Færsluflokkur: Pistill Ritara
21.1.2008 | 22:00
Niðurbrotin sál mætir til hlaupa
Jæja, nóg af þessu. Töluverður fjöldi mættur til hlaups. Enn og aftur voru mættar konur sem enginn kannaðist við og hétu allar Helga. Margrét var mætt eftir helgi í London þar sem hún sá leik Fulham og Arsenal. Helztu hlauparar mættir: Ágúst, Magnús, Friðrik, Þorvaldur, og svo nokkrir minni spámenn. Færi slæmt, snjóslabb, hálka og austanstæður vindur, stormur í aðsigi. Leiðindaaðstæður á Ægisíðunni. Þjálfari fór með þuluna, rólega út, tempó eftir Skerjafjörð og helzt út að Kringlumýrarbraut. Ég hljóp lengst af með Helmut, en hann hélt áfram eftir Nauthólsvík, ég beitti skynseminni og fór Hlíðarfót. Lenti þar með Þorvaldi, Þorbjörgu og Margréti - en ekki lengi, þau hurfu á blússandi tempói. Rætt um bifreiðastöður í Vesturbæ og víðar, nánar tiltekið þá tilhneigingu bíleigenda að leggja bílum hvar sem þeim dettur í hug, upp á gangstéttum, og helzt inni í mjólkurkælinum í Melabúðinni sé þess nokkur kostur, þannig að gangandi og hjólandi fólk kemst ekki leiðar sinnar. Hvimleitt virðingarleysi sem er útbreitt, algengt og óþolandi.
Ekki lagði ég á minnið hverjir fóru hvaða vegalengd, en það truflaði mig lítillega að sumir hlauparar leika þann ljóta leik að fara langt og hratt, skilja félaga sína eftir í reyk, tæta fram úr hlaupurum sem fóru styttra - og gera þetta allt "af því að ég get það", algjörlega hunzandi það hvaða áhrif þetta hefur á okkar minnstu bræður og systur. Við verðum að muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar, sumir kunna að taka það nærri sér að vera niðurlægðir á þennan hátt. Menn ættu altént ekki að gera þetta að gamni sínu. Ég las Benedikt pistilinn á tröppum Vesturbæjarlaugar, en hann hefur aftur og aftur skilið Ágúst eftir einan með e-m minniháttar hlaupurum.
Í potti sýndi Ágúst hins vegar hvílíkt karlmenni og keppnismaður hann er. Hann lét sér fátt um finnast og sagði bara: Ég er að þjálfa Benedikt! Og Eirík. Hvar er Eiríkur, annars? Téður Eiríkur lá í potti þegar við komum, kvaðst vera meiddur. Þeir Benedikt geisuðu yfir versta degi í Kauphöllinni til þessa, ofan á þetta bárust hryllingssögur úr Ráðhúsi Reykjavíkur sem gerðu menn aldeilis stúmm. Athyglisverðar samræður um mínus óendanleika, recursion, og fleira gáfulegt. Svo mætti Skerjafjarðarskáldið og hélt ádíens. En ritari varð að yfirgefa vegna föðurlegra skuldbindinga, áður hétu menn því að fara langt á miðvikudag, alla vega Stokk. Og það hratt.
14.1.2008 | 21:19
Enn fjölmenni, og það í vondu veðri
Oss er ljúft og skylt að rapportéra að í gær, sunnudag, mættu fjórir dánumenn til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökunum, til eflingar andanum og uppbyggingar viðtekinna gilda í Vesturbænum. Þar voru á ferð sérlegir heiðursmenn, nefnilega sjálfur Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur og Einar blómasali. Jörundur kom í pott, hlaupinn úr Kópavogi um Heiðmörk og víðar, sem og ritari, en ástand hans var dapurlegt. Hlauparar voru frískir og kátir og sátu lengi í potti, nema VB sem fór í kolaportið að höndla.
Á mánudegi var enn og aftur fjölmenni mætt til hlaupa, þrátt fyrir leiðindaþræsing, kulda og austanblástur. Á þriðja tug hlaupara, þar af átta konur, mættu í dag og má segja að Hlaupasamtökin hafi fengið rífandi start á þessu nýja ári. Ekki verða einstakir hlauparar taldir upp hér - engin óvænt andlit. Jú, prófessor Sigurður Ingvarsson, stórhlaupari. Þjálfari var mættur og gaf hefðbundin skilaboð, fara út að síðasta húsi í Skerjafirði og spretta úr spori þaðan og helst út að Kringlumýrarbraut. Þó var heimilt að stytta um Hlíðarfót.
Þessi hlaupari var þungur og þreyttur og mikið klæddur sökum kuldans, en það blés kaldur vindur móti okkur alla Ægisíðu inn að Öskjuhlíð. Ég hélt mig við dr. Jóhönnu, blómasalann og Þorbjörgu - nema hvað doktorinn hélt áfram út að Suðurhlíð, en við hin fórum Hlíðarfót. Við hlýddum þjálfaranum, fórum á tempói á réttum stöðum, og m.a.s. aftur á Hringbrautinni á leiðinni tilbaka, fórum hratt þar. Aðrir fóru út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlið, Benedikt náttúrlega fyrstur á tempói sem hann sagði eftir á að hefði verið þægilegt. Ofurhlauparar eins og Sigurður Ingvarsson og Ágúst voru honum langt að baki (æ, nú verð ég óvinsæll!). Nú verður mér ekki boðið í afmæli framvegis.
Enn er barnapotturinn lokaður sökum "viðhalds" - hvar er viðhaldið? Ég bara spyr. Því var setið í Örlygshöfn og hlýtt á Kristján Hreinsmög Skerjafjarðarskáld sem hélt ádíens og sagði ófagrar sögur af úr tónlistarheiminum. Næst er hlaupið á miðvikudag - verður farið langt? Eða verður farið í ískaldan sjóinn í fjegurra stiga frosti? Góðar kveðjur - ritari.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2008 | 11:34
Maður settur út í kuldann, hunzaður
Óvenjulegt var við hlaup kvöldsins að þá mættu óvenjumargir úrvalshlauparar, menn sem ekki hafa látið sjá sig að hlaupum um langt skeið. Fyrstan og fremstan meðal jafningja og vina skal nefna sjálfan Vilhjálm Bjarnason, sem er endurheimtur eftir langa fjarveru. Hann stóð í Brottfararsal og átti langt samtal við sjálfan Söngvara Lýðveldisins, Egil Ólafsson, og var þeim mikið niðri fyrir. Þá var mættur Karl kokkur og urðu fagnaðarfundir í Brottfararsal er þessir ágætu menn mættu og áttu góðar samræður við félaga sína. Létt var yfir mönnum og gleðin skein úr hverju andliti. Konur voru mættar: dr. Jóhanna, Brynja, og Rúna mætti er við vorum á útleið. Ástæða er til að telja upp það mannval sem þarna var saman komið: Ágúst, Þorvaldur, Vilhjálmur, Bjarni, Gísli, Helmut, Denni, Rúna, Brynja, dr. Jóhanna, Benedikt (einnig kallaður Benjamín), Jörundur sjálfur, Hjörleifur, ritari og þá held ég upptalningin sé fullkomin. Jörundur kom síðastur á slaginu hálffimm þegar við erum vön að leggja af stað. "Skiljum hann eftir!" hrópaði ritari. "Nei, við bíðum eftir honum" sagði Vilhjálmur. "Jörundur er vinur minn." Þegar Jörundur var áminntur um stundvísi og klukkufræði, sagði hann: "Já, þið eruð ekkert nema ríkisstarfsmenn og auðnuleysingjar og getið þess vegna farið úr vinnu þegar ykkur hentar." Ég leit í kringum mig og varð að viðurkenna að hann hafði nokkuð til síns máls.
Berlínarmaraþon enn til umræðu og hvatt til þess að menn skráðu sig. Veður stillt, fremur kalt en gott að hlaupa. Enn var rætt um persónu non grata eða persónu non existant í félagsskapi vorum, Birgi hinn gleymna eða blinda, Birgi blinda, sem "gleymdi" að setja myndir af félögum sínum í hið árlega tímarit bróður síns. Héldu menn áfram að ræða það með hverjum hætti hægt væri að hrella þennan fyrrum félaga vorn. Jörundur upplýsti að hann væri búinn að loka fyrir köttinn hans og byrjaður að hrella hann (köttinn) andlega. Ritari lofaði að fjarlægja myndir af téðum aðila af bloggi Hlaupasamtakanna, dr. Jóhanna heimtaði að myndir af sér með fyrrnefndum aðila yrðu fótóshoppaðar til þess að hreinsa syndina úr röðum vorum.
Eitthvað var maður þungur á sér, að hluta til vegna hins langa miðvikudagshlaups, að hluta til vegna þess að ritari er vakinn og sofinn yfir hagsmunum Lýðveldisins og gjarnan andvaka af áhyggjum yfir stöðu mála í Lýðveldinu. En við ákváðum nokkrir að fara bara stutt og fara hægt. Þetta voru þeir Gísli, Ágúst, Bjarni, Kalli og ritari. Við styttum og fórum Hlíðarfót, aðrir fóru lengra. Það er athyglisvert að Ben. hleypur óskynsamlega, fór langt miðvikudag, fór fimmtudag, og aftur í dag, föstudag, fór hratt og langt á undan öðrum, uppskrift að meiðslum! Aðrir sem fóru hratt voru Helmut, dr. Jóhanna, og einhver sem ég man ekki eftir.
En við skynsömu drengirnir fórum Hlíðarfót og áttum góð samtöl um fyrri tíð. Við reyndum að baktala hver annan eftir megni, fórum ekki hjá Gvuðsmönnum, heldur þvert yfir einskismannsland, klakahellur og ófærur. Á þessum kafla flaug alls kyns dónaskapur sem ekki verður hafður eftir, enda er hér í gangi gæðatrygging og siðferðis.
Enda þótt menn fagni því að fá Vilhjálm Bjarnason að nýju í hópinn voru þeir jafnframt haldnir fortíðarþrá vegna þess tíma þegar þeim mætti einungis skætingur og önugheit. Veltu menn vöngum yfir því hverju þetta sætti
Er þessi hlaupari fór úr potti og gekk til útilklefa mætti hann Einari blómasala sem kvaðst hafa verið að hlaupum í tvær klukkustundir. Var vissulega á hlaupaklæðum, en ekki mjög móður. Næst er farið á sunnudag kl. 10:10 - Öl-hópur fer frá Salalaug kl. 9:30 að ég hygg. Góðar stundir.
9.1.2008 | 21:40
Ágúst yngir upp - farinn Stokkur
Það var fremur svalt í dag í veðri, en stillt, og þarafleiðandi dágott veður til þess að spretta úr spori, einkum fyrir miðaldra háskólaborgara og húsmæður í Vesturbænum. Meðal viðstaddra við brottför voru allmargir kunnir hlauparar og afreksmenn, og skal fyrstan telja Jörund, einhvern ágætastan hlaupara í hópi vorum, svo voru þarna aðrir eins og Gísli og Ágúst, ekki slæmir hlauparar, en orðnir full værukærir í seinni tíð fyrir minn smekk. Einnig mættur dr. Friðrik, sem hugsaði bara um reykta álinn sem hann ætlar að gæða sér á í einhverri vinstue í Lars Björnsensstræde næst þegar hann vísiterar Borgina við Sundið. Einkennilegt hvað matur er mönnum ofarlega í huga þegar þeir eru að fara út að hlaupa. Svo voru nokkrir sæmilegir hlauparar, og loks þjálfarinn, Rúnar. Það lá í loftinu að farinn yrði Stokkur, um það hafði verið rætt s.l. mánudag, og nú heimtuðu sumir menn efndir, m.a.s. Ágúst kvaðst hafa verið andvaka af spenningi s.l. tvo sólarhringa, og nú yrðu menn að gjöra svo vel og hysja upp um sig og standa við stóru orðin. Benedikt var á sama máli. Jæja, þá förum við Stokkinn. Þjálfarinn varaði menn við því að fara úr 10 km hlaupi beint i 16 km hlaup - taldi það ávísun á meiðsli. En við, þessir vitleysingar, við hlustuðum náttúrlega ekki á þessa hvatningu til aðgæzlu og lögðum drög að löngu hlaupi - vorum búnir undir það andlega.
Lagt upp, afar hægt, enda hafði þjálfarinn lagt ríka áherzlu á að menn byrjuðu rólega. Já, förum rólega, sagði Gísli. Ég ætla að fara rólega. Ætlar þú ekki að fara bara rólega, Ágúst minn? spurði Gísli. Jú, voða rólega, sagði prófessorinn. En það er segin saga með suma, þeir eru eins og kálfar að vori og kunna sér ekki læti, sama hvað þeim reyndari menn reyna að hafa fyrir þeim. Benedikt og Una steðjuðu af stað og voru horfin á einu augnabliki. Aðrir rólegir. Á Ægisíðu upplýsti Jörundur viðstadda um að von væri á nýrri Hlaupadagbók frá Gunnari Páli, bróður Bigga Bigbang. Og vitið þið hvað? sagði hann. Aðalljósmyndari er sjálfur Birgir, félagi okkar og vinur - eða sem við töldum vin okkar. Það er fullt af ljósmyndum í ritinu - en ekki ein einasta af okkur félögunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins! Haldið þið að þetta sé hægt? Mönnum blöskraði eðlilega þetta framferði - hér spruttu fram reynslusögur ýmissa félaga af þessum görótta Birgi, margar ófagrar. Já, félagar! Hér eftir munum við hunza téðan Birgi, ef hann mætir til hlaupa þá eyðum við ekki orði á hann, látum sem við sjáum hann ekki, forðumst hann eins og pestina! Út af listanum með hann! hrópaði æstur hlaupari, hringum í dr. Flúss!
Ekkert varð af sjóbaði í Nauthólsvík, prófessor Fróði vildi meina að "tekin hefði verið ákvörðun" um að sleppa baði seinast þegar hlaupið var, og reyndi að klína þeirri ákvörðun upp á sjálfan ritara, sem bar af sér ásökunina sem ótrúverðuga og ósanngjarna. Hið sanna er líklega að prófessorinn hefur verið í kvíðakasti í tvo undangengna sólarhringa yfir líkindum þess að baðast yrði á þessum degi. En nú slapp hann og með það var hlaupið áfram um Flanir. Og hér var ástæða til þess að fagna. Loksins var runnin upp sú stund, langþráð, að farið yrði lengra en 10 km í hlaupi. Menn stefndu ótrauðir í Fossvogsdalinn og drógu lítt af sér. Ágúst talaði mikið um vonarstjörnur Hlaupasamtakanna, þá Benedikt og Eirík, og leit svo á að þeir væru að alast upp undir sínum handarjaðri og gætu orðið ágætir hlauparar með tímanum, ef þeir færu að ráðleggingum hans. Hér var honum bent á að hann hefði verið með aðra góða hlaupara í þjálfun hér á árum áður, svo sem blómasalann og ritarann, og hvort búið væri að gefa þá upp á bátinn. Já, þeir eru orðnir allt of feitir og gamlir; nú er ég búinn að yngja upp, kominn með drengi í þjálfun sem hafa vart náð fullorðinsaldri.
Í Fossvogi mættum við mörgum hlaupurum í Laugahópnum, kona ein hrópaði: Hæ Ágúst! en hann tók ekki eftir því fyrr en við bentum honum á það. Ha? Hvað, var kona að hrópa nafn mitt? sagði hann miður sín af því að hafa misst af þessu. Áfram í Fossvogsdalinn, umræður góðar og léttar. Hæfilegur skammtur af baktali, slúðri, aulafyndni og öðru sem hæfir í hópi sem vorum. Stokkinn fóru á endanum Benedikt, Ágúst, dr. Jóhanna, Jörundur, ritari, Gísli, Rúnar þjálfari, Helmut og Kári. Vel af sér vikið það! Við fórum það hægt að þetta var bara þægilegt hlaup og manni leið nokkuð vel er komið var á Móttökuplan. Teygt inni og bornar saman bækur. Í útiklefa var Skerjafjarðarskáldið, í potti sjálfur dr. Flúss, og hlakkar trúlega til þeirrar stundar er hann getur farið að staulast með okkur á ný. Mönnum varð tíðrætt um kíló, sumir ætluðu að léttast um 10 kg, aðrir um 15. Svo sagði einhver: en mest er þó um vert að við tökum á málum blómasalans, þetta gengur ekki með hann lengur. Við verðum að hjálpa karlanganum að takast á við yfirvigtina.
9 eru skráðir í Berlínarmaraþon eða hafa tekið ákvörðun um að fara. Ágæt byrjun á nýju hlaupaári. Í gvuðs friði - ritari.
7.1.2008 | 21:19
Bjartari tíð framundan...
Umræður eðlilega háværar í Brottfararsal, og voru ungir sundiðkendur hjá KR farnir að sussa á mannskapinn. Engar verulegar móðganir flugu og gengu menn sáttir að kalla út úr húsi. Þar lagði þjálfari línur um hlaup dagsins: rólega út að dælustöð í Skerjafirði, svo átti að gefa í og taka sprett inn í Nauthólsvík, helst út að brú yfir Kringlumýrarbraut. Ekki leist mér á, sem hafði í misgáningi stigið á vigtina í útiklefa í morgun og fengið áfall - allir sigrar fyrri viku fyrir bí - kominn á upphafsreit að loknum jólum. 90 kílóa olíuskip á leið út í myrkrið að taka stímið. Tók undir með Gísla sem sagði: Við Friðrik förum bara hægt og sleppum þéttingum.
Jæja, hvað gerist, Kári fer að hegða sér eins og annað olíuskip, bara hraðskreiðara, siglir framúr á Ægisíðu og skilur mann eftir. Benni, Björn kokkur og e-r aðrir fremstir, einhverjar konur sem ég hef aldrei séð, Helgur einhverjar, ég fæ hins vegar samfylgd þjálfarans og var ekkert ósáttur við það. Ég hugsaði mér til huggunar að Einar blómasali væri altént aftastur og maður þyrfti ekki að hafa áhyggjur af að hann skellti sér framúr. Kem sjálfum mér á óvart við dælustöð með því að taka á sprett og skeiða framúr Kára, en heyri fljótlega másað að baki mér. Koma ekki Helmut og Ágúst og taka framúr mér - Ágúst þarf að fara að venja sig við að horfa á baksvipinn á mér. Nema hvað þeir halda áfram, ég spyr: eruð þið á spretti? Nei, við erum bara að hlaupa. En svo slaka þeir á og stöðva í Nauthólsvík.
Ákveðið að halda áfram um Flanir og lúpínuvellina hans Jörundar, út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíðina (er það ekki rétt heiti?). Nema hvað, þegar þangað er komið heyra menn kunnuglegt tipl. Getur það verið? Er blómasalinn búinn að ná okkur? Jú, viti menn! Kemur ekki blómasalinn á hröðu skeiði og blandar sér í hóp fremstu manna (eða þannig, það voru víst einhverjir á undan okkur, en við bara vissum ekki af því). Jú, jú, ekki verður logið upp á þennan mann, seiglan og harkan komin saman í einum skrokki. En þá tók nú verra við: brekka. Og hún var löng. Það var bara á fótinn upp hlíðina meðfram kirkjugarðinum og alla leið upp að Perlu, tók verulega í og reyndi á okkur, en við héldum hópinn, ég og Ágúst, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Helmut og Margrét. Einar blómasali dróst aftur úr, enda eiga brekkur ekki við hann. Það var mikill léttir að komast upp að Perlu - því eftir það var leiðin bara niður á við. Hitaveitustokkurinn var óupphitaður og háll á köflum - en lagaðist er neðar var komið. Farið um hjá gvuðsmönnum og þá leið okkur vel og settum á fulla ferð áfram. Fórum á fullu blússi vesturúr allt þar til er við komum að Vatnsmýrinni vestanverðri - þá urðum við vör við hratt tipl - aftur! Hér kom Einar blómasali á sínu kunnuglega skeiði og fór fram úr okkur í þeim tilgangi einum að niðurlægja okkur. Við það var ekki unað og ritari setti í túrbóinn og reif sig framúr honum og braut hann endanlega niður. Eftir þetta var farið á rólegu nótunum allt til Laugar, nema hvað menn urðu varir við óróleika í prófessornum á Hagamelnum þegar við nálguðumst lokamarkið. Fóru menn að kannast þar við gamla takta og ljóst að sá gamli er allur að koma til og ná sér upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í.
Í potti veltu menn vöngum yfir Berlínarmaraþoni, það væri allt í lagi að skrá sig - ef ekkert yrði úr hlaupi væri hægt að finna sér góða götuserveríngu og panta sér bjór og horfa á hlauparana skeiða framhjá. Einnig rætt um kúltúrprógrömm og annað sem hægt væri að gera meðan á dvöl stæði.
Nú lengist dagur og dagsbirtu nýtur í æ meira mæli. Tímabært að lengja hlaupin að sama skapi, rætt um að fara Stokkinn á miðvikudag, óljóst hvort farið verður í sjóinn, en Ágúst og Björn eiga eftir janúarbað. Síðan koma smellirnir hver af öðrum: 69, Goldfinger, Stíbbla... Hvar er Sjúl? Ritari.
6.1.2008 | 19:01
Fagur Þrettándamorgunn
Vegna þessa líkamsástands hinna þriggja, agalausu matargæðinga, var farið reglulega hægt. M.a.s. ritari, sem á föstudaginn átti glæsilega spretti með próf. Fróða, var algjörlega heillum horfinn. Þurfti að horfa á baksvipinn á Kára nánast alla leið - sem gerist ekki oft. Sem minnir mig á orð er féllu á hlaupum á föstudag. Á Hlemmi fór undirritaður fyrir hópnum og Ágúst sagði upp úr eins manns hljóði: Ólafur, þú hefur lagt af! Það getur ekki verið, sagði ég - alla vega ekki núna yfir jólin. Helmut sagði: Þetta er misskilningur, Ágúst - þú hefur bara aldrei séð baksvip Ólafs áður! Þannig er alltaf reynt að eyðileggja allt jákvætt sem mönnum dettur í hug að segja hverir um aðra.
Ólafur tilkynnti að hann hefði þrjár fallegar sögur að segja okkur - og svo komu þær hver á fætur annarri og eru þær dæmi um hvers vegna menn mæta til hlaupa á sunnudagsmorgnum kl. 10:10 - svo uppfullar voru þær mannlegu innsæi og skilningi á samhengi hlutanna. Ekki verður rakið hér hvaða sögur þetta voru, menn verða bara að mæta og heyra þetta beint úr munni hestsins (eins og stundum er sagt á ensku, straight from the horse´s mouth).
Farin hefðbundin leið, nema hvað Ó. Þorsteinsson heltist úr lestinni í Skerjafirði og sáum við hann ekki aftur fyrr en í potti. Við hinir fórum hefðbundið og bar fátt til tíðinda. Farinn Laugavegur og skoðuð hús sem til stendur að fjarlægja. Í pott mættu helztu spekingar, m.a. dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar.
Á morgun eru menn ákveðnir að taka hressilega á því enda nauðsynlegt að fara að huga að uppbyggingu fyrir Berlín. kv. ritari.
4.1.2008 | 22:13
Ágúst og ég, ég og Ágúst - við Ágúst
Við upplifðum okkur einkennilega frjáls á Brottfararplani, engir öskrandi þjálfarar að leggja línur um hlaup, nei - fólk var eiginlega feimið þegar kom að því að taka af skarið og leggja í hann. Gengið var á Ágúst um að drífa mannskapinn af stað, en hann færðist undan því. Loks kom hreyfing á Gísla og hópurinn lagði í hann. Veður lofaði góðu, svo góðu að ritari felldi niður þann sið sinn að hlaupa í flíspeysu og með balaklövu; lét nægja að fara í síðermapeysu og þunnum jakka, fullur bjartsýni sem sé. Sá eftir því síðar.
Hátt á annan tuginn lagði af stað frá VBL og ríkti gleðin ein, ofar hverri kröfu. Það var föstudagur, Fyrsti Föstudagur til að vera nákvæmur, sumir töldu að mætingu mætti að hluta til skýra með þeirri staðreynd. Farið rólega af stað til þess að hlífa Ágústi, sem er að stíga upp úr meiðslum og hefur ekki hlaupið í 3 mánuði. Hann var hægur af þeim sökum og rólegur framan af. Smám saman fór hópurinn að skiptast upp í deildir: fremstir fórum við Ágúst, Ágúst og ég, og einhverjir með okkur, við fórum hratt yfir. Á eftir kom fólkið af Nesi. Kári var í millideild, en aftastir voru Einar blómasali og dr. Friðrik. Frú Ólöf snöri við í Skerjafirði.
Nú gerðist undrið. Spurt var hvert skyldi halda. "Þið ráðið," sagði Ágúst á sinn hógværa og lýðræðislega hátt - þar með opnandi á möguleikann á að fara Hlíðarfót eða eitthvað annað. Þegar til kom var fólk svo innblásið að ákveðið var að fara Hi-Lux, og þannig áfram hefðbundið framhjá kirkjugarði, Veðurstofu og svo framvegis. Hér héldu hópinn Ágúst og ég, Helmut og dr. Jóhanna, Hjörleifur og Þorvaldur. Tempó var hratt, fórum á hröðu skeiði upp brekkur og hvíldum hvergi. Höfðum austanstæðan mótvind nánast alla Ægisíðuna, kaldan og ömurlegan, og hér saknaði ég þess að hafa skilið balaklövuna eftir í klefa. En þegar komið var í Öskjuhlíðina lagaðíst ástandið og maður fann lítið fyrir vindi eftir það.
Þegar við komum niður í Hlíðar römbuðum við á hóp sem við könnuðumst við: fjórir Nesverjar hlupu saman í grúppu á undan okkur og kunnu ekki að skammast sín. Höfðu stytt einhvers staðar á leiðinni og voru allt í einu komin á undan okkur helztu hlaupurum. Við jusum svívirðingum yfir þau og höfðum gaman af. Áfram um Klambra og svo stefnan tekin niður á Sæbraut. Þar rann upp fagurt skilningsljós um hlaup dagsins. Við vorum loksins búin að endurheimta okkar gamla þjálfara, Ágúst, og hann hafði með ótrúlega fjarverandi hætti laumað inn þeirri hugmynd að við ættum að hætta þessu Hlíðarfótarfokki og taka í staðinn alvöruvegalengdir. Hugur okkar var bjartur og skýr er hér var komið og við skynjuðum hina kynngimögnuðu nærvist félaga Ágústs og þau góðu áhrif sem hún hefur á hlaupara. Við vorum staddir á Sæbraut, ég og Ágúst, Helmut og Hjörleifur, höfðum náð grænu ljósi, hin urðu efitr, nema Þorvaldur, sem kom æðandi yfir gervalla Sæbrautina, trúr sínum uppruna, og lét hvorki æðandi bíla né rauð ljós stöðva för sína.
Við ákváðum að fara rólega á þessum kafla, og sjá til hvort eftirkomendur hefðu metnað til þess að ná okkur. En lögðum jafnframt á ráðin um að ef þau nálguðust, myndum við gefa allt í botn og skilja þau eftir í reyk. En metnaðurinn var ekki til staðar, svo að við fórum einir um Miðbæ. Ágúst furðaði sig á þeim hinu miklu framkvæmdum sem standa yfir við höfnina. Var hann upplýstur um að þarna risi senn Tónlistarhús, og ljóst að hann hefði verið svo lengi fjarri hlaupum að hann hefði misst af uppbyggingarsögu Reykjavíkur síðustu tvö árin. Á Mýrargötu sagði Ágúst að sér liði eins og hann hefði verið á einum, löngum spretti allt hlaupið - þetta hefði verið erfitt eins og síðustu 10 km í 100 km hlaupinu. Við hinir kímdum, og sögðum að þetta hlyti að vera skynvilla. "Já, líklega er það rétt," sagði Ágúst hnugginn. En hið rétta í málinu er að við vorum á einni, samfelldri flengreið alla leið frá Skerjafirði og til loka hlaups. Óþarfi að vera að ýta undir egóið hjá fólki og vera jákvæður.
Að hlaupi loknu var tekinn góður tími í að teygja á stétt, sagðar sögur, og fleira í þeim dúr. Menn voru afar sælir með hlaupið þótt erfitt hefði verið. Heyrðust menn ítrekað dæsa og segja orðið "dásamlegt!". Svo var farið í pott, en bara stutt - því Mimminn beið. Samþykkt að nota janúarmánuð í að taka út þá Fyrstu Föstudaga sem farist hafa fyrir síðustu fjögur árin eða svo.
Góð mæting á Fyrsta Föstudegi, lagðar línur um skráningu í Berlínarmaraþon og mun eitthvað bitastætt þar að lútandi fljótlega birtast á póstlista. Góðar kveðjur, ritari.
2.1.2008 | 21:52
Hressandi sjóbað - og ekki seinna vænna...!
Geysilega góð stemmning var í Brottfararsal fyrir hlaup, enda mættir margir af Nestorum Samtakanna sem ekki hafa sézt lengi að hlaupum, svo sem próf. Fróði og Gísli. Einnig dr. Friðrik, nýkominn af skíðum í Þýzkalandi. Nú brá svo við að þjálfarar lögðu mönnum einfaldar línur um hlaup, fara hefðbundið, Hlíðarfót eða Suðurhlíðar, 3-4 þéttinga, en taka því annars rólega. Einhverjir höfðu á orði að tímabært væri að fara í sjóinn, upp væri runninn annar dagur hins herlega árs Drottins 2008, og enn væri ekki búið að fara í sjóinn! Þetta gengi ekki. Prófessorinn byrjaði strax með úrtölur og kjökur um að þetta gæti nú ekki verið skynsamlegt, en menn hristu orð hans af sér og létu sér ekki segjast.
Lagt í hann í kjörveðri, stillu, 4 stiga lofthita, 3,9 stiga sjávarhita, þurru, en undirlag hált víða á leiðinni. Það er segin saga með suma menn, þeir hafa bara eina stillingu: hratt áfram. Benedikt og Ágúst horfnir snemma á Ægisíðu og einhverjir með þeim. Að þessu sinni höfðu þjálfarar litlar áhyggjur af öftustu mönnum: ritara, Magnúsi, dr. Friðriki og Bjarna. Einhverra hluta vegna dóluðum við okkur þetta í rólegheitunum og höfðum litlar áhyggjur af þeim sem fremstir fóru. Fréttum eftir á að e-r hefðu farið Suðurhlíðar eða því sem næst, aðrir Hlíðarfót - á leiðinni rákust menn á skömmustulegan syndasel (og þó ég noti orðið "selur" er ég á engan hátt að vísa til líkamsástands téðs hlaupara) úr stétt blómasala sem mætti seint til hlaups, líklega vegna viðskipta dagsins. Við helztu strákarnir vorum hins vegar með ráðagjörð á prjónunum: við hlupum sem leið liggur niður á ramp, ásamt með dr. Jóhönnu (vitni) og rifum okkur þar úr hverri spjör, eða því sem næst, skelltum okkur í sjóinn og syntum áleiðis til Bessastaða. Þetta voru Gísli, Helmut, dr. Friðrik og ritari. Vitni voru dr. Jóhanna og Bjarni. Sjóbaðið var hressandi, sem og sú vitneskja að enn saxast á forskot próf. Fróða. Hér var haft á orði að hagræði gæti verið af því að færa ábyrgð á skráningu sjóbaða yfir á ritara, hann væri hvort eð er sískrifandi, og oftar en ekki væri aðeins með eftirgangsmunum hægt að særa prófessorinn til þess að standa sig í sagnfræðinni.
Nema hvað, þarna hlupum við áfram, og vildi ég gjarnan halda um Suðurhlíðar, en hlaut engar undirtektir (sagði þetta að vísu svo lágt að ekki er öruggt að margir viðstaddra hafi heyrt það), svo að það var farið um stórhættulegan stíg vestan við Öskjuhlíðina, bara svellbunki á svellbunka ofan. Ekki urðum við vör við aðra hlaupara fyrr en komið var tilbaka, þá var hópur fólks að teygja í Móttökusal. Upplýst að búið er að opna á skráningu í Berlínarmaraþon í haust og tók blómasalinn að sér að skrá hópinn. Rúnar tilbúinn með æfingaprógramm sem hefst í marz (er það ekki óþarflega snemmt? - prófessorinn byrjaði bara mánuði fyrir hlaup). Teygt og togað og skrafað. Helmut og dr. Jóhanna komin heim frá Flórída, brún og sælleg, hlupu töluvert ytra, og höfðu frá mörgu að segja. Töldu dvölina þar ógleymanlega, þótt Bandaríkin hefðu átt í hlut.
Setið í fjörutíu mínútur í potti. Þar mætti gamall hlaupari sem ég kann ekki nafnið á, maður sem hljóp með Samtökunum á árum áður. Mikið rætt um mat og drykk sem vonlegt er og var stemmningin líkust því að saman væri kominn hópur templara, sem lýsti yfir að hann væri kominn í afeitrun: ekkert áfengi, ekkert reykt kjöt, ekkert... o.s.frv. Björn kynnti rauðvínið sem hann flytur inn, blómasalinn pantaði kassa á staðnum, en Björn virtist eitthvað vantrúaður á að þetta væru gróðavænleg viðskipti. Rætt um að hafa rauðvínskynningu með völdu fingrafæði - hér færðust viðstaddir í aukana og virtust hafa gleymt öllum fyrirætlunum um afeitrun: hvenær? Getum við ekki frestað afeitrun og tekið rauðvínskynningu fyrst? Strax! Strax! Strax! var hrópað. Ja, fólk er svei mér fljótt að gleyma heitstrengingum.
Á föstudaginn er kemur er Fyrsti Föstudagur. Og ef einhver í vorum hópi velkist enn í vafa um hvað Fyrsti Föstudagur er, þá skal upplýst að Fyrsti Föstudagur er Fyrsti Föstudagur í hverjum mánuði. Af því tilefni að steðjað að hlaupi loknu á Mímis Bar (Mimmann) og þar er drukkið límonaði í tilefni dagsins - en eins og menn vita er það ekki sæmandi hlaupurum að aka bifreið eftir að hafa innbyrt áfenga drykki - núll-tólerans er skipun dagsins! Einhverjir húmorslausir menn gætu spurt: af hverju Mímis Bar - af hverju ekki bara í Melabúðina, kaupa þar límonaði og standa svo úti á stétt og súpa á þar? Já, svona löguðu anzar maður ekki.
(Ritari vill taka það fram að í svo fjölmennu hlaupi sem farið var í kvöld er óhjákvæmilegt að óvandaðir menn og einkennilega þenkjandi reyni að gauka einu og öðru frásagnarverðu að ritara og fara fram á að það verði birt - en eins og pistillinn ber með sér er viðhöfð ströng sjálfsskoðun, sjálfsgagnrýni og sjálfsagi á þessum bæ - enginn sóðaskapur hafður eftir sem ekki er hafandi eftir.)
Í gvuðs friði - þangað til á föstudag. Ritari.
31.12.2007 | 15:21
Síðasti pistill 2007 - Gamlárshlaup ÍR
En í dag, gamlársdag, var komið að alvöru lífsins: Gamlárshlaupi ÍR. Mikil stemmning var fyrir þátttöku í föstudagspotti og hvatti þar hver annan að mæta, gott ef menn börðu sér ekki á brjóst í leiðinni, sá það ekki svo vel. Í morgun hitti ég að auki þá Einar og Magnús og lýstu þeir báðir yfir ásetningi um að hlaupa í dag. En þegar til átti að taka vorum við Birgir einir mættir til hlaups, hann ásamt með eiginkonu sinni, og þar fyrir utan voru Una og Þorbjörg sem mega teljast tilheyra periferíunni, Rúnar þjálfari. Á hinn bóginn voru mættir einir tíu hlauparar af Nesi, svo að maður skammaðist sín bara. Eftirtekt vakti miði sem lá á borði í Oddfellowahúsinu (gömlu Tjarnarbúð), skrásetningarblað þar sem á var letrað nafnið "Einar Þór Jónsson" heimilisfastur á Reynimel hér í borg. Var engu líkara en hann hefði byrjað á að skrá nafn sitt, en horfið frá þátttöku af einni af eftirtöldum ástæðum: 1. hann var rukkaður um pééééninga þegar hann ætlaði að skila miðanum; 2. konan hafði gleymt að reima á hann hinn hlaupaskóinn; 3. konan ætlaði honum önnur verk þennan dagspart.
Veður var í raun ekki eins slæmt og ætla mætti, uppstytta meðan á hlaupi stóð, smágjóla í Ánanaustum og svo á Ægisíðu, en annars bara þokkalegt, hlaupaleiðin var nokkurn veginn hrein. Skipulag gott, umferð alveg stöðvuð á mikilvægum punktum. Maður skeiðaði þetta í rólegheitum eins og hvert annað mánudagshlaup og lauk á um 60 mín.
Það olli vonbrigðum að ekkert drykkjarkyns var að hafa á leiðinni, ég taldi það vera vegna ókyrrðar í lofti. Hins vegar er það algjör skandall að ekkert var að hafa eftir hlaup að heldur. Fjöldi manns barðist um að komast að einum vatnsbrúsa sem stóð á borði við Ráðhúsið - engir "drykkir og léttar veitingar" eins og mig minnir hafi verið lofað í kynningu á hlaupinu. Þar stóð að vísu einnig að drykkjarstöðvar yrðu á tilgreindum stöðum. Mér finnst þetta ekki boðlegt og ekki sæmandi íþróttafélagi af þeim kalíber og virðingu sem ÍR er. Hér þarf að gera betur.
Nú,nú! Þetta mun vera síðasti pistill ársins 2007, sem hefur verið gjöfult og gleðilegt hlaupaár. Ég óska öllum hlaupurum gleðilegs nýs árs og allra heilla á nýju ári. Sjáumst kát og hress í miðvikudagshlaupi 2. janúar 2008 - verður farið í sjóinn? kv. ritari.
29.12.2007 | 14:51
Gamlir hlauparar ganga í endurnýjun lífdaga
Nema hvað, mætir ekki sjálfur prófessor Fróði eftir langa fjarveru. Kvaðst vera orðinn heill heilsu og að hann kenndi sér einskis meins. Auk hans voru Magnús, ritari, Denni, Rúna og Brynja. Áfram var kalt í veðri og hált á hlaupaleiðum. Farinn Hlíðarfótur til þess að vera ekki að ofreyna prófessorinn á fyrsta hlaupi. Við piltarnir fórum á undan stúlkunum og fórum nokkuð geyst, óþarflega að sumra mati. Hlaupið var hressandi - en hraðinn kann að hafa ráðist af því að próf. Fróða var bent á þann möguleika að Jörundur hlaupari kynni að vera staddur á heimili hans á hlaupandi stundu, nánar tiltekið í potti, því að fyrirhugað var að hafa árlegt potthlaup að jólum í dag, en var blásið af vegna þátttökuleysis. Hins vegar gleymdist að láta Jörund vita af því... Prófessorinn varð hugsi og sagði: Já, það er líklega bezt að hraða sér heim.
Í potti að Laugu var fjörugt að vanda, rætt um Fyrsta Föstudag og möguleika þess að halda hann í dag, þar sem misfarist hefði að halda hann í desember. Eigi að heldur var þreytt sjósund í þessum mánuði, enda bæði Gísli og dr. Friðrik fjarri góðu gamni. Mættur Benedikt og kvartaði yfir því að það vantaði löngu hlaupin; strengdu menn þess heit að hefja fljótlega á næsta ári að fara hinar lengri leiðir, 69, Stíbblu, Goldfinger o.s.frv. Rætt um að fara í Nýárshlaup ÍR og gera sér glaðan dag í aðdraganda áramóta. Er hér með komið á framfæri hvatningu um þátttöku á þeim vettvangi. Góðar kveðjur, ritari.