Gamlir taktar rifjaðir upp - sjósund að vori

Dagurinn merkilegur að mörgu leyti, veður svo makalaust að ekkert annað en hlaup kom til greina. Ljóslega hugsuðu margir það sama í dag, svo margir raunar að annað eins hefur sjaldan sézt. Vænst þótti mönnum um að sjá "gamla" garpinn Gísla skólameistara sem hefur verið fjarverandi um allnokkurt skeið. En nú skyldi bæta úr því. Aðrir merkir hlauparar þessir: próf. Fróði, próf. dr. Flúss, dr. Karl kokkur, Magnús tannlæknir, Einar blómasali, Björn kokkur, Bjarni, dr. Jóhanna, Melabúðar-Frikki, Kári, dr. Anna Birna. Rúna, Ósk, Hjálmar, ritari, Helmut og Denni af Nesi. Ef ritari hefur gleymt einhverjum biðst hann velvirðingar á því. Það heyrir til sögu að próf. Fróði kom hlaupandi úr Kópavogi og var vel heitur.

Var ég búinn að tala um veðrið? Hreint með ólíkindum! Ekki var beðið eftir neinum, heldur steðjað af stað og strikið tekið mót Sólrúnarbraut. Í ljósi þess að engir verulegir hraðafantar voru með í för var lagt hægt upp og hersingin minnti helzt á Dýrin í Hálsaskógi: samstaðan og eindrægnin var algjör. Gísli horfði á hafið og sagði: Nú væri gaman að fara í sjóinn. Einhver sagði: förum á miðvikudaginn!

Hvað um það, menn misjafnir og fóru mishratt yfir. Ferðin um Sólrúnarbraut var alveg hreint yndisleg, braut greið en nokkuð af sandi sem leitaði ofan í skó hlaupara, en engin hálka. Hópurinn gliðnaði með tímanum eins og verða vill og minnir á vináttuna. Einhverra hluta vegna kom það í hlutverk ritara að fara hægt og rólega yfir og horfa á eftir félögum sínum hverfa.

Hann sá Kalla og Gísla á undan sér og sá sér til innilegrar gleði að þeir stöldruðu við í Nauthólsvík. Kalli hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara í sjóinn. Þegar Gísli fær slík kostaboð verður ekki aftur snúið, en greyið Kalli meinti þetta eiginlega ekki. Þetta þýddi, að þegar ég náði þeim, þá var dagsskipunin þessi: Sjór! Við niður á gamalkunnar slóðir, rifum okkur úr fötum og skelltum okkur í svalandi ölduna. Dvöldum að vísu ekki lengi og vorum snöggir í fötin. Fórum svo sem leið lá um Hlíðarfót og þá leið tilbaka.

Á Plani vildi svo til að flestir hlauparar hittust af nýju, hlaupnir mislangt. Kvartað yfir því að pistlar ritara væru orðnir fullmannúðlegir og færu mildum höndum um hlaupara - heimtað að hlauparar væru teknir nýjum tökum. Maður gerir sitt bezta.

Framundan er lokun VBL - mæting á Nesi við laug á mánudag, fara í útiklefa til þess að forðast augnskoðun nema menn séu reiðubúnir að þykjast blindir og fá ókeypis inn. Þeir sem vilja taka þátt í grindarbotnsæfingum mæta 17:30 - öðrum er óhætt að vera komnir út um 17;45. Framundan mikil gleði, mikið gaman. Í gvuðs friði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Sjóbað á miðvikudaginn líka????

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 21.2.2009 kl. 13:34

2 identicon

Ég skil spurninguna ekki... Líka? Ertu tjikken?

Ólafur Grétar Kristjánsson (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband