Alone again - naturally

Nei, nei, það fór eins og mann gat grunað. Meira um það seinna. Meðal merkra mættra: dr. Friðrik, dr. Karl kokkur, dr. Magnús Júlíus, prof. dr. Ágústus, próf. Flúss, Þorvaldur, Björn kokkur og þannig mætti lengi telja. Þjálfari önugur sem fyrr og drógust kveðjuorð upp úr honum aðeins með eftirgangsmunum, er hann þar farinn að minna á ónefnda feðga sem hlotið hafa viðurnefnið "enir heilsulausu" sökum þess að þeir heilsa aldrei þegar þeir koma innan um fólk. Það vakti eftirtekt viðstaddra að hvorki voru mættir ónefndur blómasali úr 107 og ónefndur jógakennari úr sama hverfi og spunnust út af þeirri fjarveru langar tölur um leti, áunna eða eðlislæga, hvernig hún stæði í vegi fyrir að menn nýttu möguleika sína og gætu oxið (eins og Bóbó sagði einhvern tíma). En það er svona. Leti var ekki inni í myndinni hjá Hlaupasamtökunum - hér var stefnan sett á átakahlaup, þrátt fyrir að færð byði ekki upp á neinar rósir.

Hefðbundið út að Skítastöð - ólíklegir karaktérar fremstir, alla vega hvað þennan hlaupara áhrærir. Við Skítastöð voru gefnar leiðbeiningar, eitthvað sem hét 1, 2, 3 eða eitthvað í þá veruna. Ég veitti því ekki eftirtekt, hljóp bara áfram og elti þar góða drengi eins og Magnús Júlíus, Þorvald og fleiri. Ekki varð ég var við spretti af hálfu annarra hlaupara, nema hvað ég sá Flosa æða fram úr okkur á einhverju sem mætti kalla sprett. Á eftir fylgdu aðrir hlauparar en ég gat ekki gert upp við mig hvort þeir væru að spretta úr spori eða bara að derra sig. Þetta staðfestist á því að ekki varð vart við ónefnda starfsmenn úr bankageiranum fyrr en komið var í Nauthólsvík, þá fyrst siluðust þeir fram úr þessum hlaupara, sem var ekki einu sinni á spretti, lötraði bara áfram innan um tiltölulega metnaðarlitla meðalhlaupara.

Það voru mér vonbrigði að sjá góða drengi koðna niður í Nauthólsvík og fara Hlíðarfót, taldi mig hafa samið um að fara a.m.k. Suðurhlíðar, og ef allt um þryti, Öskjuhlíð. Hér stóðu mál þannig að þeir sem voru í sprettunum voru komnir fram úr mér. Um sama leyti hurfu góðir hlauparar mér og fóru minna farinn veg hjá Gvuðsmönnum. Ég var skilinn einn eftir. mikið var þetta kunnugleg tilfinning! Einhvers staðar mitt á milli metnaðarlítilla og metnaðarmeiri hlaupara. Hvað um það, ég ákvað að gefast ekki upp, Hlíðarfótur var of stutt vegalengd fyrir mig. En ég hafði efasemdir um Suðurhlíðar. Mér leiðast brekkur. En þegar upp var staðið var þetta ekki spurning um hvort ég kæmist þessa leið, þetta var spurning um hvort sálarstyrkurinn væri nægur til þess að bera mig áfram. Það kom mér á óvart hversu auðveldlega ég leysti þessa þraut þótt einn færi: skeiðaði vakurlega niður hjá kirkjugarði, út að Kringlumýrarbraut og svo upp brekkuna löngu og erfiðu. Sló hvergi af og lenti í hagléli við Perlu. Niður í myrkri og svo hefðbundið tilbaka.

Eftirtekt vakti að hvarvetna sem ég fór stöðvuðu menn ökutæki sín og hleyptu mér yfir götur, m.a.s. strætisvagnar staðnæmdust. Mér varð á að hugsa að þeir mistækju mig fyrir Flosa bróður, sem hleypur eins og sá sem Valdið hefur í Vestbyen, veifandi hvítklæddri hendi og nýtur óskoraðrar aðdáunar hvar sem hann fer. Já, maður dylst vel inni í í balaklövunni...

Teygjur í Móttökusal. Hitti fljótlega hina hlauparana, sem höfðu farið út að Sléttuvegi á þessum undarlegu sprettum og svo beinustu leið tilbaka, einkennilegt hlaup. Ekkert spurðist til Ágústs, sem kvaðst ætla 20 km í dag. Aðspurður um svo langa vegalengd á mánudegi sagði hann: Ég hljóp ekkert í gær! Pottur vel mannaður. Mikið rætt um gamlar uppeldishefðir, gamla kennara, sem lögðu í einelti og gáfu nemendum viðurnefni. Einkum íþróttakennara. Aðferðir þeirra þættu ekki góð latína í dag. Einhver hafði á orði: við skulum vona að kennarastéttin hafi eitthvað skánað síðan... Það góða við pott er að allt sem þar er sagt er sagt í aaaaaalgjörum trúnaði og fer ekki lengra. Þess vegna eru menn hreinskilnir í potti.

Næst hlaupið á miðvikudag. Er ástæða til þess að senda út leitarleiðangra eftir blómasölum og jógum? Það verður gert ef þeir fara ekki að sýna sig. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband