Færsluflokkur: Pistill Ritara

Þessi hópur er ótrúlegur - hvernig er þetta hægt?

Á miðvikudegi eftir maraþon er ritari enn svolítið stirður og hefur afsökun til þess að fara stutt og hægt. Aðrir eru í prógrammi, einhverjir vilja fara 20, aðrir Þriggjabrúahlaup. Þjálfarar töldu sig telja nálægt þrjátíu hlaupara á Brottfararplani, ekki þori ég að ábyrgjast talnafærni þeirra, og sel þetta ekki dýrara en ég keypti. Meðal merkra hlaupara voru Jörundur, Ágúst, Magnús, dr. Friðrik, Flosi - og svo þetta venjulega lið, en þó enginn blómasali. Dr. Jóhanna komin með drengjakoll og minnti á hann Tuma sinn. Þarna var Kaupmaðurinn á Horninu, sem útleggst The Horny Grocer á útlenzkri tungu. Og fleiri og fleiri. M.a. nokkrar hortugar meyjar. Meira um það seinna.

Menn óskuðu okkur Jörundi til hamingju með maraþonið á laugardaginn, en bættu gjarnan við í vinsamlegum tóni: Þetta gengur bara betur næst hjá ykkur. Ágúst sagði að ég hefði átt að fara á undir fjórum tímum, hefði átt að fylgja gamla prógramminu hans.

Þjálfarar gáfu út mismunandi leiðbeiningar til hlaupara eftir því hvar í prógrammi þeir væru. Sumir fara í maraþon eftir mánuð, aðrir um miðjan október og svo þau fjögur sem fara í New York í byrjun nóvember. Feginn að vera búinn með þetta að sinni!

Þorvaldur fann golfkúlu á Ægisíðu og ég sagði söguna Marine Biologist úr Seinfeld. Hópurinn skiptist fljótlega upp í þrjár ef ekki fjórar deildir eftir hraða. Ég lenti með þeim Sirrý og Þorbjörgu, Rúnari og Rakel, í Hlíðarfæti. Rifjaðar upp myndir úr maraþonhlaupinu og svipurinn á ýmsum af hlaupurum okkar, Bigga, Eiríki o. fl. Ég spurði þær hvort þeim hefði ekki þótt menn svipljótir. "Svipljótir?", sagði Þorbjörg, "menn voru ekki svipljótir. Bara ljótir!" Svo mörg voru þau orð.

Jörundur hélt áfram í Þriggjabrúahlaup, enda er hann farinn að undirbúa Amsterdam-maraþon í október. Þetta er eitthvað annað en próf. Fróði, sem eyddi laugardeginum uppi í sófa og horfði á maraþon meðan félagar hans hlupu maraþon.

Hittum Benna við Laug. Hann var búinn að hlaupa tvívegis í dag. Hljóp því ekki með okkur. Var með ungum syni sínum að lauga sig. Aðspurður hvort kona hans hlypi aldrei á þessum tíma, sagði hann að kona sín væri ávallt bakvið eldavélina að baksa við kvöldmatinn um kvöldmatarleytið.

Í potti var fjölmennt. Sif Jónsdóttir langhlaupari var mætt. Sameiginlega tókumst við á hendur að greina ástand próf. Fróða, harla vel hafandi í huga grein þá er B. Símonarson, hlaupari án hlaupaskyldu, sendi okkur um daginn og fjallaði um hlaupafíkn. Hún fjallaði um menn sem liggja uppi í sófa, fullir sjálfsvorkunnar og þunglyndis, þeir eiga við vanda að stríða. Þeir hafa ofgert sér í hlaupum, eru yfirhlaupnir, og einna helzt líkir þeim sem hafa drukkið of mikið og eru komnir á botninn. Eins og menn muna er Marathon des Sables slíkra manna Hafnarstræti hlauparanna. Neðar verður vart komizt. Menn hafa sér engin markmið lengur, hættir að hlaupa, sjá ekki tilgang með því að dröslast á fætur. Áður en langt um líður eru þeir komnir með skósíða vömb og sígarettu í munnvikið. Nei, þegar svo er komið er ástæða til þess að fara að leita sér hjálpar.

Þessi greining virtist smellpassa og andmælum var ekki við komið. Bjössi sagði okkur sögu af ketti. Kári kvaðst eiga stefnumót við lambalæri. Biggi að leita að tenór í kirkjukór Neskirkju. Framundan er Brúarhlaup, daginn eftir Fyrsta Föstudag að Jörundar. Hvílíkir tímar sem við lifum á!


Reykjavíkurmaraþon 2009

Fríður flokkur hlaupara úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins skokkaði frá Laug niður í kvos upp úr kl. 8 að morgni 22. ágúst 2009. Fyrir dyrum var Reykjavíkurmaraþon, þar sem þeir Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari stefndu á heilt maraþon. Allnokkur fjöldi ætlaði í hálft.

Í Lækjargötu hittum við Vilhjálm Bjarnason sem á yfir 20 hlaup í hálfu og ætlaði ekki að breyta til nú. Steingrimur J. ræsti og óskaði hlaupurum velfarnaðar.

Veður að mörgu leyti heppilegt til hlaupa, 12 stiga hiti, skýjað, einhver vindur á suðaustan og rigning hékk í loftinu.

Farið rólega af stað, 5:30-5:40 og því tempói haldið framan af.

Í Fossvoginum var farið að draga af mínum, verkjaði í mjaðmir. Of langt milli drykkjarstöðva, fyrst við Víkingsheimili og næsta í Skerjafirði við Skítastöð. Satt að segja hvarflaði að mér að gefast upp og hætta við Hofsvallagötu, en það kom upp í mér einhver blómasali, hugleiddi sexþúsundkallinn sem fór í hlaupið og ákvað að ég skyldi fá eitthvað fyrir minn snúð. Hitti svo Bigga, sem var búinn með sitt hálfa maraþon og var mættur til þess að hvetja og styrkja. Hann bar í mig vatn, íbúfen, orku, saltpillur og loks þegar krampar fóru að gera vart við sig í Ánanaustum fékk ég nudd á staðnum. Þetta bjargaði því að ég gat lokið hlaupi með reistan makka og kom stoltur í mark á 4:27.

Sveit Hlaupasamtakanna stóð sig vel í hlaupinu, þeir Sigurður og Snorri héldu merki Samtakanna á lofti - og blómasalinn var þriðji maður inn á 4:07. Jörundur einnig flottur á 4:22. Frekari greining á árangri hlaupara bíður betri tíma.

Frábær dagur sem lauk með veizlu að ritara, hefðbundið chili con carne, og var vel mætt, en ritari var sofnaður í sófanum þegar síðustu gestir bjuggu sig undir að fara.

Rifjaðir upp gamlir taktar

Geysilegur fjöldi hlaupara mættur á Brottfararplan, þar af tveir sem stefna á heilt maraþon á laugardaginn: ritari og Jörundur. Þó nokkrir ætla í hálft. Nú skyldi farin létt upphitun, í mesta lagi Hlíðarfótur. Það hentaði ágætlega. Þarna mátti þekkja gamalkunna hlaupara eins og Gísla Ragnarsson, próf. dr. Ágúst Kvaran, Friðrik Guðbrands o.fl. Bæði Gísli og Ágúst hafa verið í fjölmiðlum að breiða út guðspjall Samtaka Vorra. Þar á meðal kom Gísli inn á upphafið, þegar Ingólfur fór að spretta úr spori úr Kvosinni og inn að Rauðará. Þetta varð tilefni snjallra kafla á Sólrúnarbraut um hlaupara fyrri tíma, svo sem Gunnar nokkurn Hámundarson úr Rangárþingi, sem var snjall piltur og hraustur, en óheppinn með kvenfólkið sitt.

Nú rifjaði ritari það upp að hann á enn nokkrar skinnpjötlur eftir frá þessum tímum í kössum niðri í geymslu, þar sem fyrstu pistlarnir eru geymdir. Hafði hann orð á að ástæða væri til þess að grafa upp þessar gömlu þrettándualdar frásagnir af hlaupum, þegar menn höfðu raunverulega ástæðu til þess að spretta úr spori (Sturlungaöld). Þessar frásagnir hafa legið í þagnargildi enda voru möguleikar á útbreiðslu mun takmarkaðri en nú um stundir.

Við Jörundur vorum rólegir í hlaupi dagsins og Gísli með okkur, náðum Kára við Skítastöð. Stefnt á sjósund. Í þetta skiptið var stokkið beint út af klettum og á bólakaf í svalt hafið. Við syntum síðan sem leið lá inn í víkina. Héldum svo áfram hlaupandi og stefndum á Hlíðarfót. Mættum hinum hlaupurunum sem höfðu víst tekið spretti, einhverjir vildu fara í sjóinn af rampi. En við þessir rólegu fórum afar hægt tilbaka hjá Gvuðsmönnum.

Magnaður pottur og þéttsetinn.  Mikið rætt um fyrri hlaup og afrek okkar beztu hlaupara. Mæting fyrir maraþon kl. 8 við VBL.

Hvar er þessi Fimmvörðuháls?

Nokkrir félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins gengu á Fimmvörðuháls laugardaginn 15. ágúst. Þetta voru þau Helmut, Jóhanna, Jörundur, Kári, Ólafur ritari, og auk þess Kjartan sonur Kára. Þá gengu Vilborg, Lilja og Anna, kona og dætur blómasalans, frá Baldvinsskála í Þórsmörk. Er komið var í Skóga hittum við fyrir Guðrúnu Geirsdóttur, of Nes Club fame, sem var þar í fylgd með Sjóvár-fólki, en kaus að fylgja okkur sökum kunnugleika. Guðrún er skemmtilegur ferðafélagi eins og hún á kyn til og var ekki leiðinlegt að hafa samfylgd hennar.

Gangan upp stigann meðfram Skógafossi var erfiðasti hluti gönguleiðarinnar. Veður fagurt til að byrja með, en svo byrjaði að rigna þegar klukkutími var liðinn. Fossarnir í Skógá voru augnayndi, hver öðrum glæsilegri. Nesti snætt í fallegri laut með útsýni til fossa. Ritari var með frekar hallærislega tösku á baki, sem var vel troðin og þung, og tók upp á því að opnast þegar ganga var ung: ritari fann að byrðin léttist til muna, en sá svo allt innvolsið, nærbuxur og nesti, á víð og dreif um völlu. Vakti þetta almennan hlátur, einkum Sjóvár-fólks, sem greinilega er illa innrætt og gleðst yfir óförum annarra. Ritara var nokk sama, tíndi dótið saman og tróð því niður, en Jóhanna var svo elskuleg að taka eina flíspeysu sem svarar nafninu Þorgerður (jólagjöf frá fyrrv. menntamálaráðherra til starfsmanns).

Kári var á sléttum gönguskóm og var óþarflega fallvaltur á göngunni, stóð oss ekki á sama. Þrammað ákveðið upp að Baldvinsskála. Þar hittum við fyrir blómasalann, ásamt frú Vilborgu og dætrunum Lilju og Önnu. Höfðu þau komið akandi á fjallajeppa blómasalans. Þarna var gerður stanz, en svo sneri blómasalinn við niður af fjallinu, ók sem leið lá í Þórsmörk. Við héldum áfram göngunni. Við tóku auðnir og snjóskaflar. Jörundur taldi upp fossa og fjöll. Á Morinsheiði hellirigndi. Það var Heljarkambur og það voru Kattahryggir. Ritari spurði Jörund: "Hvar er svo þessi Fimmvörðuháls?" Jörundur svaraði: "Fimmvörðuháls? Við erum löngu komnir framhjá honum."

Er komið var að Þórsmörk blasti við ægifegurð, ógnvekjandi og stórkostleg í senn. Þetta þyrftu allir Íslendingar að sjá og upplifa. Fjöll, dalir, gilskorningar, skógivaxnar hlíðar. Orð fá ekki líst þessu landslagi. Hér rigndi sleitulaust og tæplega í boði að taka nesti. Haldið áfram. Einhvers staðar er við vorum að nálgast Þórsmörk mættum við blómasalanum sem kom gangandi á móti okkur.

Þrammað í Bása. Við vorum köld og blaut, en slógum upp tjöldum og hófum að grilla kvöldmatinn. Síðan var etið við frumstæðar aðstæður og drukkinn bjór með. Fólk var þreytt svo ekki var um að ræða að vaka lengi fram eftir, menn fóru til kojs snemma og duttu sem rotaðir niður og sváfu væran til morguns.

Við Jörundur, Jóhanna og Helmut fengum okkur þriggja tíma göngutúr um Þórsmörk að morgni sunnudags eftir að hafa snætt morgunverð að hætti hússins. Þvælst um skógivaxnar hlíðar til þess komast á leið sem átti að vera til - en urðum frá að hverfa vegna breytinga sem áin hefur valdið á umhverfinu. Tókum svo rútuna úr Þórsmörkinni um tvöleytið. Velheppnaðri ferð lokið - vonandi verður framhald á ævintýrum af þessu tagi fljótlega.

Trappað niður fyrir maraþon

Sigurður Ingvarsson, Einar Þór Jónsson og Ólafur Grétar Kristjánsson mynda vaska hlaupasveit Hlaupasamtaka Lýðveldisins í Reykjavíkurmaraþoni hinn 22. ágúst nk. Þó nokkrir félagar ætla að hlaupa hálft maraþon. Nú er byrjað að trappa niður fyrir átökin og þjálfari nánast grátbiður menn um að fara stutt og hægt. Góð mæting á miðvikudagsæfingu. Hjörtu hlaupara tóku kippi þegar gamalkunnug andlit birtust neðan úr kjallara og tilheyrðu próf. Fróða og Gísla Ragnarssyni, einnig voru Jörundur, Helmut og Sigurður Ingvarsson mættir. Þá er ekki úr vegi að nefna nafn Kára, sem reyndist býsna sprækur þrátt fyrir að hafa legið í kajak lungann úr sumri.

Það mátti fara Þriggjabrúahlaup, maraþonhlauparar skyldu fara hægt. Ég bað Gísla að skrúfa aðeins upp hitann, en honum fannst þetta fínn hiti að hlaupa við. Það er gaman að hlaupa með þeim Gísla og Gústa á ný, það má bulla og blaðra í það endalausa og segja tóma vitleysu og ekkert veitir þessum hálærðu mönnum meiri ánægju en hlusta á malanda sem hefur lítinn annan tilgang en gefa útslitnum embættismönnum tækifæri til þess að rasa út.

Þannig var það líka að ritari endaði með blómasala, Gísla, Jörundi, Sirrý og Þorbjörgu og héldum við hópinn frá Nauthólsvík og til loka hlaups. Farið upp hjá Borgarspítala (blómasali búinn hér og gekk upp brekkuna) og hér var sagður Wassily-brandarinn til þess að auðvelda þeim stúlkum hlaupið upp brekkuna. Þær kunnu innilega að meta þessa skemmtilegu sögu og voru léttar og kátar á eftir. Hér fór fólk að rifja upp ýmislegt sem drifið hefur á daga þess í hlaupum, svo sem eins og þegar Þorbjörg mætti karli sínum með reiddan hnefa og keyrði hann út af hlaupabrautinni og út í lúpínubeð (þetta gladdi Jörund innilega). Eða einelti það sem viðgengist hefur og hefur sýnt sig í viðurnefnum, blómasali, hortuga, og áfram í þeim dúr. Rifjað upp að eineltissérfræðingur Lýðveldisins taldi "hortuga"-viðurnefnið annað hvort flámæli eða misheyrn, í reynd væri þetta "den hurtige".

Farið afar hægt yfir, meðaltempó 5:50. Góð tilfinning að fara þetta á hægu tölti. Jörundur að velta fyrir sér að fara heilt maraþon í Reykjavík til þess að leiða blómasalann áfram. Við niður á Sæbraut og fengum okkur að drekka á réttum stað. Svo var farið um Kalkofnshornið og út Lækjargötu og um Hljómskálagarð tilbaka. Hér var mikið rætt um Vilhjálm Bjarnason og máttu menn vart á heilum sér taka af söknuði. Gísli taldi sig hafa vissu fyrir því að Vilhjálmur myndi snúa tilbaka til hlaupa í haust. Voru menn sammála um að Vilhjálmur væri einstakt góðmenni og góður félagi.

Núna er bara fyrir okkur maraþonmennina að hvíla að mestu, ætlum eitthvað að gutla fram að stóra deginum.

Menn haldi augum og eyrum opnum fyrir tilkynningu frá Jörundi um hvort gengið verður á Fimmvörðuháls n.k. laugardag.



Hlaupið frjálslega í Öskjuhlíðinni

Fullyrt var að 25 hlauparar hefðu mætt til hlaups í dag.  Þegar svo er leggur ritari það ekki á nokkurn mann að lesa upptalningu á nöfnum, þó skulu nefndir Helmut, Jörundur, Flosi, S. Ingvarsson og þjálfarar. Fjöldi kvenna, og enn rifjaði Jörundur upp þá tíma þegar aðeins einn kvenmaður hljóp með Hlaupasamtökunum. Nú verður ekki þverfótað fyrir konum á Brottfararplani.

Þjálfarar lögðu til að teknir yrðu sprettir í Öskjuhlíðinni. Veður gott, hægur vindur, sól og hlýtt í veðri. Raunar of heitt fyrir hlaup því að ritari svitnaði eins og grís í gufubaði þegar á Sólrúnarbraut. S. Ingvarsson kom til móts við okkur á Hofsvallagötu, greinilega búinn að fara allnokkra vegalengd er hann mætti okkur. Nokkur umræða spannst um prófessor Fróða, en alllangt er um liðið síðan hann lét svo lítið að hlaupa með okkur. Var það hald manna að nú þegar hann hefði ekki að neinu að stefna væri ekkert sem ræki hann til hlaupa. "En félagsskapurinn?" spurði einhver. Enginn varð til þess að svara. Rifjað upp að nokkrir hlauparar hefðu komið við í Lækjarhjalla á laugardaginn eð var, en enginn opnað í Dalnum.

Farið rólega út í Nauthólsvík þar sem sjósyndarar voru að gera sig klára fyrir Kópavogssund, virtust ekki færri en 200. Við áfram og upp í Öskjuhlíð. Helmut ætlaði ekki í sprettina svo að hann hélt áfram í átt að kirkjugarði. Það voru teknir sex 200 m sprettir og tóku menn vel á því. Vekur alltaf furðu þegar bílar aka um Öskjuhlíðina án þess að eiga þangað augljóst erindi. En þegar Helmut birtist allt í einu á hlaupum út úr skóginum með Melabúðar-Frikka í eftirdragi, ja þá var okkur öllum lokið. Hvað er í gangi? spurðu menn. Þeir fóru yfir veginn og aftur inn í skóginn og sýndu þess engin merki að vilja taka spretti með okkur.

Hópurinn er vel samstilltur og fylgdist að í sprettunum - menn að komast í gott form. Einkum mæðir þó á okkur blómasala, sem stefnum einir í Hlaupasamtökunum á heilt maraþon í RM. Við munum halda merkjum Samtakanna á lofti 22. ágúst nk. Svo var dólað niður í Nauthólsvík og nokkrir hlauparar fóru í sjóinn, sem var yndislegt. Haldið tilbaka og farið á 4:50 tempói síðasta spölinn.

Anna Birna og Kári í potti, komin til byggða eftir volk á kanó um aðskiljanlegustu firði landsins. Pottur afar þéttur og vel mannaður. Næst hlaupið á miðvikudag.

Blautt

Við vorum nokkur sem mættum til hlaups í morgun, nánar tiltekið ritari, blómasali, Helmut, Jóhanna, Friðrik og Rúna. Lögðum af stað upp úr kl. 8. í morgun, stefndum á millilangt. Það var þungt yfir og rigning, en lítill vindur. Stemmning þó góð. Farið út á hægu tempói. Friðrik meiddur, ritari með tognun í lærisvöðva. Ekkert óvænt framan af, Helmut fór  69, Rúna stytti sömuleiðis, við hin á Kársnes. Nú er hiti og sólfar slíkt að ekki þurfti mikinn vökva. Við komum í Lækjarhjalla og höfðum hátt, en þau hjónakorn létu sem þau heyrðu ekki í okkur, ekki var opnað, enginn vökvi. Við áfram.

Stoppað við Olís í Mjódd og bætt á vatni. Í Kópavogsdal rigndi mikið, við vorum gegndrepa. Eftir Lækjarhjalla fórum við upp Dalveg, þar féllu lækir niður götur, bílar óku beint í lækina svo að vatnið gusaðist yfir okkur.

Eftir Mjódd var farið beint niður í Elliðaárdal og svo aftur stytztu leið um Fossvog tilbaka. Á þeim slóðum áttuðum við okkur á því að við vorum líklega að fara heldur lengra en við gerðum ráð fyrir. Eftir Kringlumýrarbraut mættum við Rúnari þjálfara og fullt af fólki með honum, m.a. Möggu sem var ansi þung á sér, þetta var fólkið sem fór af stað 9:30 frá VBL.

Svo var farið beinustu leið í Nauthólsvík og í sjóinn þar, svamlað lengi vel, synt út að pramma. Að vísu fórum við Jóhanna ein í sjó, blómasalinn hélt áfram, Frikki kveinkaði sér undan fætinum.

Í Skerjafirði var gerður langur stanz, þar hittum við Formann til Lífstíðar, sjálfan Ó. Þorsteinsson Víking. Hafði hann frá mörgu að segja og var nauðsynlegt að tefja allnokkra stund, sem við gerðum blómasali, ritari og Frikki. Bundizt heitum um að hlaupa í fyrramálið kl. 10:10 - og verður þá fram haldið umræðu um þau málefni sem þarfleg kunna að teljast.

Þegar upp var staðið kom í ljós að við höfðum farið 23,6 km í stað 20 km eins og að var stefnt. Nú þurfa menn að fara sækja sér nudd og bæta ástand líkama sinna.

Hlauparar mættu í pott

Ritari átti þess ekki kost að hlaupa í dag sökum anna. Hins vegar náði hann potti. Í pott mættu Gísli, Magnús, Flosi, Bjössi og Biggi. Þar urðu til að byrja með miklar umræður um ástand mála í samfélaginu, en smásaman þróuðust þær yfir í anekdótur og skemmtisögur af ýmsu tagi sem menn bognuðu yfir af skemmtun. Ekkert þó hafandi eftir.

Þar eð ritari er í maraþonprógrammi hleypur hann á morgun, millilangt, þó ekki skemur en 17,5 km, e.t.v.  69, frá VBL kl. 17:30. Áhugasömum er boðin þátttaka. Á föstudag er síðan Fyrsti Föstudagur, tilkynnt verður um móttöku í potti að hlaupi loknu þann dag.

Í gvuðs friði, ritari.

Þrjárbrýr

Þau stórtíðendi gerðust á þessum degi að blómasalinn gleymdi að borða hádegisverð. Meira um það seinna. Mættur stór hópur hlaupara til miðvikudagshlaups, þar á meðal Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Kalli kokkur og fjöldi annarra frambærilegra hlaupara. Dagsskipunin hljóðaði upp á Þriggjabrúahlaup með upptempói eftir Skítastöð. Rólegt fram að því. Svo var bara að leggja í hann.

Ritari viðurkennir að hann var þungur á sér í dag, e.t.v. eftir mánudag þar sem tekið var á því í Öskjuhlíðinni. Svipað var ástatt um fleiri í dag, þ. á m. blómasalann. Þegar gengið var á hann og hann spurður hvort hann hefði fengið sér stóran hádegsiverð, kvaðst hann hafa gleymt að borða hádegisverð, það hefði verið svo mikið að gera, tveir kúnnar í heimsókn. Eru þetta slík tíðendi að með ólkendum er. Jörundur var sprækur í dag og fór fram úr okkur á Flönum en hirti ekki um lúpínuna. Já, maður var ansi dapur.

Það skemmtilega við Þriggjabrúahlaup er að maður er mjög fljótlega kominn þar í hlaupinu að skiptir um, eftir að búið er að klífa brekkuna löngu hjá Borgarspítala, er maður nánast hálfnaður í hlaupinu og eftir þetta er öll leiðin niður á við eða á jafnsléttu. Það átti að taka tempó eftir Skítastöð, en ég játa á mig slux hér - hafði ekki kraft í mér til að bæta í.  Þannig að við dóluðum þetta á svipuðu róli, ritari, Jörundur, Rúna, blómasalinn og Unnur.

Rætt um fjallaferðir og hlaup mestalla leiðina, enda nokkrir góðir félagar nýbúnir að ljúka Jökulsárhlaupi: Ágúst Kvaran, Sigurður Ingvarsson, Rúna og Melabúðar-Friðrik. Sæbrautin tekin í sömu rólegheitunum og drukkið vatn á hefðbundnum stað. Nokkuð um túrista á ferð.

Fólk í köfunarbúningum var í potti - einhvers konar námskeið í gangi. Blómasalinn með mjög langa sögu sem virtist engan endi ætla að taka og menn spurðu ítrekað hvort sagan stefndi eitthvert ákveðið. Ég var löngu dottinn út úr sögunni og farinn að hugsa um allt aðra hluti.

Næsta opinbera hlaup í Hlaupasamtökunum er á föstudag kl. 16:30 - en þó gæti eitthvað verið um morgunhlaup og sjósund án þess að það fari hátt.



Sprettir, sjór og jóga

Allnokkur fjöldi vakra hlaupara mættur til hlaups mánudaginn 27. júlí 2009. Eiríkur hafði verið gerður að þjálfara, hann tók embætti sitt alvarlega og hugðist rækja það af trúmennsku. Þessi mætt: Flosi, Benedikt. Bjössi, Biggi, blómasalinn, Ósk, Dagný, dr. Jóhanna, Anna Jóna, Þorbjörg K., ritari, Jón Gauti og Kalli. Fremur kalt í veðri miðað við undanfarna daga, líklega er maður orðinn of góðu . Stefnan var að taka spretti í Öskjuhlíðinni. Af því tilefni var leiðrétt staðarheiti á þessum slóðum. Hi-Lux-brekkan er illa malbikaði stubburinn strax þegar beygt er upp í hlíðina í hefðbundnu föstudagshlaupi, ekki langa brekkan þar upp af. Ekki var farið nánar út í Hi-Lux-þjóðsögnina.

Eiríkur brýndi raustina og kallaði skýr fyrirmæli til hlaupara og það var lagt í hann, farið upp á Víðimel, út á Suðurgötu og þá leið út í Skerjafjörð og Nauthólsvík. Biggi hefur ekki hlaupið um nokkurt skeið og var maður farinn að sakna hávaðans í honum. Hann kvartaði yfir því að ritari hefði ekki rapporterað frá framkvæmdum við hús hans. Birgir stendur í stórræðum, hann fór í Byko að kaupa sandpappír, en sölumaðurinn sannfærði hann um að hann sárvantaði hitablásara sem hreinsar málningu af gluggapóstum, 15 þúsund kall takk! Biggi fer með hitarann heim og fer að láta tækið vinna fyrir sig, en lætur jafnframt hugann reika um hvað hægt væri að gera við svona appírat. Heyrir hann þá brothljóð og sér að hann hefur beint hitanum að rúðunni og brotið hana.

Ekkert slegið af fyrr en í löngu brekkunni í Öskjuhlíð. Teknir 10 sprettir 200 m upp brekkuna, lullað rólega niður aftur. Mikið af bílum á ferð þarna, allir ökumenn stimplaðir perrar og gerður aðsúgur að sumum þeirra. Þeim sagt að þetta væri útivistarsvæði og ekki fyrir bílaumferð (að vísu ekki alveg rétt, en okkur fannst það). Hlauparar tóku vel á því í sprettunum og eru í fínu formi. Síðan var haldið tilbaka og fóru fjórir í sjóinn. Eftir hlaup tók Biggi okkur í jógatíma sem var hreint frábær!

Nú líður að því að þeir fari að toppa sem fara heilt maraþon í RM - laugardagur - 30-35 km. Auglýst eftir þátttakendum. Gaman væri að fara Kársnesið, upp úr Kópavoginum að sunnanverðu, leiðina milli Kópavogs og Breiðholts og yfir að Elliðavatni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband