Ágúst yngir upp - farinn Stokkur

Það var fremur svalt í dag í veðri, en stillt, og þarafleiðandi dágott veður til þess að spretta úr spori, einkum fyrir miðaldra háskólaborgara og húsmæður í Vesturbænum. Meðal viðstaddra við brottför voru allmargir kunnir hlauparar og afreksmenn, og skal fyrstan telja Jörund, einhvern ágætastan hlaupara í hópi vorum, svo voru þarna aðrir eins og Gísli og Ágúst, ekki slæmir hlauparar, en orðnir full værukærir í seinni tíð fyrir minn smekk. Einnig mættur dr. Friðrik, sem hugsaði bara um reykta álinn sem hann ætlar að gæða sér á í einhverri vinstue í Lars Björnsensstræde næst þegar hann vísiterar Borgina við Sundið. Einkennilegt hvað matur er mönnum ofarlega í huga þegar þeir eru að fara út að hlaupa. Svo voru nokkrir sæmilegir hlauparar, og loks þjálfarinn, Rúnar. Það lá í loftinu að farinn yrði Stokkur, um það hafði verið rætt s.l. mánudag, og nú heimtuðu sumir menn efndir, m.a.s. Ágúst kvaðst hafa verið andvaka af spenningi s.l. tvo sólarhringa, og nú yrðu menn að gjöra svo vel og hysja upp um sig og standa við stóru orðin. Benedikt var á sama máli. Jæja, þá förum við Stokkinn. Þjálfarinn varaði menn við því að fara úr 10 km hlaupi beint i 16 km hlaup - taldi það ávísun á meiðsli. En við, þessir vitleysingar, við hlustuðum náttúrlega ekki á þessa hvatningu til aðgæzlu og lögðum drög að löngu hlaupi - vorum búnir undir það andlega.

Lagt upp, afar hægt, enda hafði þjálfarinn lagt ríka áherzlu á að menn byrjuðu rólega. Já, förum rólega, sagði Gísli. Ég ætla að fara rólega. Ætlar þú ekki að fara bara rólega, Ágúst minn? spurði Gísli. Jú, voða rólega, sagði prófessorinn. En það er segin saga með suma, þeir eru eins og kálfar að vori og kunna sér ekki læti, sama hvað þeim reyndari menn reyna að hafa fyrir þeim. Benedikt og Una steðjuðu af stað og voru horfin á einu augnabliki. Aðrir rólegir. Á Ægisíðu upplýsti Jörundur viðstadda um að von væri á nýrri Hlaupadagbók frá Gunnari Páli, bróður Bigga Bigbang. Og vitið þið hvað? sagði hann. Aðalljósmyndari er sjálfur Birgir, félagi okkar og vinur - eða sem við töldum vin okkar. Það er fullt af ljósmyndum í ritinu - en ekki ein einasta af okkur félögunum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins! Haldið þið að þetta sé hægt? Mönnum blöskraði eðlilega þetta framferði - hér spruttu fram reynslusögur ýmissa félaga af þessum görótta Birgi, margar ófagrar. Já, félagar! Hér eftir munum við hunza téðan Birgi, ef hann mætir til hlaupa þá eyðum við ekki orði á hann, látum sem við sjáum hann ekki, forðumst hann eins og pestina! Út af listanum með hann! hrópaði æstur hlaupari, hringum í dr. Flúss!

Ekkert varð af sjóbaði í Nauthólsvík, prófessor Fróði vildi meina að "tekin hefði verið ákvörðun" um að sleppa baði seinast þegar hlaupið var, og reyndi að klína þeirri ákvörðun upp á sjálfan ritara, sem bar af sér ásökunina sem ótrúverðuga og ósanngjarna. Hið sanna er líklega að prófessorinn hefur verið í kvíðakasti í tvo undangengna sólarhringa yfir líkindum þess að baðast yrði á þessum degi. En nú slapp hann og með það var hlaupið áfram um Flanir. Og hér var ástæða til þess að fagna. Loksins var runnin upp sú stund, langþráð, að farið yrði lengra en 10 km í hlaupi. Menn stefndu ótrauðir í Fossvogsdalinn og drógu lítt af sér. Ágúst talaði mikið um vonarstjörnur Hlaupasamtakanna, þá Benedikt og Eirík, og leit svo á að þeir væru að alast upp undir sínum handarjaðri og gætu orðið ágætir hlauparar með tímanum, ef þeir færu að ráðleggingum hans. Hér var honum bent á að hann hefði verið með aðra góða hlaupara í þjálfun hér á árum áður, svo sem blómasalann og ritarann, og hvort búið væri að gefa þá upp á bátinn. Já, þeir eru orðnir allt of feitir og gamlir; nú er ég búinn að yngja upp, kominn með drengi í þjálfun sem hafa vart náð fullorðinsaldri.

Í Fossvogi mættum við mörgum hlaupurum í Laugahópnum, kona ein hrópaði: Hæ Ágúst! en hann tók ekki eftir því fyrr en við bentum honum á það. Ha? Hvað, var kona að hrópa nafn mitt? sagði hann miður sín af því að hafa misst af þessu. Áfram í Fossvogsdalinn, umræður góðar og léttar. Hæfilegur skammtur af baktali, slúðri, aulafyndni og öðru sem hæfir í hópi sem vorum. Stokkinn fóru á endanum Benedikt, Ágúst, dr. Jóhanna, Jörundur, ritari, Gísli, Rúnar þjálfari, Helmut og Kári. Vel af sér vikið það! Við fórum það hægt að þetta var bara þægilegt hlaup og manni leið nokkuð vel er komið var á Móttökuplan. Teygt inni og bornar saman bækur. Í útiklefa var Skerjafjarðarskáldið, í potti sjálfur dr. Flúss, og hlakkar trúlega til þeirrar stundar er hann getur farið að staulast með okkur á ný. Mönnum varð tíðrætt um kíló, sumir ætluðu að léttast um 10 kg, aðrir um 15. Svo sagði einhver: en mest er þó um vert að við tökum á málum blómasalans, þetta gengur ekki með hann lengur. Við verðum að hjálpa karlanganum að takast á við yfirvigtina.

9 eru skráðir í Berlínarmaraþon eða hafa tekið ákvörðun um að fara. Ágæt byrjun á nýju hlaupaári. Í gvuðs friði - ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er von á sérstakri bók frá mér um HLAUPAHÓP LÝÐVELDISINS.

Hún á að heita: Þar rauður loginn rann. (skýr: að RENNA er að HLAUPA á Færeysku en eins og

alþjóð veit er konan mín hálffæreysk, stelpurnar mínar 2 kvart Föroyingar, svo að ég bý samtals með einum heilum Færeyingi).

Big

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband