Færsluflokkur: Pistill Ritara
15.10.2008 | 22:37
Fyrirsjáanleg leiðindi
Ágúst ætlaði að fara langt og syngja "Þrjú tonn af sandi" alla leiðina. Aðrir vildu fara skemmra, en ritari var ekki fráhverfur því að fara á gamalkunnar slóðir í Elliðaárdal. Lagt í hann eftir hefðbundnar kýtur á Brottfararplani. Flosi tók forystuna fljótlega í hlaupi og skildi aðra eftir, menn áttu ekki gott með að skilja hvaðan þessi kraftur og hraði væri kominn. Aðrir rólegir. Í raun var það ánægjulegt að við skyldum halda hópinn alla leið inn að Kringlumýrarbraut. Hér héldu Flosi, Benedikt, Ágúst og ritari áfram auk Unu. Aðrir hafa líklega farið Suðurhlíðar. Mættum Laugahópi í Fossvogi og í honum miðjum bróður okkar Flosa, Þorvaldi. Við Víkingsvöll viku þeir Flosi og Benedikt af leið og fóru líklega 69 - en við Ágúst fórum inn í Kópavog, upp brekkuna Yndislegu. Framhjá Goldfinger, prófessorinn athugaði dyrnar til öryggis, en enn og aftur var læst.
Svo var bara haldið áfram hefðbundið í Breiðholtið og upp að Stíbblu. Þar hélt Ágúst áfram og kvaðst ætla kringum Elliðavatn. Það sem mælti gegn þessum áformum var einkum tvennt: við vorum að nálgast snjólínu og það var orðið nokkuð kalt. Myrkur var að skella á og lýsing við Elliðavatn er af skornum skammti. Þar eru stígar með steinnibbum upp úr skógarbotninum og prófessorinn er þekktur fyrir að lyfta ekki fótum mjög hátt á hlaupi, þekktur raunar að því að reka tærnar í og taka flugið. Þegar steinnibbur og myrkur fara saman - ja, þá kann það ekki góðri lukku að stýra. Ég óttaðist að hann myndi ekki skila sér til byggða aftur. Fór sjálfur yfir Stíbblu og stytztu leið tilbaka.
Ólíkt því sem var í sumar hafði ég enga ánægju af þessu langa hlaupi. Það var kalt í efri byggðum og ég andaði að mér köldu lofti sem fór illa í lungun á mér. Ég var einn, hafði ekki félagsskap af skemmtilegu fólki. Ég var þungur á mér, mikið klæddur og nennti ekki að standa í þessu. Þegar komið var í Fossvoginn aftur var ég eiginlega ekki að nenna þessu. Skollið á niðamyrkur og maður átti á hættu að hlaupa niður gangandi vegfarendur í dalnum. Þraukaði þó og lauk hlaupi sem var með eindæmum leiðinlegt. Hefði betur farið að tilmælum þjálfara að fara styttra, maður er einfaldlega ekki búinn að jafna sig nóg eftir maraþon til þess að fara svona langar leiðir. Svo er alltaf þyngra að hlaupa í fullum herklæðum.
Það voru náttúrlega allir félagar farnir þegar maður kom tilbaka. Hitti þó Bjarna í útiklefa. Hann sagði mér skemmtilega anekdótu: Þorvaldur hafði lánað Birni jakka að hlaupa í. Björn gerðist sekur um vanskil eftir hlaup. Þorvaldur kom í útiklefa og horfði (að sögn Bjarna) tryllingslega í kringum sig: "Hvar er Björn?" Bjarni benti á töskuna hans og sagði: "Ja, dótið hans er alla vega hér." Þá öskraði Þorvaldur: "Er mannhelvítið búinn að troða jakkanum mínum niður í hlaupatöskuna sína!" Æddi út þeygi kátur.
Hvað er framunda? Meiri kvöl.
6.10.2008 | 20:35
Það eina vitræna í stöðunni: halda áfram að hlaupa!
Nokkrir af mikilvægustu hlaupurum Hlaupasamtaka Lýðveldisins gerðu sér harðla vel ljóst í dag að í stöðunni var ekkert annað að gera en fara út að hlaupa. Af þeirri ástæðu mætti úrval hlaupara og voru óbugaðir, þessir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Magnús Júlíus, próf. dr. Ágúst, Helmut, Þorvaldur, Einar blómasali, Birgir jógi, Þorbjörg, Margrét þjálfari, ritari og þýzkur maður sem ég hef ekki nafnið á. Afhentur septemberlöber með viðeigandi næringarefnum og kartöfluFLÖGUM. Einar fékk sérstök verðlaun frá Flosa: fullan poka af smarties.
Við stóðum stapplandi á stétt og börðum okkur til hita. Ágúst tók sér góðan tíma til að búast til hlaups, var mun lengur að en blómasalinn. Er upp var komið tók hann ekki strikið út á stétt. Nei, hann fór beint inn á klósett. Þá var okkur öllum lokið og hlupum af stað. Upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Skerjafjörð. Hratt tempó, fjaðurmögnun hreyfinganna sláandi. Veður var nokkru skárra en við ætluðum í fyrstu, en miklar bollaleggingar voru framan af og strategískar ákvarðanir undirbúnar. En þegar upp var staðið var bara tekinn nokkuð hefðbundinn mánudagur. Út að Skítastöð og svo tilbaka.
Mættum fámennum Neshópi með Denna og Rúnu innanborðs - en þau voru bara brött. Haldið áfram á hröðu skeiði út Ægisíðuna. Flestir létu staðar numið eftir Aumingja, 5,5 km - en við Þorvaldur höfðum ekki fengið nóg og héldum áfram í næsta sveitarfélag. Fórum samt ekki langt, enda óþarfi, aðeins út að Hagkaup og svo um húsagarða tilbaka til Laugar.
Ekki veit ég hvað varð af próf. Fróða - hans varð ekki vart eftir að hann brá sér á dolluna. Aðrir hlauparar voru í potti og tóku af alvöru þátt í umræðum um ýmsan vanda sem að steðjar. Báru menn sig karlmannlega og töldu ýmis ráð í stöðunni: fara að veiða fisk, kaupa rófur í sveitinni, selja Fréttablaðið, og flytja til Svalbarða. Af þessu sézt hversu uppbyggileg hlaup eru og uppspretta endalausra hugmynda til þess að brjótast gegnum brimgarðinn. Í gvuðs friði. Ritari.
1.10.2008 | 21:11
Líf eftir maraþonhlaup
Nei, maraþon í Berlín var ekki lokapunkturinn. Lífið heldur áfram og hlaupin halda áfram. Mættur þéttur hópur úrvalshlaupara, sumir meiddir og haltir, aðrir góðir. Mættir: dr. Sjúl, dr. Friðrik, dr. Magnús Júlíus, próf. dr. Ágúst, dr. Jóhanna, Rúnar, Flosi, Birgir, Una, Jörundur og ritari. Hátíðarstund í brottfararsal þar sem Berlínarhlaupurum var fagnað og fengu hamingjuóskir fyrir velheppnað hlaup. Kalt úti og vindasamt og ekki gott útlit. Ákveðið að fara aðeins stutt, Aumingja út að Skítastöð, 5 km í mesta lagi. Sigurður Ingvarsson bættist í hópinn þegar við vorum að leggja í hann.
Ýmiss konar stirðleiki í gangi, Ágúst meiddur en stefnir ótrauður á Sahara-hlaup. Flosi og Sigurður voru einna frískastir og fóru á undan öðrum. Við Rúnar létum nægja að fara í Skerjafjörðinn og þaðan tilbaka, aðrir fóru lengra, sumir Hlíðarfót, einhverjir jafnvel 9 km - og Flosi fór fullan 69, 17 km. Legið í potti um stund eftir hlaup og þangað kom blómasalinn bugaður af þróun efnahagsmála. Það er farið að kólna núna og maður er farinn að finna fyrir því.
Fyrsti Föstudagur á föstudag. Afhentur september-löber. Hver hreppir hann?
1.10.2008 | 12:28
Hlaupið í Berlín - eintóm hamingja!
Ritari sat með þeim feðgum blómasalanum og Ólafi syni hans. Þegar vélin var komin í loftið dró ég upp öskju með pastasalati af beztu gerð og hóf að háma í mig. Upplitið á blómasalanum! "Þú ert verri en ég! Myndavél, myndavél!" - en hann var lokaður inni og myndavélin uppi í hólfi, svo að ég slapp við myndatöku. Blómasalinn var hins vegar duglegur að smella af alla ferðina og koma þær myndir vonandi fljótlega hér inn á blogg.
Við lentum heilu og höldnu í Berlín eftir þriggja tíma þægilegt og tíðindalaust flug. Treystum algjörlega á Helmut að koma okkur inn í borgina og reyndist hann hinn ágætasti leiðsögumaður. En vegna framkvæmda þurftum við óvænt að skipta um lest á leiðinni og fengum um leið nasasjón af næturlífi Berlínarbúa á föstudagskvöldi. Komum á hótelið, sem var í húsi frá um 1900. Svo var steðjað á fínan pastastað, Vapiano, sem er með mjög nýstárlegu sniði. Maður fær afhent kort og fer á milli, pantar pasta hér með sósu að eigin vali og allt eldað fyrir framan mann, fer svo á annað borð og pantar drykk. Og þegar upp er staðið fer maður með kortið og greiðir fyrir það sem neytt hefur verið. (Blómasalinn "gleymdi" að skila sínu Vapiano-korti.)
Á laugardeginum var vaknað snemma, um 9:00, etinn árbítur sem var vel útilátinn og álitlegur - en að mestu haldið sig við efni sem henta hlaupurum. Svo tókum við lestina út að Paulsternsstrasse og gengum þaðan, eða fylgdum mannfjöldanum, sem gekk aðeins í eina átt - Berlin Vital, þar sem menn sækja skráningargögn. Þetta var aðeins stærra en að sækja gögn í Laugardalshöllina, rúmlega 40 þús. manns, mikill hiti og mikil mannþröng. Maður elti fólkið og komst á endanum í 16 þús. fm. húsnæði með skráningaraðstöðu, sölu- og upplýsingabásum, m.a. um ýmis önnur maraþon. Ritari fór upp á aðra hæð, sótti pakkann sinn, fékk upplýsingar um að bolinn mætti sækja niðri og flöguna með því að halda áfram. Ég sá mynd af flögu við endann á ganginum, fór þangað og þar var strikamerkið á skráningargögnum skannað saman við flöguna - "Kristjánsson" sagði maðurinn. "Richtig!" sagði ég, harðla stoltur. Fór svo niður og náði í bolinn.
Þeir hefðu átt að hlæja meira að Þorvaldi
Á svæðinu var gríðarlegur fjöldi fólks, veitingar út um allt, kúbönsk hljómsveit lék suður-ameríska tónlist. Og verzlunarbásar út um allt, með dýrum varningi - ekkert sem beinlínis heillaði. Auðvelt var að týna mannskapnum og svo fór og höfðu menn samband um SMS til þess að eiga samleið tilbaka á hótel. Ferðin tók einar fjórar klukkustundir - þannig að það var gott að fara að hvíla sig eftir hádegið. Svo var mætt í móttöku kl. sex síðdegis í hlaupafatnaði og farið út í létt skokk. Helmut var búinn að finna létta leið og fórum við hana á hægu og þægilegu tempói, allir fundu að þeir voru tilbúnir í átökin daginn eftir. Á leiðinni týndust Rúna, blómasalinn og Birgir. En þar sem við stóðum við hótelið og teygðum komu téðir hlauparar fyrir hornið með óskilgreindan angistarsvip á andliti og Birgir sagði: "Það er komið upp ástand." Ástand? sagði einhver, hvaða ástand? "Jú," sagði Birgir - "þar sem við hlupum, ég, blómasalinn og Rúna, sagði ég: það verður skrýtið að hlaupa án flögu á morgun." Rúna brást ósennilega við og spurði af hverju þeir ætluðu að hlaupa án flögu - en þeir urðu bara forviða og sögðu: við fengum enga flögu - það var engin flaga í pakkanum! Ekki veit ritari hvort Rúna útskýrði fyrir þeim með flöguna - en það voru orð að sönnu: þetta var ástand! Klukkan orðin 18:00 og skrifstofa hlaupsins búin að loka. Paníkk!
Helmut tók stjórnina hér, pantaði leigubíl og það var ekið í hendingskasti til Berlin Vital og allt lamið utan í þeirri von að finna mætti einhvern sem gæti leiðrétt hið óheppilega ástand. Á endanum fannst einhver manneskja sem vildi skoða málið, útvegaði flögur og sagði að þær yrðu skráðar um nóttina. Fyrir vikið frestaðist kvöldverður hjá flestum, ritari fór einn út og át pasta á litlum stað - aðrir munu hafa gert eitthvað svipað. Svo var farið í koju. Stóri dagurinn framundan.
Þáttur af Irmu
Ólafur Adólfsson kom með þeim Rúnu og Friðrik. Hann ætlaði að freista þess að fá sig skráðan í stað Irmu, sem er kærasta hans. Hún hafði skráð sig til hlaups en hætt við. Hann var með vegabréfið hennar meðferðis. Allir viðstaddir sögðu að það yrðu allnokkur tormerki á því að breyta skráningunni, Þjóðverjar væru svo formfastir. Hann yrði líklega handtekinn fyrir að vera með vegabréf annarrar manneskju og ákærður fyrir mansal. Ólafur var hvergi banginn og fór bara brattur á Vital. Hann var búinn að kokka upp einhverja makalausa lygasögu um að Irma hefði ruglast við skráninguna og sett sjálfa sig í stað Ólafs. Sagan rann ljúflega ofan í starfsfólkið á Vital og Ólafur gekk út fyrstur manna með öll sín gögn án þess að hafa þurft að sýna vegabréf Irmu.
Þeir Frikki fóru svo bara á fótboltaleik, Hertha Berlin vs. Energie Cottbus, sem lauk með sigri Cottbus, en það lið vermir neðsta sætið í Bundesligunni. Þeir lýstu mikilli stemmningu á leiknum og voru ánægðir er þeir gengu út. Á leiðinni spurði Frikki: Óli, hvar eru gögnin þín? Hafði hann þá gleymt öllu inni á áhorfendasvæðinu, þ.m.t. vegabréfi Irmu.
Hlaupið
Svefn er mikilvægur fyrir hlaup. Ég held að flestir hafi sofið ágætlega, en það þurfti að vakna um kl. 6 til þess að fara í morgunverð, því meiningin var að fara á lestarstöðina kl. 7. Eiríkur svaf yfir sig og var ræstur með miklum látum. Tókum lestina frá Zoologischer Garten til Hauptbahnhof - aragrúi fólks á ferð, allir á leið í haupið. Það var heilmikið fyrirtæki að koma sér inn á svæðið, losa sig við yfirhafnir, og koma sér á réttan stað í hlaupinu. Kamrar út um allt og ákveðið að skella sér á dolluna. Við blómasalinn stilltum okkur upp í biðröð, en höfðum áhyggjur af að við myndum ekki ná. Sáum Benna brosmilda álengdar og kölluðum á hann, báðum hann að þurrka brosið af andlitinu. Svo þegar til átti að taka var enginn toilettpappír á mínum kamri og ég lét mér nægja að tæma sokkinn. Fór út og hleypti næsta manni inn. Sá hafði greinilega einhverjar ranghugmyndir um kamra því að hann kom óðara út og kúgaðist af því sem hann hafði séð og fundið á kamrinum, settist á hækjur og var fráleitt undir það búinn að hlaup 42 km - almennur hlátur í nágrenninu.
Svo var bara að koma sér í hólfið sitt. Við Einar vorum flokkaðir með eymingjum, settir í H-Block. Ég fræddi Einar á því að H-Block hafi verið eitthvert alræmdasta fangelsi frelsiselskandi frænda okkar á N-Írlandi hér á árum áður. Þetta reyndist raunsönn lýsing á þrönginni sem beið okkar í upphafi hlaups, þetta var eins og fangelsi, svo þétt var þröngin að maður hljóp ekki fyrstu 10 km - það var lullað. En stemmningin var yfirgengileg, það var klappað og sungið og fólk frá yfir 100 þjóðlöndum saman komið í einum tilgangi: þreyta hlaup saman og hafa gaman af.
Veður var með miklum ágætum, 16 stiga hiti, lítilll vindur og bjart yfir. Við blómasalinn áttum samleið fyrstu 10 km og vorum allan tímann að mjaka okkur framar í þrönginni, sem mér fannst á endanum óskynsamlegt því það tók of mikla orku frá manni. Danskir fánar voru afar áberandi við hliðarlínuna og hvatningaróp á dönsku, m.a.s. sáust grænlenzkir fánar, en fáir íslenzkir. Við rákumst á Sigurð Gunnsteinsson sem skeiðaði hlaupið af léttleik og krafti, en sáum ekki til Haile eða Jörundar. Eftir 10 km leyfði ég blómasalanum að halda áfram að fara fram úr en ákvað sjálfur að slaka á og vera á tempói sem hentaði mér - virtist það skynsamlegt þegar upp var staðið.
Ich bin ein Berliner
Þúsundir Berlínarbúa hvöttu hlaupara nánast alla leiðina og má heita að hliðarlínan hafi verið ein óslitin röð fagnandi fólks og tónlistaratriða. Aftur og aftur fann maður fögnuðinn og kraftinn streyma um sig og niður í fætur, þar með eflandi þrek og þrótt og löngun til þess að standa sig vel. Ýmislegt bar fyrir augu á leiðinni, einn hlaupari hljóp berfættur, það voru blindir hlauparar með leiðsögufólk (dr. Jóhanna misskildi þetta eitthvað og hneykslaðist á fólki sem var að binda sig saman!), svo voru sumir sem gengu eða voru á hjólastólum. Einnig bar fyrir augu hlaupara í skondnum búningum, svo sem úr Axterix. Loks kom að því að íslenzkur fáni sást á lofti borinn uppi af sjálfum sendiherranum, Ólafi Davíðssyni.
Vegna þess hversu skynsamlega ég hljóp fyrri hlutann gerðist það í fyrsta skipti í maraþonhlaupi hjá mér að ég gat hlaupið alla leiðina án þess að þurfa að stoppa. Ég fékk mér alltaf vel að drekka og dældi í mig orkugeli og fann þar af leiðandi aldrei fyrir "múrnum" - tíndi inn hvern kílómetrann á fætur öðrum án þess að finna fyrir þreytu eða orkuskorti. Kom á rífandi ferð inn á Unter den Linden og tók glæsilegan lokasprett og átti nóg inni. Leið bara vel eftir hlaup, en sá að öðru gegndi um félaga mína, sem höfðu flestir farið á betri tíma en ég. Sumum leið beinlínis illa og á ég bágt með að sjá hvað er unnið með því að pína sig svo að maður er alveg í rusli á eftir. Hvað um það, við hittumst á Reunion-svæðinu og bárum saman bækur okkar. Óljóst var hvort Birgir og blómasalinn fengju tímann gefinn upp út af flöguveseninu, en það mun hafa rætzt úr því. Allir luku hlaupi og var það eitt og sér sérstakt ánægjuefni.
Farið heim á hótel og hvílt. Um kvöldið var farið á veitingastaðinn Max og Moritz og etinn hefðbundinn þýzkur matur og drukkinn bjór með. Það var fagnaðarefni að geta loks sleppt bannsettu pastanu og leyft sér sukk í mat og drykk.
Pistill Ritara | Breytt 5.10.2008 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2008 | 10:35
Á leið til Berlínar
En hlaup falla ekki niður. Í svo fjölmennum hópi sem vorum eru enn hlauparar sem vilja spretta úr spori og þeir hittast við VBL í dag stundvíslega kl. 16:30 og af nýju á sunnudagsmorgun kl. 10:10 - en á þeirri stundu verðum við á lokasprettinum í Berlín. Ekki væri verra þá að finna fyrir góðum hug og hlýjum bænum úr Norðrinu. Í gvuðs friði. Ritari.
24.9.2008 | 22:23
Ekki frá mörgu að segja
Boð gekk út um að hlaupa út að "dælu" - menn hváðu. Jæja, þá, Skítastöð, sagði þjálfari. Fara rólega, en taka svo 3-8 spretti 300 m langa. Í þetta skiptið voru allir rólegir nema Flosi, sem fór í fylkingarbrjósti og vaknaði grunur um að hann ætlaði að teygja Benedikt á hratt skeið. Það gekk ekki eftir, því að Kaupþingskappinn var bara stilltur.
Ákveðið að fara Hlíðarfót og taka sprettina frá Skítastöð. Menn tóku sæmilega á því og náðum við átta góðum þéttingum. Rætt um að fasta um kvöldið v. snemms hlaups næsta morgun. "Já, ég ætla líka að fá mér pasta í kvöld" sagði blómasalinn. Þegar menn gerðu honum ljóst að dagsskipunin væri fasta og ekki pasta, þyrmdi yfir hann og hann lagðist í þunglyndi. Hálfur tómatur með hálffylltu vatnsglasi. Vigtun í fyrramálið. Eftir hlaup sem hefst kl. 6:25. Í gvuðs friði.
19.9.2008 | 21:10
Ljótu hálfvitarnir! (á norðlenzku)
Hvað um það, mættir góðir hlauparar. Professor Keldensis, Vilhjálmur Bjarnason (önugur), Denni skransali, Rúna og Ósk - auk áðurnefndra í útiklefa. Vilhjálmur sá ástæðu til þess að veita aðkomumanni á stétt munnlega áminningu fyrir að reykja vindling við Brottfarartröppur Laugar Vorrar. Hann sagði: "Við erum fanatískir gegn tóbaki, en frjálslyndir gagnvart áfengi!" Svo mörg voru þau orð.
Á föstudögum eru engir þjálfarar og því engin ræðuhöld eða fyrirmæli. Aðeins fastmæli. Bundið að við förum hefðbundið, um bakgarða 107 og þannig út í Öskjuhlíð. Mikill mótvindur og leiðindi. Menn voru stirðir framan af og fóru fetið. Rætt um Berlín, mataræði, Cadbury´s, íbúfen 600 og annað í þeim dúr. Rætt um ástand hlaupara fyrir maraþonævintýrið mikla og almennt mat viðstaddra að ástandð væri að mestu gott.
Það er gott að hlaupa um bakgarða 107, vindur hægur, en svo var ekki undan því vikist að horfast í augu við storminn í Skerjafirði. Þar sagði próf. dr. Keldensis "og hefst nú hlaupið" - m.ö.o. var farið að auka hraðann. En menn voru sammála um að það væri með eindæmum leiðinlegt að í veðri eins og þessu.
Það er ljúft að hlaupa þegar maður er orðinn heitur og þannig var það er komið var í Hi_Lux. Menn spurðu Ósk hvort hún vildi heyra Hi_Lux söguna. Ég hef heyrt hana, sagði Ósk. En viltu heyra vaselínsöguna, sagði einhver. Já, ég vil heyra hana. Nei, hrópaði Flosi. Ekki segja þá sögu! Ekkert varð úr sagnaflutningi að sinni svo að Ósk á hana bara inni, bezt að Ágúst segi söguna.
Það var farið af hraði upp brekkuna og svo hefðbundið um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Klambra og Hlemm. Áhöld um hvort fara skyldi um Sæbraut eða Laugaveg, S. Ingvarsson fór Sæbrautina, við hinir Laugaveg og önduðum að okkur vindlingareyk og útblæstri bifreiða, auk þess að klöngrast gegnum þvögu útlendinga sem virtust vera á óljósu róli.
Gott hlaup og ánægja meðal hlaupara. Nú er frá tvennu að greina. Vilhjálmur kom í pott og malaði eins og köttur. Kvaðst hafa orðið mikillar menningar aðnjótandi. Hefði hlaupið um 101 og komið inn á menningarheimili með 200 ára menningarsögu í Reykjavík. Hvert er húsið? var spurt. Menn sátu sem þrumu lostnir lengi vel, þar til ritari sagði: var þetta heimili S. Líndal við Bergstaðastræti? Rétt, sagði V. Bjarnason, þú ert meiri helvítis fávitinn að hafa ekki séð þetta strax. Næsta spurning: hver eru tengsl téðs aðila við 200 ára menningarsögu Höfuðborgarinnar? Menn horfðu hver á annan enda með endemum snauðir að menningu, nema matar- og drykkjarmenningu - en á endanum sagði ritari: skyldi það tengjast Hinu íslenzka bókmenntafélagi? Rétt, sagði V. Bjarnason, þið eruð ljótu dj... hálfvitarnir að vita ekki svona einfalda hluti. Einhvern veginn fannst manni að frændi manns og vinur, Ó. Þorsteinsson, hefði þurft að vera viðstaddur til þess að rétta hlut okkar Vesturbæinga.
Allt í einu rann dagsfagurt ljós upp fyrir Magnúsi: aumingja Biggi, hann hefur misskilið þetta allt saman með bolina. Biggi okkar er eftir allt saman ekki framkvæmdasamur maður og kæmi líklega ekki miklu í verk ef ekki væri fyrir Unni sína. Greyið hann Biggi hefur lesið á stærðamerkingar bolanna og túlkað S sem stórt, L sem lítið, M sem mjög stórt, og XXL sem extra extra lítið. Af þeirri ástæðu sitja stæltir líkamir hlaupara Hlaupasamtakanna undir því háði að þurfa að hlaupa í bolum í barnastærðum í Berlín, og þar fyrir utan í ermalausum bolum sem þykir ekki hæfa karlmennum
Einhverjir ku kjósa að hlaupa í fyrramálið kl. 10 - gott mál. Aðrir munu hvíla. Í gvuðs friði. Ritari.
18.9.2008 | 19:59
I am not feeling too well myself...
Ég lá í potti í klukkutíma og beið þess að Helmut kæmi til skrafs og ráðagjörða - en hann kom ekki. Mér leið eins og strákunum sem voru að bíða eftir Godot, bara fáránlegar. Sem betur fer lá ég í heitu vatni. Við brottför sá ég Flosa koma tilbaka, og aðeins fjær, á Hringbraut sá ég Benna, Eirík og Margréti hlaupa líkt og þau hefðu ekki farið neitt mjög langt á klukkutíma. Hvað er að fólki? Er von maður spyrji? Hefðbundið á morgun. Í gvuðsfriði, ritari.
17.9.2008 | 21:39
Hlaupið með storminn í fangið - fæddur nýr öskurapi
Það leit illa út með þátttöku í hlaupi dagsins, ritari sat lengi einn í Brottfararsal, og útlit fyrir að hann færi aleinn út að hlaupa í dag. Það rifjaðist upp hlutskipti hins einmana hlaupara, einsemdin og allt það. Þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í hálfsex fóru hlauparar að streyma að, fyrstur próf. Fróði, svo dr. Friðrik, og svo hver á fætur öðrum. Mæting allgóð þegar upp var staðið. Ég get svarið það að þjálfarinn er orðinn álíka önugur og Vilhjálmur Bjarnason, hann er alltaf jafn vantrúaður á okkur í upphafi hlaups, vantreystir okkur og telur ósennilegt að nokkur maður muni fara að ráðleggingum hans í hlaupinu. Hvað um það, hvass hópur bara brattur í hávaðaroki.
Á Ægisíðu fengum við storminn í fangið og próf. Fróði sagði: "Þetta er yndislegt!" Menn áttu greinilega í mestu erfiðleikum með að berjast gegn óveðrinu, því að ólíklegustu aðilar fóru fyrir hópnum á hröðu tempói. Stefnan sett á Öskjuhlíð þar sem ætlunin var að taka brekkuspretti. Á leiðinni uppgötvaðist að fleiri geta haft hátt en Birgir: nýr öskurapi fundinn, mágurinn Eiríkur sem virðist vera illilega smitaður af of miklum samvistum við venzlamanninn. Hann gapaði eitthvað um markaði, afkomur, peninga, bla bla bla - ég gaf í og smásaman hvarf vaðallinn eyrum mínum.
Farið upp í Öskjuhlíð og dokað við fyrir ofan Hi-Lux. Safnast saman og svo teknir léttir sprettir 100 m upp brekkuna. Þjálfarinn talaði um að við ættum að "líða" upp brekkuna. Birgir var snöggur sem meistari orðhengilsháttarins og spurði: líða áfram eða líða illa? Já þið getið haft það eftir ykkar höfði, sagði þjálfarinn, og klappaði Birgi á ... kollinn. Þið hafið það jafnan þannig (eitt dæmið um önuglyndið, brjóta hárlitla menn niður á veikleikum þeirra). Það var gaman að spretta úr spori þarna í brekkunni í Öskjuhlíð, við tókum eftir ferðum manna sem virtust ekki vera komnir í útivistarlegum tilgangi, miðaldra skeggjaðir menn á Volvo. Það bættist í hópinn þegar við vorum þarna í brekkunni, blómasalinn, Hjálmar og Ósk náðu okkur og áttu góðar rispur.
Eftir sprettina var farið á rólegu tempói tilbaka um skógarstíga og svo hjá Gvuðsmönnum og tilbaka þá leið stytztu leið tilbaka. Margt skemmtilegt í boði við Laug og í potti. Upplýst að upplýsingarfundur Berlínarfara verður haldinn eftir hlaup mánudaginn næstkomandi í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem við förum yfir praktískt atriði varðandi hlaupið. Ennfremur mættur í pott próf. dr. poeta Skerjafjardensis. Hann kunni að segja af "munnstórum" hlaupara sem hann mundi ekki nafnið á, en hljóp með ungri kvinnu. Þetta hljómaði næstum eins og vísbendingaspurning, en við stóðum á gati, komum þessum hlaupara engan veginn fyrir okkur. Nema hvað, skáldið gagnrýndi hlauparana fyrir að vera að masa meðan á hlaupi stóð. "Ha!" sagði hlauparinn, "þetta sýnir bara hvað við erum í góðu formi, að geta bæði hlaupið og talað samtímis! - og varpaðu fram stöku um það, skáld!" Varð þá skáldi á orði:
Hlaupararnir halda af stað,
hyggjast minnka spikið.
Auðveldlega efnist* það
ef þeir tala mikið.
(*Fyrirvari um misminni.)
Mættur í pott Björn Nagli, meiddur en í margfaldri meðferð, með sjúkraþjálfurum, naglastingurum og lyfjakokkteilblöndurum. Bjartsýnn á þátttöku í Berlín. Rætt um veitingastaði og almenna þátttöku. Næst hlaupið á morgun (fyrir suma) - hefðbundið hlaup n.k. föstudag á hefðbundnum tíma. Huga þarf að hlaupara september-mánaðar. Hver kemur til greina? Leggjum höfuðin í bleyti.
14.9.2008 | 13:34
Gjallarhornssýkin grefur um sig
Fáeinir góðir menn mættir til hlaups á sunnudagsmorgni: Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús Júlíus og Ólafur ritari. Sagt frá viðburðum umliðinna daga, ráðstefnum á Nordica og í Háskólabíói, veizlur í framhaldinu, kappleikur hjá Knattspyrnuliði Vesturbæjarins í ausandi regni. Menn voru bara rólegir í Brottfararsal og ekki lagt í hann fyrr en 10:15. Jafnskjótt og komið var á Ægisíðu brast á með slíku óveðri að jafnast á við það versta sem við þekkjum, með roki í fangið og rigningu.
Svo illa lagðist þetta veður í hlaupara að við lá uppgjöf - en öngu að síður var haldið áfram. Hins vegar var ritari eitthvað þungur og stirður á sér eftir 25 km hlaup gærdagsins svo að hann ákvað að hafa þetta bara stutt í dag, líta á þetta sem létta upphitun. Þessi tillaga hlaup hljómgrunn hjá öðrum og var farinn Hlíðarfótur og um leið var komin slík blíða, sólskin og logn. Við liðum um nýja háskólahverfið sem sprettur upp við Öskjuhlíðina og fórum hjá Gvuðsmönnum. Þannig vestur úr.
Við tók löng seta í potti með miklu mannvali, allt frá Óla Björgvins til Einars blómasala - og allt þar á milli. Langt er síðan þeir hafa sézt, próf. dr. Einar Gunnar og dr. Baldur Símonarson. Vegna þess hversu ört skipti um fólk í potti þurfti Ó. Þorsteinsson að segja helztu sögur nokkrum sinnum, og taldii ég mig heyra eina söguna í fimmta sinn áður en lauk. Menn setji daginn 15. desember á sig og búi sig undir heimboð. Meira um það seinna.
Hefðbundið hlaup á morgun kl. 17:30 stundvíslega.