Fækkar að hlaupum

Þjálfara þótti fámennt að hlaupum í kvöld. Sjálfur var hann glaður og reifur og lét svo lítið að heilsa fólki með formlegum hætti, þ.e. handhristingu (handshake). Svo fámennt var í kvöld, ekki nema fjórtán sálir, að rétt þykir að telja þær upp: báðir þjálfarar, Una, Þorvaldur, Magnús, Bjarni, Ágúst, Sigurður Ingvarsson, Sif Jónsdóttir langhlaupari, Eiríkur, Benedikt, ritari, Denni og Hjálmar. Geysilega samhentur og snaggaralegur hópur. Birgir jógi sást í útiklefa, en taldi sig ekki komast til hlaupa vegna þess að einhver sem hann þekkti væri að spila á fiðlu og...

Veður gott til hlaupa, hiti við frostmark, stillt og hætt að snjóa. Þjálfari gaf út leiðarlýsingu, fara hefðbundið, Þriggjabrúahlaup, fara hægt út og bæta svo í. Sumir lýstu yfir áhuga á að fara styttra. Ritari ákvað að fara fulla vegalengd og var ólmur að hefja hlaupið. Var með fyrstu hlaupurum af stétt. Heyrði að baki sér hæðnisglósur frá ónefndum bankamanni sem fáir vita hvernig lítur út, en þekkja skósólann hans og skónúmer.  Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Nú? Ritari bara fremstur!“ líkt og hann vildi leggja áherzlu á að það myndi ekki standa lengi. Í framhaldinu fór hann að velta fyrir sér vali á manni ársins og velti upp þeim fleti hvort maður ársins þyrfti ekki að vera hlaupari.

Svo var bara haldið á Sólrúnarbraut, sem búið var að ryðja, öllum til mikillar furðu og gleði. Einhverra hluta vegna lenti þessi hlaupari með Ágústi og S. Ingvarssyni og allt í einu lentur á rífandi blússi, þrátt fyrir að skynsamlegra hefði verið að fara hægt út og auka síðan hraðann þegar hiti væri kominn í kroppinn. Ég gerði semsagt þveröfugt við það sem þjálfari lagði fyrir okkur og galt fyrir það síðar. Rætt var um síðasta Powerade-hlaup sem var ævintýralegt, brjálað rok, björgunarsveitir á fullu um allan bæ að bjarga verðmætum, og 150 brjálæðingar að hlaupa í Elliðaárdalnum. Sigurður lýsti því þannig að hann hefði verið að hlaupa í þvögu fólks og svo hefðu hlauparar bara fokið útúr myndinni, dottið út af brúm og annað eftir því. Menn sem ættu auðveldlega 45 mín. Í 10 km hefðu verið að skila sér á 60. Fyrir utan kuldann. Melabúðar-Friðrik hefði komið skjálfandi af kulda eftir hlaup og eftir klukkutíma í potti hefði hann enn verið skjálfandi af kulda. Þetta eru hetjur! Að vísu hættu margir í miðju hlaupi – voru það þeir skynsömu? Hver veit?

Hvað um það, ætt á fullu stími inn í Nauthólsvík á vel ruddri hlaupabraut. Ágúst stefndi á 25 km – aðrir á eitthvað styttra. Mig grunar að Magnús og Þorvaldur hafi ætlað Hlíðarfót, eða í mesta lagi Blóðbanka, aðrir voru kappsfullir. Það var fyrst í Nauthólsvík sem ég varð var við hlauparana fyrir aftan mig, Eirík, þjálfara, Hjálmar, Unu – Benedikt löngu horfinn náttúrlega. Ég leyfði þeim að ná mér og jafnvel að fara fram úr, farinn að hægja á mér og fann þyngsli og þreytu hellast yfir mig. Á Flönum gerðist hið fyrirsjáanlega: ég var skilinn eftir. En mig brast hvorki þor né þrek, hélt ótrauður áfram, ákveðinn að ljúka Þriggjabrúadæminu.

Bjóst við að hitta Laugahópinn einhvers staðar á þessum kafla, en þau kjósa greinilega að hírast í lauginni í Laugardal og ylja sér í stað þess að fara út og láta gamminn geisa. Út að Spitala, upp brekku sem var óvenjuerfið, ég hafði hlaupara á undan mér í augsýn, leit tilbaka og sá einhverja að brjótast upp brekkuna á eftir mér, gátu verið Denni og Bjarni. Þegar hér var komið var hlaupi nánast lokið, héðan í frá var þetta bara niður í móti. En hundleiðinlegt að vera alltaf einn. Ég velti fyrir mér hvort fólk væri að forðast mig. Og ef svo væri: hvers vegna? Hvað um það, einfalt að láta sig detta niður á Miklubraut, Kringlumýrarbraut og svo Sæbraut. Hér fann ég verulega fyrir þyngslum og þreytu – og fannst gott að fá enn vatn í vatnsfonti. Við Seðlabanka náði Bjarni mér, en sneri jafnskjótt tilbaka að ná í Denna.

Nú er komin sú árstíð að menn eru rólegir í potti, það var verið í einn og hálfan tíma, á endanum dúkkaði blómasalinn upp og hafði skoðanir á kvótakerfi og viðskiptakerfi, og rúsínan í pylsuendanum var sjálfur Ágúst, búinn að fara 23 km. Það verður að sýna svona höfðingja þann sóma að staldra við og ræða málin.

Á föstudag verður farið hefðbundið – hver þorir?

Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband