Það er bara til eitt nafn á svona fólk: SÓLSKINSHLAUPARAR!!!

Með sönnu má kalla prófessor Ágúst Kvaran sólskinshlaupara: primo hann mætti ekki í hlaup í Hlaupasamtökum Lýðveldisins í dag í grimmdargaddi og leiðindanæðingi þegar hlaupið var frá Vesturbæjarlaug og út á Nes; secundo (sem skýrir að vissu marki fjarvistirnar) hann er staddur á Kanaríeyjum og hleypur þar í sólskini. Ergo: hann tekur sól og hita fram yfir myrkur og næðing - hann tekur sólina fram yfir skammdegismyrkrið. Hann er sólskinshlaupari. Fleiri mætti flokka með þessum hætti: Einar blómasala, Magnús tannlækni o.fl. o.fl. Það voru bara naglar sem mættu til hlaups í Brottfararsal í dag. Bjössi, Bjarni Benz, Þorvaldur, S. Ingvarsson, Ólafur ritari, Flosi, Rúnar, Magga, Dagný, Sirrý, Kalli, Gerður, Friðrik læknir og Friðrik kaupmaður. Ekki langaði mann mikið til að hlaupa í þessu veðri, en lét sig hafa það.

Hlaupið út á Nes eftir Ægisíðu og farið út í Bakkavör. Teknar á bilinu 6-8 Bakkavarir. Misjafnt hversu fólk tók á því, sumir stefna á Parísarmaraþon í apríl, aðrir stefna ekki að neinu, öðru en að halda sér nokkurn veginn gangandi. Bjarni að mæta eftir langa fjarveru. Hann spurði hvað hefði orðið um Vilhjálm Bjarnason. Varð fátt um svör.

Framundan er jólahelgin og mikið um lokanir í Laug. Er því lagt til að hlaupið verði kl. 16 á Þorláksmessu, þar eð laugin lokar kl. 18. Annan daginn verði hlaupið í Laugardalnum kl. 12.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband