Fjölmenni að hlaupi tveimur dögum eftir maraþon

Vilhjálmur Bjarnason er jafnan mættur tímanlega í útiklefa á hlaupadegi. Þar var einnig fyrir Þorvaldur er ritari mætti um 17:15 í dag. Uppáhaldsumræðuefni okkar Vilhjálms og endalaus uppspretta spakmæla og hnyttni er frændi ritara og vinur, sjálfur Ó. Þorsteinsson Víkingur. Það hvarflaði að ritara hvort VB myndi þora að láta allt flakka að ÓÞ viðstöddum sem fær að flakka að honum fjarstöddum. Hann fullyrti að svo væri. Allt um það skemmtum við okkur konunglega í hvert skipti sem tækifæri gefst til þess að ræða um fjarstadda félaga, án þess að um eiginlegt baktal sé að ræða.

Slíkur fjöldi hlaupara var mættur í dag að ekki tjóir að nefna þá alla, einfaldara að telja upp fjarverandi félaga: Jörund og Gísla. Þjálfararnir búnir að lofa rólegri viku, mælt með því að fresta löngu hlaupi fram á laugardag. Í dag skyldi farið 15-17 km - ágæt málamiðlun að fara Stokkinn sem er 16 km. Þrátt fyrir að ströng fyrirmæli hefðu gengið út um hægt og rólegt hlaup, var eins og sumir þekktu ekki annað en fast forward og áður en maður vissi af var fólk komið á fljúgandi fart og allt of hratt. Ekki hafði ég áhyggjur af þessu, slóst í för með Magnúsi , dr. Jóhönnu og Sjúl og dólaði inn í Fossvog á tempói sem ég réð við að afloknu hálfu maraþoni s.l. laugardag.

Það var upplýst að Sjúl hefði hlaupið 10 km og bætist því í þann frækilega hóp HLV sem þreytti hlaup í Reykjavíkurmaraþoni. Við vorum furðu sprækir þrátt fyrir að svo stutt var frá hálfu maraþoni. Þreytu gætti ekki, nema hjá ónefndum hlaupurum sem nýttu sunnudaginn í eitthvað annað en að hvíla sig. Það var gaman að koma á kunnuglegar slóðir í Fossvoginum og inn að Elliðaám, yfir árnar og aftur tilbaka undir Breiðholtsbrautina og upp Stokkinn. Enn voru menn bara brattir og slógu ekki af.

Á Bústaðavegi var farið að draga af okkur Magnúsi og við fórum fetið, með stífa vestanátt í fangið. En við létum ekki deigan síga, héldum kúrsi og keyrðum áfram allt til Laugar. Þar stóðu á Stétt úti menn sem fluttu mikinn leikþátt og hermdu eftir ónefndum hlaupafélögum. Þótti slíkt ekki sæma menningarlegum samtökum sem HLV.

Í Potti var minnt á greiðslur Berlínarferðar og Björn hélt ádíens. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband