Enn fjölmenni, og það í vondu veðri

Oss er ljúft og skylt að rapportéra að í gær, sunnudag, mættu fjórir dánumenn til hefðbundins sunnudagshlaups í Hlaupasamtökunum, til eflingar andanum og uppbyggingar viðtekinna gilda í Vesturbænum. Þar voru á ferð sérlegir heiðursmenn, nefnilega sjálfur Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur og Einar blómasali. Jörundur kom í pott, hlaupinn úr Kópavogi um Heiðmörk og víðar, sem og ritari, en ástand hans var dapurlegt. Hlauparar voru frískir og kátir og sátu lengi í potti, nema VB sem fór í kolaportið að höndla.

Á mánudegi var enn og aftur fjölmenni mætt til hlaupa, þrátt fyrir leiðindaþræsing, kulda og austanblástur. Á þriðja tug hlaupara, þar af átta konur, mættu í dag og má segja að Hlaupasamtökin hafi fengið rífandi start á þessu nýja ári. Ekki verða einstakir hlauparar taldir upp hér - engin óvænt andlit. Jú, prófessor Sigurður Ingvarsson, stórhlaupari. Þjálfari var mættur og gaf hefðbundin skilaboð, fara út að síðasta húsi í Skerjafirði og spretta úr spori þaðan og helst út að Kringlumýrarbraut. Þó var heimilt að stytta um Hlíðarfót.

Þessi hlaupari var þungur og þreyttur og mikið klæddur sökum kuldans, en það blés kaldur vindur móti okkur alla Ægisíðu inn að Öskjuhlíð. Ég hélt mig við dr. Jóhönnu, blómasalann og Þorbjörgu - nema hvað doktorinn hélt áfram út að Suðurhlíð, en við hin fórum Hlíðarfót. Við hlýddum þjálfaranum, fórum á tempói á réttum stöðum, og m.a.s. aftur á Hringbrautinni á leiðinni tilbaka, fórum hratt þar. Aðrir fóru út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlið, Benedikt náttúrlega fyrstur á tempói sem hann sagði eftir á að hefði verið þægilegt. Ofurhlauparar eins og Sigurður Ingvarsson og Ágúst voru honum langt að baki (æ, nú verð ég óvinsæll!). Nú verður mér ekki boðið í afmæli framvegis.

Enn er barnapotturinn lokaður sökum "viðhalds" - hvar er viðhaldið? Ég bara spyr. Því var setið í Örlygshöfn og hlýtt á Kristján Hreinsmög Skerjafjarðarskáld sem hélt ádíens og sagði ófagrar sögur af úr tónlistarheiminum. Næst er hlaupið á miðvikudag - verður farið langt? Eða verður farið í ískaldan sjóinn í fjegurra stiga frosti? Góðar kveðjur - ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Það læðist að manni sá grunur að umræðan um endurkomu kynþokkafullra menntamanna á sextugs- og sjötugsaldri hafa hreyft við kvenþjóðinni. Höldum á lofti því sem einu sinni var sagt: "Mikil er trú þín kona." Þetta rætist væntanlega í fyllingu tímans og Bakkabræður munu prýða hlaupastíga Vesturbæjarins, já, og reyndar Stór-Reykjavíkursvæðisins, á sumri komanda.

Flosi Kristjánsson, 15.1.2008 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband