Færsluflokkur: Pistill Ritara
20.2.2009 | 21:18
Gamlir taktar rifjaðir upp - sjósund að vori
Var ég búinn að tala um veðrið? Hreint með ólíkindum! Ekki var beðið eftir neinum, heldur steðjað af stað og strikið tekið mót Sólrúnarbraut. Í ljósi þess að engir verulegir hraðafantar voru með í för var lagt hægt upp og hersingin minnti helzt á Dýrin í Hálsaskógi: samstaðan og eindrægnin var algjör. Gísli horfði á hafið og sagði: Nú væri gaman að fara í sjóinn. Einhver sagði: förum á miðvikudaginn!
Hvað um það, menn misjafnir og fóru mishratt yfir. Ferðin um Sólrúnarbraut var alveg hreint yndisleg, braut greið en nokkuð af sandi sem leitaði ofan í skó hlaupara, en engin hálka. Hópurinn gliðnaði með tímanum eins og verða vill og minnir á vináttuna. Einhverra hluta vegna kom það í hlutverk ritara að fara hægt og rólega yfir og horfa á eftir félögum sínum hverfa.
Hann sá Kalla og Gísla á undan sér og sá sér til innilegrar gleði að þeir stöldruðu við í Nauthólsvík. Kalli hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara í sjóinn. Þegar Gísli fær slík kostaboð verður ekki aftur snúið, en greyið Kalli meinti þetta eiginlega ekki. Þetta þýddi, að þegar ég náði þeim, þá var dagsskipunin þessi: Sjór! Við niður á gamalkunnar slóðir, rifum okkur úr fötum og skelltum okkur í svalandi ölduna. Dvöldum að vísu ekki lengi og vorum snöggir í fötin. Fórum svo sem leið lá um Hlíðarfót og þá leið tilbaka.
Á Plani vildi svo til að flestir hlauparar hittust af nýju, hlaupnir mislangt. Kvartað yfir því að pistlar ritara væru orðnir fullmannúðlegir og færu mildum höndum um hlaupara - heimtað að hlauparar væru teknir nýjum tökum. Maður gerir sitt bezta.
Framundan er lokun VBL - mæting á Nesi við laug á mánudag, fara í útiklefa til þess að forðast augnskoðun nema menn séu reiðubúnir að þykjast blindir og fá ókeypis inn. Þeir sem vilja taka þátt í grindarbotnsæfingum mæta 17:30 - öðrum er óhætt að vera komnir út um 17;45. Framundan mikil gleði, mikið gaman. Í gvuðs friði.
18.2.2009 | 21:41
Snjóstormur í Vesturbænum - Grindbytningar vænta vina
Framangreind orðræða var snemma hlaups, þegar hersing úrvalshlaupara steðjaði fram hjá hamborgarabúllu og voru upplitsdjarfir. Hátt í tuttugu hlauparar mættir, allir helztu hlauparar samtakanna að undanteknum dr. Flúss sem á óútskýrða fjarveru í næstliðnum tveimur hlaupum.
Þjálfari risinn upp af sjúkrabeði, hafandi með merkilegum hætti lifað af 45 stiga hita (sem NB á ekki strangt til tekið að vera hægt!) um síðustu helgi. Erum vér þakklát fyrir það.
Ég spurði prófessor Fróða hvernig gengi með að finna sponsora fyrir eyðimerkurhlaupið. Hann sagði réttara að við svöruðum þeirri spurningu, vegna þess að það væri í okkar verkahring að finna sponsora. Þetta voru fréttir fyrir mig, og nú er bara málið að finna 1) aflögufær fyrirtæki, sem 2) eru reiðubúin til þess að styrkja hlaupara sem 3) er að fara að hlaupa í sandi og á örugglega eftir að týnast. Ritari auglýsir hér með eftir öflugu markaðsfólki til þess að vinna þessu verkefni stuðning. Sjálfur er ég bjartsýnn og fullur trúar á viðfangsefnið.
Kári mættur að nýju eftir langa fjarveru. Hann kvaðst helzt vilja vera heima, liggja uppi í sófa, hvíla sig og nærast. Ég sagði honum að þetta væri fullkomlega eðlileg afstaða. Til væru læknismenntaðir menn sem fullyrtu að hlaup væru manninum ekki eðlileg, nema þeir væru eltir af villidýrum. Engu að síður ynni allt saman: hlaup hefðu góð áhrif á líkamsstarfsemina almennt, menn sitja skemur að matarveizlum, menn grennast og léttast, matarlyst minnkar, þol eykst, hlaup lengjast, ánægja og hamingja fer vaxandi og horfur allar batna stórum.
Áður en við náðum í Skerjafjörð brast á með snjóstormi svo að illa leit út með framhaldið. Við hörkuðum af okkur eins og skagfirzk hross og héldum áfram. Það fór svo sem eins og vitað var, að þekktir aðilar létu sig hverfa á óskiljanlegum hraða og voru horfnir þegar við flugvöll. Við hinir rólegri héldum ró okkar. Helztu hlauparar héldu áfram eftir Nauthólsvík og fóru ýmist Þriggjabrúahlaup eða Stokk - en ég, Magnús og Sirrý fórum Hlíðarfót, Kári lét sér nægja að fara inn í Nauthólsvík og sömu leið tilbaka. Blómasalinn fór Þrjárbrýr og var brattur eftir hlaup, var að vísu þungur, en þetta var víst allt að koma.
Nú steðja þær hörmungar að Hlaupasamtökunum frá og með næsta mánudegi að Sundlaug Vor slær aftur dyrum sínum fyrir oss og er þá úr vöndu að ráða. Sumum kynni að koma í hug að fara í Laugardalinn og hlaupa þaðan. Annar möguleiki er að blanda geði við vini vora á Nesi, þá Grindbytninga, og veit ég að vel verður tekið á móti okkur. Sérstök ástæða er talin til að vekja athygli ónefndra félaga á lokuninni nú, svo að þeir mæti ekki á mánudaginn, stöðvi bíla sína fyrir framan Laug, sjá þar miða á hurð, hlaupa út úr bílum sínum til þess að lesa miðann, með fyrirsjáanlegum afleiðingum. En við höfum ráðrúm til þess að ráða ráðum okkar. Í gvuðs friði. Ritari.
Pistill Ritara | Breytt 19.2.2009 kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2009 | 20:30
Ég játa, þessir voru...
Nú er frá því að segja að ritari ók í kvöld sem leið lá um Sæbraut, ekki það hann væri haldinn sjálfskvalaþörf eða sjálfsásökunum, en það fór ekki framhjá honum að hlauparar voru á ferð: Flosi og Helmut, framar voru Margrét þjálfari og Una, svo einhverjir óviðkomandi aðilar, Bjarni Benzz, Birgir, próf. Fróði, gott ef Melabúðar-Friðrik var ekki þar í nánd og hér var hópur staddur við Hafró. Maður var ekkert að trufla hlaup með því að vekja athygli á sér, flauta eða annað slíkt, eins og þekkt góðmenni í Vesturbæ, eigandi kampavínslitrar koníaksstofu á hjólum (R 158), gerir jafnan þegar hann rekst á hlaupara sína.
Það setti skammartilfinningu að ritara, hann ók sem greiðast heim til sín, fór inn í skáp og dró eitthvað gamalt yfir sig. Ekki kæmi mér á óvart þótt hlauparar hafi farið 69 í kvöld.
6.2.2009 | 23:15
Einar blómasali býður heim til sín
Eftir hlaup dagsins var haldið til veizlu að Reynimel. Fátt fékkst upplýst af hlaupinu annað en að farið hefði verið heldur hratt yfir, undir 5 mín. tempói, sem er heldur vægt fyrir okkar hóp. Nema hvað, það var Fyrsti Föstudagur og blómasalinn bauð til veizlu. Það fyrsta sem mætti manni var sjálfur álitsgjafi lýðveldisins og samvizka þjóðarinnar, frjálslega klæddur, í gallabuxum, og hefir ritari aldrei séð VB klæddan slíkum klæðnaði fyrr.
Á borðum var sushi með soyasósu og engiferþykkni, fiskisúpa með karrístyrkingu, brauð, smyrjur ýmislegar og loks var borið fram belgískt súkkulaði. Cadbury´s stykkið var vandlega skorðað í bókahillu, milli Laxness og Snorra. Og svo var gnægð drykkja.
Mættir til veizlu voru próf. Ágúst og frú Ólöf, dr. Karl, dr. S. Ingvarsson, dr. Jóhanna, Helmut, Jörundur, Björn kokkur, Denni, Melabúðar-Friðrik og Rúna, Flosi og Ragna, Kári og Anna Birna og sonur, ritari, Biggi, Hjálmar, Ósk, Bjarni Benzz og....
Vilhjálmur flutti snjalla tölu til heiðurs fyrrv. afmælisbarni dr. Jóhönnu og afhenti henni afganginn af afmælisgjöfinni, gevurztraminer-vín frá Hitlersvinum í Chile, og fjórar flöskur af rauðvíni úr ýmsum áttum.
Þessu næst kleif Bjarni fram og lýsti yfir því að janúarlöberinn væri hljóðlátur og hógvær og léti lítið yfir sér, og væri auk þess hómópati: hér horfðu hlauparar hver á annan og hugsuðu sitt (próf. Fróði og ritari horfðu hvor á annan og hugsuðu: hómó- hvað? Sexúal? Nei). Enginn fann sig í þessari lýsingu, svo kom sannleikurinn eins og bomba: Una Hlín Valtýsdóttir, hómópati, er hlaupari janúarmánaðar. Bjarni stóð þarna keikur, brattur, sannfærður og vildi afhenda hlauparanum viðurkenninguna, en hún tíðkar ekki að sækja heim samkomur vorar, hún hleypur bara. Þess vegna þarf að finna nýtt tækifæri til þess að afhenda viðurkenninguna.
Talandi um viðurkenningar. Viðurkenning Framfara til handa Hlaupasamtökunum fyrir að vera hlaupahópur ársins 2008 liggur inni á borði hjá Guðrúnu Örnu forstöðukonu VBL og Birgir hefur fengið það sem sérstakt hlutverk að bearbeta forstöðukonuna og fá hana til þess að koma skjalinu fyrir á heppilegum stað í Brottfararsal. Um þetta þarf líklega að semja og er Birgir rétti maðurinn til þess að koma málinu í höfn.
Nema hvað: þarna stóðum við og nutum veitinga þeirra hjóna, og Jörundur afhenti bókina Geðheilsan og meltingarvegurinn, rit ætlað mönnum eins og Einari, sem hugsa mikið um mat, en þurfa líka að hugsa um geðheilsuna.
Það voru vonbrigði kvöldsins að Formaður Vor til Lífstíðar Ó. Þorsteinsson Víkingur, lét sig vanta, þrátt fyrir að heimilisfaðirinn hefði gert sér sérstaka ferð til þess að höndla inn héraðsvín Vesturbæjar, Púllí Fússey, og átti það á tönkum til þess að geta vel tekið á móti björtustu von Vesturbæjarins, sól og stjörnu.
Dr. Jóhanna hélt stutta tölu, minnti á að liðið væri ár frá því að afhendingar löbera hefðu hafist, og mæltist til þess að þessari hefð yrði hætt, en að haldið yrði áfram fast í Fyrsta Föstudag. Hér súkkaði Denni og sagði: Ég sem hélt að ætti að leggja af Fyrsta Föstudag! Próf. Fróði brast í grát, hann hefur lagt hart að sér og ekki enn fengið viðurkenningu og nú er viðurkenningin úr sögunni. Og hann sem er að fara í Sahara-hlaup!
Áfram hélt veizlan og það bættist í mannskapinn. En þegar upp var staðið stóðum við Birgir í því að tala við blómasalann og halda honum kompaní. Og örva hann til dáða á vettvangi viðskiptanna.
Þannig er hlaupahópurinn okkar, okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi.
4.2.2009 | 21:09
Hlaup halda áfram í Vesturbænum
Það sást til þeirra Eiríks og Benedikts og munu þeir hafa farið 17,3 km hið minnsta, enda menn metnaðarfullir. Ekki fengust frekari fregnir af fólki, nema hvað sást til Þorvaldar og Bjarna Benz og voru vígreifir.
Nú er frá því að segja sem máli skiptir að næsta föstudag er Fyrsti Föstudagur og er haldið upp á hann að heimili blómasalans við Reynimel. Blómasalinn vill að menn staðfesti þátttöku, enda verða dýrar veitingar í boði. Einkum skal þó vakin athygli á því að von er á óvæntum gesti. Ekki meira um það.
Látið vita! Í gvuðs friði. Ritari.
PS - minnt er á embætti vararitara - ef menn skyldu vilja koma á framfæri frásögum að hlaupum.
28.1.2009 | 21:01
Hlaupasamtökin eru hlaupahópur ársins 2008
Hvað um það, viðurkenningin var skilin eftir í afgreiðslu og vonandi fæst heimild til að hengja hana upp á góðum stað í Brottfararsal. En aðalerindið var að hlaupa og af þeirri ástæðu flykktust menn út á Plan og biðu þess spenntir að þjálfarar gæfu út leiðarlýsingu. Rúnar fór með tölu um mikilvægi þess að þurrka vel blauta skó að hlaupi loknu, taka innleggið úr og þurrka aðskilið, helzt undir ofni. Að öðrum kosti gæti komið upp mygla og það er ekki skemmtilegt. Að öðru leyti var hlaupaleið og -aðferð frjáls og virtust helztu hlauparar vera pollrólegir. Af þeirri ástæðu var ritari grunsamlega lengi í fremstu röð og bara brattur. Aðrir frískir voru Þorvaldur, Helmut, dr. Jóhanna og Bjarni. Bjössi og Biggi eru meiddir og hafa ekki sézt að hlaupum í nokkra daga.
Færð var sæmileg þrátt fyrir snjókomu og altént var ekki það hált að það var óhætt að spretta úr spori. Á Ægisíðu varð vart við kampavínslita koníaksstofu á hjólum er ók framhjá og flautaði, nánar tiltekið R-158. Að því kom að hefðbundnir hraðfarar sigu fram úr ritara og í Nauthólsvík var hann orðinn algjörlega einn og yfirgefinn. Þá var bara að fara Hlíðarfót. Aðrir fóru lengra, sumir jafnvel Þriggjabrúahlaup, 13,6 km.
Á Plani var fólk fullt skynsemi, skilnings og náðar. Björn mætti í pott með bólginn fótinn og ætlar að reyna að hlaupa bólguna úr sér. Mikil umræða um kjötkaup Íslendinga, slæmt skynbragð þeirra á gæði kjöts og öll trikkin sem kaupmenn beita til þess að blekkja kaupendur. Affarasælast að halda sig við ónefnda kaupmenn í hverfisverzlun Vesturbæjarins - þá er tryggt að menn fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Vonumst til að geta birt fljótlega myndir á bloggi af athöfninni nú síðdegis.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2009 | 17:25
Dagur stórra tíðinda
Pottur ágætlega mannaður Mími, dr. Baldri og dr. Einari Gunnari og var að sjálfsögðu rætt um afsögn viðskiptaráðherra, lausn stjórnar og forstjóra Fjármálaeftirlits frá störfum og stöðuna í stjórnmálunum. Ennfremur um nýafstaðnar veizlur sem eru þó nokkrar, m.a. Burn´s Dinner með haggis sem Baldur sótti í gærkvöld.
Á leið sinni frá Laugu sá ritari Formann til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson Víking, koma skokkandi niður Hofsvallagötu á hefðbundnu gíri sínu og hefur greinilega lagt síðar af stað í dag en alla jafna, sjálfsagt vegna glæsilegrar veizlu sem hann hélt í gær frægum mönnum jafnt sem ófrægum til þess að vígja nýlyft húsnæði sitt að Kvisthaga með glæsilegri aðstöðu fyrir heimasætur.
Athygli er vakin á nýlegri mynd í myndamöppu Samtakanna, undir Almennar myndir - af grímuklæddu fólki að hlaupum að næturþeli, og óvíst hvað því býr í hug. Kíkið á þetta. Í gvuðs friði, ritari.
21.1.2009 | 21:25
Ritari á Brennu
Þrátt fyrir að hlaupið hafi verið í kvöld var ritari ekki mættur til hlaupa. Til þess liggja margar skynsamlegar skýringar. M.a. sú að hann var ekki boðlegur til hlaupa sökum meiðsla, ennfremur vegna þess að hann var í alla undanliðna nótt að mótmæla á Austurvelli, berja löggur, kveikjandi í öllu tiltæku og syngjandi byltingarsöngva. Er nú frá því að segja að ritari gekk sinn vanabundna gang til ónefndrar hverfisverzlunar í Vesturbæ að kaupa fiskinn sinn, veit hann ekki fyrri til en upp á gangstétt rennir kapítalískur burgeis á blárri jeppabifreið trúðajeppa á dekkjkum í yfirstærð og þekur alla gangstéttina með nærveru sinni, sér þar framan í grínandi smettið á ónefndum blómasala sem með yfirgangi og frekju ætlar að loka farveginum að hverfisverzluninni. Ritari lætur sem hann sjái
ekki fyrirbærið, gengur til verzlunar og nær sínu fram með efitrgangsmunum. Áður en til þessa kemur hefur hann þó náð fundum með eftirtöldum:
´
Kára: sprækur, segir gött af dvöl sinni meður frönskum, lýsir vel matseðli, ekta skinku, frönsku brauði, rauðvíni etv. Áttum við gott og langt spjall sem m.a. náði til afreka á menntabrautinni og ýmissa sjúkdóma sem oss hrella þessi missirin,
Ben.: mættur sveittur, mæddur, þreyttur, eftir 6 km sprett og náði vart andanum sökum mæði. Beygður. Játaði að hann hefði átt hlut að máli þegar Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknar, fylgt honum á fundi og undirbúið framkomu. Væri þó enginn Framsóknarmaður. Hafði aldrei trúað því að afskipti sín gætu endað með þessum ósköpum. Sýnir þetta glöggt til hvílíkra örþrifaráða menn geta gripið í atvinnuleysi, og enda gildir enn hið gullna ákall: Öreigar allra landa, sameinist!
Nú er ritari á leiðinni á Austurvöll og vonar að hann eigi afturkvæmt!
19.1.2009 | 21:51
Hlaupasamtökunum hlotnast afreksverðlaun
"Hitti formann félagsins Framfarir áðan í Laugardalshöllinni
þar sem mót eitt mikið fór fram. Hann tjáði mér að Hlaupasamtök
Lýðveldisins hefðu verið kjörinn Hlaupahópur ársins 2008, eða
eitthvað þvílíkt. Kæru félagar til hamingju!
Viðurkenningin verður afhent fljótlega. Beðið um dagsetningu
Hvenær ætli að það sé best að ná fólki saman? Fyrsta föstudag í febrúar?
Um Framfarir
http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=608"
Höfundur mun hafa verið Birgir Jógi. Fyrsta úrlausnarefni dagsins var því að finna heppilegan tíma fyrir afhendingu verðlauna, svo og að ákveða hverjum úr hópi vorum hlotnaðist sá heiður að taka á móti verðlaununum.
Dagurinn var mánudagur, dagur miskunnarleysis, dagur átaka. Fjöldi hlaupara mættur, þ. á m. próf. Fróði á nýjum eyðimerkurskóm, afar litríkum, og vöktu þeir óskipta athygli. Sumir lögðust í gólfið til þess að fá góða mynd af þeim. Ritara fannst þetta vera hálfgerðir trúðaskór, en vildi ekki hafa orð á því á staðnum því hann veit að prófessorinn er svo viðkvæmur gagnvart skófatnaði sínum. Þetta eru sumsé skórnir sem eiga að duga í eyðimörkinni. En prófessorinn var stoltur af nýju skónum sínum og það var fyrir öllu.
Nema hvað, að aflokinni hefðbundinni andakt í Brottfararsal var safnast saman á Plani og þar var gefin út leiðarlýsing og þjálfunaráætlun: upp á Hringbraut, þaðan út á Nes, 10 Bakkavarir, og þannig áfram. Þeir sem ekki taka Bakkavarir máttu velja hvað þeir gerðu, t.d. lengja út á Lindarbraut. Áætlunin virtist leggjast vel í viðstadda og engin umtalsverð mótmæli heyrðust.
Hópurinn skiptist fljótt í tvennt: afreksmenn og venjulega hlaupara. Færi þokkalegt, en þó víða hált. Veður allgott, stillt. Þessi hlaupari fór framan af í félagsskap með Eiríki, blómasala og Melabúðar-Friðriki og áttum við félagsskap út í Ánanaust, eftir það skildi leiðir. Ég fór á Nes og alla leið út á Lindarbraut, aðrir styttu og tóku strikið út í Bakkavör. Þegar ég kom hringinn voru þau hin að puða í brekkunni og ákvað ég að slást í hópinn. Teknar voru á bilinu 6-10 Bakkavarir áður en yfir lauk. Eftir það haldið til Laugar, nema hvað próf. Fróði hvarf út í myrkrið og hefur líklega skilað 16-18 km á endanum.
Teygt vel og lengi í Móttökusal. Troðið í potti eins og við var að búast. Margvísleg málefni tekin til umfjöllunar og verður engu ljóstrað upp hér. Þó var vikið að fyrrgreindum verðlaunum og ákveðið að fela virðulegustu hlaupurum Samtaka Vorra að veita þeim viðtöku: fór ekki milli mála að þeir fóstbræður Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson þóttu bezt til þess fallnir að taka við verðlaununum fyrir hönd Samtakanna. Afhending verður mánudaginn 26. janúar n.k. kl. 17:15 í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Viðburðurinn verður ljósmyndaður og viðurkenningarskjalið fest upp á vegg í Brottfararsal.
Mun vegsemd og virðing Hlaupasamtakanna vaxa mjög af þessari viðurkenningu og ljós þeirra lýsa um langa framtíð.
16.1.2009 | 22:07
Rugl
Ritari var sumsé mættur til Laugar eftir mikil og þungbær veikindi á föstudegi, og hitti Denna, Benna og Helmut. Hann sá tilsýndar Einar blómasala, Flosa, Bjössa og Birgi. Helmut var vel sveittur og ánægður með vel heppnað hlaup, ímynd hins hamingjusama hlaupara sem lokið hefur góðu hlaupi við beztu skilyrði. Ritari var beygður og hugsaði hvenær hann fengi þeirrar hamingju notið að mega sveitast í átökum með vinum sínum. Gvuð einn ræður því.
Sigurður Ingvarsson var mættur og hafði greinilega tekið vel á í hlaupi dagsins. Eðlilega barst talið að próf. Fróða. Próf. Keldensis hafði áhyggjur af því að próf. Fróði væri lasinn, um það var sterkur orðrómur. Þegar ritari gat upplýst að veikindin hefðu aðallega falist í því að prófessorinn hefði eingönu hlaupið 38 km s.l. laugardag róaðist prófessor Keldensis og gerði sér góðar vonir að úr myndi rætast fyrir Stórhlauparanum.
Þetta var föstudagshlaup - von er á meiru úr þessari áttinni.