Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Átta á Nesi og sjóbað

Allt er öfugsnúið þegar Vesturbæjarlaug er lokuð: hlaup falla niður, menn missa sig í mat og drykk og fitna. Nema hvað, á þessum föstudegi var ákveðið að halda á Nes og hitta þar kæra vini heimkomna frá Chile, þau Helmut og Jóhönnu. Er ég kem á Plan á Nesi er blómasalinn að setja jeppa sinn í stæði. Yfir höfuðborginni var mikið öskuský og því fyrirsjáanlega erfitt að hlaupa. Þar fyrir utan var hlýtt í veðri.

Það urðu fagnaðarfundir er við hittum þau dr. Jóhönnu og Helmut, þau sólbrún og sælleg eftir veru í sólinni syðra. Aðrir mættir auk ritara og blómasala: Flosi, Rúna, Melabúðar-Frikki, Kristján og Denni af Nesi. Ritari var æstur í að fara hefðbundinn föstudag, sem hefði gert ca. 11,3 km, með stoppi í Nauthólsvík og sjóbaði. En þeir Nesverjar vildu frekar fara á Nesið úr því að við værum mætt í sveitarfélagið. Þannig að niðurstaðan varð sú að fara Áttu á Nesi, út að golfvelli og andsælis kringum golfvöllinn til þess að fá golfkúlurnar frekar í andlitið en í hnakkann skv. meðmælum Denna.

Farið afar rólega út og kunni fólk því vel, þar eð sumir voru ekki búnir að hlaupa í einhvern tíma. Margir með buff fyrir vitum til þess að losna við svifrykið. Maður fann áþreifanlega fyrir rykinu, bruddi sand í munni. Farið fram skv. ofansögðu og þegar áttan var búin var farið niður að Seltjörn, farið af klæðum og skellt sér í sjóinn. Fyrsta sjóbað ársins og það var afar svalandi. Að vísu varð ritari var við lítið sjóskrímsli sem beit hann í fótinn svo að blæddi, en það hvarf fljótlega og eftir það var þetta bara ljúft. Á ströndinni stóð ókunn kona og bar sig til að slá golfkúlur, en einungis að yfirskini, var vissulega komin til þess að berja nakta karlmenn augum.

Haldið áfram og hér vorum við Helmut og Frikki í föruneyti. Náðum þeim hinum með góðu tempói. Farið í Laug á Nesi, pott. Þangað komu einnig Kári og Anna Birna. Lagt á ráðin um Reykjafellshlaup og Bláskógaskokk. Eftir pott var haldið heim til Denna og á pall þar sem boðið var upp á bjór og snakk með. Þar missti blómasalinn sig algjörlega í snakkáti og var ófagurt á að horfa.

Við Denni fórum einir á jazzkvöld á Ljóni og pöntuðum okkur borgara. Tónlistarfólk af Nesi bauð upp á aldeilis frábæra tónleika með blæstri og barsmíðum og kemur á óvart sá menningarbragur sem ríkir í nágrannasveitarfélaginu - liggur mér við að segja að Seltjarnarnesið sé hvorki lítið né lágt, enda leika þar margir og hafa hátt! Jæja, þannig endaði Fyrsti Föstudagur í júní og er beðið eftir næsta viðburði. Trúlega verður hlaupið frá Plani Vesturbæjarlaugar í fyrramálið 9:30 - en sunnudagurinn er óskrifað blað. Er beðið leiðbeininga frá Formanni Vorum um hvað skuli gert þá.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband