Helztu hlauparar fóru upp að Stíbblu

Jörundur stórhlaupari var þreyttur og þungur þegar komið var í Brottfararsal, kvaðst vera slitinn gamall iðnaðarmaður og farinn að heilsu. Hann ætlaði að fara á undan, enda væri hann alltaf skilinn eftir og hlypi oftast einn. Skipti ekki máli hvort við færum af stað saman eða ekki. Aðrir hlauparar voru aðeins brattari. Í Útiklefa skapaðist þegar góð stemmning og ritari hafði í frammi félagsfræðilega rýni, hafði m.a. orð á því að bæði Kári og blómasalinn færu fyrst af öllu i sokkana er þeir klæddust hlaupagírinu. Þessu hefði aðeins félagsfræðingur tekið eftir, sem lesið hefur ameríska hversdagsfélagsfræði. Hvernig bregst t.d. amerísk húsmóðir við ef maður bankar upp á hjá henni og hrækir á hana? Hefur einhver velt því fyrir sér? Nema hvað, Þorvaldur þáði góð ráð um hvaða röð hentaði við að klæða sig í hlaupafatnaðinn, virtist ekki hafa hlutina alveg á hreinu.

Í Brottfararsal mátti þekkja ýmsa góða hlaupara, svo sem Magnús tannlækni, próf. Fróða, Sirrý, Rúnar þjálfara, Flosa, Jóhönnu, Bjössa og eflaust fleiri. Hjálmar og Ósk slógust í för á leiðinni. Við Ágúst og Bjössi vorum leyndardómsfullir og fórum vel með fyrirætlanir okkar, en þær fólust í stuttu máli í því að fara upp að Stíbblu, jafnvel um Goldfinger. Við vildum véla Flosa með okkur í þessa ævintýraför og jafnvel blómasalann, sá hefði gott af því að hreyfa sig! En Flosi kvaðst vera boðinn í hús (sic!) - og blómasalinn gerðist óræður á svip. Aðrir höfðu eitthvað annað á prjónunum og segir ekki meira af þeim. Sem fyrr setti ég þau skilyrði fyrir hlaupi að farið yrði hefðbundið félagshlaup, þ.e. að enginn yrði skilinn eftir, menn færu þetta saman. Allir jánkuðu því.

Veður þessa dagana er aldeilis með endemum, þvílík blíða um miðjan desember, hausthiti og logn. Verður ekki betra. Sjór lygn. Það stóðst ekkert sem menn lofuðu - það var gefið í frá fyrstu stundu. Sem er svosem auðvelt fyrir menn sem ætla ekki langt, svo sem eins og eitt Þriggjabrúahlaup. Ekki þótti okkur helztu hlaupurum það mikið afrek. Í reynd fannst okkur hlaup búið áður en það hófst. Ég hljóp uppi félaga mína í Fossvoginum, þeir höfðu lent í einhverjum villum í Kópavogi, en komu svo hrópandi utan úr myrkrinu í Fossvogi með miklum aftansöng. Við áfram upp í Kópavoginn og hjá Goldfinger, þaðan yfir í Mjódd og svo upp úr og alla leið upp að Stíbblu.

Enn höfðum við kompaní, en svo slitnaði eitthvað á milli á leiðinni niður úr en saman fórum við hjá Rafstöð og aftur tilbaka í Fossvog. Þá hurfu þeir félagar mínir, en við hittumst aftur í tvígang, en eftir Nauthólsvík þreyttust þeir á hangsinu og skildu mig endanlega eftir. Þetta var erfitt hlaup en ánægjulegt, ótrúlegt hvað maður getur haldið áfram þrátt fyrir þreytu og skort á orku. Tókst þó að ljúka hlaupi með sóma og virðist meðaltempó hafa verið 5:25. En það er alveg greinilegt að það vantar alveg vatnspósta á þessari leið sem var farin, ekkert að hafa nema dreytil við skúra á Ægisíðu.

Hittum Jörund á Móttökuplani, hann virtist eilítið sprækari en við upphaf hlaups. Er við Ágúst höfðum teygt stutta stund og ég búinn að formæla blómasalanum fyrir aumingjaskap, kemur téður blómasali hlaupandi og kveðst hafa farið 19,9 km - sem er náttúrlega langt frá þeim 22,2 sem við fórum! En verður þó að teljast allsæmilegt og vonandi að vigtin verði okkur hagstæð í fyrramálið. Við Bjössi og Ágúst vorum einir eftir í potti en náðum rífandi stemmningu kringum mat og drykk.

Næst hlaup á föstudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband