Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
27.12.2009 | 14:27
Fimm fræknir á sunnudegi
Hafflöturinn var spegilsléttur og Skerjafjörðurinn skartaði sínu fegursta, einmunablíða og var lítið rætt um mat, en þeim mun meira um göfgandi málefni. Lítið sagt af sögum eða farið með persónufræði, enda Formaðurinn fjarstaddur. Ekki var gerður stanz fyrr en í kirkjugarði og þar gengið af virðingu í gegn. Svo áfram um Veðurstofu og Hlíðar og þannig áfram allt þar til er komið var til Laugar. M.ö.o. - flestum hefðbundnum stoppum sleppt, nema ef vera skyldi á Sæbraut þar sem drekka má kaldast vatn ófrosið á Höfuðborgarsvæðinu. Hér var sjór líka spegilsléttur og fáir á ferð.
Hlaup var hófstillt, enda spakir menn á ferð og enginn asi eða læti í hlaupurum dagsins. Upplýst að ótilgreindur fjöldi hlaupara hefði farið í gær, laugardag, annan í jólum, kl. 9:30, m.a. Melabúðar-Frikki, sem Jörundur tíndi upp af götu sinni um 10-leytið. Kvaðst Einar blómasali hafa hlaupið þá 15 km. Kom þetta mönnum spánskt fyrir sjónir því þessi vegalengd er ekki þekkt í Vesturbænum, alla vega ekki undir neinu af þeim nöfnum sem hlaup bera í sögu Hlaupasamtakanna.
Í potti voru Mímir og próf. dr. Einar Gunnar, en aðra hefðbundna pottverja vantaði. Kom það ekki að sök, því að umræður voru drjúgar um landsins gagn og nauðsynjar.
Ætla má að næst verði hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á morgun, mánudag, kl. 17:30.
26.12.2009 | 16:05
Vinátta á jólum
Annar dagur jóla var laugardagur og því morgunhlaup í boði. Ritari svaf svefni hinna réttlátu fram yfir boðaðan hlaupatíma svo að það þurfti ekki að velta því meira fyrir sér. Upp úr hádegi fór hins vegar að komast hreyfing á okkar mann og upp úr hálftvö var lagt af stað af Landakotshæð og niður á Ægisíðu. Veður ágætt, þótt fremur væri kalt og einhver vindur, færð yfirleitt góð. Margir voru á ferð og mætti ritari dr. Friðrik og frú á Ægisíðunni. Til að byrja með var ætlunin að fara Suðurhlíðar, en þegar komið var í Nauthólsvík var slíkur hugur í okkar manni að ekki kom annað til greina en halda áfram yfir Kringlumýrarbraut og svo upp hjá spítalanum, hefðbundið Þriggjabrúahlaup. Þrátt fyrir að byrjunin hafi verið erfið, þá lagaðist það smásaman og loks var þetta bara orðið nokkuð gott. Það er erfitt að hlaupa með allan þennan jólamat í belgnum, en alveg þess virði að klára góðan sprett. Kom ekki að sök að hafa ekki Laug til að hverfa að í lok hlaups.
Næsta hlaup: sunnudag kl. 10:10.
23.12.2009 | 21:21
Fjórir fundu sinn tíma fyrir hlaup
Í boði var að hlaupa kl. 16:00 í dag frá Vesturbæjarlaug. Það var Þorláksmessa og bæði skata og jólainnkaupastress herjaði á þjóðina. Fjórir valinkunnir hlauparar höfðu þó nóga nærveru sálar og innri frið til þess að geta kúplað sér frá stressinu til þess að helga sig aðaláhugamálinu: hlaupi. Þetta voru þeir Einar blómasali, Kári, Þorvaldur og Ólafur ritari. Það heyrir til sögu að sl. mánudag hittust þeir tveir fyrstnefndu sérstaklega til þess að telja kjarkinn hvor úr öðrum á degi þegar nístingsgaddur skar merg og bein og varð niðurstaðan sú að hlíta ráði Kára: "Einar minn, eigum við nokkuð að vera að hlaupa í dag?" Ekki þurfti miklar umræður til þess að sannfæra blómasalann. Olli það þeim mun meiri ánægjuhrolli í hópnum að báðir syndaselirnir skyldu mæta á degi þegar veður var sízt skárra en á mánudag.
Enn var gerð félagsfræðileg úttekt á klæðaburði þeirra Reynimelsbræðra, sem hafa mjög einkennilega siði þegar kemur að því að raða á sig fatnaði fyrir hlaup. Ég vakti athygli Þorvaldar á þessu sérstaklega og bað hann að gaumgæfa tilburðina. Hver flíkin af annarri rataði utan á skrokkana enda kalt í veðri og endað á balaklövum. Tókum góða rispu í Brottfararsal og létum finna fyrir okkur áður en lagt var í hann. Stefnan sett á Þriggjabrúahlaup, en áður en lagt var af stað þurfti að finna málamiðlun því að blómasalinn var á leið í skötu, snaps og bjór og varð að vera kominn tilbaka kl. 17. Þá var niðurstaðan Suðurhlíðar, en vegna þess að Kári var svo lengi að klæða sig í gírið var endað á að taka Hlíðarfót. Það var góð málamiðlun, enda var Kári að koma úr skötu fyrr um daginn og lét hún finna fyrir sér í hlaupinu.
Það var samhentur hópur afburðahlaupara og harðgerra einstaklinga sem hlupu og létu nístingsgadd ekki bíta á sér. Þeir veltu fyrir sér hvað þjálfarinn hefði átt við með að "finna sinn tíma fyrir hlaup" - en þessu hafði þjálfari lýst yfir þegar fyrir lá að farið yrði frá Laug kl. 16:00 skv. tilkynningu ritara. Hvatning til hlaupara um að "finna sinn tíma fyrir hlaup" - hvað merkir þetta? Er verið að ógilda hlaup sem þegar hefur verið ákveðið? Eða að ómerkja það á einhvern hátt. En þar sem við erum íslenzkir karlmenn ákváðum við að vera ekki að elta ólar við svona orðalag, halda áfram og gera það bezta úr hlaupi.
Saga var sögð af íslenzkum manni sem hafði í þjónustu sinni kínverskan mann. Sá kvartaði yfir höfuðverk og kvaðst eiga erfitt með að mæta starfsskyldum sínum þann daginn. "Veiztu hvað ég geri þegar ég fæ hausverk?" sagði sá íslenzki. "Ég fer heim og ... (óvðurkvæmilegt orðalag um samræði)... konu minni og ég verð allur annar á eftir." "Kannski ég prófi þetta" sagði sá kínverski og hvarf á braut. Síðar sama dag mætir hann að nýju til vinnu og kveðst hafa fengið bót meina sinna. "Þetta svínvirkaði, hausverkurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu - og þetta er fínasta hús sem þú býrð í." Nokkuð dæmigerður Kirkjuráðsbrandari.
Jæja, skatan seig í hjá veslings Kára og hann fór að kvarta og dragast aftur úr. En enginn er skilinn eftir hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins og við hægðum bara á okkur og hertum samræðurnar. Enginn á ferli og undruðumst við það að hvorki gangandi né hlaupandi skyldu vera á ferð á þessum tíma. Hvar er allt fólkið, var spurt. Eru allir svona yfirmátastressaðir að þeir geta ekki tekið sér stutt frí og horfið út undir bert loft?
Það var farið hjá Háskólanum í Reykjavík og litið til framtíðarvinnustofu Kára, sem mun vera vinnzlusalur í anda Hraðfrystihússins í Reykjavík og ekki einkaskrifstofa eins og við í Kansellíinu getum státað af, þar sem loka má að sér þegar einkaleg málefni eru til umfjöllunar. Blómasalinn var orðinn áhyggjufullur um að hann myndi koma seint til skötunnar, en einkum þó að hann myndi missa einhvers í drykk, snapsi eða bjór. Við hertum hlaupið og tókum brýrnar með látum, en sem menn vita er búið að skera allt í sundur á Hringbraut í þágu einhverra óljósra framkvæmda.
Það var kalt í dag að hlaupa, en þó gekk þetta bærilega og var líðan góð við komu á Móttökuplan. Hugmyndir voru uppi um hlaup á aðfangadag kl. 9:30 - og berast væntanlega boð um það. Næst er vitað um hlaup á annandag jóla kl. 9:30 frá Laug - en einnig munu einhverjir ætla að hlaupa frá Laugardalslaug kl. 12 þann hinn sama dag. Er bara að vona að menn "finni sinn tíma fyrir hlaup" eins og sagt er.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2009 | 21:24
Það er bara til eitt nafn á svona fólk: SÓLSKINSHLAUPARAR!!!
Með sönnu má kalla prófessor Ágúst Kvaran sólskinshlaupara: primo hann mætti ekki í hlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag í grimmdargaddi og leiðindanæðingi þegar hlaupið var frá Vesturbæjarlaug og út á Nes; secundo (sem skýrir að vissu marki fjarvistirnar) hann er staddur á Kanaríeyjum og hleypur þar í sólskini. Ergo: hann tekur sól og hita fram yfir myrkur og næðing - hann tekur sólina fram yfir skammdegismyrkrið. Hann er sólskinshlaupari. Fleiri mætti flokka með þessum hætti: Einar blómasala, Magnús tannlækni o.fl. o.fl. Það voru bara naglar sem mættu til hlaups í Brottfararsal í dag. Bjössi, Bjarni Benz, Þorvaldur, S. Ingvarsson, Ólafur ritari, Flosi, Rúnar, Magga, Dagný, Sirrý, Kalli, Gerður, Friðrik læknir og Friðrik kaupmaður. Ekki langaði mann mikið til að hlaupa í þessu veðri, en lét sig hafa það.
Hlaupið út á Nes eftir Ægisíðu og farið út í Bakkavör. Teknar á bilinu 6-8 Bakkavarir. Misjafnt hversu fólk tók á því, sumir stefna á Parísarmaraþon í apríl, aðrir stefna ekki að neinu, öðru en að halda sér nokkurn veginn gangandi. Bjarni að mæta eftir langa fjarveru. Hann spurði hvað hefði orðið um Vilhjálm Bjarnason. Varð fátt um svör.
Framundan er jólahelgin og mikið um lokanir í Laug. Er því lagt til að hlaupið verði kl. 16 á Þorláksmessu, þar eð laugin lokar kl. 18. Annan daginn verði hlaupið í Laugardalnum kl. 12.
16.12.2009 | 22:11
Helztu hlauparar fóru upp að Stíbblu
Jörundur stórhlaupari var þreyttur og þungur þegar komið var í Brottfararsal, kvaðst vera slitinn gamall iðnaðarmaður og farinn að heilsu. Hann ætlaði að fara á undan, enda væri hann alltaf skilinn eftir og hlypi oftast einn. Skipti ekki máli hvort við færum af stað saman eða ekki. Aðrir hlauparar voru aðeins brattari. Í Útiklefa skapaðist þegar góð stemmning og ritari hafði í frammi félagsfræðilega rýni, hafði m.a. orð á því að bæði Kári og blómasalinn færu fyrst af öllu i sokkana er þeir klæddust hlaupagírinu. Þessu hefði aðeins félagsfræðingur tekið eftir, sem lesið hefur ameríska hversdagsfélagsfræði. Hvernig bregst t.d. amerísk húsmóðir við ef maður bankar upp á hjá henni og hrækir á hana? Hefur einhver velt því fyrir sér? Nema hvað, Þorvaldur þáði góð ráð um hvaða röð hentaði við að klæða sig í hlaupafatnaðinn, virtist ekki hafa hlutina alveg á hreinu.
Í Brottfararsal mátti þekkja ýmsa góða hlaupara, svo sem Magnús tannlækni, próf. Fróða, Sirrý, Rúnar þjálfara, Flosa, Jóhönnu, Bjössa og eflaust fleiri. Hjálmar og Ósk slógust í för á leiðinni. Við Ágúst og Bjössi vorum leyndardómsfullir og fórum vel með fyrirætlanir okkar, en þær fólust í stuttu máli í því að fara upp að Stíbblu, jafnvel um Goldfinger. Við vildum véla Flosa með okkur í þessa ævintýraför og jafnvel blómasalann, sá hefði gott af því að hreyfa sig! En Flosi kvaðst vera boðinn í hús (sic!) - og blómasalinn gerðist óræður á svip. Aðrir höfðu eitthvað annað á prjónunum og segir ekki meira af þeim. Sem fyrr setti ég þau skilyrði fyrir hlaupi að farið yrði hefðbundið félagshlaup, þ.e. að enginn yrði skilinn eftir, menn færu þetta saman. Allir jánkuðu því.
Veður þessa dagana er aldeilis með endemum, þvílík blíða um miðjan desember, hausthiti og logn. Verður ekki betra. Sjór lygn. Það stóðst ekkert sem menn lofuðu - það var gefið í frá fyrstu stundu. Sem er svosem auðvelt fyrir menn sem ætla ekki langt, svo sem eins og eitt Þriggjabrúahlaup. Ekki þótti okkur helztu hlaupurum það mikið afrek. Í reynd fannst okkur hlaup búið áður en það hófst. Ég hljóp uppi félaga mína í Fossvoginum, þeir höfðu lent í einhverjum villum í Kópavogi, en komu svo hrópandi utan úr myrkrinu í Fossvogi með miklum aftansöng. Við áfram upp í Kópavoginn og hjá Goldfinger, þaðan yfir í Mjódd og svo upp úr og alla leið upp að Stíbblu.
Enn höfðum við kompaní, en svo slitnaði eitthvað á milli á leiðinni niður úr en saman fórum við hjá Rafstöð og aftur tilbaka í Fossvog. Þá hurfu þeir félagar mínir, en við hittumst aftur í tvígang, en eftir Nauthólsvík þreyttust þeir á hangsinu og skildu mig endanlega eftir. Þetta var erfitt hlaup en ánægjulegt, ótrúlegt hvað maður getur haldið áfram þrátt fyrir þreytu og skort á orku. Tókst þó að ljúka hlaupi með sóma og virðist meðaltempó hafa verið 5:25. En það er alveg greinilegt að það vantar alveg vatnspósta á þessari leið sem var farin, ekkert að hafa nema dreytil við skúra á Ægisíðu.
Hittum Jörund á Móttökuplani, hann virtist eilítið sprækari en við upphaf hlaups. Er við Ágúst höfðum teygt stutta stund og ég búinn að formæla blómasalanum fyrir aumingjaskap, kemur téður blómasali hlaupandi og kveðst hafa farið 19,9 km - sem er náttúrlega langt frá þeim 22,2 sem við fórum! En verður þó að teljast allsæmilegt og vonandi að vigtin verði okkur hagstæð í fyrramálið. Við Bjössi og Ágúst vorum einir eftir í potti en náðum rífandi stemmningu kringum mat og drykk.
Næst hlaup á föstudag.
14.12.2009 | 21:26
Hrikaleg átök - farinn Stokkur
Af þessari ástæðu segir fátt ef nokkuð af þeim sem fóru á Nes né afrekum þeirra. En þeim mun meira af þeim sem lögðu í langferð og gerðust hetjur. Skilyrði ritara fyrir því að fara Stokk var að vera ekki skilinn eftir. Lofuðu þeir tveir öllu fögru, en hafa líklega verið með lygaramerki á tánum, meira um það seinna. Það skal viðurkennt að í fyrstu skrefunum var ritari afar þungur á sér og eiginlega ekki að nenna að fara svona langt. "Hvernig fer þetta? Þetta endar ábyggilega illa!" En lét sig hafa það enda félagsskapurinn góður og umræður allar léttar. Myrkur var á og mættum við ýmist reiðhjólafólki sem var með háu ljósin á hjólfákum sínum, eða alls engin ljós, og mikill munur þar á.
Það var farið fetið og frekar rólega að því er þessum hlaupara virtist. Við mættum stórhlaupurum á leiðinni, Halldóri bróður og konu hans, og síðar Kristínu Andersen. Svo lentum við í hópi sem var með sprettæfingar í Fossvogi, ekki veit ég hvaða fólk það var. Við skimuðum eftir nýju skrifstofunni hans Kára í HR við Nauthólsvík og gizkuðum á hvar hún mundi vera. Ég hékk í þeim að Víkingsvelli, en þá var gullfiskaminnið búið að ræna þeim loforðinu af Plani og þeir skildu mig eftir. Þó sá ég til þeirra alllengi, og þeir gerðu sér far um að staldra við öðru hverju og gá að því hvar ég væri, en hirtu ekki um að leyfa mér að ná sér. Héldu bara áfram. Á endanum var þá hvergi að sjá. En mér var alveg sama. Þetta var lengsta hlaup sem ég hafði farið lengi og ég var sáttur við að vera á hreyfingu, taka vel á því og svitna vel. Einhver sælutilfinning sem altekur mann þegar maður finnur ódauninn af sjálfum sér!
Þetta gekk vel, en framkvæmdir á Hringbraut tefja eðlilega framrás hlaups og maður þarf að fara yfir á nyrðri hlutann á kafla, svo aftur yfir á þann syðri við Vatnsmýri. Þaðan áfram um Háskólasvæði og Hagamel. Þeir félagar mínir voru á Móttökuplani þegar ég kom þangað og hófu þegar að mýkja skap mitt með fagurgala talandi fallega um þann mikla þroska sem ég sýndi með því að formæla þeim ekki fyrir svikin loforð. Ég sagði þeim á móti að ég væri nú ekki byrjaður á pistlinum.
Í Útiklefa blómasali beygður af því að hafa ekki hlaupið með okkur hetjum og náð af sér skvapi svo einhverju næmi. Í potti hittum við þann einasta sem hljóp á Nes, Friðrik kaupmann. Var legið lengi og spjallað um menn og málefni, málleysingja og minnihlutahópa. Nú er hægt að fara að taka á því, næsta miðvikudag er stefnt á langt, Stíbblu hið minnsta.
13.12.2009 | 20:22
Kvittur um nýjan karríer - Hlaupasamtökin halda julefrukost
Draga má samtöl dagsins saman í þessari fullyrðingu: rætt var um starfsvettvang. Allt byrjaði þetta tiltölulega sakleysislega, menn söfnuðust saman venju samkvæmt í Útiklefa og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali, Ólafur ritari og Magnús. Allt fór þetta fram af mikilli kurteisi og var rætt um kvitt sem sprottið hefur upp á Mela-Kleppi þar sem ráðist var að frænda mínum og vini með miklu offorsi í víkunni og því lýst yfir að hann væri að hætta í Akademíunni. Hann stefndi á að helga sig helzta áhugamálinu og vildi gerast aðstoðarmaður á ónefndri útfararstofu þar sem hann gæti stýrt því hver héldi um hvaða horn. Þetta og annað meira í sama dúr var uppi til umræðu í Útiklefa meðan við klæddumst hlaupafatnaði. Veður með eindæmum gott til hlaupa, logn, skýjað, hiti 10 stig. Halló! Er ekki kominn desember? Eru ekki að koma jól? Talandi um hlýnun jarðar!
Síðan er lagt í hann af yfirvegun og jafnvægi sálar og líkama, enda valinkunn góðmenni á ferð. Stuttu eftir upphaf hlaups sameinuðust okkur Hjálmar og Ósk og gerðu sig líkleg til þess að hafa Þorvald á brott með sér á nýjaleik. Í þetta skiptið vorum við félagarnir meira á varðbergi og tókst með klókindum að koma í veg fyrir nýtt mannrán um hálfbjartan daginn, því ekki verður sagt að sól hafi komið upp á þessum degi. Okkur tókst að gera fyrsta stanz í Nauthólsvík og fá þau skötuhjú til þess að ræða af skynsemi um ýmisleg þarfleg málefni.
Áfram í kirkjugarð og enn og aftur rætt um leiði hjóna sem þar hvíla og eru Hlaupasamtökunum óþrjótandi viðfangsefni og flutt vísa eftir Stephan G. Stephansson sem hann orti um Esjuna í Íslandsheimsókn sinni 1917. Hlaupasamtökin eru menningarsamtök. Áfram um Veðurstofu og þannig áfram.
Það var stutt í potti, því að fyrir dyrum stóð hið árlega jólahlaðborð Hlaupasamtakanna að Loftleiðum. Um 20 manns söfnuðust saman og nutu veitinga Trausta Víglundssonar og félaga, sem brugðust ekki. Áttum við þar ánægjulega eftirmiðdagsstund í hópi vina og félaga. Myndir verða fljótlega birtar af herlegheitunum.
7.12.2009 | 21:40
"Gemmér sígarettu eða ég drep þig!"
"That´s why, first impressions are often correct." syngur David Byrne í einhverjum texta með Talking Heads. Þú ert nýr í fjölskyldunni, kominn til þess að impónera tengdó, snyrtilegur og prúður ungur maður. Sonurinn á heimilinu, bólugrafið, nýfermt ungmenni kemur til þín þegar enginn sér til og segir: "Gemmér sígarettu eða ég drep þig!" Spyrja má hversu árangursrík þessi inngangsreplíka er fyrir uppbyggileg samskipti síðar meir. Þessarar náttúru eru álitaefnin sem ber á góma í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á hlaupadegi, sem er ekkert mannlegt óviðkomandi. Mánudagurinn 7di desember AD 2009 var hlaupadagur. Þá safnaðist slíkur fjöldi til hlaups í Brottfararsal að stappar nærri örvilnan. Andlitin og nöfnin, maður lifandi! Hver býr að slíkri þekkingu að geta mátað saman andlit og nöfn og látið þau passa? Skal þess eins getið að helztu hlauparar voru mættir - ekki orð um það meira.
Veður aldeilis yndislegt, 2ja stiga hiti og logn. Hlaupaleið var hál og varasöm og ekki vitað hvað vakti fyrir þjálfurum, þeir voru þögulir sem gröfin. Nema ég hafi verið að hugsa um annað og ekki fylgst með hvað þeir sögðu. Allt í einu var hersingin farin af stað og virtist stefna forystulaust og af gömlum vana út í myrkrið. Niður á Ægisíðu. Hér er myrkrið algert og fullkomlega óviðunandi að mæta hjólreiðafólki á ljóslausum fákum á fullri ferð, algerlega skeytingarlaust um heilsu og velferð meðborgaranna. Við létum þá heyra það sem við mættum með þessum hætti í myrkrinu, einkum þeim sem voru á hlaupastígnum þegar þeir eru komnir með sérstakan hjólreiðastíg nokkrum metrum ofar á Ægisíðunni.
Ritari hljóp einn í myrkrinu, en allt í kringum hann voru raddir sem fjölluðu með hæðnisfullum hætti um vaxtarlag hans, hlaupastíl og þyngslalega tilburði almennt. Hann lét þetta sem vind um eyrun þjóta, enda orðinn vanur baktali og öfund. Með þessum hætti var hlaupið út að Skítastöð. Þar safnaðist fyrir úrval hlaupara, en einhverjir eldri borgarar héldu áfram og lýstu yfir að sprettir væru liðin tíð fyrir þá. Engir skulu nefndir í þessu sambandi, en væntanlega geta menn gert sér í hugarlund um hverja er að ræða. Þjálfarar lögðu drög að sömu sprettum og síðastliðinn mánudag. Af hverju ég læt hafa mig út í þetta er mér algerlega hulið, ég er kominn í vetrarhvíld og stefni ekki að neinu, fólkið í kringum mig er að æfa fyrir Parísarmaraþon. Hvað er að mér? Af hverju er ég að þessu? Kannski vegna þess að Skerjafjörðurinn var eins og draumur, eins og málverk. Hvílík forréttindi að vera staddur á þessum stað á þessum tíma í þessum ótrúlega hópi fólks!
Hvað um það, lagt í hann, sex 1 km sprettir með mínútuhvíld á milli sem ungfrú Sirrý dikteraði og gerðist grunsamlega stutt eftir því sem á hlaupið leið, þ.e. hvíldin. Við hlunkuðumst þetta fóstbræður, blómasalinn og ég með Sirrý á undan okkur eins og einræðisherra öskrandi "Áfram strákar!" - og Þorbjörg K. hógværðin uppmáluð á eftir okkur. Þannig áfram, fram og aftur blindgötuna, sex sprettir, meðan þau hin tóku átta spretti og sá sprettharðasti hringaði okkur og niðurlægði við mikið búhróp.
En við vorum ansi ánægð með okkur eftir á og skokkuðum á hægu tempói tilbaka - allur hópurinn. Myrkrið algert og munaði minnstu að við hlypum niður fólk á leiðinni tilbaka. Smám saman var hraðinn aukinn og blómasalinn átti flottan lokasprett, enda búinn að hvíla mest allt hlaupið. Á Móttökuplani var mikil stemmning, því að stuttu eftir komu okkar þangað komu Flosi og Ágúst hafandi hlaupið Þriggjabrúahlaup við góðan orðstír.
Í potti var um lítið annað rætt en Messías hans Bigga og fyrir dyrum standandi konsert hans annað kvöld. Jörundur átti tvo miða sem hann hlakkaði mikið til að geta nýtt og notið klassískrar tónlistar í leiðinni. Sagðir hæpnir brandarar. Eftir seinustu Spaugstofu lítur maður ekki aftansöng sömu augum og fyrr. Hlaupið verður af nýju á miðvikudag, en ætla má að einhverjir verði fjarverandi vegna matarveizla og ferðalaga.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2009 | 14:38
Mannrán um hábjartan dag
Einnig rætt um draugagöngur um miðbæ Reykjavíkur, teiti sem haldin hafa verið upp á síðkastið, sem eru allnokkur, og fleiri framundan. Ef eitthvað er var stoppað oftar en alla jafna, enda virtist tíminn vart nægja til þess að segja þann fjölda sagna sem í boði var í hlaupi dagsins.
Góðir félagar mættir í pott í dag, þar voru dr. Baldur og dr. Einar Gunnar og Mímir, svo kom blómasalinn óhlaupinn og hafði engar haldbærar afsakanir fyrir fjarveru sinni. Hljóp að vísu í gærmorgun 21 km - en hvað með það? Í dag er nýr dagur og menn lifa ekki endalaust á afrekum gærdagsins.
Framundan sprettir á mánudegi, næsta sunnudag er hefðbundinn julefrukost Hlaupasamtakanna á Hótel Loftleiðum.
2.12.2009 | 20:53
Stringbeans og sundaðferðirnar fjórar
Ýmsar hugmyndir uppi um vegalengdir, prófessorinn vildi fara hægt og stutt vegna meiðsla í ótilgreindum líkamsvöðva. Bjössi og Flosi vildu fara langt. Aðrir stefndu á Þriggjabrúahlaup. Samstaða um að fara hægt af stað. Byrjað á 5:40, fljótlega komið niður í 5 mín. tempó. Ég hékk í þeim fremstu fyrstu 2 km - svo voru þeir horfnir, en á eftir mér voru þjálfarar, Sirrý, Ósk og Hjálmar. Þau náðu mér við Boggann og fóru fram úr en ég hafði félagsskap af Rúnari og Sirrý yfir á Kringlumýrarbraut, þar yfirgaf þjálfarinn okkar á hröðu skeiði og við tvö fórum fetið tilbaka um Sæbraut. Þar gekk sjór yfir hlaupastíg, en við létum það ekki á okkur fá. Lentum ótrúlega oft á rauðu ljósi á leiðinni, sem tafði mikið fyrir.
Ritari var of mikið klæddur, m.a. í flíspeysu, sem gerðist mjög þung af regni og svita þannig að það var kvalræði að ljúka síðustu 2-3 kílómetrunum. Það var mun hlýrra en ég hélt, svona klikkar maður stundum á klæðaburðinum. En hlaupið var frábært og líðan góð við komu í Móttökusal þar sem við hittum Flosa og Ágúst, sem fóru svipað og við. Þar voru einnig Kári og Anna Birna óhlaupin, og loks kom blómasalinn og virtist alls ekki veikur. Bar við vinnu. Hann var mættur til þess að fara í pott. Þar lýsti hann yfir því að hann væri á leið í leikhús, sér væri boðið. "Á hvaða stykki?" spurðum við. "Það er eftir einhvern Stringbean og heitir Sundaðferðirnar fjórar."
Minnt er á Fyrsta Föstudag nk. föstudag, Dauða Ljónið kl. 19. Eftir hlaup, að sjálfsögðu.