"Gemmér sígarettu eða ég drep þig!"

"That´s why, first impressions are often correct." syngur David Byrne í einhverjum texta með Talking Heads. Þú ert nýr í fjölskyldunni, kominn til þess að impónera tengdó, snyrtilegur og prúður ungur maður. Sonurinn á heimilinu, bólugrafið, nýfermt ungmenni kemur til þín þegar enginn sér til og segir: "Gemmér sígarettu eða ég drep þig!" Spyrja má hversu árangursrík þessi inngangsreplíka er fyrir uppbyggileg samskipti síðar meir. Þessarar náttúru eru álitaefnin sem ber á góma í Hlaupasamtökum Lýðveldisins á hlaupadegi, sem er ekkert mannlegt óviðkomandi. Mánudagurinn 7di desember AD 2009 var hlaupadagur. Þá safnaðist slíkur fjöldi til hlaups í Brottfararsal að stappar nærri örvilnan. Andlitin og nöfnin, maður lifandi! Hver býr að slíkri þekkingu að geta mátað saman andlit og nöfn og látið þau passa? Skal þess eins getið að helztu hlauparar voru mættir - ekki orð um það meira.

Veður aldeilis yndislegt, 2ja stiga hiti og logn. Hlaupaleið var hál og varasöm og ekki vitað hvað vakti fyrir þjálfurum, þeir voru þögulir sem gröfin. Nema ég hafi verið að hugsa um annað og ekki fylgst með hvað þeir sögðu. Allt í einu var hersingin farin af stað og virtist stefna forystulaust og af gömlum vana út í myrkrið. Niður á Ægisíðu. Hér er myrkrið algert og fullkomlega óviðunandi að mæta hjólreiðafólki á ljóslausum fákum á fullri ferð, algerlega skeytingarlaust um heilsu og velferð meðborgaranna. Við létum þá heyra það sem við mættum með þessum hætti í myrkrinu, einkum þeim sem voru á hlaupastígnum þegar þeir eru komnir með sérstakan hjólreiðastíg nokkrum metrum ofar á Ægisíðunni.

Ritari hljóp einn í myrkrinu, en allt í kringum hann voru raddir sem fjölluðu með hæðnisfullum hætti um vaxtarlag hans, hlaupastíl og þyngslalega tilburði almennt. Hann lét þetta sem vind um eyrun þjóta, enda orðinn vanur baktali og öfund. Með þessum hætti var hlaupið út að Skítastöð. Þar safnaðist fyrir úrval hlaupara, en einhverjir eldri borgarar héldu áfram og lýstu yfir að sprettir væru liðin tíð fyrir þá. Engir skulu nefndir í þessu sambandi, en væntanlega geta menn gert sér í hugarlund um hverja er að ræða. Þjálfarar lögðu drög að sömu sprettum og síðastliðinn mánudag. Af hverju ég læt hafa mig út í þetta er mér algerlega hulið, ég er kominn í vetrarhvíld og stefni ekki að neinu, fólkið í kringum mig er að æfa fyrir Parísarmaraþon. Hvað er að mér? Af hverju er ég að þessu? Kannski vegna þess að Skerjafjörðurinn var eins og draumur, eins og málverk. Hvílík forréttindi að vera staddur á þessum stað á þessum tíma í þessum ótrúlega hópi fólks!

Hvað um það, lagt í hann, sex 1 km sprettir með mínútuhvíld á milli sem ungfrú Sirrý dikteraði og gerðist grunsamlega stutt eftir því sem á hlaupið leið, þ.e. hvíldin. Við hlunkuðumst þetta fóstbræður, blómasalinn og ég með Sirrý á undan okkur eins og einræðisherra öskrandi "Áfram strákar!" - og Þorbjörg K. hógværðin uppmáluð á eftir okkur. Þannig áfram, fram og aftur blindgötuna, sex sprettir, meðan þau hin tóku átta spretti og sá sprettharðasti hringaði okkur og niðurlægði við mikið búhróp.

En við vorum ansi ánægð með okkur eftir á og skokkuðum á hægu tempói tilbaka - allur hópurinn. Myrkrið algert og munaði minnstu að við hlypum niður fólk á leiðinni tilbaka. Smám saman var hraðinn aukinn og blómasalinn átti flottan lokasprett, enda búinn að hvíla mest allt hlaupið. Á Móttökuplani var mikil stemmning, því að stuttu eftir komu okkar þangað komu Flosi og Ágúst hafandi hlaupið Þriggjabrúahlaup við góðan orðstír.

Í potti var um lítið annað rætt en Messías hans Bigga og fyrir dyrum standandi konsert hans annað kvöld. Jörundur átti tvo miða sem hann hlakkaði mikið til að geta nýtt og notið klassískrar tónlistar í leiðinni. Sagðir hæpnir brandarar. Eftir seinustu Spaugstofu lítur maður ekki aftansöng sömu augum og fyrr. Hlaupið verður af nýju á miðvikudag, en ætla má að einhverjir verði fjarverandi vegna matarveizla og ferðalaga.                     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband