Létt upphitun á föstudegi fyrir langt

Fáir mættir í dag, blómasalinn, Flosi, Vilhjálmur, ritari og Denni. Vilhjálmur var kátur í dag því að hann hafði lagt fyrir Ó. Þorsteinsson flókna persónufræðilega gátu með vísbendingum sem fæst ekki útlistuð nánar fyrr en í fyrsta lagi n.k. sunnudagsmorgun, ef nokkurn tíma! Vilhjálmur sagði að Ólafur væri æfur! Hann næði ekki upp í nef sér af örvæntingu. Þessi stillti og prúði maður, sagði ég. Æfur! sagði Vilhjálmur.

Í Brottfararsal höfðu menn áhyggjur af mataræði manna í hádeginu, frétzt hafði af manni sem fékk sér 3 bita af KFC kjúlla, baunastöppu, sveskjur og rúsínur - og raunar kom í ljós að þetta var bara byrjunin. Menn rifjuðu upp mynd sem Halldór P. Þorsteinsson hafði sent fyrr um daginn af óheppnum hlaupara. Er komið að því að við upplifum eitthvað svipað í okkar hópi? Hvað um það, rifjuð upp saga frá upphafsárum maraþonhlaupa þegar menn sem þurftu að gera númer tvö brugðu sér inn í húsagarða, leystu niður um sig og létu vaða. Þetta kallar maður að kunna að bjarga sér.

Það var algjör samstaða um það að fara hægt og rólega, taka þetta hlaup sem upphitun, nánast sunnudagsgöngu. Við vorum eins og Grundargengi á sunnudagsmorgni, og vantaði bara göngugrindurnar. Enda átti þetta bara að vera upphitun fyrir morgundaginn, þegar við förum 35 km. Nú er byrjað að breikka hlaupastíginn á Ægisíðu og er það ánægjulegt - minna ánægjulegt að hann á greinilega að liggja nær götunni, þannig að við getum örugglega hlaupið í menguninni frá bílatrafíkinni. Gaman, gaman!

Smásaman bættum við í hraðann og um miðja Ægisíðu vorum við komnir á góðan skrið. Ljóst var að Denni og Flosi ætluðu ekki að hlaupa langt á morgun, þeir geystust fram úr okkur hinum og fóru hratt. Við Einar héldum hópinn og ræddum um kjúklínga, sem Einar kallar skíthoppara. Hann fór vandlega yfir matseðil dagsins og kvartaði reglulega yfir því að hann væri farinn að segja til sín og hafa áhrif á hlaupagetu. Aftur og aftur varð að stoppa vegna þess að maginn í blómasalanum var ósammála viljanum til að hlaupa.

Við urðum snemma ásáttir um að fara stutt og hægt. Fórum um Nauthólsvík, upp Hi-Lux (spurt: hvar er Ágúst?), þráðbeint upp að Perlu og svo niður Stokk, hjá Gvuðsmönnum og þá leið tilbaka. Flosi var eins og ólmur hestur og tók hvað eftir annað á sprett og skildi okkur eftir, greinilega kominn tilbaka sem seríös hlaupari. Hann valdi leiðina tilbaka, um Vatnsmýri, yfir brýr og fen hjá Norræna húsinu, yfir um hjá Vigdísi og þannig til Laugar. Þetta var ljúft hlaup og létt og góð upphitun fyrir morgundaginn. Spurt var hvort menn mættu neyta bjórs fyrir morgundaginn. Ritari áréttaði áður út gengin fyrirmæli um algjört bindindi. Magnús mættur kvefaður í pott. Fram yfir Berlín. Sjáumst í fyrramálið, mæting kl. 8:30.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband