Það eina vitræna í stöðunni: halda áfram að hlaupa!

Nokkrir af mikilvægustu hlaupurum Hlaupasamtaka Lýðveldisins gerðu sér harðla vel ljóst í dag að í stöðunni var ekkert annað að gera en fara út að hlaupa. Af þeirri ástæðu mætti úrval hlaupara og voru óbugaðir, þessir mættir: dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Magnús Júlíus, próf. dr. Ágúst, Helmut, Þorvaldur, Einar blómasali, Birgir jógi, Þorbjörg, Margrét þjálfari, ritari og þýzkur maður sem ég hef ekki nafnið á. Afhentur septemberlöber með viðeigandi næringarefnum og kartöfluFLÖGUM. Einar fékk sérstök verðlaun frá Flosa: fullan poka af smarties.

Við stóðum stapplandi á stétt og börðum okkur til hita. Ágúst tók sér góðan tíma til að búast til hlaups, var mun lengur að en blómasalinn. Er upp var komið tók hann ekki strikið út á stétt. Nei, hann fór beint inn á klósett. Þá var okkur öllum lokið og hlupum af stað. Upp á Víðimel, út á Suðurgötu og suður í Skerjafjörð. Hratt tempó, fjaðurmögnun hreyfinganna sláandi. Veður var nokkru skárra en við ætluðum í fyrstu, en miklar bollaleggingar voru framan af og strategískar ákvarðanir undirbúnar. En þegar upp var staðið var bara tekinn nokkuð hefðbundinn mánudagur. Út að Skítastöð og svo tilbaka.

Mættum fámennum Neshópi með Denna og Rúnu innanborðs - en þau voru bara brött. Haldið áfram á hröðu skeiði út Ægisíðuna. Flestir létu staðar numið eftir Aumingja, 5,5 km - en við Þorvaldur höfðum ekki fengið nóg og héldum áfram í næsta sveitarfélag. Fórum samt ekki langt, enda óþarfi, aðeins út að Hagkaup og svo um húsagarða tilbaka til Laugar.

Ekki veit ég hvað varð af próf. Fróða - hans varð ekki vart eftir að hann brá sér á dolluna. Aðrir hlauparar voru í potti og tóku af alvöru þátt í umræðum um ýmsan vanda sem að steðjar. Báru menn sig karlmannlega og töldu ýmis ráð í stöðunni: fara að veiða fisk, kaupa rófur í sveitinni, selja Fréttablaðið, og flytja til Svalbarða. Af þessu sézt hversu uppbyggileg hlaup eru og uppspretta endalausra hugmynda til þess að brjótast gegnum brimgarðinn. Í gvuðs friði. Ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband