Hlaupasamtökin eru föst í hefðinni

Ævinlega er hlaupið á miðvikudögum frá Vesturbæjarlaug kl. 17:30. Á þessu var engin breyting á síðasta vetrardegi 2014. Þó virðist sem páskarnir hafi ruglað einhverja í ríminu, því að einungis voru fjórir hlauparar mættir á lögbundnum tíma: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Ólafur skrifari og Guðmundur Löve. Guðmundur stefnir á Kaupmannahafnar-maraþon 18. maí og því búinn að toppa og farinn að trappa niður. Hann bað um rólegt. Ekki stóð á okkur Magga, við erum báðir eymingjar og fúsir að hlaupa hægt og stutt hvenær sem það er í boði. Jafnvel prófessorinn lagðist ekki gegn því, en svo er annað mál hvort hann skilji "hægt og stutt" sama skilningi og við dauðlegir. 

Jæja, klukkan orðin 17:30 og við að leggja í hann í 13 stiga hitamollu þegar gamli barnakennarinn dúkkaði upp og hljóp orðalaust í Útiklefa með tuðru sína.  Einnig varð vart við Inga, en óljóst hvort hann óskaði eftir að beðið væri eftir honum. Við fjórir sómar Samtaka Vorra ákváðum að hér væru ekki séríösir hlauparar á ferð og lögðum af stað. Það var rætt um Hlíðarfót - prófessornum þótti það heldur stutt, nýbúinn að fara 37,5 km frá heimili sínu og um Heiðmörk, en hann kom ekki á framfæri mótmælum. En við lögðum af stað með magana fulla af góðum ásetningi.

Þetta var erfitt fyrir feitlaginn hlaupara í endurkomu. Þeir hinir sýndu mér þann sóma að leyfa mér að hanga í sér. Meira að segja Guðmundur Löve spurði á einum stað hvort ekki væri hefð fyrir göngu hér. Það var eftir að Magnús Júlíus hafði hitt hjón með barnavagn og hann heimtaði að fá að kíkja upp í væntanlegan skjólstæðing sinn þótt í vöggu væri. Svo var haldið áfram. Það var hér sem Snorri Gunnarsson dúkkaði upp og var upplýstur af G. Löve að hér væri hæg lest á ferð. Skrifara heyrðist Snorri segja: "Come on! Ertu ekki að djóka í mér?" - eða eitthvað í þá veru. Enda settu þeir tveir fljótt upp tempóið og yfirgáfu okkur hina.

Prófessorinn hékk enn í okkur Magga og virtist njóta þess að vera samferðamaður okkar. Við höfum oft náð góðum samtölum okkar í millum í gegnum tíðina og því upplifði maður þessa klassísku stund að vera á ferð með góðum félögum, hreyfandi sig, reynandi á sig, svitnandi og þar fram eftir götunum. Það skal viðurkennt að fyrstu 4 km reyndust skrifara erfiðir, hann var þungur á sér, andstuttur, en hafði ekki nægilega ástæðu til þess að hlaupa ekki eða fara að ganga og ákvað því að hanga í Magga.

Við komum í Nauthólsvík og þar er gert lögbundið stopp. Við upplýstum prófessorinn um að við myndum fara Hlíðarfót, honum þótti það helst til stutt og hélt áfram og setti stefnuna á Stokk. Við Maggi beygðum af og fórum inn á stíginn hjá HR. Við gengum ekki lengi en tókum upp hlaup og þá sagði ég Magga fallega dæmisögu af apa og ljóni sem myndi ganga vel í Kirkjuráðið, sögu sem Kári sagði mér og er upplýsandi um völd fjölmiðlanna í nútímasamfélagi.

Hér var skrifari orðinn heitur og léttur og það var hlaupið sleitulaust og án tafa rakleiðis til Laugar, framhjá Gvuðsmönnum, um Hringbraut, hjá Akademíunni, Þjóðarbókhlöðunni og þá leið til Laugar. Hér sannaðist sem endranær að þegar menn eru komnir af stað og búnir að hita skrokka sína upp þá er eftirleikurinn auðveldur. Þetta mætti ónefndur blómasali sem best tileinka sér, hann hefur ekki sést lengi að hlaupum og Halldór Bergmann er farinn að kvarta yfir fjarveru hans í morgunhlaupum þrátt fyrir yfirlýstan góðan ásetning. 

Það var tómlegt í Laug. Við teygðum lítillega, stuttur Pottur og bara útlendingar, en ekki kátir sveinar að ræða málefni líðandi stundar. Hér er þörf á félagslegu átaki til þess að forða Samtökum Vorum frá tortímíngu. Því er tímabært að huga að árlegri Árshátíð Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þá er spurt: vill fólk halda sig við Viðey eða er vilji til þess að kanna aðra kosti? Kona spyr sig.  

Er skrifari hafði sig á brott var prófessorinn að koma til baka af hröðu 16 km hlaupi og Flosi ekki enn kominn tilbaka, en þeir giskuðu á að hann gæti hafa farið Þriggjabrúa.  


Sumartími

Nú er búið að opna nýjan pott í Laug Vorri og varla þverfótað fyrir baðgestum. Á sama tíma hafa konur endurheimt inniklefa sinn á efri hæð og karlar útiklefa sinn, en merkingar eru ekki nægilega skýrar svo að enn villast konur í útiklefa karla, hátta sig þar og fara í sturtu. Það getur valdið óþægindum. Á sunnudegi mættu þessir til hefðbundins sunnudagshlaups: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Ingi, blómasali, Þorvaldur og skrifari. Þeir voru sprækir. 

Lagt upp í björtu og fögru veðri, en svölu, ca. 5 stiga hita. Farið afar rólega af stað. Mættum Rúnu sem kom á móti okkur á Hofsvallagötu. Aðspurð hvers vegna hún kæmi ekki með okkur sagði hún að við færum of seint af stað. Hér kviknaði hugmyndin um að færa klukku Samtaka Vorra framar og hefja sunnudagshlaup eigi síðar en 9:10 á sumrin. Var hugmyndinni vel tekið og hún samþykkt og ákveðið að frá og með Sumardeginum fyrsta yrði hlaupið 9:10 á sunnudögum.

Hlaup hélt áfram á hefðbundnum nótum. Aðallega rætt um hinn nýja stjórnmálaflokk Benedikts Jóhannessonar sem mun vafalítið draga mikið fylgi frá Sjálfstæðisflokki. Nefndir voru tveir af núverandi þingmönnum Flokksins sem munu fylgja Benedikt - og Formaður Vor til Lífstíðar taldi líklegt að sér yrði boðið sæti á lista hins nýja flokks.

Venju samkvæmt var gengið í Nauthólsvík og aftur í Kirkjugarði, enda er brýnt fyrir gestum er þangað koma að virða helgi staðarins og frið þeirra sem þar hvíla. Svo var það bara þetta hefðbundna, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og Hlemmur. Farið niður á Sæbraut og þá leið gegnum Miðbæinn. Jörundur bara brattur þrátt fyrir háan aldur og hékk í okkur yngri mönnum alla leiðina.

Vandræði voru með hinn nýja pott er komið var tilbaka, mökkur af baðgestum, sumum hverjum alla leið frá Seltjarnarnesi, en nýi potturinn lokaður vegna of mikils klórmagns í vatni. Það lagaðist þó fljótlega og áður en langt var liðið á hádegissamtal Pottverja streymdi hópurinn yfir í nýja pottinn og það varð rúm til þess að halda hefðbundinn ádíens á sunnudegi með dr. Baldri og Stefáni verkfræðingi, en auk þeirra var Helga Jónsdóttir frá Melum mætt í Pott.  


Afmælisdrengur

2. apríl á sérstakur sómapiltur Hlaupasamtakanna afmæli: gamli barnatannlæknirinn. Hann mætti ekki til hlaups í dag fyrir sakir hógværðar og meðfæddrar hlédrægni. Magnús okkar er líklega fyrsti brotthvarfsnemandinn í menntasögu Lýðveldisins. Hann var ungur nemandi á Vesturborg hjá forvera eiginkonu skrifara og gegndi nafninu "Magnús prúði", en leiddist námið verandi kominn á sjötta aldursárið og ákvað að strjúka og var í framhaldinu sendur vestur á firði í vist.

Þessir voru mættir til hlaups: blómasalinn, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Jörundur, Ólafur Gunnarsson, Baldur Tumi, Kaufmann, og loks kom hvítur hrafn steðjandi: sjálfur Benzinn, strýhærður og síðskeggjaður og úfinn í skapi og hafði ekki sést svo mánuðum skipti í Vesturbænum. Skrifari reyndi að beina honum í Útiklefa, en aðrir hlauparar komu í veg fyrir að hann ylli uppnámi í kvennaklefa. Síðar fréttist svo af Hjálmari og Ósk að hlaupum og Benedikt mættum við á Tröppum í lok hlaups. Þannig að kunnuglegum andlitum brá fyrir á þessum degi, en ekki sást prófessor Fróði. 

Átti að bíða eftir Benz? Nei, það kom ekki til greina. Við Helmut héldum af stað og fórum rólega. Aðrir biðu eitthvað, en er leið á hlaupið kom liðið streymandi. Blómasalinn fullyrti að skrifari skuldaði honum Cadbury´s súkkulaði. Ástæðan er sú að er skrifari sté á vigt Vesturbæjarlaugar seinni partinn í gær teljandi sig harla óhultan, dúkkaði blómasali skyndilega upp fyrir horn og náði að spenna glyrnum í töluna á skjánum. Hann hótaði að segja félögum Hlaupasamtakanna frá uppgötvun sinni ef skrifari léti honum ekki í té Cadbury´s súkkulaði. Málið er óuppgert þeirra í millum, en því má skjóta að hér í algjörum trúnaði að nú skilja aðeins tvö kíló þessa tvo félaga að í líkamsvigt, og er skrifari á hraðri niðurleið. Sannleikurinn kemur í ljós í fyrramálið, á lögbundnum vigtardegi Vesturbæjarins.

Nú, það var þetta hefðbundna, kjagað í mótvindi og mótlæti inn í Nauthólsvík þar sem var tímajafnað og Benzinum leyft að ná okkur, en það var þá sem Kaufmann Friedrich hljóp fram úr okkur. Við fórum inn á Hlíðarfótinn og söfnuðum hópnum saman. Hér vorum við fimm sem héldum hópinn, þessir lökustu og hægustu. En þó má segja að við höfum sótt í okkur veðrið er leið á hlaupið og tókum seinni hlutann af þó nokkrum röskleika. Enginn skilinn eftir, Hlaupasamtökin að ná vopnum sínum á ný.

Menn voru eitthvað seinir að koma sér til Potts og hefði þó ekki veitt af ærslafullum Benz til þess að ryðja pott fullan af aðkomufólki. Um síðir gafst skrifari upp og hélt á vit heimilislífsins. Honum var ofarlega í sinni Fyrsti Föstudagur og boð frænda hans og vinar, Ó. Þorsteinssonar, að heimili hans. Boðin þau eru ævinlega hátíðleg, þar er fjallað um sögu málaralistar á Íslandi, staldrað við bílnúmer og persónufræði. Vel mætt!  


Aldeilis einstakt hlaup

Er skrifari kom á Plan sá hann prófessor Fróða á tröppum, búinn að vefja um andlit sitt klúti að hætti hryðjuverkamanna. Útundan sá hann blómasala í hávaðasamræðum við sjálfan sig. Það var skipst á ónotum, en að því búnu haldið til klefa. Þar var fyrir á fleti gamli barnakennarinn. Vel horfði um hlaup, nokkrir af vöskustu hlaupurum Hlaupasamtakanna mættir til hlaups á föstudegi. Þegar upp var staðið voru þessir mættir: próf. Fróði, gamli barnakennarinn, blómasalinn, skrifari, Ó. Gunnarsson, Rúna Hvannberg og Jörundur prentari. Glæsilegur hópur!

Blómasalinn búinn að gefa út plan um hefðbundið hlaup og ekki var gerður ágreiningur um það á slíkum degi, stilla, bjart yfir og hiti 4 stig. Gerist vart betra. Lagt upp á rólegu nótunum, skrifari ætlaði bara stutt og hægt, enda lítið búinn að hlaupa og auk þess nýstaðinn upp úr veikindum. Fljótlega drógu þeir sig frá okkur, barnakennarinn, prófessorinn og Ólafur hinn. Það var einhver rembingur í þeim. Við hin rólegri. Þó var til þess tekið hvað skrifari var sprækur, hélt sig töluvert á undan blómasala og Rúnu, að ekki sé talað um Jörund sem dróst aftur úr. Hér rifjuðust upp ummæli Fróða um 95 kg skrokkinn sem gat hlaupið svo hratt - og blómasalinn tók til sín.

Fyrst var spurningin: kemst ég út að Skítastöð? Þegar þangað var komið breyttist spurningin í fullyrðingu: ég fer alla vega út í Nauthólsvík! Svo skyldi bara skoðað hvert framhaldið yrði. Þau hin alltaf á eftir mér svo furðu vakti. Þegar komið var í Nauthólsvík var þetta ekki lengur spurning: nú yrði bara farið hefðbundið, Hlíðarfótur hefði verið niederlag. Í Hi-Lux töltu þau hin fram úr mér, enda er formið þannig þessa dagana að maður gengur brekkur. Sú forysta var þó ekki lengi að hverfa, við Kirkjugarð skildi ég þau aftur að baki.

Það var farið hefðbundið um Veðurstofu, Hlíðar og Klambra, og enn hélt skrifari forystu sinni, en hvorki sást tangur né tetur af prentaranum.  Er komið var á Hlemm var ákveðið að fara um Laugaveg vegna svalrar norðanáttar sem kældi viðkvæm hjörtu. Er hér var komið leyfði ég þeim hinum að fara fram úr mér, orðinn þreyttur og fannst bara ágætt að ganga á köflum. Margt fólk á Laugavegi og ekki alveg einfalt að þreyta kapphlaup. 

Gengið upp Túngötu, en hlaupið niður Hofsvallagötu, enda veisla framundan. Er komið var að Melabúð var búið að reisa stórt, hvítt tjald utan við verslunina og þar var haldið upp á grænlenska daga með hátíðlegum hætti. Þar var Pétur og þar var Frikki, ýmislegar veitingar, en einhverra hluta vegna stilltum við hlauparar okkur upp við skálina með frostpinnunum, ekki hef ég tölu á fjölda frostpinna sem runnu niður kverkar blómasalans, en Pétur hafði á orði að við værum ekkert skárri en börnin. Hér hittum við Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar. Hann var ómissandi hluti af hátíðinni verandi framúrskarandi íbúi í Vesturbæ Lýðveldisins. Hann heilsaði öllum með virktum og rifjuð var upp ódauðleg vísbendingarspurning Einars blómasala: "Spurt er um eiganda kampavínslitaðrar jeppabifreiðar með skráningarnúmerinu R-156."  Ólafur Þorsteinsson svaraði að bragði: "Jú, þetta var vel þekktur gleraugnasali í Reykjavík." Hann tilkynnti um þá ákvörðun sína að Fyrsti Föstudagur aprílmánaðar yrði að heimili hans föstudaginn 4. apríl nk. Hann lýsti fyrirhuguðum veitingum og framreiðslu þeirra. 

Nú var haldið til Laugar. Einar blómasali dró fram restarnar af Cadbury´s súkkulaðinu sem Jörundur gaf honum. Hann hélt uppi vænum bita, otaði honum að skrifara og spurði: "Langar þig í?" Stakk síðan bitanum upp í sig og kjammsaði gráðuglega á honum, svo að súkkulaðitaumarnir runnu niður munnvikin. Það var haldið til Potts. Búið að draga tjöldin frá nýjum Potti í Laug Vorri og var fólk impónerað, en ekki verður fólki hleypt að honum fyrr en 11. apríl nk. Við uppgötvuðum Magnús tannlækni í Laug, sem og próf. dr. Einar Gunnar og áður en yfir lauk hafði Kári sameinast okkur í einu herlegu baði í Potti.

Þetta var einn af þessum frábæru hlaupadögum, veður gott, hlaup gott, félagsskapur framúrskarandi, Pottur góður, hver fimmaurabrandarinn af öðrum flaug og við hlógum eins og vitleysingar. Próf. Fróði hélt umræðu um áfengi í lágmarki, er líklega farinn að reskjast.

Næsti viðburður: Reykjavegsganga nk. sunnudag kl. 9:55.  


Þrjú á palli

Við vorum sumsé þrjú: Þorvaldur, Ólafur skrifari og Tobba. Magnús Júlíus var að vísu líka á staðnum, kominn í gírið og út á Plan - en þar tilkynnti hann ólundarlegur að hann ætlaði að fella niður hlaup og synda og teygja í staðinn - sem við trúðum svona rétt mátulega. Við hlupum sumsé þrjú. Og það var alla vega. Það var lens í stífri vestanátt út alla Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Þar lægði og var rólegheitaveður lengi vel og raunar allar götur þar til komið var vestur fyrir Læk aftur, þá get ég svo svarið að við lentum í snjóbyl. Við börðumst áfram upp Túngötuna af mikilli seiglu og harðfylgi og eftir það steinlá Hofsvallagatan. Fínt hlaup hjá okkur öllum. 

Torvelt reyndist skrifara að ná utan af sér hlaupajakkanum að hlaupi loknu, rennilásinn sat pikkfastur. Á endanum var brugðið á það ráð að klippa jakkann utan af honum. Nú er skrifari jakkalaus.

Góð mæting í Pott: próf. dr. Einar Gunnar, dr. Mímir, Helga Jónsdóttir Gröndal, Stefán, Margrét barnakennari, og Ólafur Þorsteinsson óhlaupinn. Baldur í Englandi. Hér var mikið rætt um veru manna í barnaskólum og líðan þar, en einnig var sagt frá heimsókn Vilhjálms Bjarnasonar þingmanns í Vesturbæinn og í Morgunpott Vesturbæjarlaugar á fimmtudaginn er var. Ó. Þorsteinssyni tókst að fara rangt með fæðingarár Ástu Möller hjúkrunarfræðings og fv. þingkonu, var leiðréttur af Margréti Melaskólakonu og hefði þessi uppákoma glatt Baldur mikið.  


Vorið er á næsta leiti

Hreint ótrúleg mæting í föstudagshlaup Hlaupasamtaka Lýðveldisins föstudaginn 14. marz 2014. Það voru eingöngu karlar mættir, miðaldra og síðaldra karlar. Denni af Nesi mættur af því að hann hafði heyrt fleygt orðinu "Fyrsti" í e-m pósti. Ágúst Kvaran, gamli barnakennarinn, Þ. Gunnlaugsson, Magnús tannlæknir, Ingi og skrifari. Safnast saman í Brottfararsal og málin rædd af yfirvegun. Spurt var hvar blómasalinn væri, en upplýst að hann væri vant við látinn. 

Menn höfðu sosum ekki stór plön, skrifari gerði sér vonir um að lifa af hlaup í Skítastöð og tilbaka og Denni lýsti yfir viðlíka metnaðarfullum áformum. Aðrir ætluðu hægt og stutt, prófessorinn enn slæmur í læri. Það var lagt upp í fögru veðri, 5 stiga hita, stillu, skýjuðu og þurru veðri. Veður eins og þau gerast bezt á vormánuðum. Þetta var spennandi, nú skyldi látið reyna á þrek, úthald og styrk útlima.

Hlaup fer af stað bærilega. Magnús, Þorvaldur og Ágúst eitthvað að derra sig, næstur skrifari, og þar fyrir aftan lakari hlauparar. Ótrúlegar framfarir skrifara frá síðasta miðvikudegi þegar hann gafst upp nánast um leið og hlaup hófst og menn sáu hann hverfa inn í hverfi við fyrstu beygju. Nú skyldi látið á það reyna að menn kæmust alla vega að Skítastöð - og jafnvel tilbaka líka.

Þetta gekk furðuvel, en ég hægði á mér á köflum til þess að leyfa Denna að ná mér. Ingi sneri við á óskilgreindum kafla, en það sem vakti almenna furðu var að barnakennarinn sneri við er komið var að Flugvelli, og hafði þó nýlega haft góð orð í eyru Denna um að fara Hlíðarfót. Þetta kom okkur feitlögnum, þungum og hægfara hlaupurum á óvart. Við héldum þó okkar striki og komum í Nauthólsvík um það bil er þeir hinir voru að hypja sig þaðan.

Þetta var allt á rólegu nótunum, og þess vegna gengið inn á milli, sem er ágætur kostur þegar margt þarf að skrafa. Við ræddum mikið um lestur, t.d. þegar prófessorinn lærði að lesa fram fyrir sig. hér um árið. Kláruðum flott 8 km hlaup á viðunandi tíma með mikilli brennslu og töluverðum svita. Svo var farið í Pott og setið þar góða stund. Nefndur var sá möguleiki að taka einn kaldan á Ljóninu, en ekki veit skrifari að segja frá efndum þar. Hitt er þó sönnu nær að þar sem hann er staddur á Eiðistorgi að loknum Potti rekst hann á glerfínan blómasala á jeppabifreið, nýkominn úr erfidrykkju þar sem allur matur var endurgjaldslaus, roastbeef-snittur, rækjusnittur, kökur og hvaðeina. Taldi blómasali þetta vera næga afsökun fyrir því að mæta ekki til hlaups. Hlaut hann snuprur fyrir af hálfu skrifara.

Næst verður lögbundið hlaup í Hlaupasamtökunum að morgni sunnudags, kl. 10:10. Þá verður tekin fyrir nærvera þingmanns V. Bjarnasonar í Fimmtudagspotti Vesturbæjarlaugar. Í gvuðs friði.  


Löðrandi blíða

Það má merkilegt heita að á degi þegar veðurblíðan sleikir íbúa Vesturbæjarins eins og hin rósfingraða morgungyðja skuli ekki fleiri hlauparar mæta til hlaups, og maður spyr sig: Hvar eru Hlaupasamtökin stödd á vegi? Hvað er fólk að hugsa? Hvar var Magnús? Hvar var Flosi? Ja, er von maður spyrji. 

Mætt voru þessi: próf. dr. Ágúst Kvaran, dr. Jóhanna, dipl.tech.ing. Einar blómasali og Ólafur skrifari MPA. Í búningsklefa gerði prófessorinn eftirfarandi játningu: veiztu, skrifari góður, ég sleppti hlaupi á mánudaginn er var, það var svo vont veður. En ég segi þér þetta í aaaaalgjörum trúnaði og þú mátt engum segja þetta. Skrifari er orðheldinn maður og lofaði því.

Jæja, þarna söfnuðumst við saman í Brottfararsal og ætluðum öll stutt og hægt: prófessorinn með slæmsku í læri, Jóhanna á leið í Powerade á morgun, og Einar bara latur eins og venjulega. Skrifari hins vegar er að koma tilbaka til hlaupa eftir langvarandi álagsmeiðsli og hefur því gilda afsökun fyrir því að fara bara stutt.

Við ákváðum að fara á Nes, og settum stefnuna á Víðirmel. Einar þurfti að vísu að skjótast heim og skila konunni bílnum. Við Einar þurfum að fá námskeið hjá Magga tannlækni í eiginkonustjórnun. Nema hvað við hin fórum á Víðirmelinn og lofuðum að hirða blómasalann upp á leið okkar á Nes. Það stóðst á endum að hann var búinn að skila bíllyklunum þegar við komum á móts við Reynirmelinn. Svo var stefnan sett á Nes. Þetta var bara rólegt, skrifari þungur á sér, þreklaus og slappur. En þetta var altént fyrsta skrefið í endurkomu og heilun þessa endurfædda hlaupara.

Ekki man ég hvar ég beygði af, þau hin voru komin allnokkuð fram úr mér og það skiptir sosum ekki máli hvað ég fór langt, maður náði alla vega að hlaupa sér til svita. Svo var bara tölt tilbaka til Laugar þar sem setið var innan um Kínverja og Finna í Potti.

Á leið upp úr varð Magnús tannlæknir á vegi mínum. Ég innti hann eftir góðum ráðum í stjórnunarfræðunum. Hann sagðist ekki þora að stíga á Línuna, "Aníta var dæmd úr leik fyrir að stíga á línuna".

Ja, það er bara að vona að mæting verði betri í hlaupi föstudagsins (hvernig er það, eigum við ekki inni e-a Fyrstu Föstudaga?).  


Snúið aftur til hlaupa

Á fögrum febrúarmorgni í stillu og 4 stiga frosti sneri skrifari Hlaupasamtakanna aftur til hlaupa eftir tveggja mánaða hlé vegna ökklameiðsla. Honum var tekið fagnandi sem vonlegt er, utan hvað Jörundur starði óþarflega lengi á persónu skrifara eins og hann vildi láta í ljós mikla furðu á nærveru hans. Aðrir mættir: Ólafur Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur og Maggie. Nú klæðast karlmenn hlaupafatnaði í inniklefa og þar geta hafist fyrstu frásögur dagsins af fólki sem Formaður hefur hitt nýverið. 

Við fórum afar rólega af stað sem kom sér vel fyrir skrifara, sem er bæði þungur á sér og aumur í fótum. Menn furðuðu sig á fjarveru Magnúsar og var spurt hvar hann gæti verið. Einna helst töldu menn hann hafa verið boðaðan á mikilvægt Kirkjuráðsþing til skrafs og ráðagerða um sálarheill þjóðar. Jörundur fékk fljótlega í bakið og átti erfitt með hlaup, kvaðst vera farinn að finna til Elli kellingar.

Í Skerjafirði brá svo við að kunnugleg týpa virtist vera búin að stilla hjóli sínu upp við flugvallargirðingu og gera sig kláran til hlaupa með okkur: Einar blómasali. En svo kom á daginn, eða það fullyrti hann alla vega, að hann hefði týnt lyklinum að lásnum á hjólinu og því þorði hann ekki að skilja það eftir. Hjólaði bara með okkur í staðinn.

Hér var skrifari farinn að finna til þyngdar og mæði og dróst aftur úr, en spjaraði sig þó inn í Nauthólsvík. Þar var gerður góður stans meðan beðið var eftir Jörundi. Ökklinn skrifara enn til friðs og því haldið áfram og stefnan sett á Kirkjugarð. Þar var gengið samkvæmt áralangri hefð, en svo haldið áfram um Veðurstofu og Hlíðar, klakabúnkar á víð og dreif og náði blómasalinn að detta af hjóli sínu á einum slíkum.

Er komið var á Klambra ákvað skrifari að láta gott heita og taka stystu leið tilbaka, enda aðeins farinn að finna fyrir eymslum í ökkla. Fór um Hringbraut og gekk megnið af leiðinni, endaði á Plani þar sem Flosi og Maggie voru þá þegar mætt.

Pottur óvenjuvel mannaður: dr. Baldur, dr. Mímir, próf. dr. Einar Gunnar, dr. Magnús Lyngdal Magnússon, Helga og Stefán, Tobba, Maggie, Flosi, Jörundur, skrifari og Ó. Þorsteinsson. Svo mikið var rætt um persónufræði, bílnúmer og tónlist að menn gleymdu sér alveg og klukkan farin að ganga tvö er við loksins rönkuðum við okkur og fórum að tínast úr potti til hefðbundinna verka sunnudagseftirmiðdagsins, svo sem að gúffa í okkur Swedish meatballs á eina veitingastað Garðahrepps.

Í gvuðs friði! 


Öldungar

Ekki er fráleitt að tala um helstu öldunga Hlaupasamtakanna þegar í hlut eiga Jörundur prentari, Flosi barnakennari, Þorvaldur fræðimaður og Ó. Þorsteinsson Formaður til Lífstíðar, en þessir þreyttu einmitt hlaup að morgni þessa dags og fóru svo ótt og títt að skrifari varð að grípa til bifreiðar sinnar til þess að draga þá uppi langt komna inn á Ægisíðuna. Ákafa skrifara að ná þeim má að hluta skýra með því að tveir óskyldir honum í hópnum skulda enn fyrir Þorrablót í janúar sl. - en það er önnur saga og ekki til þess fallið að varpa rýrð á rótgróna vináttu, en samt, það er alltaf prinsippið, ekki það séu peningarnir, en prinsippið, menn eiga vitanlega að gera upp skuldir sínar við aðra, þetta finnst manni að eigi að vera ákveðið leiðarljós hjá fólki. Gera fljótt og vel upp við þá sem taka að sér að sjá um félagslíf Samtaka Vorra og standa í streðinu og leiðindunum.

Nema hvað, þarna taka þeir skeiðið og skrifari er fullur öfundar, en við því er ekki að gera. Ekki er hægt að rökræða málin við ökklann, hann lifir sínu eigin lífi og er ofurseldur eigin forsendum. Þannig að það er bara hægt að horfa, dást og öfunda. Að sama skapi má samgleðjast félaga okkar Hjálmari sem náði settu marki í framboðsslagnum í Reykjavík og fyllir hóp glæsilegra einstaklinga sem munu bjóða fram í Hreppnum á vormánuðumm.

Viðstaddir tóku eftir því að Einar blómasali var ekki með á hlaupum og hlýtur það að teljast áhyggjuefni öllum þeim sem vilja stuðla að heilbrigðum lífsstíl, meiri fegurð og menningu í Vesturbænum. Ef einhver þarf að hlaupa, léttast og njóta menningar og persónufræði þá er það  blómasalinn. Meðan kílóin fjúka af skrifara þá ýmist stendur þessi garpur í stað eða bætir við sig fleiri kílóum. Nú er vorið að koma og ekki seinna að menn fari að reka slyðruorðið af sér. Hér er verk að vinna og skulum vér, félagar Einars, taka hann í umsjá okkar og hjálpa honum að takast á við þyngdina. Já, við eigum að gæta bróður okkar!


Brennivínssvelgur

Gríðarlega efnisríkum fundi í Potti að loknu hefðbundnu Föstudagshlaupi er lokið. Mættir voru: próf. dr. Einar Gunnar Pétursson, hlaupari án hlaupaskyldu, próf. dr. Ágúst Kvaran, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis, Denni skransali, Flosi barnakennari, Jörundur prentari og loks hinn halti skrifari Hlaupasamtaka Vorra. Er komið var i Pott var skipst á kveðjum og þökkum fyrir einstaklega vel heppnað Þorrablót sl. föstudag að heimili þeirra Hrannar og Denna á Nesi. Menn luku lofsorði á allan undirbúning, aðbúnað, mat og drykk. Mönnum var ofarlega í huga gæði matarins sem MelabúðarKaupmaður bar inn í trogum, einkum tvær tegundir af hákarli og tvær af harðfiski, að ekki sé minnst á vel heppnað uppstú og þjöppu. Hér gall í próf. Fróða að hann hefði talið sig sleppa afar vel frá viðburðinum með 2.000 króna innborgun þegar litið var til þess magns af brennivíni sem hann hefði innbyrt. Hér brugðust menn við af skilningi og sögðu: "Já, Ágúst minn, við vitum þetta vel. Þú varst heppinn."

Rætt var um hlaup sl. mánudag þegar þeir fóru fetið saman, próf. dr. Fróði og Einar blómasali. Einar er með böggum hildar yfir þyngd skrifara þessi misserin, sem ku slaga í 95 kg og er farið að daðra við desítonnið. Þannig sat blómasalinn eftir vigt í gærmorgun á bekk í inniklefa í Vesturbæjarlaug, frávita af geðshræringu og tautaði með sjálfum sér: "95 kíló! 95 kíló!" En í hlaupinu á mánudaginn er var varð prófessornum að orði að það væri merkilegt að maðurinn gæti hlaupið svona hratt verandi 95 kg. Blómasalinn misskildi þessi ummæli á þann veg að þau beindust að sér og varð harla glaður. En prófessorinn var hér vissulega að lýsa aðdáun sinni á skrifara Samtaka Vorra, sem lætur ekki tímabundnar breytingar í líkamsvigt koma í veg fyrir að hreyfa sig hratt.

Nema hvað, eðlilega varð mönnum hugsað til Ástsæls Forseta Vors þar sem hann eykur hróður Fósturjarðarinnar í Bjarmalandi og hittir stórmenni. Nú fer að síga á seinni hlutann hjá okkar manni og var farið að velta fyrir sér framhaldinu. Það var spurt hvort raunhæft væri að tilnefna traustan KRing, Boga Ágústsson, næst þegar kosið verður, en það kom fýlusvipur á viðstadda og mönnum leist illa á hugmyndina. Skrifari benti á þá augljósu staðreynd að æskilegt væri að nýr forseti væri vanur utanferðamaður og ekki væri verra að hann héti Ólafur. Ef hann héti t.d. Ólafur Grétar væri ekki svo erfitt fyrir þjóðina að læra nafnið á nýjum forseta.

Einhverjar vöfflur voru á mönnum við þessa hugmynd. En þegar upplýst var að nýtt forsetaefni myndi gera Ó. Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar og persónufróðasta mann Lýðveldisins, að formanni Orðunefndar og í framhaldinu að festa orðu á brjóst helstu drengjanna í Hlaupasamtökunum, þá glaðnaði yfir selskapnum og menn sáu strax í hendi sér að hér væri harla góð og hagnýt hugmynd á ferð. Sumir höfðu þó áhyggjur af viðbrögðum þingmanns Samtakanna úr Garðabænum, en forsetaefnið benti á að næg væru embættin sem mætti nýta til þess að friða menn, t.d. Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Nú var baðast enn um sinn, í Pott bættist Sveinn Margeirsson og við tók fjörug umræða um málefni háskóla og rjúpnaveiðar. Denni rifjaði upp veiðar á heiðum uppi þar sem Sveinn og Björn bróðir hans unnu afrek ungir að árum, en Denni engin.

Öndvegispottur sem aldregi fyrr, mönnun með eindæmum, sól fer hækkandi og veður batnandi. Nú fer skrifara að batna ökklameiðslin, en fyrst kemur ein Brusselferð sem Jörundur borgar, en eftir það má búast við því að skrifari mætti beittur til hlaupa á ný. Í gvuðs friði, skrifari.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband