Athletics anonymous

Þegar ég var ungur maður í Lærðaskólanum þótti fínt að vera anti-sportisti, fara til próf. dr. Ófeigs og fá vottorð í leikfimi, standa úti á tröppum sem sneru mót Lækjargötu með trefil um hálsinn, reykjandi Salem og hósta lungum og  lifur, vitandi að maður var dauðvona úngskáld með eitt ódauðlegt ljóð nýbirt í Skólablaðinu. Það var hlegið að sportidjótum eins og Þorgrími Þráinssyni sem geystist um hlöð, ímynd æsku og hreysti. Ekki hvarflaði að mér og vinum mínum þá að við myndum 30 árum síðar hafa breytt lífsmáta okkar á þann hátt sem orðið er í þeirri veiku von að endurheimta eitthvað af glataðri æsku og þrótti sem við fordjörfuðum með óskynsamlegum ákvörðunum. Ekki þýðir að gráta það nú, en herða upp huga og snúa ólifnaði í ... nei.

Hlaupasamtök Lýðveldisins státa af einhverju glæsilegasta mannvali í Vesturbæ Höfuðborgarinnar. Þar má finna ungmenni á ýmsum aldri og væri fáránlegt að vera að stimpla einhverja ákveðna sem unga hlaupara eða gamla hlaupara. Ekki veit ég yngra eða kraftmeiri hlaupara en fél. Jörund Guðmundsson. Ekki þekki ég hlaupara sem viðheldur prakkaranum betur í sál sinni en frændi minn og vinur Ó. Þorsteinsson, og skammt undan er V. Bjarnason með sinn grallaraskap, þótt önugur sé á köflum. Hlaupin yngja, viðhalda geðheilsu, fresta innlögn eða gera hana óþarfa með öllu. Að ekki sé minnst á Bjarna bílstjóra, sem á hreint ógleymanlegar rispur þegar hann mætir til hlaups.

Jæja, það var hlaupið í dag. Miðvikudagur, en stutt og rólega. Minnir mig. Staðið á stétt og masað - ótrúlegur fjöldi Garmintækja. Mættur glæsilegur hópur hlaupara, spurning hvort maður er nokkuð að telja upp, slíkur var fjöldinn. Og alltaf bætast nýir í hópinn. Óljós fyrirmæli þjálfara við brottför, orðastimpingar við einstaka hlaupara, deilt um hvert heiti áfangastaðar væri, menn sættu sig ekki við "skítastöð" - báðu þjálfara að gæta virðingar sinnar og nefna staðinn með réttu heiti. Hann sagði að staðurinn héti þessu nafni skv. hefð Samtakanna og því yrði ekki breytt. Þjálfari var einbeittur í málflutningi sínum og er æ meira farinn að minna á hina þrjóskufullu og þvermóðskugjörnu meðlimi Hlaupasamtakanna. Vér áorkum þó nokkru.

Eitthvað var verið að lofa upp í ermina á sér með vilyrðum um rólegt og stutt - allt var gleymt þegar kom að frægri Skítastöð. Þá var liði stillt upp og mönnum sagt að fara að tempói næstu 8 km . Ég lét sem ég heyrði þetta ekki og fór fetið í átt að Nesi. Dr. Jóhanna á undan mér á fullu skriði, dr. Friðrik þar á eftir eitthvað hægari. Ég á maraþontempói vestur úr. Það leið langur tími áður ég varð var við aðra hlaupara, einhvers staðar í Skjólum kom fyrstur Rúnar, og hafði einhver orð um þéttinga, ég lét sem ég heyrði þetta ekki, enda búinn að brenna mig á heilræðum með alkunnum meiðslum. Svo komu þeir hver af öðrum, eða hvert af öðru, Benni, Eiríkur, Bjössi - og á Nesi skaut Margrét upp kolli eins og skrattinn úr sauðalæknum.

Farið á Nesið og um Lindarbraut, ég hélt skynsamlegu maraþontempói og lét ekki æsa mig til afreka. Vissi sem var að að baki mér voru margir frambærilegir og illaþefjandi hlauparar sem ekki sáu til sólar á þessum degi í hlaupalegri merkingu. Komið á Móttökuplan og þar var mannfjöld. Þar var upplýst að ónefndur hlaupari hefði gert hlé á hlaupi í miðju hlaupi, farið heim til sín og gengið örna sinna, mætt síðan galvaskur aftur til hlaups og látið sem ekkert var. Þar sem hann stóð á Plani og sagði frá varð honum litið á ritara, og með það sama opnaðist munnhvoftur hans svo sjá mátti úfinn blakta í hægri golu Vesturbæjarins, og hann öskraði: NEIIIIIIII! En það var um seinan, frásögnin var meitluð í huga ritara og ljóst að hún yrði færð í annála, téðum hlaupara, fjölskyldu hans og afkomendum næstu 10.000 árin til ævarandi hneisu og skammar.

Fólk hafði greinilega hlaupið mjög misjafnar vegalengdir, verið að tínast inn lengi, farið í pott. Þar var valinkunnur hópur, en því miður virtist hann einna helzt hafa áhuga á miður vönduðum kveðskap. Meira um það seinna. Hlaup dagsins vel heppnað, óljóst með framhald, þó stefnt að 32 km á laugardag kl. 8:30. Í gvuðs friði, ritari. 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband