Ég heiti Léttfeti - ég er færleikur

Sumir hlaupa til að gleyma (Benedikt), sumir borða til að gleyma (blómasali) - ég hleyp til að hugsa. Svona eru mennirnir ólíkir, líkt og hlaup dagsins sýndi með ótvíræðum hætti. Frá því og fleiru er sagt hér á eftir.

Það er liðin tíð að fáein örvasa gamalmenni safnist saman til hlaupa hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, nú eru það harðsnúnir og harðskeyttir alvöruhlauparar sem taka af innlifun á viðfangsefnum dagsins. Í Brottfararsal voru pokar frá Bigga fullir af gelbeltum, treyjum, geli, sokkum o.fl. Hann var að sýna okkur þetta. Menn rifu þetta til sín og tæmdu allt, Biggi greyið náði ekkert að nótera hjá sér - nú bíður hans að sjá hvort menn eru svo heiðarlegir að gefa upp hvað þeir tóku. Menn fóru að máta, það sást í bert hold.

Hlauparar eru misjafnir og þarfir þeirra eru ólíkar. Áætlun þjálfara gekk út á stutt hlaup og snarpt, 12-15 km með tempói. Ritari hafði þörf og löngun fyrir lengra, búinn að birgja sig upp af geli og drykkjum. Ákveðinn í að fara 24. Einhverra hluta vegna vakti þessi ætlan ekki fögnuð á Brottfararplani og þjálfari brást ókvæða við, taldi þetta óráð og uppskrift að meiðslum. Ritari þekkir hins vegar eigin líkama bezt sjálfur og veit hvað er gott fyrir hann og ákvað að halda sig við sín plön. Skrokkurinn hreinlega öskraði á langt í dag. Við það sat.

Blómasalinn hafði lofað að koma langt með mér, en mætti tómhentur í hlaup og var bara hissa. Sveik gefin loforð og fór stutt. Ekki aðrir sem gáfu kost á sér í langt og því útlit fyrir að ég yrði einn í dag. Lagt í hann og farið austurúr um Sólrúnarvelli og inn í Nauthólsvík. Við Skítastöð gerðu sumir hlauparar stanz, en aðrir héldu áfram á hægu. Ég tíndi þau upp hvert af öðru, Villa, Helmut, dr. Jóhönnu, Rúnu, Bjarna og skildi þau svo eftir einhvers staðar við Kringlumýrarbraut og lagði í hann. Í Fossvoginum náði Rúnar mér og ítrekaði þá skoðun sína að ég ætti ekki að fara 24. Svo heyrði ég fnæsið í Benedikt að baki mér, en leiðir skildi við Víkingsvöll, ég upp í Kópavoginn, þeir beygðu í hina áttina og kunna að hafa farið Stokk, 16 km. Hver veit?

Ég fór sumsé í Kópavoginn og hjá Goldfinger. Á þessum kafla var líðan góð. Þegar ég kom í Mjóddina furðaði ég mig á því hversu hratt þessu yndi fram, ég hafði liðið áfram frá Vesturbæjarlaug í rómantískri tryllingu eða e-i fjarrænni firð og meðvitundarleysi. Hvað er að gerast, hugsaði ég með sjálfum mér. Engin þörf að stoppa við benzínstöð - farið áfram upp í Stekkina og yfir í Elliðaárdal. Þar fékk ég mér fyrsta gelskammtinn, kláraði eitt bréf. Drakk vel með. Hélt svo áfram upp að Árbæjarlaug. Hefðbundinn stanz með heimsókn á klósett, bætt á brúsa. Bætti á mig öðru gel-bréfi. Og haldið áfram.

Ég leið áfram niður Elliðaárdalinn og nýtti tímann til þess að huga að ýmsum framfaramálum er lúta að menntun í Lýðveldinu. Ekkert er jafn hreinsandi og hlaup. Hinn innri maður fer í gegnum algjöra hreinsun og stólpípu er ekki þörf. Hugurinn hreinsast og heiðríkja er yfir hugsuninni. Þetta er einn af meginkostum hlaupa, styrking andans. Jæja, hvað um það, heilsan var bara góð alla leið niðurúr og undir Breiðholtsbrautina. Fór sem leið lá um Miklubraut, stoppaði á Olís-stöðinni við Álfheima og bætti á brúsa. Áfram um Laugardal, Teiga og niður á Sæbraut. Þar hvarflaði að mér að ég væri líkari hrossi en manni, þvílíkt var tempóið. Faxið flaksaði í vindinum. Ég fór að humma línurnar úr lagi Hallbjörns um Léttfeta og þá frændur alla.

Kom til Laugar þegar klukkuna vantaði u.þ.b. 10 mín. í átta. Hitti fyrir þá kumpána Eirík og Benedikt og þeir voru orðlausir af aðdáun á þessum ofurhlaupara. Gekk innar og hitti fyrir þær frænkur Öfund og Afbrýðisemi, AKA Flosa og blómasalann. Þeir veittust að mér með andstyggilegheitum og sögðu að hlaup mín hefðu ekkert með hugsun að gera, ég væri bara að reyna að ná af mér ístrunni! Eftir þetta mætti ég Helmut, sem á alltaf til huggunarrík og uppbyggileg orð handa félögum sínum. Var einn í potti og hugsaði mitt ráð. Er ég gekk frá Laugu leið mér eins og ég væri að koma af léttu skokki á Ægisíðu. Meiðsli, my ass!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti komið seina og einmitt í bakhlutann! Í Guðs friði, Rúnar

Rúnar Reynisson (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 08:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband