Fimm fræknir á sunnudegi

Við hittum Magnús tannlækni í Brottfararsal, sem bar við heilsuleysi og ætlaði ekki að hlaupa. Reyndum eftir megni að vera uppbyggiegir og uppörvandi eins og okkar er von og vísa. Við vorum Þorvaldur, Jörundur, Kalli, Einar og ritari. Einar að vísu seinn að vanda, en það var beðið. Langt mál má hafa um veðrið, þvílík löðrandi veðurblíða, blankalogn, 2 stiga frost, heiðskírt þótt enn væri dimmt af nóttu er lagt var í hann. Þetta var í fyrsta skipti sem Kalli hleypur með okkur á sunnudegi og þóttu nokkur tíðindi í því. Einnig þóttu tíðindi að foringi vor og Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víkingur var hvergi sjáanlegur og vissi enginn viðstaddra um afdrif hans. Var talið líklegast að hann hefði horfið á Túndru. Við brottför rákumst við á bílflak kunnuglegt sem stóð við flugskeytaskála Björgunarsveitarinnar við Hofsvallagötu og játaði blómasalinn að vera eigandi téðrar bifreiðar, sem væri í lamasessi, en ekki lagt þarna svo að hann gæti sofið í honum nóttina áður en flugeldasalan opnaði til þess að verða fyrstur til að verzla þar. Var kvartað yfir fólki sem væri að dreifa bílhræjum út um alla borg.

Hafflöturinn var spegilsléttur og Skerjafjörðurinn skartaði sínu fegursta, einmunablíða og var lítið rætt um mat, en þeim mun meira um göfgandi málefni. Lítið sagt af sögum eða farið með persónufræði, enda Formaðurinn fjarstaddur. Ekki var gerður stanz fyrr en í kirkjugarði og þar gengið af virðingu í gegn. Svo áfram um Veðurstofu og Hlíðar og þannig áfram allt þar til er komið var til Laugar. M.ö.o. - flestum hefðbundnum stoppum sleppt, nema ef vera skyldi á Sæbraut þar sem drekka má kaldast vatn ófrosið á Höfuðborgarsvæðinu. Hér var sjór líka spegilsléttur og fáir á ferð.

Hlaup var hófstillt, enda spakir menn á ferð og enginn asi eða læti í hlaupurum dagsins. Upplýst að ótilgreindur fjöldi hlaupara hefði farið í gær, laugardag, annan í jólum, kl. 9:30, m.a. Melabúðar-Frikki, sem Jörundur tíndi upp af götu sinni um 10-leytið. Kvaðst Einar blómasali hafa hlaupið þá 15 km. Kom þetta mönnum spánskt fyrir sjónir því þessi vegalengd er ekki þekkt í Vesturbænum, alla vega ekki undir neinu af þeim nöfnum sem hlaup bera í sögu Hlaupasamtakanna.

Í potti voru Mímir og próf. dr. Einar Gunnar, en aðra hefðbundna pottverja vantaði. Kom það ekki að sök, því að umræður voru drjúgar um landsins gagn og nauðsynjar.

Ætla má að næst verði hlaupið í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á morgun, mánudag, kl. 17:30.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband