Ó. Þorsteinsson týndur og tröllum sýndur

Er von menn spyrji þegar tveir helztu sagnaþulir, fróðleiksbrunnar og greinendur samtímasögu láta ekki sjá sig að hlaupum svo vikum skiptir: hvar endar þetta? Hvar er hjálpræði vort? Hver á að segja okkur hvað við eigum að hugsa og halda og álíta? Nú í upphafi nýs árs er þörf á skarpskyggni og áræðinni hugsun til þess að greina útlit og horfur, auk þess að segja sögur af fólki og ættum þess. En nú hafa bæði Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson verið fjarri hlaupum um nokkurra vikna skeið og er það hyggja manna að fjarvera hvors tveggja tengist með einhverjum hætti. Er það mikill skaði fyrir Samtök Vor sem eru fróðleiks- og menningarstofnun umfram annað, þótt eitthvað sé gert af því að hlaupa líka. Mættir til hlaupa í morgun, sunnudag, í yndislegu hlaupaveðri: Þorvaldur, Jörundur, Magnús. Einar blómasali og Ólafur ritari. Bjarni kom seint og hljóp einn. Hiti 5 stig, logn og rigningarúði í lofti, jafnvel þoka. Dimmt þegar lagt var upp.

Nú er jólahaldi senn lokið og meðfylgjandi ofáti og kyrrsetum. Kominn tími til þess að fara að koma skikki á hlutina, beita sjálfan sig aga og taka á því  á hlaupum. Rólegt hlaup á sunnudagsmorgni er góður undirbúningur fyrir átakaviku - um það voru allir sammála á þessum degi. Umræður voru stilltar, snerust um fjarvistir fyrrgreindra manna, en jafnframt um þau gleðitíðindi að Kári og Anna Birna eru snúin tilbaka úr útlegð sinni í Frakklandi. Kári er bíllaus og ætlar blómasalinn að lána honum einhvern gripinn úr bílaflota sínum.

Það þarf að leggja línur um langhlaup ársins, innanlandshlaup sem til greina koma eru Mývatnsmaraþon (blómasalinn útvegar tjaldvagna og kost og sér um matreiðslu), Laugavegurinn og Reykjavíkurmaraþon. Miða þarf undirbúning við framangreint. Jörundur mælir sérstaklega með Laugaveginum, segir það ógleymanlega lífsreynslu. Einhverjir hafa skráð sig í hlaup í útlöndum, en ekki liggur fyrir samræmd áætlun þar.

Skeiðað á léttu skokki hefðbundinn sunnudag og hlaup að mestu tíðindalítið. Stoppað á hefðbundnum stöðum, fyrst í Nauthólsvík, næst í kirkjugarði, en eftir það var hlaupið án viðstöðu alla leið tilbaka, farið um Sæbraut. Bærinn nánast mannlaus, þoka yfir. Orðið bjart á miðri leið.

Pottur velmannaður, allir helztu snillingar Samtakanna, með eða án hlaupaskyldu, að frátöldum fyrrnefndum fyrrverandi hlaupurum, sumsé dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir, Helga Jónsdóttir, og loks sonur dr. Einars, júristi Ólafur Jóhannes af Flandri og Vallóníu. Gríðarlega miklar umræður og fróðlegar um menn og málefni, svo miklar raunar að óðs manns æði væri að rekja þær. Sungnir síðustu jólasálmarnir.

Við Bjarni þáðum sjampó hjá blómasalanum, vatnsþynnt sjampó, sem sýnir nýtni þessa ágæta manns. Hafa ekki allir heyrt talað um vatnsþynnt sjampó? Gott hlaup í góðu veðri - meira á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband