Kári eignast vini

Kári potaði í vömbina á mér á Plani við Neslaug og kvaðst dást að því hvað mér tækist að halda mér framsettum þrátt fyrir öll þessi hlaup. Það er gott að eiga svona skemmtilega ósvífna vini. Aðrir mættir: Þorvaldur, Flosi, Ágúst, dr. Jóhanna. Samstaða um að fara hefðbundið, sem þýðir lengingu af því að við hlaupum frá Nesi. Þorvaldur að koma frá hvalavinaráðstefnu í Sahara-eyðimörkinni þar sem hann var bitinn af snáki og sýndi okkur förin.  Við furðuðum okkur á því að hann væri ekki dauður, en drógum þá ályktun að líklega hefði það verið snákurinn sem drapst.

Er komið var yfir götuna frá Laug fann Kári 10.000 kall - tíndi þetta nánast upp af götunni. Hann lýsti því þegar yfir að þetta væri eign hlaupahópsins og peningunum yrði varið með samfélagslega ábyrgum hætti. Alltént virtist hann í rónni með það að verða ekki skilinn eftir í hlaupinu. Sem kom á daginn.

Hiti á Sólrúnarbraut óbærilegur og hvarflaði að ritara að hreinlega hætta hlaupi, svo heitt var í veðri. En það var haldið áfram þrátt fyrir hita og þyngsli. Við kjöguðum þetta áfram félagarnir. Fljótlega drógust þau Jóhanna og Kári aftur úr svo að það leit út fyrir að geta verið upphafið á fagurri, nýrri vináttu. Þorvaldur seig einnig aftur úr okkur hinum og slóst í för með fjáraflamanninum. Jæja, við þessir alvarlegar þenkjandi hlauparar héldum áfram. Lúpínan breiðir úr sér við Flanir, en ég veit að ef Jörundur hefði verið með í för hefði hann glaðst í hjarta sínu er komið var á Sæbraut, þar breiðir íslenzki njólinn úr sér með ströndinni og er fagurt á að líta.

Þetta var sumsé leiðin: Hi-Lux, Veðurstofa, Söng- og skák, Hlemmur, Sæbraut, tekið með breytilegu tempói, stundum var gefið í og tekinn þéttingur, á milli var farið hægar. Að þessu sinni tókst mér nokkurn veginn að hanga í þeim Flosa og Gústa og var bara ánægður með það.

Teygt á Plani í síðasta skipti í bili því að á morgun á Laug Vor að opna - ritari verður mættur kl. 8:00 við húninn. Nú brá svo við að í potti mátti bera kennzl á Friedrich Kaufmann hinn slasaða sem stefnir á hálft maraþon á Skaganum á morgun, og blómasalann sem hefur ekki sett sér jafn háleit markmið og stefnir ekki hátt. Hann kvaðst hafa fengið gefinn bjorkassa í eiginlegri merkingu þess orðs, ekki kassa með 10 litlum dósum af 4,6% bjóri - heldur bakka með 24 skepnum í fullri stærð. Hann gerði þau mistök að gefa "félögum" sínum 3/4 af kassanum. Var hann þunglega gagnrýndur fyrir það.

Nú verður hvílt, næst hlaupið frá Vesturbæjarlaug sunnudaginn 13. júní kl. 10:10. Trúlegt þykir mér þó að sem fyrr muni einhverjir hlaupa frá laug kl. 9:30 á morgun, laugardag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Umræddur peningur verður notaður til bjórkaupa fyrir hlaupasamtökin, vottast hérmeð.

Kveðja, Kári

Kári Harðarson, 11.6.2010 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband