Kvittur um nýjan karríer - Hlaupasamtökin halda julefrukost

Draga má samtöl dagsins saman í þessari fullyrðingu: rætt var um starfsvettvang. Allt byrjaði þetta tiltölulega sakleysislega, menn söfnuðust saman venju samkvæmt í Útiklefa og voru þessir mættir: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Einar blómasali, Ólafur ritari og Magnús. Allt fór þetta fram af mikilli kurteisi og var rætt um kvitt sem sprottið hefur upp á Mela-Kleppi þar sem ráðist var að frænda mínum og vini með miklu offorsi í víkunni og því lýst yfir að hann væri að hætta í Akademíunni. Hann stefndi á að helga sig helzta áhugamálinu og vildi gerast aðstoðarmaður á ónefndri útfararstofu þar sem hann gæti stýrt því hver héldi um hvaða horn. Þetta og annað meira í sama dúr var uppi til umræðu í Útiklefa meðan við klæddumst hlaupafatnaði. Veður með eindæmum gott til hlaupa, logn, skýjað, hiti 10 stig. Halló! Er ekki kominn desember? Eru ekki að koma jól? Talandi um hlýnun jarðar!

Síðan er lagt í hann af yfirvegun og jafnvægi sálar og líkama, enda valinkunn góðmenni á ferð. Stuttu eftir upphaf hlaups sameinuðust okkur Hjálmar og Ósk og gerðu sig líkleg til þess að hafa Þorvald á brott með sér á nýjaleik. Í þetta skiptið vorum við félagarnir meira á varðbergi og tókst með klókindum að koma í veg fyrir nýtt mannrán um hálfbjartan daginn, því ekki verður sagt að sól hafi komið upp á þessum degi. Okkur tókst að gera fyrsta stanz í Nauthólsvík og fá þau skötuhjú til þess að ræða af skynsemi um ýmisleg þarfleg málefni.

Áfram í kirkjugarð og enn og aftur rætt um leiði hjóna sem þar hvíla og eru Hlaupasamtökunum óþrjótandi viðfangsefni og flutt vísa eftir Stephan G. Stephansson sem hann orti um Esjuna í Íslandsheimsókn sinni 1917. Hlaupasamtökin eru menningarsamtök. Áfram um Veðurstofu og þannig áfram.

Það var stutt í potti, því að fyrir dyrum stóð hið árlega jólahlaðborð Hlaupasamtakanna að Loftleiðum. Um 20 manns söfnuðust saman og nutu veitinga Trausta Víglundssonar og félaga, sem brugðust ekki. Áttum við þar ánægjulega eftirmiðdagsstund í hópi vina og félaga. Myndir verða fljótlega birtar af herlegheitunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband