Vinátta á jólum

Á jólum rifja menn gjarnan upp hin góðu gildi og allt það sem gefur lífinu dýpri merkingu og inntak. Þá hugsa menn gjarnan um vináttuna og alla þá góðu vini sem þeir eiga. Hefðbundð jólabað fór fram að Laugu á aðfangadagsmorgun (sem vildi til að var jafnframt vigtardagur, en ekki meira um það!). Að baði loknu sátu menn sumsé í Brottfararsal og drukku kaffi. Þar var ritari, og þar voru Vigfús og Örlygur. Talið barst að sjósundi og var spurt hvers vegna menn gerðu þetta. Fór ritari þá með þessa hefðbundnu rullu um að líða bezt illa. Sagði Vigfús þá: "Já, mér er efst í hug að vinna sannkallað góðverk í tilefni jóla á kansellistanum - og lumbra ærlega á honum." Örlygur bætti um betur og bauðst til þess að taka í lurginn á kansellista svo að honum liði reglulega illa á jólum. Ja, ef þetta er ekki vinátta, þá skil ég ekki hugtakið.

Annar dagur jóla var laugardagur og því morgunhlaup í boði. Ritari svaf svefni hinna réttlátu fram yfir boðaðan hlaupatíma svo að það þurfti ekki að velta því meira fyrir sér. Upp úr hádegi fór hins vegar að komast hreyfing á okkar mann og upp úr hálftvö var lagt af stað af Landakotshæð og niður á Ægisíðu. Veður ágætt, þótt fremur væri kalt og einhver vindur, færð yfirleitt góð. Margir voru á ferð og mætti ritari dr. Friðrik og frú á Ægisíðunni. Til að byrja með var ætlunin að fara Suðurhlíðar, en þegar komið var í Nauthólsvík var slíkur hugur í okkar manni að ekki kom annað til greina en halda áfram yfir Kringlumýrarbraut og svo upp hjá spítalanum, hefðbundið Þriggjabrúahlaup. Þrátt fyrir að byrjunin hafi verið erfið, þá lagaðist það smásaman og loks var þetta bara orðið nokkuð gott. Það er erfitt að hlaupa með allan þennan jólamat í belgnum, en alveg þess virði að klára góðan sprett. Kom ekki að sök að hafa ekki Laug til að hverfa að í lok hlaups.

Næsta hlaup: sunnudag kl. 10:10.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband