Hlaupið á sólríkum degi

Ritari mætti seint til hlaups og missti af hlaupurum sem lögðu upp frá Vesturbæjarlaug. En þar sem hann er samvizkusamur hlaupari braust hann gegnum ger af smáfiskavinum sem voru að vígja fiskaker í Brottfararsal Laugar Vorrar. Klæddist gíri og lagði upp í gassandi sólarhita sem gerði venjulegum hlaupurum erfitt um vik. Gerði sér vonir um að ná alla vega Kára á leiðinni.

Framundan sér sá ritari hins vegar þá lækna Magnús og Friðrik. Þeir voru gangandi. Það hlakkaði í mér. Ég hljóp fram á þá og sagði glaðhlakkalegur: hér er gengið rösklega, svolítið til þess að hrósa þeim. Þeir urðu upprifnir við þetta og hófu að fara fetið. Ég stillti mig inn á rólega tempóið og við tókum upp spjall. En áður en þeir vissu af voru þeir farnir að hlaupa, sem hafði ekki gerst lengi. Dr. Friðrik lýsti ánægju með þetta ástand og sagði: Sjáðu, Magnús! Ég hleyp!

Þannig fórum við áfram og langleiðina í Nauthólsvík. Friðrik sagði skilið við okkur og við Magnús héldum áfram út að Suðurhlíð. Hitinn óbærilegur! Við leyfðum okkur að hægja ferðina og jafnvel ganga. Svo var haldið áfram upp að Perlu og niður stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Rætt um Miðnæturhlaupið sem þreytt verður í kvöld, en við Magnús báðir of miklir aumingjar til að taka þátt. Þyrftum að vera undir læknishendi, helzt á skurðarborðinu ef vel ætti að vera.

Komum tilbaka til Laugar þreyttir og sveittir og mættum þar Möggu og Jóhönnu sem fóru Þriggjabrúa. Síðar sást til Þorvaldar, Birgir jógi sást í potti og svo kom Ágúst eftir 14 km hlaup og leitaði að stuðningi við að fara Atacama-hlaupið í Chile í marz á næsta ári, sem er þurrasta hlaup í heimi. Ef hann lýkur því á hann þess kost að þreyta kaldasta hlaup í heimi, á sjálfu Suðurskautinu. Hann saknar þess að finna ekki fyrir stuðningi félaga sinna fyrir þessum stórkostlegu áformum.

Næst liggur fyrir að taka sprettinn í Bláskógaskokkinu og njóta að því búnu gestrisni Frikka og Rúnu á Laugarvatni. Hlaupið fer fram n.k. laugardag og hefst kl. 11.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir  Miðnæturhlaupinu. Nokkrir fræknir hlupu

Einar þór

Einar Þór (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband