Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
30.6.2010 | 20:58
Ritari mættur aftur: Stokkur
Það gekk vel að hlaupa Stokkinn, góð tilfinning alla leið og hraði jókst er leið á hlaupið. Mætti fjölda hlaupara í Fossvogi sem voru á sprettæfingum þar. Mátti þar m.a. bera kennsl á Gissur Pétursson, forstjóra Vinnumálastofnunar, sem er hlaupari í svipuðum holdum og við blómasalinn og því ágætt að miða sig við hann. Farin hefðbundin leið út í hólmann og svo tilbaka upp Stokkinn. Nóg að drekka og bara gefið í á bakaleiðinni.
Pottur góður. Mættur Helmut. Hann minnti á að næsti föstudagur væri Fyrsti Föstudagur og spurði hvort ekki væri ástæða til að nýta hann. Af því tilefni minnti ritari á að síðasti Fyrsti Föstudagur hefði verið illa nýttur, þótt mæting hefði verið góð. Sjáum til.
28.6.2010 | 20:55
Afmælishlaup
Jæja, en á þessum afmælisdegi ritara var mættur allnokkur hópur til hlaups á mánudegi í 16 stiga hita og logni, sólskini. Að þessu sinni var mættur dr. Gunnlaugur Pétur Nielsen hlaupari í Boston, BNA. Áður hefur verið frá honum greint á blöðum þessum. Var honum að vonum fagnað, enda framúrskarandi hlaupari og gamalgróinn Vesturbæingur. Hins vegar vakti athygli fjarvera þriggja hlaupara sem hefðu vel mátt við því að renna gott skeið á Sólrúnarbraut í dag og bræða lýsi: blómasalinn, Biggi jógi og Kári.
Báðir þjálfarar mættir og gefin fyrirmæli um hlaup út í Nauthólsvík. Farið af stað á góðu tempói, 5 mín. meðaltempó fyrstu 4 km. Fremst voru Flóki og Jóhanna, Gulli Pétur gaf í og náði þeim, ég hékk í Eiríki, Haraldi, Möggu og líklega Gerði og þannig var hlaupið inn í Nauthólsvík. Hin voru að vísu rétt fyrir aftan okkur, m.a. Dagný, Rúnar, Kalli kokkur, og hverjir fleiri? Jú, Rakel.
Er hér var komið var upplýst um áform um brjálaða spretti, þrír 2ja km sprettir. Takk fyrir! Við Kalli ákváðum að þetta væri ekkert fyrir okkur, fórum Hlíðarfót, sem er að breytast í ákaflega skemmtilega hlaupaleið með lagfæringum sem gerðar hafa verið á svæðinu kringum um völl Gvuðsmanna. Fórum á hægara tempói tilbaka og lukum ca. 8,5 km.
Þegar ég kom úr potti sá ég allt í einu Bigga standandi á haus úti á flöt - e-r sögðu að hann hefði allt í einu dúkkað upp í miðju hlaupi eins og hann hefði aldrei gert annað en hlaupa fremstur í flokki afrekshlaupara. Ég sá líka Gulla Pétur aldeilis uppgefinn, dæsandi, stynjandi, kvartandi yfir æfingu, segjandi sem svo að hann hefði talið sig vera í ágætu formi, en þetta sýndi bara að hann þyrfti að fara að taka sig á. Í sama mund sást Þorvaldur koma með ómegð sína til Laugar.
Næst verður hlaupið á miðvikudag kl. 17:30 og verður þá farið langt, ekki styttra en að Stíbblu.
Pistill Ritara | Breytt 29.6.2010 kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2010 | 22:37
Hlaupið á sólríkum degi
Framundan sér sá ritari hins vegar þá lækna Magnús og Friðrik. Þeir voru gangandi. Það hlakkaði í mér. Ég hljóp fram á þá og sagði glaðhlakkalegur: hér er gengið rösklega, svolítið til þess að hrósa þeim. Þeir urðu upprifnir við þetta og hófu að fara fetið. Ég stillti mig inn á rólega tempóið og við tókum upp spjall. En áður en þeir vissu af voru þeir farnir að hlaupa, sem hafði ekki gerst lengi. Dr. Friðrik lýsti ánægju með þetta ástand og sagði: Sjáðu, Magnús! Ég hleyp!
Þannig fórum við áfram og langleiðina í Nauthólsvík. Friðrik sagði skilið við okkur og við Magnús héldum áfram út að Suðurhlíð. Hitinn óbærilegur! Við leyfðum okkur að hægja ferðina og jafnvel ganga. Svo var haldið áfram upp að Perlu og niður stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Rætt um Miðnæturhlaupið sem þreytt verður í kvöld, en við Magnús báðir of miklir aumingjar til að taka þátt. Þyrftum að vera undir læknishendi, helzt á skurðarborðinu ef vel ætti að vera.
Komum tilbaka til Laugar þreyttir og sveittir og mættum þar Möggu og Jóhönnu sem fóru Þriggjabrúa. Síðar sást til Þorvaldar, Birgir jógi sást í potti og svo kom Ágúst eftir 14 km hlaup og leitaði að stuðningi við að fara Atacama-hlaupið í Chile í marz á næsta ári, sem er þurrasta hlaup í heimi. Ef hann lýkur því á hann þess kost að þreyta kaldasta hlaup í heimi, á sjálfu Suðurskautinu. Hann saknar þess að finna ekki fyrir stuðningi félaga sinna fyrir þessum stórkostlegu áformum.
Næst liggur fyrir að taka sprettinn í Bláskógaskokkinu og njóta að því búnu gestrisni Frikka og Rúnu á Laugarvatni. Hlaupið fer fram n.k. laugardag og hefst kl. 11.
14.6.2010 | 20:51
Kunnur hlaupari guggnar - fer að klappa hundi
Farið um bakgarða í 107 til þess að losna við leiðindin. Út í Skerjafjörð og snúið við þar, þrátt fyrir fyrirheit um Öskjuhlíð. Ekki veit ég hvað varð til þess að mönnum snerist hugur.
Þetta var öflugur hópur sem fór hratt yfir. Við aumingjarnir drógumst aftur úr eins og venjulega. Meira að segja blómasalinn sýndi af sér ákveðna drift og virtist ætla að taka vel á því í dag. Það lá vð ég spryngi þegar ég kom í Skjólin og dró þar uppi blómasalann, sem var gangandi. Þetta var með því dagpurlegasta sem ég hef séð um dagana. Aðspurður kvaðst hann finna fyrir svima og hann hefði áttað sig á því að hann hefði gleymt að borða í dag! Lái mér nú hver sem vill að láta í ljós efasemdir um þetta. Jæja, næst gerist það að hann sér hund og hleypur til að klappa honum, greinilega búinn að gleyma hver ætlunin var með því að klæðast hlaupagíri.
Þessi hlaupari hélt áfram á Nes og fann fólk fyrir í Bakkavarar-brekkunni. Það mátti fara 6-8 sinnum, ég fór tvisvar og fór svo beinustu leið tilbaka. Aðrir tóku ýmist spretti í brekkunni eða hringi niður á Lindarbraut. Góð stund í potti þar sem rætt var um mat og hlaup.
Ritari verður nú fjarverandi um sinn vegna embættisstarfa á erlendri grund, en tekur hlaupaskóna með sér og mætir vígreifur tilbaka til hlaups 23. júní nk.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2010 | 13:38
Hvað gerist sautjánda júní?
Við mættum Helgu Jónsdóttur frá Melum. Hún gaf fyrirmæli eiginmanni sínum og hann virtist taka þeim af karlmennsku. Við áfram í Nauthólsvík þar sem Hannes slóst í för með okkur. Hann spurði hvort við kölluðum "þetta" hlaup. Ekki veit ég hvað hann átti við með "þetta" - við hlupum þótt við færum ekki mjög hratt yfir, enda er það ekki hefðin á sunnudögum að fara með ærslum og hávaða. Ólafur frændi minn vék af leið og fór Hlíðarfót þar sem hann ætlaði að heiðra tengdaföður sinn á afmælisdegi hans. Meira um það seinna. Við hinir áfram á Flanir og Kirkjugarð.
Ekki varð af því að menn stoppuðu í Kirkjugarði eins og hefðin þó býður á sunnudögum. Haldið áfram skokkandi og í raun ekki stoppað nema þegar við Einar tókum það upp hjá sjálfum okkur. Flosi og Hannes fóru fyrstir og hurfu okkur á Rauðarárstíg, en við hinir fórum á hefðbundnum sunnudagshraða. Er við komum á Mýrargötu dró forvitnin okkur yfir að Höfninni því að við höfðum heyrt að þar væri búið að opna fiskmarkað. Engin merki um slíkt var að sjá þar, en það var samt gaman að koma á fornar slóðir, þarna hljóp hópurinn jafnan á sunnudögum hérna í den, þegar góðir menn eins og Vilhjálmur Bjarnason hlupu með okkur.
Það voru Ánanaust og svo á Nesið. Flosi lengdi eitthvað vestur úr. Þar sem við stöndum á Plani og teygjum kemur Ó. Þorsteinsson móður og másandi á Plan og hafði farið styttri leið tilbaka, en verið lengur að því en ef hann hefði komið með okkur vegna þess að hann þurfti að taka tvo menn tali á leiðinni! Dæimgerð þróun mála þar.
Nú er bara að sjá hvort Vesturbæjarlaug opnar á morgun, en miði í þá veruna var kominn á útihurð í gærmorgun.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2010 | 21:05
Kári eignast vini
Er komið var yfir götuna frá Laug fann Kári 10.000 kall - tíndi þetta nánast upp af götunni. Hann lýsti því þegar yfir að þetta væri eign hlaupahópsins og peningunum yrði varið með samfélagslega ábyrgum hætti. Alltént virtist hann í rónni með það að verða ekki skilinn eftir í hlaupinu. Sem kom á daginn.
Hiti á Sólrúnarbraut óbærilegur og hvarflaði að ritara að hreinlega hætta hlaupi, svo heitt var í veðri. En það var haldið áfram þrátt fyrir hita og þyngsli. Við kjöguðum þetta áfram félagarnir. Fljótlega drógust þau Jóhanna og Kári aftur úr svo að það leit út fyrir að geta verið upphafið á fagurri, nýrri vináttu. Þorvaldur seig einnig aftur úr okkur hinum og slóst í för með fjáraflamanninum. Jæja, við þessir alvarlegar þenkjandi hlauparar héldum áfram. Lúpínan breiðir úr sér við Flanir, en ég veit að ef Jörundur hefði verið með í för hefði hann glaðst í hjarta sínu er komið var á Sæbraut, þar breiðir íslenzki njólinn úr sér með ströndinni og er fagurt á að líta.
Þetta var sumsé leiðin: Hi-Lux, Veðurstofa, Söng- og skák, Hlemmur, Sæbraut, tekið með breytilegu tempói, stundum var gefið í og tekinn þéttingur, á milli var farið hægar. Að þessu sinni tókst mér nokkurn veginn að hanga í þeim Flosa og Gústa og var bara ánægður með það.
Teygt á Plani í síðasta skipti í bili því að á morgun á Laug Vor að opna - ritari verður mættur kl. 8:00 við húninn. Nú brá svo við að í potti mátti bera kennzl á Friedrich Kaufmann hinn slasaða sem stefnir á hálft maraþon á Skaganum á morgun, og blómasalann sem hefur ekki sett sér jafn háleit markmið og stefnir ekki hátt. Hann kvaðst hafa fengið gefinn bjorkassa í eiginlegri merkingu þess orðs, ekki kassa með 10 litlum dósum af 4,6% bjóri - heldur bakka með 24 skepnum í fullri stærð. Hann gerði þau mistök að gefa "félögum" sínum 3/4 af kassanum. Var hann þunglega gagnrýndur fyrir það.
Nú verður hvílt, næst hlaupið frá Vesturbæjarlaug sunnudaginn 13. júní kl. 10:10. Trúlegt þykir mér þó að sem fyrr muni einhverjir hlaupa frá laug kl. 9:30 á morgun, laugardag.
9.6.2010 | 21:12
Dómsorð: af við öxl!
Fjórði dagur í röð sem sumir okkar hlupu, og aldrei skemur en 14 km. Þetta eru dagar hinna sælu, löngu hlaupa, einsemdar og vanlíðanar. Sum okkar mætt við Neslaug á tilskildum tíma, aðrir ákváðu að vera við útskrift Hagaskóla Íslands, einhverrar merkustu menntastofnunar landsins. Engir þjálfarar, en þessir mættir: Ágúst, Flosi, ritari, dr. Jóhanna, Friðrik kaupmaður, Dagný, Magnús og svo voru Neshlauparar. Þeir svermuðu mjög fyrir okkur og voru impóneraðir og vildu ólmir fá okkur í grindarbotnsæfingar fyrir hlaup - ekkert slíkt fyrir miðaldra hlaupara sem vilja hefja hlaup sem fyrst.
Ákveðið að fara Þriggjabrúahlaup, þótt það yrði ívið lengra en alla jafna. Farið sem fyrr með ströndinni, gegnum Flosaskjól og út á Ægisíðu. Þar hittum við Frikka fyrir sem hafði lagt í hann á undan okkur alveg ruglaður. Ætlunin var að fara rólega eftir hlaup gærdagsins, en það fór nú eins og það fór. Framan af hægt, en svo gefið í. Veður hryssingslegt, mótvindur, skýjað og 10 stiga hiti.
Í Nauthólsvík sneri Jóhanna við og átti auðvelt með að tala Magga inn á að fylgja sér tilbaka, 10 km, enda kvaðst hann fyrir hlaup vera svolítið slappur. Við hin áfram, nema Frikki sem tók spretti skv. ráðum þjálfara og hefur líklega farið aðra leið en við. Ágúst, Flosi, Dagný og ritari fóru Þriggjabrúa, því eins og ég sagði við prófessorinn: þetta er nánast búið. Það var svo stutt austur að Bogganum, Boggabrekkan erfið eins og venjulega og áður en maður vissi af stóð maður efst á Útvarpshæð. Svo var haldið áfram eins og hefðin bauð.
Þeir urðu eitthvað stressaðir á Miklubraut Ágúst og Flosi er þeir sáu hvað ritari var nálægt þeim. Hér fóru þeir af alvöru að ræða þann möguleika að ritari gæfi í og færi jafnvel fram úr þeim segjandi: Fögur er fjallasýnin! Slíkt er óbærileg tilhugsun hverjum hlaupara í Hlaupasamtökunum sem hefur snefil af sjálfsvirðingu. Af þeirri ástæðu hertu þeir heldur hlaupið því að ekkert er verra á hlaupi en láta niðurlægja sig. Dagný var rétt fyrir aftan þá og ritari rak lestina, þreyttur eftir Móahlaupið í gær.
Dagný beið eftir mér við ljósin á Háaleitisbraut og við áttum samleið niður á Sæbraut og vestur úr. Ég slakaði á eftir vatnsfontinn og þreytan fór að segja til sín. Farið sem leið lá um Mýrargötu út í Ánanaust og svo með Ströndinni vestur í Neslaug. 16,6 km skv. úri prófessorsins.
En tíðindin urðu eftir pott, þegar Friedrich Kaufmann tók flugið ekkert ósvipað prófessornum, skall illa á stétt laugar, meiddist. Flosi leit sem snöggvast á sárin og mælti með því að fóturinn yrði tekinn af við öxl. Þetta eru víst kallaðar fornmannalækningar, og læknisráðið hefði sæmt Agli forföður vorum. Hann hefði jafnvel tekið aðgerðina að sér. Það gat nú farið alla vega hér áður fyrr, menn voru ekkert mjög hittnir með verkfærin eins og menn þó eru nútildags á Skadestuen.
Næst: hefðbundinn föstudagur, 16:30.
8.6.2010 | 21:17
Minningarhlaup 8. júní 2010
Í dag var þreytt minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar, en í gær, 7. júní, voru 6 ár liðin frá ótímabæru andláti þessa unga og efnilega félaga okkar. Til þess að heiðra minningu hans söfnuðust nokkrir hlauparar saman við Hrafnhóla-afleggjarann ofan við Gljúfrastein og mátti þar bera kennsl á S. Ingvarsson, Ágúst Kvaran, Jörund, S. Gunnsteinsson, Vögg Magnússon, Sif Jónsdóttur, Helmut og dr. Jóhönnu, blómasalann, ritara og fleiri góða hlaupara sem mig vantar nöfnin á. Ágúst kvartaði yfir því að pistlar væru farnir að styttast og lesturinn, sem áður fyrr hefði enst kvöldið, tæki nú í mesta lagi tvær mínútur. Væru þetta mikil viðbrigði fyrir fjölskyldu hans sem vissi fátt skemmtilegra á kvöldvökunni en hlýða á upplestur á pistlum ritara.
Nema hvað, við höldum af stað upp úr 17:30 frá afleggjaranum og austur úr móti umferðinni á veginum. Eftir að við vorum komin yfir Stardalsá sveigðum við yfir veginn og fórum út af veginum og út í móa. Hlupum í átt að Svanavatninu, sem Jörundur svo kallar, niður að því og meðfram því í sandfjöru, upp frá vatni, upp á kindagötur og um móa og djúpt graslendi, þar sem erfitt var að hlaupa. Þarna var gengið á köflum, enda beinlínis hættulegt að hlaupa, þurfti maður á allri sinni einbeitingu að halda. Komið upp á Línuveg og honum fylgt upp á veg. Vegurinn var ójafn og erfiður yfirferðar, mikið af grjóti og krafðist fullrar einbeitingar.
Er hér var komið höfðum við farið 9 km. Biðum eftir þeim sem hægar fóru. Svo var myndaður hringur um minnismerki Guðmundar og flutti Ágúst minningarorð og fræddi viðstadda um Guðmund. Sagði hann að ávallt heyrðust umkvartanir vegna erfiðra hlaupa á þessum slóðum, en ástæðan fyrir hlaupi væri alltaf sú sama: Gummi hefði elskað það!
Eftir þetta var haldið af stað tilbaka, meðfram veginum í mótvindi sem var svalandi, þetta er langur og leiðinlegur kafli, en hlauparar voru yfirleitt í góðum gír og luku hlaupi á góðum spretti. Tekin mynd af hópnum sem verður birt á bloggi Samtaka Vorra innan skamms. Ekki var staldrað lengi við heldur haldið til bæjar. Við Helmut, Jóhanna og blómasalinn fórum í Varmárlaug þar sem við ræddum hótelprísa og ferðalög. Ánægjulegt og gefandi hlaup að baki, á morgun verður Þriggjabrúa, ekki styttra!
7.6.2010 | 20:56
Bragð er að þá barnið finnur
Þar hittum við loks þau hin, alla vega ég og Benzinn. Svo kom blómasalinn á eftir. Við vorum drifnir af stað í 500 m spretti og tókum eina fjóra slíka við Hlíðarfótinn, og einn hring í Öskjuhlíðinni. Orðnir vel heitir er hér var komið. Við Benzinn héldum svo tilbaka, með viðkomu í sjónum í Nauthólsvík, hann var svalur og frískandi. Svo áfram tilbaka, lukum líklega rúmum 14 km með þessu móti, og það á allþéttu tempói síðasta spölinn.
Ritari mætti foreldrum með litla stúlku, 2-3 ára gamla. Er hún sá ritara sagði hún: Hann er blautur! Varð þá Benzinum á orði: bragð er að þá barnið finnur. Setið í potti og spáð í leik kvöldsins í Vesturbænum, sem fer áreiðanlega illa. Næst er þreytt Minningarhlaup Guðmundar Gíslasonar á morgun, þriðjudag, kl. 17:30.
6.6.2010 | 13:38
Fáheyrð tíðindi á sunnudegi
Nú voru góð ráð dýr. Það var óhugsandi að sleppa svona degi og svona félagsskap. En Íslendingar eru úrræðagóðir og snjallráðir. Ákveðið var að blómasalinn æki heim og sækti sér skó, hitti okkur svo við Hofsvallagötu. Á þetta ráð var brugðið, og við hinir þræddum á meðan fjörur út á Ægisíðu. Það heyrir sögu til að skórnir höfðu ekki gleymst heima, þeir voru í skottinu á bílnum. Allinn er farinn að leika okkur grátt.
Við hinir hlupum sumsé með sjónum og var af nógu að taka í ættfræði og viðburðum dagsins. Hittum Einar svo á Ægisíðu, farið hægt í áttina að Nauthólsvík. Þegar við vorum langt komnir þangað dró okkur uppi kona nokkur sem virtist eiga við okkur erindi: Dagný. Hún vildi heyra sögur, en engar kunnum við sem hæfa sómakærum kvennaeyrum. Við svo búið skildi hún okkur eftir og hélt áfram för sinni. Jörundur reif upp lúpínu á Flönum. Rifjuð upp kynni við félaga sem ekki hafa sézt lengi á hlaupum, svo sem Gísla og Vilhjálm.
Nú verða þeir atburðir sem lengi verða í minnum hafðir að hlauparar taka á rás í miðjum Kirkjugarði og fór Jörundur þar fremstur í flokki forherðingarinnar. Við nafni héldum ró okkar og sýndum hlutaðeigandi tilhlýðilega virðingu, gengum allan kirkjugarð. Ekki þarf því að koma á óvart að téðir hlauparar náðu nokkru forskoti á okkur, en við létum það ekki á okkur fá, enda af nógu að taka í umfjöllunarefnum dagsins, er mörg hver lutu að rekstri og stjórnun opinberra stofnana.
Fórum á Veðurstofuhálendið, Klambra, Hlemm og niður á Sæbraut. Síðan lá fyrir að fara vestur í Ánanaust og þá leið vestur úr út á Nes. Er upp var staðið urðu þetta 14,6 km og er óvenjulangt á sunnudegi.
Nú bregður svo við að vantar bæði Baldur og frú Helgu Jónsdóttur Gröndal í pott - en þó mættur dr. Einar Gunnar. Ó. Þorsteinsson bar mikið lof á alla aðstöðu í sundlauginni, einkum sturtuna í útiklefa, sem er vatnsmikil og kraftmikil. Ákveðið að þreyta næsta laug frá Neslaug á morgun, mánudag, kl. 17:30.