Jólasveinar einn og átta

Við vorum sem sagt níu sem hlupum í morgun, ef hundurinn hans Bjarna er talinn með. Þessir voru: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Magnús, Þorvaldur, Einar blómasali, Denni, Bjarni og Ólafur skrifari. Það var safnast saman venju samkvæmt í Brottfararsal og tekið spjall um helstu dægurefni. Þar bar hæst símhringing sem barst úr Garðabænum á Kvisthagann og óðamála maður á hinum endanum lýsti yfir vanþóknun sinni yfir því að Reykjavíkur Lærði Skóli, sú mikla menntastofnun, fengi 100 m.kr. til viðbótar samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi. 

Það var hált úti og við hvöttum hverir aðra að fara bara rólega og varlega. Denni einn á járnum. Lagt upp á rólegu nótunum eins og ávallt á sunnudögum. Veður einstaklega fallegt, bjart yfir, logn og 2ja stiga hiti. Maður hlakkaði bara til góðs hlaups í góðra vina hópi. Nú vantaði bara Jörund. Þorvaldur og Flosi fóru fyrir hópnum og komust nokkuð langt á undan okkur. Bjarni hafði hundinn lausan og boðaði það ekki gott, hann þurfti ævinlega að vera hlaupandi á eftir honum að rífa hann ofan af lóðatíkum sem nóg var af í dag og dróst aftur úr okkur af þeim sökum.

Á Ægisíðunni kvað við mikill dynkur sem ku hafa orðið til þess að G. Löve rumskaði af værum blundi í bæli sínu. Við sem fremstir fórum töldum þetta bara vera landskjálfta einhverrar tegundar, en í reynd hafði það gerst að Bjarni Benz flaug á hausinn í eltingarleiknum við hundinn og fékk stórt gat á hnakkann. Ekki varð honum þó teljandi meint af og ekki er fráleitt að giska á að hann hafi jafnvel skánað nokkuð til heilsunnar við fallið. Verst var þó að hafa misst af fallinu, það hefði verið vel þegin upplyfting í skammdeginu. 

Ekki var tíðinda á leiðinni inn í Nauthólsvík annað en að Flosi var kominn langt á undan okkur hinum sem fórum fetið og gættum þess eins að standa í lappirnar. Fyrstu fjórir kílómetrarnir inn í Nauthólsvík eru alltaf erfiðastir á sunnudögum, eftir það er maður orðinn heitur og eftirleikurinn því auðveldur. En það var gerður stans í Víkinni og Ó. Þorsteinsson boðaði spurningu sem hann hugðist leggja fyrir Baldur í Potti. "20. ágúst 1938 varð sá hörmulegi atburður að bíl var ekið út í Tungufljót og með honum fórust þrjár mæðgur, eiginkona og dætur Sigurbjörns í Ási. Ökumaðurinn var Pedersen garðyrkjumaður. Spurt er: hvaða bílnúmer bar bíllinn?" Það hlakkaði í Ólafi. 

Haldið áfram í Kirkjugarð og þaðan hefðbundið yfir Veðurstofuhálendi og niður í Hlíðar. Á leiðinni úr Grænuhlíðinni og út á Miklubraut voru miklir svellbunkar og máttum við ganga á þeim kafla. En svo var hlaupið af nýju yfir hjá Klömbrum og Óttarsplatz. Í dag var farinn Laugavegurinn í tilefni jóla og talin auð verslunarrými, þau reyndust vera 9, en voru mest 30 í Hruninu.

Farið um Austurvöll og nú var Túngatan hlaupin alla leið upp að Kristskirkju, þar tóku menn ofan og signdu sig fyrir kirkjudurum. Loks var þreytt hlaup niður Hofsvallagötu og frábæru hlaupi lokið á Plani.

Hefðbundin uppstilling í Potti með dr. Baldri, dr. Einari Gunnari og þeim hjónakornum Stefáni og Helgu Jónsdóttur Gröndal Zoega Flygenring. Ólafur Þorsteinsson lagði spurningu sína fyrir Baldur og auðvitað stóð hann á gati. Ólafur malaði eins og köttur af ánægju. Rétt svar: RE-884.

Flutt vísan um Þorstein Dalasýslumann.

Hefurðu séð þrjótinn þann
Þorstein Dalasýslumann,
kom ég víða en hvergi fann
karlhelvítisandskotann.

Og svarið:

Blótaðu ekki, Bjarni minn,
bíddu hægur, vinurinn,
kannski bráðum komi inn
karlhelvítisandskotinn. 

Jólahlaup verða auglýst fljótlega. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband