Bjartari tíð framundan...

Ekki færri en 21 hlaupari voru mættir til hlaups á þessum fagra mánudegi í byrjun árs, sumir töldu sig hafa talið 22 - en það fékkst ekki staðfest af áreiðanlegu fólki. Það makalausa var að af þessum 21 voru 10 konur!!! Hvenær hefur annað eins gerst í röðum vorum - ekki að furða að eiginkonur eru farnar að fjölmenna til hlaupa að fylgja körlum sínum eftir og gæta þess að allt sé eftir réttum sið. Veður fremur svalt en enginn vindur og því yndislegt hlaupaveður.

Umræður eðlilega háværar í Brottfararsal, og voru ungir sundiðkendur hjá KR farnir að sussa á mannskapinn. Engar verulegar móðganir flugu og gengu menn sáttir að kalla út úr húsi. Þar lagði þjálfari línur um hlaup dagsins: rólega út að dælustöð í Skerjafirði, svo átti að gefa í og taka sprett inn í Nauthólsvík, helst út að brú yfir Kringlumýrarbraut. Ekki leist mér á, sem hafði í misgáningi stigið á vigtina í útiklefa í morgun og fengið áfall - allir sigrar fyrri viku fyrir bí - kominn á upphafsreit að loknum jólum. 90 kílóa olíuskip á leið út í myrkrið að taka stímið. Tók undir með Gísla sem sagði: Við Friðrik förum bara hægt og sleppum þéttingum.

Jæja, hvað gerist, Kári fer að hegða sér eins og annað olíuskip, bara hraðskreiðara, siglir framúr á Ægisíðu og skilur mann eftir. Benni, Björn kokkur og e-r aðrir fremstir, einhverjar konur sem ég hef aldrei séð, Helgur einhverjar, ég fæ hins vegar samfylgd þjálfarans og var ekkert ósáttur við það. Ég hugsaði mér til huggunar að Einar blómasali væri altént aftastur og maður þyrfti ekki að hafa áhyggjur af að hann skellti sér framúr. Kem sjálfum mér á óvart við dælustöð með því að taka á sprett og skeiða framúr Kára, en heyri fljótlega másað að baki mér. Koma ekki Helmut og Ágúst og taka framúr mér - Ágúst þarf að fara að venja sig við að horfa á baksvipinn á mér. Nema hvað þeir halda áfram, ég spyr: eruð þið á spretti? Nei, við erum bara að hlaupa. En svo slaka þeir á og stöðva í Nauthólsvík.

Ákveðið að halda áfram um Flanir og lúpínuvellina hans Jörundar, út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíðina (er það ekki rétt heiti?). Nema hvað, þegar þangað er komið heyra menn kunnuglegt tipl. Getur það verið? Er blómasalinn búinn að ná okkur? Jú, viti menn! Kemur ekki blómasalinn á hröðu skeiði og blandar sér í hóp fremstu manna (eða þannig, það voru víst einhverjir á undan okkur, en við bara vissum ekki af því). Jú, jú, ekki verður logið upp á þennan mann, seiglan og harkan komin saman í einum skrokki. En þá tók nú verra við: brekka. Og hún var löng. Það var bara á fótinn upp hlíðina meðfram kirkjugarðinum og alla leið upp að Perlu, tók verulega í og reyndi á okkur, en við héldum hópinn, ég og Ágúst, dr. Jóhanna, Þorbjörg, Helmut og Margrét. Einar blómasali dróst aftur úr, enda eiga brekkur ekki við hann. Það var mikill léttir að komast upp að Perlu - því eftir það var leiðin bara niður á við. Hitaveitustokkurinn var óupphitaður og háll á köflum - en lagaðist er neðar var komið. Farið um hjá gvuðsmönnum og þá leið okkur vel og settum á fulla ferð áfram. Fórum á fullu blússi vesturúr allt þar til er við komum að Vatnsmýrinni vestanverðri - þá urðum við vör við hratt tipl - aftur! Hér kom Einar blómasali á sínu kunnuglega skeiði og fór fram úr okkur í þeim tilgangi einum að niðurlægja okkur. Við það var ekki unað og ritari setti í túrbóinn og reif sig framúr honum og braut hann endanlega niður. Eftir þetta var farið á rólegu nótunum allt til Laugar, nema hvað menn urðu varir við óróleika í prófessornum á Hagamelnum þegar við nálguðumst lokamarkið. Fóru menn að kannast þar við gamla takta og ljóst að sá gamli er allur að koma til og ná sér upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið í.

Í potti veltu menn vöngum yfir Berlínarmaraþoni, það væri allt í lagi að skrá sig - ef ekkert yrði úr hlaupi væri hægt að finna sér góða götuserveríngu og panta sér bjór og horfa á hlauparana skeiða framhjá. Einnig rætt um kúltúrprógrömm og annað sem hægt væri að gera meðan á dvöl stæði.

Nú lengist dagur og dagsbirtu nýtur í æ meira mæli. Tímabært að lengja hlaupin að sama skapi, rætt um að fara Stokkinn á miðvikudag, óljóst hvort farið verður í sjóinn, en Ágúst og Björn eiga eftir janúarbað. Síðan koma smellirnir hver af öðrum: 69, Goldfinger, Stíbbla... Hvar er Sjúl? Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband