttum á diskana okkar. Svo komu félagar okkar á eftir okkur og röðuðu sér við réttina. Þá var hins vegar komin upp sú staða að í röðina var kominn gjörvallur kvenleggur útskriftarárgangs 1967 úr Reykjavíkur Lærða Skóla að því er okkar fremsti persónufræðingur, Ó. Þorsteinsson, fullyrti. Þessu til sönnunar taldi hann upp nokkrar nafnkunnar kvenpersónur úr hópnum, og ævinlega með orðunum "...allt frá NN og upp eða niður í XX...".

Nú fór í verra þegar kom að því að fara í annað skiptið í hlaðborðið. Þá var biðröðin orðin alllöng og tók ekki undir 15 mín. að komast að kjötkötlunum. Skrifari raðaði þeim mun meira á diskinn hjá sér í þetta skiptið að hann átti ekkert frekar von á því að komast aftur að borðinu, og ruddist í leiðinni framhjá nokkrum kellingum í árgangi 1967. Þegar matur er annars vegar verða allar kurteisisreglur að víkja, þetta hefur Einar blómasali kennt mér.

Jæja, þar sem skrifari slafrar í sig matnum verður hann var við fyrirgang í salnum. Kunnugir töldu sig sjá þann mæta sómamann Þorvald frá Óðagoti fljúga láréttan um loftið á Borginni haldandi disknum fyrir framan sig í sveiflu sem próf. Fróði hefði verið vel sæmdur af. Hann var þá að koma tilbaka í salinn eftir að hafa raðað á diskinn líkt og skrifari, en rekið tána í pall sem var í gangveginum, með þessum afleiðingum, að hann flaug í gólfið - og það sem var verst, missti matinn líka í gólfið, og búinn að eyða ekkert smátíma í að ná í hann!

Kvenfólkið í salnum jesúsaði sig og óttaðist það versta. En Þorvaldur stóð upp og dustaði af sér rykið og kvað sér ekki hafa orðið meint af byltunni. Hér hefði getað farið verr. Þakkaði hlauparinn ástsæli gott líkamlegt atgervi að ekki urðu líkamsmeiðsl af. Nú kom starfsfólk staðarins aðvífandi og spurðist fyrir um ástand hins fallna manns. Hann bar sig vel og endurtók mikilvægi þess að vera í góðu líkamlegu formi þegar kæmi að því að falla um palla í jólahlaðborðum. Honum var tjáð að hann fengi málsverðinn sér að kostnaðarlausu.

Hér kviknaði einhver kunnuglegur glampi í augum blómasalans og hann horfði á Vilborgu eins og hann hefði gert kaup lífs síns. Næst þegar hann fór að bæta á diskinn, það var í þriðja eða fjórða skipti, sást til hans þar sem hann var að taka tilhlaup að pallinum í salnum, og æfði í leiðinni trúverðugt diskakast. En hjá sumum vantar upp á mótoríska samhæfingu þegar menn eru of meðvitaðir um gjörninginn sem framundan er - eða hvort það var bara að hann vildi ekki henda því sem var á disknum í gólfið. Hann greiddi málsverðinn fullu verði.

Þarna áttum við sumsé ánægjulega hádegisstund sem lauk ekki fyrr en liðið var langt á dag, og jafnvel þá átti fólk erfitt með að slíta sig hvað frá öðru. Að lokum féllust menn í faðma og lýstu yfir ævarandi vináttu og skjótum endurfundum við hlaup og skemmtan.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband